Steinsteypa og nótnaborð

Steinsteypa og nótnaborð

Einn sunnudaginn sem oftar sat hún í kirkjunni þegar messunni var að ljúka og eftirspil organistans hófst. Þá brast konan í grát. Tárin runnu niður kinnarnar og axlirnar skulfu af ekka...

50 ára vígsluafmæli Valþjófsstaðarkirkju - Nýtt orgel blessað (Lúk. 10.23-37)

Náð sé með yður og friður frá Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Þegar ég söng á sínum tíma með kirkjukór á höfuðborgarsvæðinu, urðu andlit og jafnvel nöfn trúfastra safnaðarmeðlima fljótt kunnugleg. Vissulega voru margir sem komu bara af og til í messu, en þeir sem komu reglulega settust oftar en ekki á sama stað í kirkjunni. Þannig var því farið með konu, á að giska um fertugt, sem kom alltaf ein í kirkjuna, settist á sama bekkinn og átti þar sína kyrrlátu stund frammi fyrir Guði. Einn sunnudaginn sem oftar sat hún í kirkjunni þegar messunni var að ljúka og eftirspil organistans hófst. Þá brast konan í grát. Tárin runnu niður kinnarnar og axlirnar skulfu af ekka. Ungur maður frá Þýskalandi, sem var sjálfboðaliði í kirkjunni, brást skjótt við, settist hjá henni og lagði handlegginn hlýlega utan um hana. Faðmur hans var vel þeginn og hún hallaði sér upp að öxl hans meðan hún jafnaði sig.

Ég hef ekki hugmynd um, hver bakgrunnur þessarar konu var, eða hvað það var sem kallaði fram tárin hjá henni þegar tónar orgelsins hljómuðu um kirkjuna. En ég veit að á þessari stundu var kirkja Jesú Krists að störfum, kirkja sem umfaðmar manneskjur og samþykkir tilfinningar þeirra.

Við höfum komið saman til að fagna því, að hálf öld er liðin síðan þessi fallegi helgidómur, núverandi Valþjófsstaðarkirkja, var vígð, og um leið fögnum við yfir glænýju hljóðfæri kirkjunnar. Ég óska okkur öllum til hamingju með þetta allt.

En hvers vegna reisum við kirkjur? Hvers vegna höfum við fyrir því að búa út hús með öllu sem þarf til helgiþjónustu og tónlistarflutnings? Þurfum við kirkju eða orgel til að lofa Guð?

Margir Íslendingar lifa vissulega trúarlífi sínu í einrúmi.

Ég fer af og til einn út að ganga eða hjóla á kvöldin, mér til heilsubótar og gleði. Konan mín er óþreytandi við að benda mér á að ganga í einhvern hóp af fólki sem hjólar eða hreyfir sig saman, því að þá hefði ég aðhald til að fara oftar og hefði gott og gaman af því að gera þetta með öðrum. Það er örugglega alveg rétt hjá henni, þó að ekki sé orðið úr því enn að ég gangi í neinn slíkan hóp!

En er þetta ekki líka svona með kirkjuna? Hún er fyrst og fremst samfélag þar sem manneskjur koma saman til að uppbyggja sjálfar sig og hver aðra í sameiningu, í trú og von og kærleika. Trúin má nefnilega ekki vera svo mikið einkamál að við förum í felur með hana. Kirkjan er fólkið sem kemur og slæst í hópinn með trú sína á Drottin, en líka með efann sinn, með verkefnin sín á lífsgöngunni, með systurnar gleði og sorg í farteskinu. Kirkjan – söfnuðurinn, samfélagið – þarfnast í sjálfu sér hvorki kirkjuhúss né orgels til að vera til. En húsnæðið og hljóðfærin og allt hitt sem við notum, þetta á að hjálpa okkur manneskjunum að vera kirkja. Þess vegna helgum við veraldlega hluti eins og steinsteypu og nótnaborð, og tökum þá þannig frá til að nota í helgihaldinu.

Einu sinni tók ég þátt í guðsþjónustu undir berum himni í Afríku, í héraði þar sem íslenskir kristniboðar hafa starfað. Þessi stund fór fram í skugganum af stærsta trénu á svæðinu og trjádrumbum hafði verið komið fyrir sem kirkjubekkjum. Þarna var lengi, lengi sungið og klappað og Drottinn var lofaður af krafti áður en kristniboðinn steig fram, las kafla úr guðspjöllunum og útskýrði. Þessi nýi söfnuður átti ekkert hljóðfæri og þaðan af síður kirkjuhús en trú fólksins var sönn og einlæg og samfélag þess fallegt, eins og sást best þegar messunni löngu var loksins lokið en þá komu viðstaddir saman í hring og gengu á röðina þannig að allir tóku í hendurnar á öllum! Hins vegar hefði þessi kirkja gjarnan kosið að eiga kirkjuhús til að skýla sér fyrir brennandi sólinni eða vatnsflaumi regntímabilsins. Og eflaust hefði þessi söfnuður líka kosið að eiga eitthvert hljóðfæri til að styðja við sönginn.

Ef við lítum okkur nær má rifja upp að eins og gefur að skilja voru lengst af engin hljóðfæri í íslenskum kirkjum, aðeins forsöngvari leiddi hið sungna orð. Því var það mikil bylting á seinni hluta 19. aldar þegar fyrstu orgelharmóníumin komu í kirkjur landsins. Og Valþjófsstaðarkirkja varð reyndar fyrsta kirkjan á Héraði til að eignast slíkt hljóðfæri um 1880.

Tónlistin er nefnilega órjúfanlegur hluti af starfi kirkjunnar. Söngur og hljóðfæraleikur hefur átt samleið með kristinni kirkju frá upphafi. Í Davíðssálmunum, bænabókinni sem Jesús unni og vitnaði til, segir til dæmis: „Syngið Drottni þakkargjörð, leikið fyrir Guði vorum á gígju“ (Sl 147.7). Tónlistin er stórkostleg Guðs gjöf. Með eða án orða hjálpar hún okkur að fanga sammannlegar tilfinningar eins og ást, þakklæti, lotningu, sorg og von. Auðvitað mætti hugsa sér að nota öll möguleg hljóðfæri í tónlist kirkjunnar, en orgelið hefur m.a. þá kosti að hljómur þess getur verið mjög fjölbreytilegur, þ.e.a.s. framkallað hughrif og blæbrigði á við mörg önnur hljóðfæri, og einnig að tónn orgelsins styður vel við mannsröddina í söng.

Það er dýrmætt að geta sungið saman í samfélagi kirkjunnar, en einnig að fá að biðja með öðrum, hugleiða Guðs orð saman og eiga samfélag í brauði og víni eins og Jesús Kristur kenndi okkur að gera. Allt þetta er gott að gera í sameiningu. Kirkjan á að minna okkur á að við þurfum á hvert öðru að halda. Enginn er eyland. Um það fjallar líka hin magnaða dæmisaga Jesú í guðspjalli dagsins um miskunnsama útlendinginn. Í sögunni er fjallað um þann sem kemur til hjálpar annarri manneskju í neyð þvert á þjóðerni, trúarbrögð eða aðra ytri þætti. Ef við viljum vera sönn kirkja þurfum við að lifa í þessum boðskap.

Fulltrúar opinberrar guðsdýrkunar fá alveg sérstaklega á baukinn hjá Jesú í sögunni. Hempurnar þeirra flaksast þegar þeir flýta sér í burtu frá dauðvona manni til að geta fylgt reglum og venjum helgisiðanna. Útlendingurinn, Samverjinn, er alls ekki sú persóna sögunnar sem áheyrendur Jesú hafa búist við að myndi koma til hjálpar! Ef Jesús segði söguna á Íslandi í dag myndi hún kannski fjalla um miskunnsama Pólverjann eða miskunnsama múslimann.

Já, við erum öll manneskjur og við þörfnumst öll hvert annars. Þess vegna er gott að koma saman hér í 50 ára gamalli Valþjófsstaðarkirkju í dag, gott að hlýða á og syngja með nýja orgelinu og gott að reyna að vera kirkja Jesú Krists með opinn faðm og hlýja öxl fyrir tár og erfiðleika og trú og gleði og von.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.