Heimanfylgja – Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar

Heimanfylgja – Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar

Steinunn Jóhannesdóttir hefur um árabil sökkt sér í rannsóknir á heimildum varðandi ævi Hallgríms Péturssonar og konu hans Guðríðar Símonardóttur.
fullname - andlitsmynd Einar Sigurbjörnsson
13. desember 2010

Steinunn Jóhannesdóttir hefur um árabil sökkt sér í rannsóknir á heimildum varðandi ævi Hallgríms Péturssonar og konu hans Guðríðar Símonardóttur. Árið 1995 var leikrit Steinunnar, Heimur Guðríðar – Síðasta ferð Guðríðar Símonardóttur í kirkju Hallgríms, sýnt víða um land og erlendis líka. Eftir samningu leikritsins sökkti hún sér niður í frekari rannsóknir á heimildum um Tyrkjaránið og lífi Guðríðar og Hallgríms og gaf árið 2001 út Reisubók Guðríðar Símonardóttur þar sem hún fjallar um efnið af skáldlegu innsæi. Reisubókin varð metsölubók. Nú hefur Steinunn sent frá sér annað stórvirki sem er skáldsaga um æsku og uppvöxt Hallgríms. Skáldsagan byggist líkt og reisubókin á heimildum sem að þessu sinni varða ættfólk Hallgríms og samtíð og eru heimildir allar samviskusamlega raktar í sérstökum kafla í lok bókarinnar.

Eins og nafnið gefur til kynna er skáldsagan Heimanfylgja engan veginn framhald Reisubókarinnar heldur fjallar hún um æsku og uppvöxt Hallgríms frá því hann fæðist og þar til hann á 14. aldursári yfirgefur ættland sitt og heldur á vit nýrra ævintýra í Danmörku. Bókin byggist á ýtarlegum rannsóknum á samtíma Hallgríms þar sem ættfólk hans lék mikið hlutverk og setti svip sinn til mótunar þjóðlífi Íslendinga um langa hríð og má með sanni segja að þeirra áhrifa gæti enn. Úr verður ákaflega vel skrifuð og læsileg saga af venjulegum strák sem elst upp við óvenjulegar aðstæður í nánu samneyti við nokkra helstu gerendur Íslandssögunnar á öðrum og þriðja tug 17. aldar. Steinunni tekst vel að vinna úr heimildum sínum og segja sögu litla stráksins Hallgríms Péturssonar á fyrstu árum ævi hans. Þarna er engin helgisaga á ferðinni heldur raunsæ lýsing á dreng sem á sömu reynslu og allir drengir allra tíma, glímir við sömu vandamál, spyr sömu spurninga og leitar að svörum og lausnum í samræmi við gáfur sínar og skaplyndi. Og drengurinn Hallgrímur er enginn engill heldur. Hann er oft skapillur og getur verið langrækinn.

Heimanfylgja skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn nefnist Drengurinn í Gröf og lýsir bernsku Hallgríms. Í Gröf átti Hallgrímur heimili þar til hann var átta ára að hann flutti með föður sínum heim að Hólum. Ástæða þess að Pétur fluttist frá Gröf til Hóla og gerðist hringjari þar er ekki kunn en Steinunn gefur sér að það tengist arfsmálum. Í Gröf hafði Pétur búið ásamt konu sinni og börnum í skjóli foreldra sinna en við fráfall föður hans, Guðmundar Hallgrímssonar, föðurbróður Guðbrands biskups, sem líka var eigandi jarðarinnar í Gröf, tók bróðir Péturs, Hallgrímur frá Enni, við búsforráðum í Gröf en Guðbrandur útvegaði frænda sínum Pétri stöðu hringjara á Hólum. Heimildum ber saman um að Pétur hafi verið lítt hneigður til búskapar og því hafi Guðbrandi litist betur á að búa bróður hans Hallgrími Gröf. Við flutninginn til Hóla varð Hallgrímur áhorfandi að margvíslegum viðburðum sem settu mark sitt á öldina og tók sumpart þátt í sumum þeirra. Frá því greinir síðari hluti sögunnar sem nefnist Hólastrákur. Sá hluti skiptist í tvo kafla og heitir sá fyrri Undir vængbroddum Guðbrands. Lýsingarnar á Hólastað eru mjög lifandi og styðjast bæði við skriflegar heimildir og fornleifarannsóknir þær er hófust árið 2001. Prenthúsið hefur mest aðdráttarafl. Starfsemin sem þar fór fram var spennandi ungum dreng sem hafði mikinn áhuga á bókum og ekki spillti fyrir hlýjan þar inni en kakelovninn græni, sem fornleifarannsóknin hefur upplýst um, leikur mikið hlutverk í lífi Hallgríms.

Lífið á Hólum breyttist við það að Guðbrandur fékk slag og lagðist í kör árið 1624. Þá tók við búsforráðum dóttir Guðbrands, Halldóra og síðari kaflinn um Hólastrákinn nefnist Hjá Halldóru Hólafrú. Þar er mjög skemmtileg lýsing á Halldóru, ekki síst af viðskiptum hennar við mág sinn Ara Magnússon sýslumann í Ögri, sem henni tókst að gera útlægan af staðnum. Frásagan af fárviðrinu þegar dómkirkjan á Hólum fauk er mjög lifandi og vel lýst frá sjónarhorni ungs drengs. Hallgrímur er látinn taka þátt í að bjarga gripum og viðum kirkjunnar og lýsingin af aðdráttum til kirkjubyggingarinnar og kirkjubyggingunni sjálfri, sem Hallgrímur tók líka þátt í, er mjög heillandi. Í lok sögunnar er Hallgrímur orðinn skólastrákur á Hólum og bagsar við latínulærdóminn. Kirkjubyggingunni er lokið og útför Guðbrands fer fram frá nývígðri Halldórukirkju 1627. Heimildir um ævi Hallgríms hafa greint frá því að Hallgrímur hafi verið rekinn úr skóla vegna níðvísna sem hann orti um Halldóru Hólafrú og Arngrím lærða. Ekki er vitað hvenær það gerðist eða með hvaða hætti Hallgrímur komst í borð um skip sem sigldi til Glückstadts. Steinunn gefur sér að það hafi gerst um jólaleytið 1627 og hann komist um borð í danskt skip sem af tilviljun kom þá í Skagafjörð. Sú skipskoma tengdist Tyrkjaráninu að vissu leyti og þannig fléttast örlög Hallgríms og Guðríðar saman í lok bókarinnar. Í sambandi við brottför Hallgríms nefnir Steinunn tvennt til sögunnar sem vísar til framtíðar Hallgríms sem skálds. Annað atriðið er skilnaðargjöf föður hans sem rétti honum bókina sem honum var svo kær, Eintal sálarinnar, og síðar átti eftir að hafa mikil áhrif á Hallgrím og Passíusálma hans. Hitt atriðið er ferðasálmurinn Ég byrja reisu mín, Jesú, í nafni þín, sem Steinunn lætur Hallgrím fitja upp á þegar hann stígur á skip. Kveikjan að upphafi sálmsins eru bænarorð sem amma hans, sem Steinunn nefnir Steinunni, mælti fyrir honum þegar hann kvaddi hana: Farir þú, þá farðu í Jesú nafni. Með þessu niðurlagi tengir höfundurinn með beinum hætti við líf Hallgríms síðar sem Steinunn hefur áður lýst í leikritinu Heimur Guðríðar. Það er fráfall Steinunnar dóttur þeirra hjóna sem Hallgrímur orti eftir harmljóðin sem að mati Steinunnar gerðu hann að sálmaskáldi.

Í eftirmála lýsir Steinunn tildrögum verksins og þar kemur fram að undirliggjandi spurning hafi verið: Hvað gerði þennan dreng að skáldi? Þar greinir Steinunn frá niðurstöðu finnskrar könnunar á því hvað gerði fólk að rithöfundum þar sem nefnd voru þrjú atriði: 1) Aðgengi að bókum í æsku, 2) persónuleg kynni af skáldi eða rithöfundi og 3) trámatísk reynsla eða áfall sem kallaði á úrvinnslu í frásögn. Steinunn leitast við að skoða líf drengsins Hallgríms með þessi þrjú atriði í huga. Hún telur að á bernskuheimili hans hafi verið aðgengi að bókum og lætur hún hann læra að lesa af Vísnabók Guðbrands. Eftir að hann var kominn til Hóla jókst aðgengi hans að bókum mjög og þar hafði hann auk þess kynni af mestu andans mönnum samtíma síns. Þá telur hún að Hallgrímur hafi orðið fyrir trámatískri reynslu annars vegar þegar hann þurfti að yfirgefa æskuheimili sitt eftir lát afa síns og varð að fylgja föður sínum til Hóla. Viðskilnaðurinn við systkini hans var algjör þar eð yngri systkini Hallgríms ílentust í Gröf hjá ömmu sinni og föðurbróður sínum og fjölskyldu hans. Hins vegar gefur Steinunn sér að móðir Hallgríms hafi látist af barnsförum eftir að feðgarnir voru komnir heim að Hólum og hafi Hallgrímur ekki frétt andlát hennar fyrr en eftir að hún var grafin. Því til viðbótar lendir Hallgrímur í ónáð hjá forráðamönnum Hólastaðar, er rekinn úr skóla og hrökklast burt. Allt er þetta trúverðugt og getur staðist.

Skáldsagan Heimanfylgja er mjög læsileg bók og full ástæða bæði til að vekja athygli á henni og óska höfundi til hamingju. Stíll höfundar er léttur og góður og hefur Steinunn mikið innsæi í atburði og persónur. Ýmislegt getur að sjálfsögðu orkað tvímælis en ekki svo að það veki hneykslun. Frágangur bókarinnar er mjög góður og allur til fyrirmyndar. Skreytingin á kápu og titilsíðu vekur strax athygli enda byggist hún á verki Guðbrands sjálfs.