Trúarupplifun, trúarvissa og umhyggja Guðs

Trúarupplifun, trúarvissa og umhyggja Guðs

Ýmislegt í lífinu fær okkur til að standa á öndinni af undrun og lotningu. Fegurð landsins okkar er slík að ítrekað hef ég upplifað gleði og fögnuð, en einnig undrun yfir þeim furðum sem mæta mér í náttúrunni.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum. Mark 9.2-9

Ýmislegt í lífinu fær okkur til að standa á öndinni af undrun og lotningu. Fegurð landsins okkar er slík að ítrekað hef ég upplifað gleði og fögnuð, en einnig undrun yfir þeim furðum sem mæta mér í náttúrunni. Mögnuð eru fuglabjörgin á Hornströndum, þar sem engin tvö egg eru eins. Langvíur og álkur fljúga tugi og hundruð kílómetra á haf út, kafa tugi metra eftir æti og rata síðan beint á eggið sitt innan um hundruð þúsunda annarra eggja. Eða fögur á sem liðast milli grænna bakka með flúðum og fossum, með löxum sem vitja upprunastaðar síns eftir nokkur ár í hafi, er vitnisburður um hugvit og undur sköpunar Guðs. Kristinn maður gefur Guði dýrðina yfir sköpun hans og gleðst yfir gjöfum skaparans. Ennþá stórkostlegri og ógnvænlegri náttúruundur birtast okkur í eldgosum. Þá verður fátt um nógu sterk lýsingarorð til að greina frá þeim tilfinningum eða áhrifum sem gosið veldur. Ég minnist þess þegar fréttamaður stóð í námunda við gosið í Eyjafjallajökli og reyndi að lýsa tilfinningum sínum. Hann átti varla orð yfir mikilleik náttúrunnar og smæð mannsins í námunda við ógnarkrafta jarðarinnar. Sjónvarpsmenn sýndu myndir þar sem þeir óku gegnum öskufallið, svo myrkt var á miðjum degi. Óhugnað sló að þeim sem þar fóru um. Hinir kólgugráu skýstrókar náðu hátt til himins og lömuðu flug um alla Evrópu í marga daga. Þá var manneskjan minnt á smæð sína og máttleysi sitt gagnvart náttúruöflunum.

Mitt í þeim ósköpum treysti hver á sinn skapara og lausnara. Þar höfðu íbúar undir Eyjafjöllum styrk hver af öðrum, og þeim sem almannavarnir lögðu til af fagfólki. Þar komu margir að til að aðstoða og hjálpa. Þar voru stundirnar ekki taldar eða upp gefnar, heldur unnið meðan þurfti. Kirkjan var mitt á meðal með sitt fagfólk, sína presta. Þjóðkirkjan var að störfum með sína fyrirbæn og sálgæslu. Ég tel að halda þurfi því til haga þegar rætt er um aðskilnað ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan hefur tekið að sér að halda úti neti presta og annars starfsfólks um allt land, sem kemur að faglegum stuðningi við landsmenn, þegar áföll verða og slys. Í tilvikum eins og einu alvarlegu umferðaslysi geta margir prestar verið að störfum við að sinna aðstandendum víða um land, til að tilkynna um slysið og styðja ættingja. Prestar og starfsfólk safnaða og kirkna, sinna ekki eingöngu guðsþjónustum, skírnum eða jarðarförum eins og margir virðast telja. Starf kirkjunnar fer ekki hátt en heimasíður safnaðanna eru ágætur mælikvarði á það starf sem í boði er.

Guðspjallamennirnir Matteus, Markús og Lúkas greina allir frá ummynduninni. Þeir reyna að lýsa því sem gerðist. Jesús ummyndast og breytist fyrir augum þeirra. Markús talar um að klæðin hafi orðið hvítari en nokkur bleikir gæti hvíttað. Lúkas líkti breytingunni á andliti hans og klæðum við leiftur eldingar. En Matteus segir Jesú hafa ummyndast þannig að andlit hans hafi skinið sem sólin og klæðin lýst upp og orðið björt eins og ljós. Hvað sem gerðist, þá reyndu þeir að koma því í orð, til að lesendur gætu áttað sig á breytingunni sem varð á Jesú. Vissulega þekktu þeir hann, en þessa nótt gerðist það sem færði þá nær himninum en ýmislegt annað sem þeir höfðu séð og heyrt í fylgd hans. Á fjallinu fengu lærisveinarnir að upplifa guðlega, dýrlega hluti, sem sýndu þeim inn í himininn, en fyrst og fremst hver Jesús var í raun og veru. Trúarupplifunin var svo sterk og einstök að Pétur vissi ekki hvað hann átti að segja. Margir telja að ef þeir fái að reyna slíka hluti muni þeir trúa meir, fá meiri vissu og efinn muni þá hverfa eins og dögg fyrir sólu. Hér gildir reyndar að trúarupplifun einstaklinga er afar persónuleg. Það sem einum er trúarleg reynsla er öðrum tilviljun, því slík reynsla er túlkun hins trúaða sem sér líf sitt í hendi Guðs og leitt af honum. Ég tel að sérhver kristinn maður sem felur sig og sína góðum Guði fái að sjá og reyna gæsku hans.

Trúarvissa Árin sem Jesús þjónaði hér á jörð nýtti hann til að sýna fram á hver hann væri og með hvaða valdi hann kenndi og starfaði. Hann vildi sérstaklega hjálpa lærisveinum sínum að trúa og treysta sér. Hvort sem hann gaf blindum sjónina eða reisti unga stúlku frá dauðum vitnuðu kraftaverkin um mátt og kærleika Guðs. Þau vitnuðu einnig um að hann hefði vald yfir náttúrunni, væri með vald skaparans sjálfs. Hann lægði vind og öldugang með orði sínu, en hann gekk einnig á vatni án þess að sökkva. Hann breytti vatni í vín til þess að gleðja brúðhjón. Ræður hans og kennsla var ólík kennslu annarra. Hann kenndi um Guð og ríki hans með slíku valdi og þekkingu, að hjörtu þeirra sem á hlýddu voru snortin. Þau vildu fá meira að heyra um Guðsríkið og kærleika Guðs til mannanna.

Lærisveinarnir voru vottar hans og boðberar. Þeir kynntust honum betur en nokkrir aðrir. Að leiðarlokum höfðu þeir verið með honum dag og nótt í þrjú ár. Þeir Símon Pétur, Jakob og Jóhannes voru þó oftar með honum en hinir. Þeir fengu að skyggnast inn í líf Jesú á mikilvægustu stundum lífs hans. Við þekkjum a.m.k. þrjú tilvik þar sem þeir voru einir með honum. Það var þegar hann vakti dóttur Jaírusar frá dauðum, í Getsemane garðinum þar sem Jesús bað þá um að vaka með sér er hann háði bænabaráttu lífs síns. Þar var baráttan hörðust en veikleiki hinna þriggja mestur. Þeir gátu ekki vakað eina stund með honum. Og á ummyndunarfjallinu fengu þeir að sjá andlit og kæði Jesú óhjúpuð fyrir skini dýrðarinnar frá Guði. Hann ræddi við Móse og Elía, löngu látnar trúarhetjur, um burtför sína, dauðann á krossinum. Þessir þrír komust næst Jesú. Þess vegna vigta orð þeirra. Þeir voru sjónarvottar. Símon Pétur sem á tvö bréf í Nýja testamentinu, ritar í öðru þeirra um reynsluna á fjallinu. Hann segist hafa séð hátign Jesú. Enn fremur segir hann að rödd Guðs hafi borist frá hinni dýrlegu hátign. Það var honum gríðarlega mikilvægt að þeir sem hann boðaði trúna efuðust ekki um trúverðugleika þess sem hann fjallaði um. Hann vildi styrkja trúarvissu þeirra sem tóku við boðskapnum um Jesú Krist með því að minna á trúverðugleika fylgjenda hans.

Við kristnir menn höfum Guðs orð, Biblíuna, hið gamla trúarrit, auðugt og fullt af visku og vísdómi aldanna. Rauði þráðurinn í því er samskipti Guðs og lýðs hans. Móses færði lýð Guðs boðorðin tíu og lögmálið. Spámennirnir, líkt og Elía, leiddu lýð Guðs á rétta braut þegar hann hafði villst af leið. Fæðing Jesú Krists var uppfylling spádóma um Messías, hinn smurða Guðs, sem verða myndi konungur eða þjónn. Fæsta grunaði að hann myndi verða sameinaður í einum og sama manninum, því spádómarnir voru svo ólíkir. Í Nýja testamentinu er tekið saman það mikilvægasta og áreiðanlegasta sem ritað hefur verið um Jesú Krist, Messías Guðs. Bæði um ævi hans, þjónustu og síðustu daga. En þar eru einnig rit fylgjenda hans um fyrstu söfnuðina og bréf til þeirra. Eftir dauða hans og upprisu, stofnaði Guð kirkju sína fyrir úthellingu anda síns. Skilningur okkar kristinna manna er að kirkjan var orðinn hinn nýi lýður. Sjálfskilningur hinnar kristnu kirkju hefur tekið mið af áreiðanleika ritanna sem valin höfðu verið á fyrstu öldum kristininnar. Þau styrkja trúarvissuna um Guðs son frelsarann.

Það má færa sönnur á að áreiðanleiki ritanna er mikill. Það gerir hinn mikli fjöldi handrita sem hefur varðveist af Nýja testamentinu. Það er einnig vegna þess að tímaskeiðið milli ritunartíma og elstu varðveittu handrita er margfalt styttri en tími annrra handrita frá svipuðum tíma. Handrit sem notuð eru til grundvallar þegar saga mannkyns er rituð. Fleira mætti tína til ef það styrkti trúarvissu áheyrandans. En meira þarf til en sögur af Jesú og fræðileg rök til að leiða til trúar eða styrkja trúarvissu. Það eru áhrif Heilags anda Guðs sem staðfestir trúna í hjörtunum. Heilagur andi verkar á trúna, laðar og leiðir til trúar á Jesú. Það er stórkostlegt að heyra af fólki sem getur lýst því hvernig það fékk löngun til að kynnast Guði og nálgast hann. Safnaðarstarfið með messuna í brennidepli er farvegur fyrir trú okkar. Þar á trúarvissan að styrkjast og eflast. Jesús er Kristur sonur hins lifandi Guðs. Á ummyndunarfjallinu kom fram vilji Guðs með líf hans: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Trúarvissan kemur fyrir orð Guðs og Heilagan anda.

Umhyggja Þeir fengu að sjá inn í himininn og heyrðu rödd Guðs en fengu ekki að sjá hann sjálfan. Þegar kemur að lýsingum á Guði í Biblíunni komumst við að raun um, að Guð leyfir mönnum ekki að sjá auglit sitt, jafnvel ekki nánustu þjónum sínum. Enginn fær séð Guð og haldið lífi. Þess vegna sveipar hann sig skýi. Björtu skýi, segir Matteus, og lærisveinarnir hræddust mjög. Þó svo flestir upplifi kyrrð, frið og kærleika í nærveru Guðs, verða aðrir óttaslegnir. Það átti sér oft stað með lærisveinana þegar þeir lentu í erfiðum aðstæðum. En mitt í þeim ótta kom Jesús með umhyggju sína og kærleika. Er þeir litu upp var hann hjá þeim á fjallinu.

Guð elskar okkur og Jesús er bróðir okkar og frelsari. Í öllum kringumstæðum, sérstaklega þó er erfiðleikar steðja að, er gott og mikilvægt að eiga athvarf hjá góðum Guði sem hlustar og heyrir bænir. Það eru forréttindi að fá að kenna börnum bænir og fræða börn og fullorðna um trúna. Hvað er yndislegra en að fela lítið barn góðum Guði í kvöldbæn eins og:

Vertu yfir og allt um kring með eilífri blessun þinni. Sitji Guðs englar saman í hring sænginni yfir minni.

Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt. Hafðu þar sess og sæti, signaði Jesú mæti.

Hvað er hreinna og fegurra en trú barnsins sem biður og treystir? Við viljum gjarna að kristindómurinn sé hreinn og heilagur, rétt eins og hátignin og helgin var á ummyndunarfjallinu. Þar væri allt heilagt, hreint og ósnortið. Þannig er Jesús. En þannig er ekki daglegt líf. Við sem erum kristin og erum venjulegt þjóðkirkjufólk, vitum að í lífinu skiptast á fjallstindar og dalir, skin og skúrir. Annað er ekki án hins. Lífið býður ekki upp á einfaldar lausnir eða eilífðarsælu, tjaldbúðir, eins og Pétur stakk upp á. Við verðum að horfast í augu við lífið eins og það er með sjúkdómum og heilbrigði, dauða og lífi. Það jákvæða er að kristnir menn vita að í fylgd með Jesú Kristi, má fá leiðsögn og stuðning sem dugar vel. Megi umhyggja Guðs umvefja þig. Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er enn og verða mun um aldir alda. Amen.