Réttlæti af náð

Réttlæti af náð

Kíkjum aðeins nánar á í hverju þetta réttlæti Guðs er fólgið. það felur í sér mat á persónunni sjálfri en ekki afkastagetu hennar. Þegar víngarðseigandinn leitaði að starfskröftum mætti hann fólki sem var reiðubúið að leggja sitt af mörkum en hafði ekki fengið tækifæri til þess.
fullname - andlitsmynd Íris Kristjánsdóttir
05. febrúar 2012
Flokkar

Það hefur löngum loðað við okkur Íslendinga að við séum mikið keppnisfólk. Fámennið skiptir engu þegar kemur að vilja okkar til að skara fram úr og ná sérstöðu. Og vissulega eigum við met í mörgu. Reyndar fylgir mörgum þessara meta orðin „miðað við fólksfjölda” en það dregur ekkert úr vilja okkar og krafti.

Síðasta sumar birtist listi í dagblaði yfir nokkur notendatengd heimsmet sem við höfum sett á undanförum árum. Það kemur líklega engum á óvart að Íslendingar eiga heimsmet í notkun á Facebook, Snjáldurskjóðunni, fáir verða líklega hissa að heyra að við veiðum mest af fiski í heiminum. Öllu undarlegri met eru t.d. notkun á ADHD lyfjum, fyrir þau sem glíma við athyglisbrest og ofvirkni, flestar golfholur eða 231 á hverja 100 þúsund íbúa, flest kaup á raftækjum Bang & Olufsen, og síðast en ekki síst heimsmet í Cocoa Puffs áti. Þess má geta að öllum þessum metum fylgja orðin „miðað við fólksfjölda”, að sjálfsögðu. Já, það er ekkert annað. Við erum keppnisfólk. Og við njótum þess að vinna. 

Við eigum líka önnur met sem líklega er ekki eins skemmtilegt að segja frá. Dagblöðin undanfarin ár hafa þrátt fyrir það keppst við að tjá sig um þau. Eitt þeirra var t.d. heimsmet í viðskiptahalla, annað heimsmet í hversu mikið náttúrulegum gæðum er fórnað fyrir neyslu hér á Íslandi, og svo auðvitað það mest um talaða, heimsmet í skuldum á hvern íbúa.

Þau eiga það sameiginlegt, þessi met, að tengjast neyslu og peningum á einn eða annan hátt. Það eru jú peningarnir sem allt gengur út á, eða hvað? Það skýtur auðvitað skökku við að öll neikvæðu heimsmetin tengist peningum þegar við teljum okkur stöðugt trú um að hamingjuna sé einmitt þar að finna, í auðæfum. Líklega er þetta nátengt þeirri tilhneigingu að meta gæði hlutanna í ljósi verðmæta þeirra. Samt vitum við að það fer ekki alltaf saman.

En keppnisskapið hverfur okkur ekki í eltingaleiknum við krónurnar. Öll viljum við búa við öryggi og ein leiðin til þess er að geta séð fyrir grundvallarþörfum sínum og sinna. Þegar kemur því að því að velja ævistarf ræður fjárhagslegur ávinningur för sumra, á meðan önnur láta áhuga og hugsjón stýra ákvörðunum. En auðvitað viljum við öll að störf okkar, tími og framlag séu metin að verðleikum, við viljum fá umbun fyrir það sem við leggjum fram til samfélagsins. Og krafan um réttlæti í þeim efnum verður æ háværari, hvort sem um er að ræða launaréttlæti og jafnræði milli kynjanna eða sambærilegar launagreiðslur fyrir sambærilega menntun. Við viljum hvort tveggja í senn, viðurkenningu fyrir störf okkar og jafnræði í launamati.

Í þessu ljósi er nokkuð fróðlegt að glugga í guðspjalltexta þessa sunnudags, dæmisögu Jesú, þar sem hann líkir himnaríki við víngarðseiganda sem rak fyrirtæki sitt á nokkuð óvenjulegan hátt. Hann réði fólk til vinnu við víngarð sinn á mismunandi tímum dagsins og fékk þeim svo sömu dagslaun fyrir störf þeirra í lok dagsins, óháð vinnutíma.

Þessi aðferð víngarðseigandans hefði væntanlega ekki hugnast nútíma fyrirtækjaeigendum eða framkvæmdarstjórum því greiðslur til starfsfólksins voru í engu samræmi við vinnuframlag þeirra. En það er nokkuð ljóst að með dæmisögunni ætlaði Jesús sér ekki að fræða áheyrendur sína um stjórnun fyrirtækja og rekstur þeirra, öllu heldur að útskýra á tungumáli hinnar vinnandi stéttar mismuninn á réttlæti Guðs og því sem við getum kallað réttlæti okkar mannfólksins.

Kíkjum aðeins nánar á í hverju þetta réttlæti Guðs er fólgið. það felur í sér mat á persónunni sjálfri en ekki afkastagetu hennar. Þegar víngarðseigandinn leitaði að starfskröftum mætti hann fólki sem var reiðubúið að leggja sitt af mörkum en hafði ekki fengið tækifæri til þess. Aðgerðaleysi þeirra var ekki leti heldur skortur á möguleikum til starfa. Þau laun sem eigandinn greiddi þeim sem styðst höfðu unnið í lok dagsins voru því ekki einungis laun fyrir verkið sem fólkið vann heldur einnig fyrir verkið sem það hefði geta unnið ef það hefði fengið tækifæri til þess.

Hugsið ykkur bara ef við nytum svona réttlætis hvert frá öðru, þar sem hugurinn að baki og viljinn fyrir verkið væri meira virði en það sem við raunverulega gætum reitt fram. Það virðist vera innprentað í okkur að meta verðleika fólks eftir framlagi þeirra. Þetta byrjar strax í skóla. Þar er okkur gefin einkunn eftir færni okkar á bókina í stað þess að metnir séu eiginleikar og hæfileikar hvers og eins. Og áfram höldum við á fullorðinsárum við lífgæðakapphlaupið sem lýtur reglum þeirra fyrirferðamiklu á kostnað þeirra sem minna mega sín.

Fólkið sem unnið hafði lengst fyrir víngarðseigandann í dæmisögu Jesú átti varla orð til að lýsa því óréttlæti sem það fannst það beitt í lok vinnudagsins. Það hafði lagt margfalt meira að mörkum við vinnu sína en hinir sem byrjuðu seinna, og samt fengu öll greitt það sama. Hvílíkt óréttlæti! Og þannig lítur það sannarlega út frá sjónarhóli lögmála vinnumarkaðarins. Eða allt þar til við gerum okkur grein fyrir að það er góðmennska eigandans sem býr þarna að baki. Hann sveik ekki einn einasta starfskraft sem hann hafði gert samning við. Öll fengu nákvæmlega það sem um var samið. Gagnrýni og óánægja þeirra sem lengst höfðu unnið sneri því fyrst og fremst að góðmennsku, ekki óréttlæti eigandans, sem er auðvitað þvert á það sem blasti við okkur lesendum við lestur frásögunnar í upphafi hennar.

Er ekki alveg hreint stórkostlegt hvernig Jesú tekst á nokkuð einfaldan hátt að sýna okkur hvaða aðferðir Guð notar til að birta sannan kærleika sinn til okkar mannfólksins? Grundvallaratriðið þar er að við erum öll jöfn fyrir honum og við fáum hin sömu laun í þjónustu hans, hvort sem við höfum fylgt honum alla ævi eða einungis hluta hennar. Kærleikur Guðs er ekki háður lögmálum vinnumarkaðarins, lögmálum okkar. Kærleikur Guðs til okkar er ekki háður verkunum sem við vinnum - nei, hann er okkur gefin af hreinni náð, algerlega án verðskuldunar.

Við, sem erum vön að vinna fyrir og hafa fyrir því sem við fáum, hvort sem það eru peningar eða jafnvel ástúð og hlýja, eigum stundum erfitt með að taka á móti einhverju sem okkur finnst við ekki eiga skilið, okkur finnst við ekki hafa unnið til. Og það er einnig erfitt að horfa upp á aðra taka á móti hinu sama, og finnast þó sem þeir eigi það ekki eins skilið og við.

En réttlæti Guðs og kærleikur snýst ekki um verðskuldun heldur náð. Þess vegna skal „hinn vitri ekki hrósa sér af visku sinni, hinn sterki af afli sínu og hinn ríki af auði sínum. Nei, sá eða sú sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hún sé hyggin og þekki Drottinn. Því Drottinn iðkar miskunnsemi, rétt og réttlæti,” segir í Jeremía. Að þessu ber okkur að keppa og hljóta sigurlaun fyrir; að lífi í fullri gnægð þar sem réttlæti Guðs fær mótað hugsanir okkar og gjörðir. Og hver veit nema okkur takist að setja þar enn eitt heimsmetið.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. Lexía, Jer. 9.22-23

Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni, hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum. Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því að hann sé hygginn og þekki mig. Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.
Pistill, 1.Kor. 9.24-27
Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.
Guðspjall,  Matt. 20.1-16
Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn. Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins. Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn? Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“