– í skjóli frjálslyndrar og umburðarlyndrar þjóðkirkju
Fríkirkjupresturinn séra Hjörtur Magni Jóhannsson hefur farið mikinn í fjölmiðlum rétt fyrir það kirkjuþing sem nú stendur yfir og finnst honum staða safnaðar síns fáránleg í “skugga ríkiskirkjunnar” sem hann kallar svo og finnur allt til foráttu. Harðsnúna sveit ríkiskirkjunnar telur hann vinna markvisst gegn því að Fríkirkjan fái notið kirkjusögulegs arfs sem ríkið er nú í óða önn að greiða út. Ekki hefur það skilað sér til séra Hjartar að á Íslandi er engin ríkiskirkja lengur. Síðust leifar hennar voru afnumdar með þjóðkirkjulögunum 1997.
Málflutningur Hjartar vekur sorg og ugg meðal þeirra sem efla vilja farsælt samstarf kristinna safnaða í landinu og kemur raunar úr hörðustu átt. Ekki er annað að skilja á honum en að söfnuður hans, Fríkirkjan, sem stofnaður var í Reykjavík árið 1899, eigi nú í höggi við enn illskeyttari ríkiskirkju en forverri hans séra Lárus Halldórsson og stofnendur safnaðarins sem komu úr röðum framsækinna iðnaðar- og menntamanna, sem sögðu sig úr þjóðkirkjunni til þess að geta fylgt sannfæringu sinni.
Þetta fólk sætti sig ekki við það dansksinnaða embættismannavald sem ríkti í kirkjumálum þar til Heimastjórnin komst á árið 1904. Fyrir þann tíma höfðu embættismenn skammtað söfnuðunum mjög takmarkað svigrúm og juku gjaldheimtu svo um munaði einmitt rétt fyrir aldamótin 1900. Nánast allir málsmetandi stjórnmálamenn á Íslandi og margir talsmenn kirkjunnar vildu þá aðskilja ríki og kirkju sem þýddi þá að frelsa íslenska þjóðkirkju undan yfirstjórn dönsku stjórnarinnar. Þar á meðal má nefna Þórhall Bjarnarson forstöðumann prestaskólans í Reykjavík.
Heimastjórnin markaði tímamót í þróun kirkjunnar og ekki var hún fyrr komin til starfa en að hafist var handa um að endurskipuleggja starf kirkjunnar í landinu. Landbúnaðarnefnd og kirkjumálanefnd skiluðu af sér merkum lagafrumvörpum sem mörg hver urðu að lögum þegar árið 1907 en önnur í nokkuð breyttri mynd seinna eins og lög um kirkjuráð og kirkjuþing. Ríki og sveitarfélög tóku að sér umsjón með kirkjujörðum sem áfram voru fjárhagsleg trygging fyrir launum presta og uppihaldi kirkjulegrar þjónustu. Kirkjan lagaði sig að lýðræðishugsjóninni og söfnuðirnir fengu rétt til að kjósa sinn prest án íhlutunar stjórnvalda.
Þórhallur Bjarnarson sem hafði verið leiðtogi á þingi bæði í kirkju- og landbúnaðarmálum snéri við blaðinu og einbeitti sér að því að byggja upp starf kirkjunnar á þeim þjóðlega og félagslega grundvelli sem hún hafði í raun starfað í sveitum landsins allan þann tíma sem kenndur er við sjálfstæðisbaráttuna. Þó svo að þjóðkirkja hafi verið til að nafninu til frá 1874 þá verður hún ekki til sem skipuleg félagsleg stofnun fyrr en eftir að Heimastjórnin komst á laggirnar.
Eftir að Þórhallur varð biskup árið 1908 breyttist afstaðan milli þjóðkirkjunnar annars vegar og evangelískra lútherskra fríkirkjusafnaða hins vegar enda vildi fríkirkjufólkið ekki aðra presta en þá sem numið höfðu við Prestaskólann og hlotið vígslu biskups Íslands. Kenning og guðsþjónusta Fríkirkjunnar í Reykjavík byggir nákvæmlega á sömu játningum og ritum og þjóðkirkjan.
Það má því segja að það hafi verið sögulegt slys að lútherska fríkirkjufólkið skyldi áfram vera utan þjóðkirkjunnar eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki og þjókirkjan orðin að veruleika og þær hindranir horfið sem urðu til að Fríkirkjan var upphaflega stofnuð. Eðlilegast hefði verið að Fríkirkjan hefði fundið sér stað innan hinnar breiðu og opnu þjóðkirkju, sem þá var orðin að veruleika, líkt og frjálsir söfnuðir í Danmörku sem velja sér prest sjálfir og stjórna sínum innri málum samkvæmt lögum sem tóku gildi þegar á 19. öldinni. En þar blindaði sjálfsagt Danahatrið – ekkert gott gat komið þaðan, allra síst í kirkjumálum. Þetta var ríkjandi viðhorf og var ekki einskorðað við fríkirkjufólk.
Fríkirkjan í Reykjavík hefur þegið mikið frá íslenska ríkinu og þjóðkirkjunni þá öld sem hún hefur starfað og má þar nefna leiðsögn biskupa hinnar evangelísk lúthersku kirkju, menntun presta, afrakstur mikillar vinnu við helgisiðabækur og sálmabækur og innheimtu sóknargjalda. Þetta er hvorki fáránlegt né ríkiskirkjulegt heldur sjálfsagt samstarf og samfélag trúbræðra og systra.
Fríkirkjuprestur kvartar yfir því að umsóknum safnaðar hans um fjárstuðning til Jöfnunarsjóð og Kristnisjóðs þjóðkirkjunnar hafi verið hafnað. Mér finnst að fríkirkjusöfnuðirnir ættu að geta gert tilkall til styrkja úr sambærilegum sjóðum. Sá galli er á að þeir sjóðir sem hér um ræðir eru merktir þjóðkirkjusöfnuðum og því ólöglegt að veita öðrum söfnuðum fé úr þeim.
Annað hvort þarf að breyta lögum um þessa sjóði eða stofna aðra sjóði sem fríkirkjurnar gætu sótt í til sérstakra verkefna. Jöfnunarsjóðurinn hefur það hlutverk að jafna starfsaðstöðu þjóðkirkjusafnaðanna sem getur verið mjög misjöfn vítt og breytt um landið, en Fríkirkjan í Reykjavík er að mestu leyti staðbundinn söfnuður. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hann þurfi að sinna tímabundum fjárfrekum verkefnum. Í slíkri stöðu hefur Fríkirkjan getað leitað til Reykjavíkurborgar og er það vel.
En þetta er ekki nægilegt. Mér finnst að ríkisvaldið ætti að koma sér upp trúmálasjóði sem “utanþjóðkirkjusöfnuðir”, bæði kristnir söfnuðir og önnur samfélög sem sinna trúar- og siðgæðismótun, geta sótt í til sérstakra verkefna. Það væri mjög í anda lýðræðishugsjónar evangelískrar lútherskrar kirkju sem Fríkirkjan í Reykjavík og þjóðkirkjusöfnuðir eru hluti af og vel við hæfi til að minnast 100 ára afmælis Heimstjórnarinnar.