Guðfræði skiptir máli

Guðfræði skiptir máli

Sumir fræðimenn tala um Bolsonaro sem einn hættulegasta mann jarðar, svo hart gengur hann fram gegn regnskóginum.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
07. september 2020

Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro er trúaður maður. Hann er eins og margir landar hans undir miklum áhrifum frá vakningarhreyfingum sem hefur vaxið ásmegin undanfarna áratugi í Suður Ameríku. 

Frelsunarguðfræði

Slíkir söfnuðir hafa fyllt í ákveðið tómarúm sem myndaðist þegar rómversk kaþólska kirkjan í álfunni klofnaði í fylkingar í lok síðustu aldar. Aðdragandi þess var sá að leiðtogar innan kirkjunnar höfðu beitt sér fyrir félagslegum umbótum og vistvernd í ýmsum löndum álfunnar. Það var meðal annars fyrir tilstilli þeirra sem herforingjar hrökkluðust frá völdum í Brasilíu. 

Hugmyndakerfið sem knúði þessa hugsuði áfram, bæði innan háskólanna og kaþólsku kirkjunnar, er kallað frelsunarguðfræði. Hún gengur í meginefnum út á að baráttan fyrir guðsríkinu fari ekki síst fram hér á jörðu. Þökk sé starfi þeirra var hlúð að menntun og félagslegum þáttum meðal þeirra sem neðst stóðu í stöðnuðu stigveldi þessara landa. Umhverfismál brunnu á kirkjunnar fólki enda eru grimmdarverk gróðaaflanna óvíða jafn sýnileg eins og í Amazon frumskóginum. Félagsleg gagnrýni streymdi af vörum þeirra og krafan um langþráðar umbætur. 

Fyrirmyndina sóttu þeir í Biblíuna. Á fyrstu síðum hennar kemur fram sú afstaða að manneskjan sé sköpuð í Guðs mynd. Sú hugmynd átti sér nokkra hliðstæðu í trúarbrögðum nágrannaþjóða Ísraels en þar var það konungurinn sem átti að vera í guðlegri mynd. Af því að yfirvöld gátu auðveldlega villst af sporinu störfuðu spámenn í samfélaginu. Hlutverk þeirra var að minna á að ekkjan og munaðarleysinginn væru ekki síður mótuð í mynd hins almáttuga. Þetta orðar Kristur svo í Mattheusarguðspjalli á þennan hátt, er hann vísar í orð dómarans á hinum efsta degi: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gert mér.“

Guðfræðingar á borð við Gustavo Gutierrez, Leonardo Boff og Helder Camara biskup, létu ekki nægja að leggja fátækum og frumbyggjum lið. Þeir spurðu þeirrar óþægilegu spurningar hvers vegna auðnum væri svo misskipt í þessari ríku álfu. Sú guðfræði féll ekki í kramið í Vatíkaninu. Þeir voru fyrir vikið stimplaðir sem marxistar. Jóhannes II páfi og Ratzinger kardínáli, síðar Benedikt páfi, beittu sér gegn þeim með þeim afleiðingum að þeir misstu hljómgrunn sinn og trúverðugleika.

Vakningarguðfræði

Guðfræði skiptir máli og hana þarf að tengja við líf fólks hverju sinni. Í stað þeirra hugmynda að kirkjan eigi að standa fyrir róttækum umbótum á mannlífi og vistkerfi komu vakningarhreyfingar, einkum frá Bandaríkjunum sem breiddust ört út í álfunni. Forsetinn og fyrrum herforinginn, Bolsonaro eru dæmi um áhrifafólk sem heillast af þeirri hugmyndafræði sem er afar frábrugðin frelsunarguðfræðinni. Í vakningarguðfræði er velgengni álitin tákn um guðlega velþóknun og fátækum er gert að una við sinn hlut í von um betri heim að þessu lífi loknu.

Sumir fræðimenn tala um Bolsonaro sem einn hættulegasta mann jarðar, svo hart gengur hann fram gegn regnskóginum. Hann styður landeigendur í hvívetna. Gróðureyðingin er nú örari en nokkru sinni fyrr, þar sem auðugt lífríkið verður eldi að bráð og verður að lokum að bithaga fyrir nautgripi. Frumbyggjar eru hraktir á brott og baráttufólk er ráðið af dögum. Sjálfur talar forsetinn fjálglega um yfirvofandi heimsendi og sitthvað í orðum hans bendir til þess að hann sé jafnvel að flýta þeim endalokum með framferði sínu.

Misgóð guðfræði

Því hefur löngum verið haldið fram að trúarbrögð og hugmyndir fólks um æðri mátt hafi æ minni áhrif, jafnt á líf einstaklinga sem gang heimsmála, eftir því sem afhelgun og veraldarvæðing færist í vöxt. Reyndin er þó önnur og átrúnaður hefur síst minna vægi en áður var. Guðfræði er þó misgóð og misgagnleg. Hún er að því leyti sama marki brennd og hver önnur skipulögð hugsun, hver sú sýn sem fólk hefur á hið ásættanlega ástand og farsælt fyrirkomulag. 

Því fer fjarri að öll trú sé jafnsett og öll guðfræði leiði af sér blessun. Við lesum um það í guðspjöllunum að andstæðingar Jesú voru ekki útlendingar. Þeir voru ekki fólk sem játaði aðra trú og við aðra siði, heldur systkini hans af sömu þjóð sem voru alin upp við sama sið. Engir hafa líka gagnrýnt kristna trú með jafnáhrifamiklum hætti og kristnir guðfræðingar hafa gert í gegnum aldirnar. 

Sú gagnrýni heldur áfram og viðleitni okkar á að vera að bæta hag okkar minnstu systkina, þeirra sem eru rétt eins og allar manneskjur, sköpuð í mynd Guðs. Sá grunntónn er gefinn á upphafssíðum Biblíunnar og hann lifir áfram allt til okkar daga.

Pistill þessi birtist í Morgunblaðinu 2. september 2020