Hvert fótmál lífsins

Hvert fótmál lífsins

Verum vonglöð, góða fólk. Allt mun fara vel þó ýmislegt fjúki í ofviðri tímanna. Stefnum ótrauð að uppbyggingu lands og þjóðar. Treystum Drottni og gerum gott, þá munum við búa óhult í landinu.

Jesús segir: „Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“

Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“ Matt 11.16-24.

Vort líf er oft svo örðug för og andar kalt í fang, og margur viti villuljós og veikum þungt um gang. En Kristur segir: Kom til mín, og krossinn tekur vegna þín. Hann ljær þér bjarta sólarsýn, þótt syrti´ um jarðarvang.

Þannig orti Kristján frá Djúpalæk (Kristján Einarsson, 1916-1994), skáld myrkursins í leit að ljósinu, eins og segir í formála að einni ljóðabóka hans (Gísli Jónsson, fyrrv. menntaskólakennari, af www.is.wikipedia.org 11.08.09). Kristján var næmur á andstæðar tilfinningar og togstreitu mannlífsins og lýsir því hér sem erfiðri för og andar á móti.

Líkingin af lífinu sem ferðalagi er eðlileg og nærtæk. Við erum fólk á ferð. Lífshlaup hvers og eins er sérstakt, einstakt, eins og fingraförin og þeir hæfileikar sem hvert og eitt okkar hefur þegið í vöggugjöf. Stundum finnum við fyrir stöðnun, finnst við ekkert mjakast úr sporunum, á tímabilum er eins og dagarnir fljúgi áfram á fleygiferð og við náum vart andanum. Sú reynsla, sem skáldið lýsir í sálminum sem vitnað var í (númer 384 í sálmabókinni), að lífið sé oft svo örðug för og andi kalt í fang, er sameiginleg mörgum. Öll höfum við gengið í gegn um þannig tímabil, fundið okkur veik og smá og þungt um gang. Villuljósin hafa líka leitt margan manninn á varasamar slóðir þegar hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann (Jóh 1.9) er hindrað á för þess að innstu hjartarótum.

Pílagrímagöngur Hingað heim að Hólum voru gengnar pílagrímagöngur í gær, laugardag. Árviss er einnig pílagrímsganga á Skálholtshátíð, þriðju helgina í júlí. Sú ganga hefst í Þingvallakirkju á laugardagsmorgni og lýkur í messu í Skálholtsdómkirkju á sunnudeginum. Hér komu pílagrímar í hús síðdegis í gær eftir dags göngu frá Flugumýri og einnig gekk góður hópur fólks frá Svarfaðardal yfir Heljardalsheiði. Þriðja pílagrímsgangan var farin eftir hádegið frá Hólaskóla í Gvendarskál, þar sem vígslubiskup söng pílagrímamessu við altari Guðmundar góða. Var sem fortíð mætti framtíð í algleymi augnabliksins á fjallinu og orð sr. Bolla Péturs í Laufási lifa í minni.

Um liðna helgi var ég svo lánsöm að fá að taka þátt í samkirkjulegri pílagrímagöngu með norskum hjálpræðisherskonum frá Þingvöllum í Skálholt. Þá sem endranær á göngu um okkar fallega en erfiða land varð líkingin af lífinu sem ferð augljós. Við þrömmuðum malbikaðan veg um tíma, sem kann að virðast létt, en slétti vegurinn verður þó of harður til lengdar og hagfelldara fótum og liðamótum að ganga gömlu göturnar, moldar- og malarslóða. Svo var klöngrast um grýttan veg og feginleikinn mikill þegar honum lauk. Endalausar hæðir á heiðinni, upp og ofan, minntu á tilbreytingarleysið ef ekki er gáð að hinu smáa í lífinu, beitilynginu bleika, kvaki fugla, skýjamyndum himins.

Stefnan heim Við vitum hvert við stefnum en ekki hvernig leiðin verður, sagði ein forystukonan í hópnum kvöldið áður en lagt var í hann og það voru orð að sönnu, bæði fyrir þessar tvær dagleiðir á milli Þingvalla og Skálholts, rúmt maraþon ef rétt er reiknað, og einnig um lífið í heild sinni. Sem kristnar manneskjur vitum við að við stefnum ávallt heim – að við erum á leiðinni heim til okkar himneska föður - og að lífi okkar lýkur ekki þó vegferðin hérna megin við dauðann taki enda.

Hitt vitum við minna um hvernig færðin og skyggnið er á leiðinni og um hvernig landslag fætur okkar munu bera okkur. Það er í hendi Guðs og verður ekki skipulagt í þaula samkvæmt mannlegum mælikvarða. Aðeins í trausti til heilagrar þrenningar verður leiðin ljúf og björt, óháð ytri aðstæðum, aðeins ef við hvílum í hendi skapara okkar, með lausnarann Jesú sem förunaut og heilagan anda sem leiðsögumann.

Í voða, vanda´ og þraut vel ég þig förunaut, yfir mér virstu vaka og vara á mér taka. Jesús mér fylgi´ í friði með fögru engla liði.
Hallgrímur Pétursson, sálmabók 493

Hjartasár Guðs Guðspjall dagsins fjallar um sorg Guð þegar við mennirnir höfnum leiðsögn hans og finnum stöðugt að öllu því góða sem hann býður okkur. Jesús tekur hér líkingu af tveimur hópum barna, þar sem annar hópurinn vill kalla á hinn í brúðkaupsleik með því að spila gleðisöng. En ekki vildu hin börnin dansa með. Þá leggur fyrri hópurinn til að leika jarðarför með sorgarljóðum. En það féll heldur ekki í góðan jarðveg. Eins var mönnunum farið þegar Guð sendi þeim fyrst Jóhannes, hinn stranga og fjarlæga boðanda trúarinnar og síðan Jesú Krist, sem tók þátt í aðstæðum og kjörum fólks af heilum huga og sýndi þannig ást Guðs til mannanna. Hvorugan vildi fólkið þýðast.

Sömu sögu mátti segja um þær borgir þar sem Jesús hafði gert flest kraftaverk. Fólkið hafnaði kærleiksboðskap hans, leyfði Guði ekki að hlú að sér, eins og segir í ljóði Jesaja spámanns sem lesið var áðan: Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð. Hann stakk upp garðinn, tíndi úr honum grjótið, gróðursetti gæðavínvið. Hann reisti turn í honum miðjum og hjó þar þró til víngerðar. Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga (Jes 5.1-2).

Þessir ritningarstaðir lýsa því hjartasári sem við mennirnir höfum valdið Guði. Hann gaf okkur ást sína, já lífið sjálft, en uppsker oft ekki annað en höfnun og – það sem verra er – engin viðbrögð. Í stað þess að efla lífið í samræmi við þau kærleikans lögmál sem við blasa (sbr. Róm 1.18-23) brjóta manneskjurnar hverja aðra niður í sjálfshyggju sinni. Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við (Jes 5.7).

Kristni og þjóð Við getum spurt okkur hvar íslensk þjóð standi gagnvart mælikvörðum ritningarlestra dagsins. Höfum við þegið allt upp í hendurnar, undursamlegan garð á frjósamri hæð, en ekki viljað þiggja leiðsögn lífsins anda svo að gjafir Guðs mættu bera ávöxt meðal þjóðar okkar? Höfum við látið sem við þekkjum ekki muninn á réttu og röngu þegar boðskapur Biblíunnar hefur verið okkur auðlesanlegur í fimm aldir? Maður, þér hefur verið sagt hvað gott er og hvers Drottinn væntir af þér: þess eins að þú gerir rétt, ástundir kærleika og þjónir Guði í hógværð (Míka 6.8).

Á Íslandi hefur kristinn siður verið grundvöllur mannlífs í þúsund ár og löngu fyrr en kristni var lögtekin var nafni Guðs sungið lof af játendum Krists á íslenskri moldu. Hér í Hjaltadalnum stóð kirkja fyrst á bæ Þorvarðar Spak-Böðvarssonar að Ási, reist í óþökk heiðinna manna árið 984 (sjá bók Þorsteins Gunnarssonar og Kristjáns Eldjárns: Um Hóladómkirkju, 1993).

Af kirkjum hér á Hólum má nefna kirkju Halldóru Guðbrandsdóttur, sem stóð á undan þeirri sem er umgjörð tilbeiðslunnar í dag, elsta hús á Íslandi, vígð 20. nóvember 1763. Halldóra er með merkari konum Íslands, dóttir Guðbrands Þorlákssonar, sem var orðinn veikur og aldraður er fyrri kirkja fauk í norðanveðri miklu. Hún sendi systurson sinn, Þorlák Skúlason, síðar biskup, til Danmerkur eftir viðum í nýja kirkju og lauk smíðinni á tveimur árum, sem verður að teljast afrek á erfiðum tímum á fyrri hluta 17. aldar (1625-1627).

Sautjánda öldin – sem hefur verið kölluð „dapurlegasta öld Íslandssögunnar” (Jón Helgason: Öldin sautjánda, 1966) – var öld mikillar togstreitu á ýmsum sviðum, meðal annars um miðstýringu stjórnkerfisins (sjá grein um aldarfarið á sautjándu öld eftir Helga Þorláksson í Hallgrímsstefnu, Ritröð Listvinafélags Hallgrímskirkju 1997).

Siðferðisþrek þjóðarinnar var í molum, þó ríkar kröfur væru gerðar til fólks í þeim efnum og hjátrú og skynsemi tókust á. Þrátt fyrir þetta gat 17. öldin af sér eitt merkasta trúarlega og menningarlega hugverk Íslandssögunnar, Passíusálma séra Hallgríms, sem fyrst voru prentaðir hér á Hólum árið 1666; ortir undir sárri kvöl skáldprestsins á sál og líkama. Gimsteinar verða til undir miklum þrýstingi, er mér sagt, og þarna varð einlæg trú Hallgríms Péturssonar farvegur fyrir hans miklu hæfileika – og hæfileikarnir farvegur fyrir trúna. Belgingur Og nú eru enn erfiðir tímar. Við hófum 21. öldina, þriðja árþúsundið, með mikilli bjartsýni. Allt gekk okkur í hag í hinu ytra, fjárhagur þjóðarinnar efldist og sjálfsmyndin belgdist út að sama skapi. Menn héldu að hagvextinum væru engin takmörk sett. En svo kom hrunið og við sitjum eftir með sárt ennið. Margar ræður hafa verið fluttar um þá erfiðleika sem við síðan höfum mátt reyna á undanförnu tæpu ári og enn virðist för okkar örðug og andar kalt í fang. Meðbyrinn lætur á sér standa.

Það er hins vegar ekki í boði að gefast upp. Við munum standa af okkur þennan storm, komast út úr þokunni og finna leiðina að nýju. Það er ekki víst að hún verði skrýdd glóandi gulli, en fuglarnir munu halda áfram að syngja og blómin skarta sínu fegursta. Mestu máli skiptir fyrir þjóð okkar að þekkja sinn andlega vitjunartíma, að hætta að reiða sig á efnahagslegan vöxt og stöðugan framgang í hinu veraldlega.

Það getur komið aftur að einhverju leyti – en þá sem aukaafurð þess að reiða sig í einu og öllu á þann Drottin sem formæður okkar og forfeður héldu fast í á erfiðum tímum. Við munum sjá ljósið, þjóð okkar á farsæla framtíð í vændum, þess er ég fullviss, en ekki nema við látum af hrokanum og sjálfshyggjunni og lærum að nýju að hlú hvert að öðru, umhverfi okkar og samtíð.

Verum vonglöð Þegar Páll postuli var fluttur í böndum sjóleiðina til Rómar lenti skipið í miklu fárviðri, líkt og kirkjan sem stóð hér á Hólum í tíð Guðbrands Þorlákssonar. Postulinn hafði varað við ofviðrinu en á hann var ekki hlustað. Þegar hins vegar var í óefni komið, skútan á leið í strand og menn matarlausir hlýddu þeir fúsir á hvatningarræðu Páls, sem hann hóf með þessum orðum: Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði... Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. Og svo hvatti hann þá til að vera vonglaða því enginn myndi týna lífinu þó skipið færist. Hann sagði þeim frá sýn sem hann hafði fengið þá um nóttina sem hafði sannfært hann um að allt færi vel og lauk máli sínu með þessum orðum: Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt (Post 27.21-26).

Verum vonglöð, góða fólk. Allt mun fara vel þó ýmislegt fjúki í ofviðri tímanna. Stefnum ótrauð að uppbyggingu lands og þjóðar og segjum með þeim sama Páli sem ýmislegt mátti þola: Ég er hryggur en þó ávallt glaður, fátækur en auðga þó marga, öreigi en á þó allt (2Kor 6.10). Treystum Drottni og gerum gott, þá munum við búa óhult í landinu (Sálm 37.3). Og höfum trúarjátningu skáldsins frá Djúpalæk okkur til styrktar á erfiðri för:

Já, mundu’ að hann á mátt og náð, þú maður efagjarn, Sem aldrei bregst, þótt liggi leið þíns lífs um auðn og hjarn. Frá syndum frelsuð sál þín er, því sjálfur Kristur merkið ber hvert fótmál lífsins fyrir þér. Ó, fylg þú honum, barn.

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda (Róm 15.13).