Lífsins lind

Lífsins lind

Tveir menn deildu fangaklefa. Á klefanum var einn gluggi með rimlum fyrir. kvöld eitt sátu þeir, horfðu út um gluggann og hugsuðu sitt en það var sitt-hvað sem þeir hugsuðu. Á meðan annar starði út í sótsvart myrkrið þar sem ljósið af ljóskösturunum á fangelsismúrunum speglaðist í forarvilpunum og sökkti sér í sjálfsvorkunn og bölsýni, hóf hinn augu sín, naut þess að horfa á stjörnurnar glitra á flauelssvörtum kvöldhimninum og hlakkaði til þess dags er hann fengi gengið sem frjáls maður undir þessum himni.
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
08. apríl 2007
Flokkar

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!

Tveir menn deildu fangaklefa. Á klefanum var einn gluggi með rimlum fyrir. kvöld eitt sátu þeir, horfðu út um gluggann og hugsuðu sitt en það var sitt-hvað sem þeir hugsuðu. Á meðan annar starði út í sótsvart myrkrið þar sem ljósið af ljóskösturunum á fangelsismúrunum speglaðist í forarvilpunum og sökkti sér í sjálfsvorkunn og bölsýni, hóf hinn augu sín, naut þess að horfa á stjörnurnar glitra á flauelssvörtum kvöldhimninum og hlakkaði til þess dags er hann fengi gengið sem frjáls maður undir þessum himni.

Sömu aðstæður en tveir menn og tvenns konar upplifun, annars vegar vonleysi, hins vegar von.

Það er eflaust mismunandi hvers lags tilfinningar kveðja engilsins: Kristur er upprisinn! vekur hjá fólki. Hjá Maríunum tveim vakti hún bæði ótta og samtímis mikla gleði. Ótta andspænis hinum guðlega sendiboða, gleði vegna hinna góðu tíðinda sem hann færði þeim.

Aðstæður okkar eru aðrar en þeirra; við höfum meðtekið skilaboðin, sem María Magdalena og María hin færðu lærisveinunum, frá undanfarandi kynslóðum síðast liðinna tvö þúsund ára og erum því fjarri því að verða fyrir hinum beinu áhrifum sem orð engilsins höfðu á þær stöllur. Engu að síður höfum við fulla ástæðu til að gleðjast á þessum degi. Kirkjan hefur haldið gleði Maríanna lifandi í hartnær tvö þúsund ár með því að hún hefur boðað trúna á Krist Jesú reistan frá dauðum, á sigur lífsins yfir dauðanum, á gjöf eilífs lífs fyrir dauða Krists.

En hversu ljúfur væri ekki sá ótti, sem ásýnd engils vekti og gröfin tóm hvar Kristur hvíldi? Okkur, seinni tíma menn, skelfir kannski annað, sem hlýtur ávallt að vera fylgifiskur hinna mögnuðu og ótrúlegu tíðinda um upprisu Krists, en það er efinn, óttinn við að kannski sé það ekki satt. Og hvað þá? En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar, segir Páll postuli.

Hinn lífgefandi kraftur kristinnar trúar, sem við hljótum öll hlutdeild í í skírninni, er algjörlega fólginn í staðreynd hinnar tómu grafar. fyrirheitið um sigur lífsins yfir dauðanum og eilíft líf, byggir á henni.

Hinn upprisni Kristur er lind lifandi vatns, sem öllu kristnu fólki býðst að ausa af. Andspænis brennandi eyðimerkurhita óttans við dauðann, sem þurrkar upp lífsgleðina. Andspænis efanum sem vex sem þyrnirunn við vegkantinn og kæfir hvert vonarblóm sem þar reynir að skjóta rótum.

Kristur upprisinn er fljót lifandi vatns, óþrjótandi lífskrafts, sem Drottinn býður okkur að virkja. Stíflur og uppistöðulón eru óþörf, því uppsprettan er grundvölluð í vilja Guðs að eilífu og krafturinn er ávallt samur, óháður árferði. En það þarf auðvitað rafal, til að virkja orku flaumsins og hann hefur Guð þegar veitt okkur af náð sinni; það er hæfileikinn til að trúa og það þarf að halda honum við. Trúin er eins og hvert annað blóm sem þarfnast vökvunar. Efinn er ekki endilega slæmur og sumum spurningum verður maður að velta fyrir sér og leita svara við en þyrnarnir mega ekki kæfa liljur trúarinnar, það verður að halda þeim í skefjum, og helst nýta þá ávexti, sem þeir þó geta borið. Því við skyldum ekki gleyma því, að sumir þyrnar bera ljúffenga ávexti eins og t.d. brómber og þykja rósir ekki fegurstar blóma?

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!

Þetta er boðskapur páskadags, þetta eru skilaboð Guðs til okkar, sköpunar hans. Þetta er sú lífsins lind, á hverrar bökkum við vorum gróðursett er við vorum sem börn borin að skírnarlaug og skírð í nafni föður, sonar og heilags anda, og hlutum við það hlutdeild í upprisu Krists. Sr. Kristján Valur Ingólfsson orðar það þannig: „Ef ein gröf hefur opnast, eru þær allar opnar. Ef einn er risinn upp frá dauðum er hin nýja sköpun þegar hafin."

Er þá ekki ástæða til að gleðjast?

En síðan, þegar haustar í lífi sérhvers manns, og blómhnappurinn fellur af og stilkurinn hnígur að jörðu, þá verður manni óhjákvæmilega þungt fyrir hjarta og sorgin leggst á hugann sem héla á jörð; einmitt þá er dýrmætt að minnast þess, að sá sem maður elskar og saknar var í skírninni gróðursettur við lífsins lind og að þar, í bakka hennar, eiga rætur skjól og vakna í vori Guðs ríkis og fölna ei meir. Og fyrir það er ástæða til að gleðjast í sorginni og leyfa þeirri vissu að hugga.

Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn!

Gleðjumst því og höldum höfði hátt, horfum til himins og hlökkum til lífsins sem við eigum fyrir höndum, vonum hið góða en óttumst ekki hið slæma, höfum stjórn á efanum en ræktum trúna og treystum á kærleika Drottins og fyrirheit upprisunnar um eilíft líf.

Dýrð sé Guði, Föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.