Hvers vegna skyldu ekki koma aftur gleðidagar?

Hvers vegna skyldu ekki koma aftur gleðidagar?

Ég upplifi heilagan anda svolítið svona, eins arfleifð uppeldis sem hefur veitt manni öruggt skjól og vitund um að manni sé óhætt að stíga út fyrir þröskuldinn á hverjum morgni.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
06. maí 2012
Flokkar

Ef allir færu í sömu átt, myndu engir mætast ( Elías Mar). Ég held að það sé eðli heilags anda að sjá til þess að við förum ekki öll í sömu átt, það er eðli heilags anda að láta fólk mætast. Stendurður ekki stundum sjálfan þig að því að aðhafast eitthvað eða bregðast við með sama eða líkum hætti og foreldrar þínir jafnvel þó þú ætlir þér alls ekki að gera það? Þekkirðu ekki þá upplifun að heyra móður þína eða föður enduróma í orðum þínum og gjörðum? Stundum þar sem þú sinnir hlutverki uppalanda,vinar eða maka og líka í starfi þínu og á öðrum opinberum vettvangi. Þetta er svo fyndið atriði. Ég man t.d. hvað ég þoldi illa hvað pabbi minn var nákvæmur með stofuna heima, þar máttu helst ekki sjást leikföng, sérstaklega ekki fáklæddar barbídúkkur, málverk voru þráðbein á veggjum og bækurnar í bókahillunni stóðu jafnar en heiðursvörður dönsku drottningarinnar. Ég man gamla manninn standa fiffandi fyrir framan hillurnar og laga Laxnessafnið til eins og hann væri að framkvæma heilaskurðaðgerð og ég skildi engan veginn tilganginn, þó ég vissi sem var að bækur væru hans helsta ástríða. Í dag er ég að gera alla brjálaða á heimilinu með sömu áráttunni og jafnvel verri ef eitthvað er. Ég man líka hvað mér fannst asnalegt þegar mamma var að hrósa mér við annað fólk og segja frá afrekum okkar systkinanna, nú stend ég mig oft að því að enduróma hana þegar ég tala um mín eigin börn og þá er ekki laust að mér hlýni um hjartarætur þegar ég loks skil hvernig henni í raun og sanni leið eins og foreldri á að líða. Eins koma upp í hugann svona smávægileg atriði og áþreifanleg eins og kápan hennar mömmu sem fékk hárin til að rísa á gelgjunni, ég gleymi því ekki þegar sú gamla arkaði um bæinn í þessu ferlíki sem hún fékk í fertugsafmælisgjöf frá fjölskyldunni og ég lagði mig fram um að þykjast vera á eigin vegum, í dag er það þessi flík sem bjargar mér á norðlenskum vetrum og mér finnst hún gjörsamlega frábær. Já sumt af því sem endurtekur sig í öðrum ættlið og jafnvel þeim þriðja er meðvitað en annað ómeðvitað, það hvaða starfsvettvang maður velur sér er vissulega meðvitað og eins það að ganga í sömu fötum, en viðbrögð við áföllum, álagi eða gleði og sigrum, það er ómeðvitað að mestu hvort sem það er lært eða erft. En hvernig sem því er háttað þá skiptir samt mestu þegar maður finnur að foreldrar manns hafa sáð frækornum sjálfsvirðingar, kærleika og lífsgleði í sál manns og sinni þannig að þrátt fyrir allt og allt þá á maður eitthvert tilfinningalegt skjól sem aldrei verður frá manni tekið, já einhvers konar hamingjureikning sem tæmist ekki þó að tíminn og allt sem honum fylgir, taki sinn toll af líkama og sál.

Ég upplifi heilagan anda svolítið svona, eins arfleifð uppeldis sem hefur veitt manni öruggt skjól og vitund um að manni sé óhætt að stíga út fyrir þröskuldinn á hverjum morgni. Í tilviki heilags anda er það Jesús Kristur sem hefur séð um uppeldið með sannleika sínum í orði og verki og sent okkur heilagan anda til að við megum skynja og finna að hann er hjá okkur þrátt fyrir að við séum fullorðin og hann ekki hér með áþreifanlegum hætti. Þess vegna er vandvirkt uppeldi foreldra og forráðamanna einhver mikilvægasta leiðin til að skynja nálægð og nærveru heilags anda. Ég spurði facebook vini mína að því hvað þau hefðu helst tileinkað sér úr uppeldi foreldra sinna og svörin létu ekki á sér standa, meðal þess sem kom fram var eftirfarandi: Heiðarleika, ást, hlýju, umburðarlyndi,gestrisni, orðvendni, að lifa samkvæmt sannfæringu og láta peninga ekki stjórna ákvörðunum sínum, náungakærleika og að njóta litlu hlutanna í lífinu, dagleg samvera þannig að hversdagsleikinn verði að hátíð, að dæma ekki aðra og svo líka að endurtaka ekki mistök foreldranna sem er vissulega mjög skynsamlegt ofl ofl kom fram en þegar við skoðum þessi gildi þá sjáum við að þau eru hin sömu og Kristur kennir okkur fyrir utan það að gera ekki sömu mistök því ólíkt öðrum foreldrum þá gerir hann ekki mistök en dæmir samt síst okkar.

Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Þessi setning úr guðspjalli dagsins sem er hluti af kveðjuræðu Jesú undirstrika þann sannleika að lífið verður aðeins skilið í samhengi, hver stund sem við lifum verður aðeins skilin í samhengi þess sem síðar gerist eða í samhengi þess sem áður hefur gerst þess vegna er einmitt svo mikilvægt að reyna að tileinka sér æðruleysi og bjartsýni, ekki loka bókinni fyrr en hún endar. Í pistli dagsins sem kemur úr Jakobsbréfi segir: Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði, þessi orð hljóma eins og lykill að því að sjá lífið í samhengi og það er einmitt nokkuð sem ég held að við sem þjóð þurfum að fara að tileinka okkur betur, við erum sein til að hlusta en heldur fljót til reiði og það segi ég ekki af því að það sé með öllu ástæðulaust að reiðast þegar lífskjör skyndilega versna hjá þeim sem síst skyldi heldur vegna þess að það er svo mikilvægt að gera ráð fyrir að erfiðleikar séu tímabundnir og að þeir muni um síðir jafnvel skila manni einhverjum gróða, þó ekki væri nema þroskagróða. Það var ekki upplitsdjarfur hópur sem hlýddi á kveðjuræðu frelsarans frá Nasaret, mannsins sem var búin að gerbreyta heimsmynd þeirra og hugmyndum um líf og dauða, lífsgildi og von og svo var hann bara að yfirgefa þau. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. Og svo fór hann og ekki bara með hljóðlegum hætti heldur þjáningarfullum og hörmulegum og þau stóðu hjá skelfingu lostin og lífið virtist einskis vert, allt var unnið fyrir gíg. Þangað til þær komu að gröfinni og hann birtist þeim á leið til Emmaus og þau sáu að lífið með honum er líf í samhengi og gleðidagar tóku við og við lifum þá nú í kirkjunni okkar því svo kallast dagarnir milli páska og hvítasunnu og það eru sömu dagarnir sem opinberast okkur í birtu sumarsins þegar fuglarnir æfa kvæðin sín og grasið grænkar á leifturhraða. Hvers vegna skyldu ekki alltaf koma aftur gleðidagar í lífi okkar, hvers vegna ekki að gera ráð fyrir því? Heilagur andi er sá sem sér til þess að við förum ekki öll í sömu átt heldur mætumst í margbreytileika okkar , sér til þess að við lifum af í óbærilegum aðstæðum sér til þess að við sjáum hann ekki heldur skynjum af þvi að allt sem við sjáum höfum við tilhneigingu til að ráðstafa að eigin vilja og geðþótta en andinn heilagi blæs þar sem hann vill og við heyrum aðeins þyt hans. Foreldrar okkar eða þau sem ólu okkur upp af heiðarleika og góðum vilja, þau lifa ekki endalaust hér með okkur en allt það góða sem þau sáðu lifir áfram og oft einmitt þegar þau sjálf eru farin þá skiljum við hvað það var sem þau meintu og vildu og hvað það var sem skipti máli og þó að við fáum þá ekki tækifæri til að þakka í persónu þá gerum við það með því að greiða þeim gildum veg sem við vitum að hafa gert okkur að farsælum manneskjum. En svo er það hitt að sumir þurfa að sættast við að hafa yfirhöfuð ekki fengið samfylgd eða a.m.k ekki góða samfylgd með foreldrum og þurfa því að skynja persónu sína og viðbrögð í öðru samhengi, en hver svo sem uppruni okkar er þá eigum við eitt foreldri saman og það er Kristur, frummynd allra hinna bestu gilda sem yfirhöfuð finnast í einum uppalanda og við höfum lífsneista hans hjá okkur sem er andinn heilagi, andinn sem ég trúi persónulega að sé alltaf á réttum stað á réttu augnabliki og sjái til þess að við lifum af í aðstæðum sem virðast fyrirfram óbærilegar. Andinn sem sér til þess að enginn lifi til einskis, andinn sem sannar heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Andinn sem sér til þess að réttlætið sigrar að lokum, andinn sem gerir okkur hugrökk án þess að ræna okkur skynseminni, andinn sem hvetur okkur til að elska þó að lífið sé brothætt, andinn sem sér til þess að við hlökkum til morgundagsins þrátt fyrir alla hans óvissu. Já andinn sem lætur okkur mætast svo að við vitum af hvert öðru. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.