Jól í skugga sorgar

Jól í skugga sorgar

Aðventan og jólin er tíminn þegar öllum á að líða vel – eða svo teljum við. Og víst er þetta yndislegur tími þegar vel gengur. Um hver jól eru þó margir sem eiga erfitt með að gleðjast og fagna.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
05. desember 2011

Sr. Halldór ReynissonAðventan og jólin er tíminn þegar öllum á að líða vel – eða svo teljum við. Og víst er þetta yndislegur tími þegar vel gengur. Um hver jól eru þó margir sem eiga erfitt með að gleðjast og fagna.

Nýlega var sagt frá því í fréttum að þeir sem minnst hafa kvíða helst jólunum. Erfiðast er þó hlutskipti þeirra sem hafa misst náinn ástvin, þegar einn stóllinn við hátíðarborðið er auður. Fyrir þau sem syrgja eru jólin oft erfiðasti tími ársins, tíminn þegar við eigum að vera glöð en höfum ekki ástæðu til. Þegar hann eða hún er horfinn sem var hluti af jólagleðinni verður þessi tími gjarnan tími sársauka. Fyrir syrgjandann er meira að segja jólakveðjan „gleðileg jól“ gjarnan erfið. Jólin eru sjaldnast gleðileg í sorgarhúsi.

Hvað er til ráða?

Fjölskyldur í sorg þurfa að ræða um það fyrir fram hvernig halda skuli hátíðina. Á að halda hefðunum óbreyttum eða á að breyta þeim? Hvernig á að bregðast við þegar fólk óskar gleðilegra jóla?

Gott ráð er að gera aðeins það sem maður treystir sér til eða hefur gaman af – ekki það sem „ætti“ að gera. Það má sleppa jólakortunum og skreytingunum. Fyrir syrgjanda er líka eðlilegt að vera sorgmæddur um jól – og það er líka í lagi að gleðjast – það er engin óvirðing við minningu hins látna. Umfram annað er mikilvægt að vera góður við sjálfan sig; búast ekki við of miklu, hlusta á tilfinningar sínar, eiga hlustandi eyra eða öxl til að halla sér að. Hvíla sig. Þiggja hjálp annarra. Hugleiða boðskap jólanna um von.

Fyrir þau hin sem tengjast syrgjendum: „Ekki tjaldar sorgin til einnar nætur“ segir Hannes Pétursson skáld í einu ljóða sinna. Sorgarúrvinnslan tekur yfirleitt lengri tíma en við áttum okkur á, sérstaklega við erfiðan, ótímabæran eða snöggan missi. Verum styðjandi fyrir þau sem hafa misst – verum náungi þeim sem búa við sorg.