Hin himneska mótsögn

Hin himneska mótsögn

Fyrstu orð Biblíunnar segja frá sköpun heimsins. Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Guð sagði:„Verði ljós“ og það varð ljós. Orð Guðs varð uppspretta og upphaf alls. Þegar við heyrum jólaguðspjall Jóhannesar verða óneitanlega hugrenningartengsl okkar sterk við þessi upphafsorð Biblíunnar, og það er að sjálfsögðu engin tilviljun. Jóhannes guðspjallamaður er nefnilega að rita sína eigin sköpunarsögu. Þá sköpunarsögu sem tengist komu Jesú í heiminn.
fullname - andlitsmynd Arna Ýrr Sigurðardóttir
25. desember 2018
Flokkar

Fyrstu orð Biblíunnar segja frá sköpun heimsins. Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Guð sagði:„Verði ljós“ og það varð ljós. Orð Guðs varð uppspretta og upphaf alls. Þegar við heyrum jólaguðspjall Jóhannesar verða óneitanlega hugrenningartengsl okkar sterk við þessi upphafsorð Biblíunnar, og það er að sjálfsögðu engin tilviljun. Jóhannes guðspjallamaður er nefnilega að rita sína eigin sköpunarsögu. Þá sköpunarsögu sem tengist komu Jesú í heiminn.

Við eigum öll okkar sköpunarsögu. Söguna af því hvernig við urðum til, hvernig við komum í þennan heim. Sum okkar þekkja þá sögu, höfum fengið að heyra hana jafnvel frá því að við vorum lítil og hún er hluti af okkur, sjálfsmynd okkar og persónu. Og flest börn spyrja foreldra sína einhvern tíma:„Hvernig var það þegar ég fæddist“?

Jólaguðspjall Lúkasar, frásögnin af fæðingu Jesú er á einhvern hátt frásögnin af fæðingu okkar allra. Og þó að hún hafi í gegnum aldirnar fengið á sig helgiblæ og ævintýraljóma, þá rúmar hún í grunninn hinar ólíku aðstæður sem mannanna börn fæðast inn í. Því að það eru ekki öll börn„plönuð“ eða velkomin. Þau fæðast ekki öll inn í hjónaband, á fallegt heimili, við öruggar aðstæður. Nei, ef við tökum allt mannkynið samanlagt, þá eru þau sennilega fleiri börnin sem deila kjörum með Jesúbarninu, óskilgetin, á flótta, og lífshættu.

Orðið varð hold og hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika.
Jólaguðspjall Jóhannesar segir frá nýju upphafi. Nýrri sköpun. Alveg eins og í upphafi, þegar Guð skildi ljósið frá myrkrinu, þá skín ljós Guðs í hinum mannlega heimi, nema nú er það ekki orðið sem kemur einhverju til leiðar, heldur tekur orðið einfaldlega á sig mannlega mynd. Guð dvelur með okkur. Og þó að honum fylgi englakór frá himnahöll, og tákn á himni og konungar og hirðar lúti honum, þá tekur Guð samt á sig mynd þess sem er vanmáttugast og auðsæranlegast af öllu hér í heimi, mynd lítils, nýfædds barns. Ekkert er jafn jarðneskt og lítið barn sem er nýrunnið úr móðurkviði. Ekkert er jafn jarðneskt og fæðing lítils barns. Full af sársauka, full af átökum, það er blóð, sviti og tár í orðsins fyllstu merkingu. En um leið er ekkert jafn himneskt.

Listafólk hefur í gegnum tíðina túlkað þennan sannleika á ólíkan hátt. Einar Bragi, ljóðskáld, yrkir:
Árdagsljós
Um lágan kofa
Leiftri slær

Blika augu
Blá og skær

Vekur fögnuð
Veikra handa fálm:

Lífsins rós
Og lögð að vanda
Í hálm.

Við manneskjurnar erum einhvern veginn alltaf að reyna að fanga mótsögnina í því sem er bæði jarðneskt og himneskt. Því að það er í þeirri mótsögn sem lífið fær merkingu, það er þegar við stöndum frammi fyrir hinu guðlega og himneska í miðju jarðlífsins, að við skynjum tilganginn, að við skynjum Guð og nærveru hans.

Myndlistarfólk hefur heldur ekki látið sitt eftir liggja og mörg af meistaraverkum listasögunnar eru sprottin úr jarðvegi fæðingarfrásagnanna.
Fyrir nokkru var sett upp veggteppi hér í kapellu kirkjunnar eftir myndlistarkonuna Kristínu Gunnlaugsdóttur. Verkið heitir Móðirin, og er svo sannarlega tilbrigði við þetta stef fæðingarfrásögunnar, og sköpunarsögunnar. Kristín lýsir því sjálf svona:„Verkið Móðirin fjallar um þann jarðneska veruleika sem við þekkjum og æðri veruleika sem við leitumst við að finna. Jarðbrúni liturinn vísar til ilmandi moldarinnar, það er jörðin sem við komum frá og hverfum til. Gullsaumurinn og upphafin blómsköpin eru eins og línur milli stjarna á himinfestingunni um hánótt og breiða úr sér. Þannig sameinar verkið himinn og jörð, hið andlega og hið veraldlega.“
,,Myndmál klukkustrengsins Móðirin, krefst allrar þeirrar stærðar sem möguleg er og er löngu vaxin uppúr hógværðinni að sitja hljóð til hliðar. Verkið tekur sér stórt pláss því umræðan sem það skapar er mikilvæg í nútímasamfélagi. En það býr einnig yfir mýkt andlegra sanninda, jafnvægis, sáttar og kærleika. „
Síðar segir hún:
,,Og hver er þessi rós?
Sérðu móðurina í kjarna blómsins, haldandi á barni? Er þetta alheimsmóðirin, María með frelsarann í fanginu?
Eða hvað sérðu?
Það er undir okkur komið hvernig við bregðumst við og hvort við lesum bara það eitt úr verkinu sem ýtir við okkur. Eða getum við tekið við opinberun sköpunarinnar, opnað fyrir landamæraleysi skilnings, fordómaleysis og samvitundar og viðurkennt krafta náttúrunnar? „
,,Þegar ég lít til verksins segir það mér : Öllu er óhætt, allt er gott“.

Já, öllu er óhætt, allt er gott. Það er sú tilfinning sem fylgir afstaðinni fæðingu, jafnvel þótt framtíðin sé óviss, jafnvel ógnvænleg. Eina kvöldstund er allt gott. Eina kvöldstund þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu. Og það er líka tilfinning jólanna. Sú tilfinning sem fylgir þeirri fullvissu að Guð gerðist maður til að deila kjörum með okkur. Guð er með okkur í óvissunni. Í óttanum og í óörygginu. Það er ekkert að óttast.
***
Í gærkvöldi var lesin í öllum kirkjum landsins, og víða um heim, sagan af því þegar Jesús fæddist. Í gærkvöldi dvöldum við í hinum jarðneska veruleika, í hinu smáa og varnarlausa,hvernig Guð fæddist sem manneskja, sem lítið barn í fjárhúsi. En í dag heyrum við söguna um hið stóra samhengi. Um orðið sem var í upphafi alheimsins, um orðið sem var frumkraftur sköpunarinnar, og um orðið sem varð hold, og bjó með oss. Og sú saga er sköpunarsaga þín. Hún er sagan um það hvernig þú fæðist sem Guðs barn. Hvernig Guð tók á sig mynd manneskjunnar, til þess að þú mættir þekkja Guð. „Öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans“, segir Jóhannes.
Við eigum öll þennan barnarétt. Þennan rétt til þess að lifa í nærveru Guðs sem er skapari okkar og vinur. Og það sem virðist við fyrstu sýn vera skilyrði; að við þurfum að gera eitthvað,„taka við honum“ og„trúa á nafn hans“, er ekki krafa um einhverja ákveðna trúarafstöðu, þetta snýst ekki um að aðhyllast einhverjar ákveðnar kenningar, eða guðfræði, og þetta snýst ekki um að við þurfum að láta af allri skynsamlegri hugsun og fylgja einhverjum leiðtoga í blindni.
Nei, þetta er meira svona eins og ljósið og myrkrið. Myrkrið þarf ekki að víkja til að ljósið komist að. Myrkrið hverfur einfaldlega þegar ljósið skín. Það eina sem við þurfum í rauninni að gera er að stíga fram úr skuggunum. Þeim skuggum sem takmarka líf okkar og gera það að verkum að okkur finnst líf okkar stundum einkennast af fálmi í myrkrinu. Þessa skugga er að finna víða í lífi okkar, og þú veist best hvar þeir leynast í þínu lífi. En þér stendur alltaf til boða að stíga fram úr skugganum og leyfa ljósi Guðs að leika um þig. Og alveg eins og í upphafi, þegar Guð sagði„verði ljós“, þá verður til ný sköpun þegar þú stígur fram í birtuna. Þá fæðist þú sem Guðs barn og ótrúlegir hlutir geta gerst.
Í dag er nýr dagur. Nýtt upphaf, ný sköpun. Og við megum stíga fram í ljósið og taka undir með englunum á Betlehemsvöllum sem sungu: Dýrð sé guði í upphæðum, friður á jörðu og velþóknun yfir mönnunum.
Amen.