Á 30 ára vígsluafmæli Árbæjarkirkju er mér hugsað til þeirra karla og kvenna sem í byrjun áttunda áratugarins lögðu grunn að kirkjunni í Árbænum. Aðgangur að fjármagni var lítill sem enginn frá opinberum aðilum. Hverfið var rétt byrjað að byggjast upp til þess að verða að því sem nú er. Í rituðum heimildum safnaðarins má glöggt sjá þá samheldni og áræðni sem bjó í huga fólksins á þeim tíma. Lagt var af stað í kirkjubyggingarferðalag bókstaflega með tvær hendur tómar. Allra mögulegra leiða og ómögulegra var leitað til þess að söfnuðurinn fengi varanlegt húsnæði til helgi- og menningarstarfs. Það tók heil sautján ár að reisa safnaðarheimili og kirkju. Safnaðarheimilið vígt 1978 og kirkjan 1987. Það hefur sannarlega verið stór stund fyrir söfnuðinn þegar kirkjuskipið var vígt 29. mars 1987 eftir sautján ár í byggingu. Að baki voru margir fundir, ótal hamarshögg og sjálfboðin vinna svo margra. Á þeim degi var hægt að draga andann léttar og njóta afraksturs erfiðisins um stund. Þegar komið var fram á tíunda áratug síðustu aldar var starfið í kirkjunni með börnum, unglingum og eldri borgurum búið að fylla hvern krók og kima kirkjunnar. Söfnuðurinn hafði stækkað og ný hverfi risið, sem ekki var fyrirsjáanlegt þegar hafist var handa við að reisa kirkjuna í upphafi áttunda áratugarins. Blessunarlega hefur ætíð verið góð samvinna milli stofnana, félagssamtaka og einstaklinga innan hverfisins. Kirkjan hefur að mestu átt greiða leið með sitt starf í rými þeirra og félagssamtök og einstaklingar átt sömuleiðis greiðan aðgang að rými kirkjunnar. Á árunum fyrir hrun var lögð vinna í að teikna upp safnaðar-/menningarheimili Árbæjar og hugur stóð til þess að ráðast í framkvæmdir en af því varð ekki. Óhætt er að segja að nú sé eitthvað að rofa til í þeim efnum. Samfélagið hefur tekið örum breytingum á örfáum árum og þarfir safnaðarins breyst. Hugur okkar í kirkjunni er sá sami og hjá því ágæta fólki sem hóf kirkjuvegferðina í byrjun áttunda áratugarins, að efla það starf sem fyrir er og helst bæta við. Það verður aðeins gert með því að skrifa nýjan kafla í byggingarsöguna og reisa Árbæjarheimilið við Árbæjartorg. Safnaðarheimili sem svarar kröfum nútímans um þarfir fólks á sínum stærstu, erfiðustu og sætustu gleðistundum lífsins. Þessara tímamóta verður fagnað með hátíðarguðsþjónustu, sunnudaginn 26. mars, kl. 11:00 þar sem frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, predikar. Prestar kirkjunnar, sr. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir og sr. Þór Hauksson, þjóna fyrir altari. Kór Árbæjarkirkju frumflytur kafla úr passíunni Píslargráti sem var samin fyrir Árbæjarkirkju 30 ára, stjórnandi Krisztina Kalló Szklenár organisti. Einsöngur: Margrét Einarsdóttir og Hlynur Ingason. Einleikur á óbó: Matthías Birgir Nardeau. Eftir guðsþjónustu mun biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir og fyrrum sóknarprestur og Dómprófastur sr. Guðmundur Þorsteinsson taka fyrstu skóflustungu að Safnaðar og Menningarheimili Árbæjarkirkju.