Trúin og auðhyggjan

Trúin og auðhyggjan

Það einkennir þessar fyrirsagnir að þeim vex helst fiskur um hrygg, þegar auðhyggjan herjar og sumt sýnist í vellystingum á yfirborðinu. Þá getur verið freistandi að afneita Guði.
fullname - andlitsmynd Gunnlaugur S Stefánsson
02. janúar 2016

Trúarbrögðin eru kjölfesta í menningu þjóða og móta siðrænt gildismat.  Á Íslandi er það kristinn siður. Mikið hefur verið fjallað og ritað um kristina trú um aldirnar og meira en flest annað í andlegum efnum. Sömuleiðis hefur fátt verið misnotað meira af mönnum um aldir, en sama trú, og oft verið hafnað með látum. Þá er vandfundin þjóð á spjöldum sögunnar án trúarbragða. T.d. í Norður Kóreu ríkir valdboðin trú sem tilbiður leiðtogann samkvæmt þrautskipulögðu kerfi. Því hef ég kynnst með heimsókn til landsins.

Um aldir hafa birst stórar fyrirsagnir í orðastað nafntogaðra manna um víða jörð sem lýstu yfir, að trúin væri dauð af því að enginn Guð sé til. Og enn er það boðað og krafist hlýðni við það í þjóðlífinu, jafnvel með opinberu valdboði. Það einkennir þessar fyrirsagnir, að þeim vex helst fiskur um hrygg, þegar auðhyggjan herjar og sumt sýnist í vellystingum á yfirborðinu. Þá getur verið freistandi að afneita Guði. Og einmitt í slíku umhverfi getur kristin trú virst hallærisleg, Guð gamaldags og íhaldssamur, og kirkjan steinrunninn úr takti við sveiflu auðhyggjunnar. Það er mikill munur á því að glíma við mannlega efahyggju og láta sér fátt um Guð finnast, eða eiga sér þá hugsjón æðsta að berjast gegn kirkju og kristinni trú. Hvaða áhrif myndi það hafa á velfarnað okkar, ef afneitun á Guði yrði að heilagri viðmiðun í gildismati þjóðar?

En það er fleira en trúin, sem glamúrinn í auðhyggjunni skekur. Fjölskyldan og innri friður hennar, fóllkið sem minnst eða einskis má sín, félagsstarf sem byggir á mikilli alvöru og hvílir á sjálfboðnum störfum, virðing við manngildin og rækt við réttlætið. Og kannski ábyrgðin og þakklætið líka. Það hefur oft sannast, að erfitt getur reynst að lifa alsnægtir af eins og skortinn. Dýrkeypt reynsla okkar af efnahagshruni er til vitnis um það. Hagsældin er dýrmæt, en gerir miklar kröfur um að rækta virðingu við mannréttindi.

Hugsjón kristinnar trúar er að blómga lífið á öllum sviðum, deila kjörum saman og virða lífsrétt allra manna; og flæðir um menningu og stjórnmál. Það er áskorun gegn auðhyggju sem elur á sérgæsku og dekrar við lýðskrumið. Einnig er talsvert áræði fólgið í því að spegla sig í orði Guðs sem kallar til réttlætis og kærleika. Myndin sem birtist þá af sjálfum mér gæti verið löskuð. Er það vont fyrir stundarhagsmuni, einfaldast að neita tilvist Guðs og boða tilbeiðslu á sjálfum sér? Það reyndu sumir leiðtogar heimsins og þóttust samt vera með ástina á vörum, en lyktaði oftast illa og stundum með skelfilegum afleiðingum.

Það skiptir máli hvernig þjóð virðir trú sína og ræktar siðinn.