Hvernig hugsa íslenskir unglingar, sem hafa flutt í burtu, um gamla landið sitt? Hvernig fer úrvinnslan sem fylgir grundvallarbreytingum í umhverfi og tengslum fram hjá börnum og unglingum? Hvaða mynd bera börn og unglingar sem hafa flutt til annarra landa, með sér af lífinu á Íslandi og hvernig gengur þeim að aðlagast lífinu í nýju landi?
Um helgina hitti ég ungt fólk, 14-17 ára, sem er að taka við leiðtoga- og aðstoðarleiðtogahlutverki í æskulýðsstarfi íslenska safnaðarins í Noregi. Við ræddum um Ísland og Noreg og minningarnar sem þessir krakkar áttu um lífið á Íslandi og breytingarnar sem þau höfðu gengið í gegnum. Alls konar tilfinningar komu upp á yfirborðið í samtalinu og það var ljóst að heilmikil úrvinnsla var í gangi hjá krökkunum í kjölfarið á þeirri reynslu að skipta um umhverfi, skilja við ákveðna hluti, neikvæða og jákvæða og þurfa takast á við nýtt líf í nýju landi.
Hvað með börnin?
Fullorðna fólkið hefur sínar leiðir til að fást við þessar breytingar og er líka í þeirri stöðu að hafa sjálft tekið ákvörðunina um að flytja - ólíkt unglingunum sem fylgja bara með. Og sem betur fer hafa börnin oft ekki þurft að vera inni í öllu því erfiða sem hefur leitt til ákvörðunarinnar um að flytja - þau hafa kannski ekkert verið inni í því hvað það er streitandi að eiga ekki fyrir afborgunum eða vera sagt upp í vinnunni. Þetta hefur fullorðna fólkið þurft að bera og hefur tekið það allt inn í reikninginn þegar kemur að því að taka ákvörðunina um að flytja til annars lands.
Börnin er kannski með þá mynd í kollinum að allt hafi verið í stakasta lagi og dásamlegt og skilja ekkert í því hvers vegna þurfti að flytja og breyta öllu. En þau eru líka mjög oft meðvituð um - á einhverju plani - að eitthvað hafi farið úrskeiðis og ástandið hafi ekki verið gott. Hvoru tveggja taka þau með sér í nýja landið og þurfa að vinna úr. Og þá takast á tilfinningar á borð við söknuð eftir fallega Íslandi, áhyggjur yfir ástandinu þar sem leggur þungar byrðar á fólk, reiði yfir því sem það hefur heyrt foreldra sína tala um, eins og reynslu af því að hafa verið sagt upp, eða misst húsnæði, og ákveðin rómantík um gamla landið sem þrátt fyrir allt er yndislegast og best. Þessar flóknu tilfinningar haldast í hendur og fylgja barninu.
Kirkjan tengir gamalt og nýtt
Þjóðkirkjan starfar með Íslendingum í Noregi og gegnir mikilvægu hlutverki í að skapa og viðhalda tengingu, á milli fólks, og á milli hins gamla og nýja. Íslenski söfnuðurinn í Noregi er dýrmætur vettvangur þar sem Íslendingar í Noregi fá að vera Íslendingar, þrátt fyrir breyttar aðstæður og nýtt land. Það gerist ekki síst í gegnum tilboð um samfélag og samveru á tímamótum lífsins og á hátíðum jóla, áramóta, þjóðhátíðardegi og ámóta. Starf íslensku kirkjunnar í Noregi gegnir mikilvægu hlutverki í velferð Íslendinga í landinu, með því að veita merkingu og hlúa að minningum sem styrkja sjálfsmynd og styðja í breytingum.