Kirkjan og kreppan

Kirkjan og kreppan

Sælir eru sorgmæddir, segir meðal annars í guðspjalli dagsins. Hljómar þessi staðhæfing ekki mótsagnakennd? Það fólk sem upplifað hefur djúpa sorg myndi síst af öllu kenna það ástand við sælu. Þvert á móti, þá stendur sæla í beinni mótsögn við sorg.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur A. Jónsson
02. nóvember 2008
Flokkar

Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða. Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki. Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður. Matt 5.1-12

Í dag er allra heilagra messa. Þá komum við saman til að minnast látinna, heiðra minningu framliðinna vina og ættingja. Við berum hina látnu fram í bæn til Guðs um leið og við þökkum það ljós sem framliðnir ástvinir hafa verið á lífsleið okkar.

Í lútherskum sið er allra heilagra messa engan veginn bundin við svokallaða dýrlinga eða heilaga menn heldur helguð framliðnu fólki fyrr og síðar. Fólk kemur gjarnan í kirkju þennan dag til að minnast látinna ættingja og ástvina. Jafnframt minnumst við Íslendingar genginna kynslóða, horfum yfir liðna sögu og til þeirra sem mörkuðu spor á þeirri vegferð.

Þessi helgidagur hefur á liðnum árum fengið aukið vægi í kirkjunni okkar og er það vel. Margir nota hann til að vitja um leiði ættingja sinna í kirkjugörðum landsins og hugsa um leið til þeirra með þakkarhug og söknuði, blessa minningu þeirra og arfleifð.

Allra heilagra messa er þó ekki frekar en aðrir dagar kirkjuársins aðeins bundin hinu liðna. Þvert á móti fléttast hér saman þátíð, nútíð og framtíð. Við hlýðum á um 2000 ára gamlan boðskap Nýja testamentisins sem reynsla kynslóðanna hefur varpað ljósi á, hann meðtökum við og miðlum áfram í samtíð okkar um leið og hann vísar okkur veginn fram á við. Framtíðarboðskapurinn um eilífa lífið kemur jafnframt til okkar þar sem er við erum stödd núna. Þessi samtvinnun tíðanna er í raun eðli allrar kristinnar boðunar.

Þannig er vert að taka eftir því að guðspjallatexti allra heilagra messu fjallar ekki um dauðann eða eilífa lífið heldur lífið hér og nú en pistill og lexía dagsins veita okkur hins vegar innsýn í hina himnesku veröld og þannig kallast á hið eilífa líf sem kristin trú boðar svo og líf okkar hér og nú, í Reykjavík sem og annars staðar þar sem kristin trú er boðuð.

Fjallræðan

Guðspjall allra heilagra messu er sótt í eina af frægustu ræðum allra tíma, sjálfa fjallræðu Jesú Krists. Við lestur textans sjáum við hvar Jesús talar til mikils mannfjölda og gengur upp á fjall eða kannski hæð öllu heldur til að ná sem best til alls fólksins og hann talar til þess og kennir, eins og segir í frásögninni. Og þessi mannfjöldi er sannarlega ekki hópur einhverra útvalinna ofurmenna eða sérstakra fyrirmyndar einstaklinga heldur er hér um að ræða ósköp venjulegt fólk sem ekki hefur átt neinni sérstakri velgengni að fagna. Þvert á móti er beinlínis um það getið að lífið sé því mótdrægt á ýmsa lund. Hér eru syrgjendur, fólk sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti, aðrir sem hafa mátt búa við ofsóknir, verið smánaðir og mátt sæta því að upp á þá sé logið. Og það merkilega er að þessir einstaklingar eru sagðir „sælir“.

Skrýtin sæluboð

Sælir eru sorgmæddir, segir meðal annars í guðspjalli dagsins. Hljómar þessi staðhæfing ekki mótsagnakennd? Það fólk sem upplifað hefur djúpa sorg myndi síst af öllu kenna það ástand við sælu. Þvert á móti, þá stendur sæla í beinni mótsögn við sorg. Hvaða sæla er fólgin í því syrgja, að vera ofsóttur og smánaður, eins og hér er beinlínis lýst yfir. Er þetta kannski bara dæmi um að hinn kristni boðskapur sé fullkomlega óraunsær?

Ef ekki, hvað er þá verið að segja hér? Varla er frelsarinn sjálfur, smiðurinn og meistarinn frá Nasaret, að gera grín að sorgmæddu fólki eða þeim sem ofsóttir hafa verið, sem einnig eru sagðir sælir.

Nei, vitaskuld er það ekki svo. Því er þvert á móti heitið að Guð sé með okkur í hinum erfiðustu aðstæðum lífsins, á sorgarstundum, þegar við erum hædd og höfð að háði, líka þegar við finnum okkur ofsótt. Hér er m.ö.o. um að ræða huggunarríkan boðskap, eins og víða í Biblíunni, fagnaðarerindi, enda segir í niðurlagi textans: „Gleðjist og fagnið!“ Fólkið er sagt sælt – þrátt fyrir misjafnlegt veraldlegt gengi – vegna þess að Jesús er með því, bæði í meðbyr en ekki síður og kannski enn frekar í mótbyr. Þegar betur er að gáð er m.ö.o. verið að lýsa því yfir að Guð sé með okkur í margvíslegum þrengingum okkar og erfiðleikum. Í því felst það ástand sem er lýst á þennan hátt með orðin „sæll“ sem við Íslendingar notum raunar daglega og oft á dag er við heilsum samferðarfólki: „Sæl og blessuð,“ segjum við og notum þar með orðlag sem á rætur sínar í Biblíunni, eins og svo margt í menningu okkar. Við erum ekki ein í sorginni, og jafnvel þegar við erum smánuð og ofsótt stendur Guð okkur einnig nærri og þangað er styrk að sækja. Sá er meginboðskapur sæluboða fjallræðunnar.

Áhrif frá Auschwitz

Á degi þessum þar sem látinna er minnst langar mig að minnast fólks sem ekkert okkar þekkti persónulega, fólks sem lét lífið við óvenjulega grimmilegar aðstæður. Fyrir rúmri viku var ég í hópi Íslendinga staddur í Póllandi á stað sem ber nafn sem skapar óhug í hugum allra sem það heyra – Auschwitz, það eru hinar illræmdu útrýmingarbúðir nasista. Búðunum hefur verið haldið við allar götur síðan rússneskir hermenn komu þangað í janúar 1945 og frelsuðu þá sem enn voru þar á lífi, margir hverjir nær dauða en lífi og flestir eins og lifandi beinagrindur að sjá.

Það er merkileg og óhugnanleg reynsla að koma á þennan stað, í þessar víðáttumiklu búðir, að sjá þar öll verksummerkin eftir hina þaulhugsuðu og skipulögðu en jafnframt ótrúlega grimmilegu aðferð nasista við að ryðja úr vegi ýmsum þeim er ekki voru þeim þóknanlegir, einkum Gyðingum en ýmsum minnihlutahópum öðrum einnig, svo sem samkynhneigðu fólki og sígaunum.

Hvílík misnotkun á vísindum og tækni, kemur manni í hug frammi fyrir þeim óhugnaði, því sannarlega hafði illskan og mannvonskan þarna tekið vísindin í þjónustu sína til að afköstin og skilvirknin við manndráp hinna saklausu yrði sem allra mest. Í þessum búðum einum er talið að a.m.k. ein og hálf milljón manna hafi verið tekin af lífi, það er fimm sinnum meiri fjöldi en allir núlifandi Íslendingar.

Við skyldum minnast þess að nasisminn, sú mannfjandsamlega stefna, spratt upp úr jarðvegi niðurlægingar, haturs og hefndarhugs.

Ábyrgð þeirra er mikil sem ala á hatri á erfiðleikatímum í lífi þjóða. Slíkt er ekki í samræmi við kristinn boðskap og prestar mega ekki falla í þá grifju að taka undir reiðilestur haturs og hefnda sem margir vilja nú kyrja og gagnrýna jafnvel kirkjuna fyrir að taka ekki nægilega undir. Á þeim degi sem kirkjan tekur undir boðskap haturs og hefnda er hún ekki kristin kirkja lengur. En réttlætis skulum við sannarlega leita, eins og segir í sæluboðunum: „Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu.“ En sé réttlætis leitað í offorsi haturs og hefndarhugs eru miklar líkur á að niðurstaðan verði skelfilegt ranglæti, eins og sagan geymir svo mörg dæmi um.

Í heimsókn minni á þennan óhuganlega stað, Auschwitz, fyrir rúmri viku gekk ég framhjá stórri hrúgu af barnaskóm í einum af hestaskálunum sem fólkið var látið hafast við í áður en það var líflátið. Sú sýn situr einna fastast í minni mér eftir heimsóknina. Þetta voru skór barna sem mörg hver voru greinilega ekki enn komin á skólaaldur og þetta er það eina sem eftir er af stuttri ævi þeirri, skórnir, snjáðir og bera þess merki af hafa verið þarna í meira en sextíu ár. Það var eins og litlu skórnir fengju rödd og hrópuðu til þeirra fjölmörgu ferðamanna sem gengu niðurlútir framhjá þessum vitnisburði lítilla barna sem voru leidd voru saklaus og grunlaus til grimmilegrar slátrunar í formi hægfara köfnunar í gasklefum. Mér fannast skór barnanna hrópa: „Gleymið aldrei því sem hér gerðist, sjáið til að slíkt gerist aldrei aftur!“

Afskiptaleysi er andstæða kærleikans

Nöfn þessara litlu barna eru flestum gleymd og grafin. Mér varð þó hugsað til þess að ég þekkti eitt nafnið, nafn lítillar sjö ára stúlku sem lét lífið í gasklefa í Auschwitz sama kvöld og hún kom þangað síðla árs 1944. Auðvitað er ómögulegt er að segja til um hvort skór hennar séu meðal þeirra sem eru varðveittir þarna í hrúgunni en nafn hennar lifir í einni þekktustu minningabók sem skrifuð hefur verið um helförina, bókinni Nóttin eftir Nóbelsverðlaunahafann Elie Wiesel sem lifði af dvöldina í Auschwitz. Hann horfði á eftir móður sinni og Zipporu litlu systur sinni, aðeins fjögurra ára, þar sem þær leiddust hönd í hönd í langri röð kvenna og stúlkna. Það síðasta sem hann sá til þeirra var að móður hans strauk hár systur hans, eins og í verndarskyni. Á þeirri stundu vissi hann ekki að hann myndi ekki sjá þær framar, að þær voru á leið í gasklefana.

Elie Wiesel tileinkaði þessa frægustu bók sína minningu Zipporu litlu systur sinnar og foreldra sinna sem einnig létu lífið. Það er eftirtektarvert að Wiesel sagði að það versta í öllum óhugnaðinum hafi verið aðskilnaðurinn, að vera skilinn frá þeim sem stóðu manni nærri og vildu manni vel. Hvaða boðskap dregur svo þessi mikili lærdómsmaður og mannvinur af reynslu sinni andspænis dauða og grimmd útrýmingarbúðanna? Jú, það er ekki hatrið sem er andstæða kærleikans, það er afskiptaleysið. – Að vera afskiptalaus um örlög náunga síns, að láta sið hlutskipti hans engu skipta, -það er m.ö.o. verra en að hata hann. Það eru mikil sannindi fólgin í þessum boðskap Nóbelsverðlaunahafans Elie Wiesel og við skyldum minnast þeirra vel.

Þjóð í kreppu

Íslensk þjóð gengur nú í gegnum mikila erfiðleika eftir að hafa á liðnum árum átt mikilli velgengni að fagna á hinu ytra borði. Við fáum daglegar fréttir af því að fólk sé að missa vinnu sína og skipta þeir Íslendingar þegar þúsundum sem fengið hafa uppsagnarbréf á liðnum dögum og vikum.

Það er sannarlega vá fyrir dyrum og ekki nokkur ástæða til að gera lítið úr þeim erfiðleikum. Þeir virðast þvert á móti meiri en íslensk þjóð hefur séð um áratugaskeið. En íslensk þjóð hefur sannarlega séð það svart áður og mikið dekkra en nú um stundir og því rangt að segja að fara þurfi aftur til móðuharðindanna til að finna hliðstæðu í íslenskri sögu, eins og haldið var fram í einum fjölmiðlanna í morgun. Svo bölsýn söguskoðun hjálpar engum og við erum ekkert bættari með að mála ástandið dekkri litum en tilefnið býður – nógu slæmt er það samt. En hér eins og oft áður getur verið gagnlegt að læra af reynslu genginna kynslóða.

Frostaveturinn mikli 1918

Frostaveturinn mikli 1918, fyrir réttum 90 árum, var Íslendingum einstaklega erfiður. Spænska veikin herjaði á sama tíma og lagði þúsundir Íslendinga að velli. Um þetta leyti árs 1918 féll hefbundið messuhald niður nokkrar vikur vegna veikinnar, en þeim mun meira var um jarðafarir og stundum þurfti að jarða marga Reykvíkinga í sömu gröfinni, slíkur var mannfellirinn.

Undanfarna daga hef ég verið að glugga í sjálfsævisögu Sigurbjörns Þorkelssonar kaupmanns í Vísi þar sem meðal annars er að finna áhrifarík og nákvæma frásögn af því skelfingar ástandi sem ríkti hér á landi á haustmánuðum 1918, rétt áður og um það leyti sem Íslendingar öðrluðust fullveldi sitt 1. desember það ár. Sigurbjörn skráði ævisögu sína í fimm bindum undir heitinu „Himneskt er að lifa.“ Þrátt fyrir titil bókarinnar fór þessi kunni kaupmaður sannarlega ekki varhluta af hinum erfiða ástandi. Missti hann eiginkonu sína í spænsku veikinni frá hópi ungra barna. Hann var yfirkominn af sorg og alveg við það að bugast, en frásögn hans greinir líka vel frá því hvað honum og hans fólki varð til bjargar í þeim hörmungum sem á dundu. Hin kristna trú og hjálp ýmissa vina og nágranna sem voru óþreytandi við að veita alla mögulega hjálp og aðstoð með heimsóknum og hvatningu. Þar var sannarlega ekki um afskiptaleysi að ræða. Meðal þeirra sem veittu fjölskyldunni dyggilega aðstoð var æskuleiðsleiðtoginn kunni, sr. Friðrik Friðriksson.

„Himneskt líf“

Heiti bókar Sigurbjörns í Vísi „Himneskt er að lifa“ segir meira en mörg orð og eru sannarlega í anda hins kristna boðskapar, fjallræðunnar og sæluboða hennar, einkum þegar haft er í huga að titilinn er valinn af manni sem gekk í gegnum dimman dal í lífi sínu en Guð var með honum, sproti hans og stafur veittu huggun og styrk. Við skulum íhuga fordæmi þessa kristna manns, hafa í huga að lífið að kristnum skilningi er „himneskt“. Sú staðhæfing felur það ekki í sér að við göngum í gegnum lífið án erfiðleika. Það gerum við ekki og það upplifa mörg okkar, flest eða jafnvel öll nú um stundir.

Við skulum engu að síður leitast við að lifa „himnesku lífi“ í þeirri merkingu að hafa með í för þann sem kenndur er við himininn, Guð – Drottin vorn og frelsara Jesú Krist. Þiggjum leiðsögn hans og hjálp, treystum návist hans og nærveru í erfiðleikunum, leitum samfélags hans í bæninni en ekki síður í samfélagi bræðra okkar og systra. Minnast orða hans: „Allt sem þér gerið einum þessum minnsta bræðra hafið þér gert mér.“ Þá hygg ég að það muni reynast okkur svo að við getum tekið undir orð Sigurbjörns kaupmanns sem á tímabili var búinn að missa lífslöngunina andspænis erfiðleikunum og skildi síðan eftir sig hinna sterka vitnisburð sem lýsir sér best í bókartitilinum. „Himneskt er að lifa.“

Huggun sæluboðanna

Sæluboð fjallræðunnar eru í raun huggunarboðskapur og hughreystingar. Okkur er heitið því að þó á móti blási í lífi okkar og við verðum fyrir skakkaföllum, sorg og söknuði þá sé Guð með okkur. Íslensk þjóð hefur borið gæfu til þess í gegnum margvíslega erfiðleika aldanna að játa kristna trú, sækja þangað huggun og styrk og svo er enn. – Minnumst á þessum degi genginna ástvina sem mörg hver ólu okkur upp í kristinni trú og kristnu gildimati. Það er oftar en ekki arfleifð þeirra til okkar.

En minnumst þess líka að okkur er ætlað að vera samverkamenn Guðs, hendur hans og handlangarar. Við skulum því styðja hvert annað og styrkja í erfiðleikum þeim sem framundan eru, „bera hvers annars byrðar“. Þá munum við komast í gegnum erfiðleikana með Guðs hjálp, gleðjast og fagna, eins og segir í niðurlagi sæluboðanna, og upplifa að það er þrátt fyrir erfiðleika lífsins er „himneskt að lifa.“

Amen