"Trúir þú þessu?"

"Trúir þú þessu?"

Verst hljóma raddirnar nefnilega þegar þær eru notaðar til að ráðast á helgustu vé náungans, tilfinningar og einkalíf, þegar þær hljóma frá sjálfskipuðu sæti dómarans sem fellir dóma yfir öðrum og eyðileggur mannorð og æru.

Röddin fyllti rýmið, fíngerð og eilítið flöktandi á háu nótunum, en hélt athygli áheyrenda óskiptri lagið á enda. Lítil stúlka söng fyrir svolítinn hóp áheyrenda – og hún gerði það af svo mikilli innlifun og einlægni að unun var á að hlýða, jafnvel þó tónarnir væru ekki allir jafnhreinir. Hún var sönn í söng sínum og það skilaði sér til þeirra er á hlýddu. Þessi litla stúlka söng með hjartanu.

Raddirnar sem hljóma í fjöldakór mannlegs samfélags eru vissulega margbreytilegar – og það eru ekki alltaf þær sem eru mest áberandi,  hljóma hæst og jafnvel fegurst við fyrstu hlustun sem eru sannar og hreinar, - heldur þær sem óma frá hjartanu. „Hreinskilni er ekki að segja allt sem maður hugsar, heldur að meina allt sem maður segir.” (Hipolyte de Livry). Það er því mikilvægt að hugsa vel það sem maður segir áður en orðin sleppa af vörunum og einnig að undirbúa vel það sem maður gerir áður en gjörðirnar verða að veruleika.

 En þannig er það því miður ekki alltaf - og í raun eru í nútímanum mjög ríkjandi gagnstæð viðhorf, allt á að vera leyfilegt,- það má segja allt og gera allt þó það særi og meiði, svo lengi sem það brýtur ekki í bága við lög og reglu. Þeir eru býsna margir sem vilja þenja raddböndin, skera sig úr og eyðileggja hinn góða og sanna samhljóm með innantómum orðum.

Fólk má jú vissulega vera ólíkt og hafa margvíslegar skoðanir, syngja hvert með sínu nefi í takt við fjölbreytileikann, en það er einlægnin, heiðarleikinn og kærleikurinn sem skiptir máli, og ef allir legðu áherslu á að syngja á þeim nótum kemur söngurinn frá hjartanu og samhljómurinn verður sannur þrátt fyrir mismunandi stíl.  Verst hljóma raddirnar nefnilega þegar þær eru notaðar til að ráðast á helgustu vé náungans, tilfinningar og einkalíf, þegar þær hljóma frá sjálfskipuðu sæti dómarans sem fellir dóma yfir öðrum og eyðileggur mannorð og æru.

 Dæmin eru mýmörg. Mér varð nokkuð hverft við er ég sá nú í vikunni í einu dagblaðanna lesendakönnun þar sem fólk var beðið að láta skoðun sína í ljós á því hvort McCann-hjónin frá Bretlandi bæru ábyrgð á hvarfi dóttur sinnar eða ekki. Þar er verið að hvetja fólk til að setjast í dómarasætið, taka afstöðu í máli sem það hefur engar forsendur til að setja sig inn og að virða að vettugi þá grundvallarreglu að hver maður sé saklaus þar til sekt er sönnuð.

En þessi litla klausa stakk mig þó aðallega vegna þess kulda sem spurningin felur í sér gagnvart tilfinningum fólksins sem í hlut á, sársauka þess og sorg. Og þá skiptir engu máli þó um útlendinga sé að ræða sem aldrei koma til með vita af þessari spurningu í íslensku blaði. Þarna er ekki um að ræða atriði úr bíómynd, heldur raunverulega atburði, raunverulegan fjölskylduharmleik þar sem við sögu kemur fólk af holdi og blóði.  Þetta er eitt dæmi, hvort það er lítið eða stórt skiptir ekki máli í þessu samhengi, heldur það að það sýnir svo vel hvernig viðhorf um að allt megi segja og gera getur gert orð og verk ósönn, vegna þess að það fjarlægir fólk hvert frá öðru, dregur úr hæfileikanum að setja sig í spor annarra og samsama sig tilfinningum og líðan þeirra sem eiga bágt, eru útskúfaðir eða lenda á skjön við hefðbundin viðmið samfélagsins.

Ég gæti nefnt mörg slík dæmi og þykist vita að hver sem á hlýðir geti kallað fram í huga ýmis atvik þar sem troðið er á fólki, tilfinningum þess og skoðunum – og það oft á opinberum vettvangi, t.d. í fjölmiðlum sem gjarnan móta skoðanir og viðhorf neytenda sinna og einnig í auknum mæli á veraldarvefnum þar sem svo margir tjá hugsanir sínar og skoðanir á mönnum og málefnum.

Í skjóli frelsisins á allt að vera leyfilegt og hinir margbreytilegu nútíma miðlar bera því viðhorfi sérstaklega vitni nú um stundir. Það er þó auðvitað misjafnt hve langt er gengið í þessum efnum, raddirnar sem kveðja sér hljóðs eru margvíslegar, en þróunin á síðustu árum hefur þó greinilega verið í þessa átt – og virðist því miður oft endurspegla eða vera í takt við svokallaða þjóðarsál.

Og það sem er sérstaklega neikvætt er að þessari þróun virðist fylgja vaxandi vanhæfni margra við að setja sig í spor annarra, og í kjölfarið heyrast raddir sem óma af skilningsleysi og virðingarleysi gagnvart öðrum, og verða þannig til að reisa múra og draga í dilka.

 Og fórnarlömbin eru alltof mörg. Það eru allt of margir þegnar þessa samfélags sem hafa annað hvort orðið fyrir óvægnum árásum eða lenda fyrir ýmissa hluta sakir í dilk hinna útskúfuðu. Við þurfum ekki að hugsa langt aftur til að komi upp í hugann sláandi dæmi um slíka atburðarás, sem átti rætur norður í landi en teygði sig svo eftir netinu um allt land.

Það eru allt of margir sem þekkja líf sem er ekkert líf eftir slíkar árásir og einelti, á opinberum vettvangi, í netheimum, á vinnustöðum, í skólum eða ýmsum öðrum hópum samfélagsins og meira að segja á sumum heimilum sem eiga framar öðru að veita skjól, vernd og öryggi. Þannig er fólk lagt  um lengri eða skemmri tíma í gröf einangrunar og útskúfunar án þess að eygja nokkra viðreisnar von eða hljóta uppreisn æru.

En það er til von. Sú rödd er sannarlega til sem vekur von, leiðir á rétta braut og reisir upp. Það er rödd Frelsarans sem kallar okkur til fylgdar. Hann kemur til okkar allra, bankar á dyr hjartans og leitar inngöngu og margir taka við honum í orði, en spurningin er hvort það er alltaf á borði. Að minnsta kosti eru svo mörg teikn á lofti sem benda til þess að kærleiksboðskapur Krists fái ekki nægjanlegan hljómgrunn í samfélaginu.

Röddin hans er sönn og hrein er hann kemur til okkar eins og til systranna Mörtu og Maríu forðum og segir við okkur: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?”  „Já, herra.” Svaraði Marta „Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.”   

En trúir þú þessu áheyrandi góður? Það hlýtur hver að verða að svara fyrir sig, en ef við getum svarað játandi eins og Marta hljóta augu okkar að opnast fyrir þeirri lausn sem í orðum Krists er fólgin. Hann segir. „Ég er upprisan og lífið” og leggur áherslu á orðin „Ég er”. Hann er að segja okkur að það sé hann sjálfur sem geri upprisuna mögulega, að það sé hann sjálfur sem færi okkur líf sem enginn dauði fái grandað – og það er líf sem við getum eignast hér og nú með því að játa með hjartanu einlæga trú á lausnarverk Krists á krossinum.

Páll postuli þekkti það líf og lýsir því í Filippíbréfinu með einstökum hætti, og ef til vill eru orð hans enn sterkari vegna þess að hann þekkti líka hvernig lífið var án Krists.  Hann segir: „Og það er einlæg  löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.” 

Í þessum orðum má svo vel heyra hve Páll er sæll með það hlutskipti að fá að eiga líf í Kristi, líf sem gerir dauðann að ávinningi.  Í ljósi  guðspjallsins er augljóst hvað hann á við, því sá sem trúir á Krist mun lifa þótt hann deyi – hann er upprisan og lífið, hér og nú og um eilífð.

Hlýðum þess vegna á hjálpræðisboðskap hans og leyfum honum að finna sér farveg í okkar eigin rödd er við látum hana hljóma í heiminum, svo tónninn verði hreinni og söngurinn sannari.   

Ég heyrði eitt sinn gamla helgisögn um nokkra einsetumenn sem helguðu líf sitt Drottni með reglulegu bænalífi. Þeir bjuggu afskekkt, en einn daginn kom til þeirra ferðamaður sem fékk að gista hjá þeim í tvær nætur. Fyrra kvöldið heyrði hann er þeir áttu saman bæna- og söngstund Drottni til dýrðar og kvöldið eftir bað hann um að fá að taka þátt í bænastundinni, sem var auðsótt mál. Hann hóf þá upp raust sína og söng svo fagurlega að einsetumennirnir áttu ekki orð af hrifningu. Eftir þetta hættu þeir að syngja því þeim fannst söngur þeirra svo lítils virði í samanburði við söng gestsins.  Nokkru síðar birtist annar gestur á heimili þeirra og var þar kominn Frelsarinn sjálfur – og hann spurði þá af hverju þeir væru hættir að syngja í bænastundunum. Þá sögðu þeir honum frá því  hvernig þeim hefði þótt söngur þeirra sjálfra verða lítilfjörlegur í samanburði við glæsilegan sönginn er gesturinn hóf upp fagra rödd sína.  „En þá heyrði ég engan söng.”  Sagði Kristur.

Raddirnar sem hljóma hátt og fagurlega á mælikvarða heimsins eru ekki endilega þær góðu og sönnu raddir sem hlusta ber á, en því miður vilja þær stundum gnæfa yfir og kaffæra aðrar raddir sem ekki þykja eins spennandi eða í takt við viðhorf líðandi stundar – til að hljóma vel í tíðarandanum.

Sú rödd sem við getum heyrt með trúareyrum okkar þegar Kristur hefur upp raust sína talar ekki á nótum tíðarandans, heldur af krafti kærleikans sem byggir á boðskap hans um eilíft hjálpræði. En röddin hljómar eigi að síður á meðal okkar á líðandi stundu og kallar okkur til eftirfylgdar í samkór Kristinnar kirkju á jörðu.

Og til þess að raddir okkar fái hljómað í þeim kór og um leið í því samfélagi sem við lifum og hrærumst í hér í þessum heimi þá þurfa þær að óma frá hjartanu – eins og rödd barnsins  sem er sönn af því að hún hljómar af einlægni og auðmýkt, hógværð og hreinskilni.

Fylgjum tónhæð trúarinnar er við syngjum Guði til dýrðar og „Segjum ekki allt sem við hugsum, en hugsum allt sem við segjum.” (ók.)  Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.