Að breyta tímanum

Að breyta tímanum

Hvenær viltu fara á eftirlaun? Hvað um þrítugt? Kannski reglulega? Til hvers?
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
31. desember 2009

Birkilauf í norskum skógi - mynd: Sigurður Árni Þórðarson

Áramót veita tækifæri til að núllstilla, gera upp, stilla kompásinn og forgangsraða. Hvað skiptir máli og hvernig viljum við lifa? Hvernig getum við notað og notið þess tíma best sem okkur er gefinn? Eftilaunatími í fyrsta skipti um þrítugt!

Fyrir skömmu horfði ég á fyrirlestur á netinu um hvernig við gætum breytt lífsmynstrinu til að njóta lífsins betur, hagnýta frelsi okkar í þágu lífsgæða. Fyrirlesarinn minnti tilheyrendur á, að margir eiga þrískipta æfi. Fyrst koma bernsku- og náms-árin, oft nærri tuttugu og fimm ár. Síðan tekur við fjörutíu ára starfsæfi og þar á eftir koma eftirlaunaárin og ellin. Margir vilja fara snemma á eftirlaun til að geta gert það, sem þeim þykir skemmtilegt, taka því rólega, teygja úr tánum og slaka á. Er það sú skipan sem hentar? Fyrirlesarinn sagði frá því, að hann hefði ákveðið að fara aðra leið í eigin lífi, fara reglulega á eftirlaun en vinna þó lengi! Hvernig má það vera? Já, hann fór á efirlaun þegar hann var liðlega þrítugur, en aðeins í eitt ár. Svo tók við vinna í sjö ár og þá tók hann sér nýtt náðarár til að gera það, sem hann langði mest til. Hann tók sem sé ákvörðun um að taka sér alltaf ársleyfi á sjö ára fresti. Hann lokaði hönnunarstofunni sinni, sem hann rekur í New York, er þá búinn að safna fé til fríársins og allir á stofunni njóta leyfis.

Hvað ávinnst með því að dreifa eftirlaunaárunum yfir alla starfsæfina? Er þetta gerlegt og efirsóknarvert? Já, hvíldin er kærkomin og endurhæfing starfsgleðinnar mikil. Fjárhagslega hefur þetta gengið betur en hann hafði búist við því gæði vinnunnar urðu meiri en áður og annars hefði orðið. Svo fæst tími til íhugunar, lífsendurskoðunar, hamingjuræktar og til eflingar innri manns óháð hasar daganna.

Tími til eflingar

Ég varð hugsi við þessa sláandi íhugun. Ég nýt námstíma nú, sem ég nýti eins vel og ég get. Slíkur náðartími er ekki frí heldur þrautskipulagður til að andinn eflist, starfsþrekið vaxi, verkin gangi og markmið náist. Ég held að reglulegur eflingartími sé flestum nauðsynlegur rétt eins og við þörfnumst heilsuræktar líkamans. Við ættum að reyna að skipa málum æfi okkar svo að við getum notið hans. Mörgum, jafnvel flestum, er það mögulegt. Reyndar krefst það þess, að við rifum seglin, ákveðum að nota fjármuni til andlegrar iðju fremur en eignakaupa. En mig grunar að við æfilok telji fæstir, að eignir hafi skipt meira máli en andleg og óefnisleg lífsgæði. Stærsta sorg fólks er jafnan að hafa ekki átt fleiri stundir með sínum nánustu og við hið djúpsækna fremur en að hafa ekki náð að kaupa önnur tæki, farið fleiri lúxusreisur og keypt fleiri fyrirtæki eða fermetra.

Tímaskil gefa andrúm til íhugunar. Má bjóða þér að njóta eflingarárs reglulega? Þú mátt gjarnan svara með: “Já, takk.” Farðu yfir þessa hugmynd með fólkinu þínu og ræddu málið og taktu svo ákvörðun um fyrsta eftirlaunatímabil ævinnar! Þú getur hagað málum eins og þér hentar. Kannski eru þrír mánðir í fyrsta sinn hentugur tími, kannski hálft ár? Hið mikilvæga er að skoða og íhuga æfihrynjandi þína, hvernig þú vilt lifa, hvers þú óskar og hvað þú þráir. Þú þarft að setja þinn kúrs, nefna markmið þín og skipa í forgangsröð eins og allir aðrir.

Síðan er ráð að huga að lífi komandi árs. Þegar við hófum kyrrðardagastarf í Skálholti á níuda áratug síðustu aldar var það til að gefa fólki tök á að fara í hvarf, eiga kyrran tíma til að skoða æfigönguna, hvíla sig og eiga næði með Anda Guðs. Það er að ekki að fara á eftirlaun en það er að fara á hamingjuveg. Við þurfum að skoða lífskort okkar, ákvarða leið, huga að nesti og því sem gagnast okkur. Hvíld og næring skiptir máli. Við gerum ekki annað á meðan. Taktu frá tíma til innri vinnu, bæði á nýju ári og reglulega á æfinni. Má bjóða þér reglulegan unað, sjálfseflingu, lífsgleði? Regluleg starfslok eru valkostur og regluleg ræktun innri manns er allra manna þörf.

Guð fer ekki í frí, öll ár sem þér eru gefin er gæðatími. Guð kallar við tímaskil: “Til hvers lifir þú og fyrir hvað?” Þú svarar með lífi þínu. Guð geymi þig þegar þú breytir tímanum þér og þínum til góðs.