Ljós, líf og kærleikur.

Ljós, líf og kærleikur.

“Að brosa með hjartanu”. Það er djúp og tær merking í þessum orðum. Þegar hjarta tengist hjarta og brosið kemur óþvingað. Kærleikur tær og hreinn og allt lýsist upp.Það gerist til dæmis: þegar maður heyrir frásögnina hjá Lúkasi um fæðingu frelsara. Þurfti heimurinn og þarf heimurinn frelsara?
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
24. desember 2017
Flokkar

“Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Jesú Kristi.” Amen.

Gleðileg jól.

Hér erum við samankomin í friði, gleði, trú, von, kærleika og öllu góðu til að samgleðjast og minnast komu “frelsara” í heiminn.

Heyra, njóta, meðtaka og upplifa saman.

Hvert og eitt okkar einstakt með ólíka reynslu að baki og lífsáherslur en þrátt fyrir það í einingu, sem heild.

Nýverið bárust mér eftirfarandi skilaboð frá fermingarsyni og þekktum rappara:

“Hæ Siggi – langt síðan síðast.

Mig og félaga minn langar að taka eina mynd á morgunn inni í Kópavogskirkju fyrir tónleika, sem við erum að halda í Gamla bíói í vikunni.

Ég var að velta fyrir mér hvort við mættum kíkja við?”

Ég talaði síðan í síma við viðkomandi og spurði hann af hverju í ósköpunum hann vildi taka mynd af sér í kirkjunni til að auglýsa rapptónleika?

Þá svaraði hann mér með þunga og djúpri alvöru í röddinni.

“Siggi, það er af því að okkur þykir vænt um þessa kirkju.”
_______________________

Daginn eftir voru hér mættir nokkrir rapparar og fylgdarlið í myndatöku.

Margir bera hingað sterkar taugar, það er alveg á hreinu.

Það finnur maður oft á margvíslegan hátt.

Fyrir tveimur vikum héldu til dæmis: félagar í Lionsklúbbi Kópavogs skötuveislu og allur ágóði af veislunni rennur til endurbóta á steindum gluggum Gerðar Helgadóttur.

Og ekki er það bara kirkjan sjálf, byggingin og sérstök lögun hennar heldur einnig það starf, sem hér er unnið, sem skiptir mjög miklu máli og þarf að hlúa stöðugt að með hlýju og einlægni hjartans.

Þar koma að fjölmargir og seint verður fullþakkað allt þeirra góða og einstaka framlag.

Djákninn, kirkjuvörðurinn, iðnaðarmenn, sjálfboðaliðar, sóknarbörn, sóknarnefnd, kirkjugestir, tónlistarfólk Kór Kópavogskirkju, Skólakór Kársnes og kantorinn okkar.

Eitt aðventukvöldið um daginn fylgdist ég með hluta af æfingu hjá Kór Kópavogskirkju.

Þau voru að æfa: Hátíð fer að höndum ein.

Lenka, kantor sagði að þau yrðu að:

“brosa með hjartanu”, þegar þau væru að syngja um ljósið, sem kæmi inn í dimmuna og lýsti þannig allt upp.

“Að brosa með hjartanu”.

Það er djúp og tær merking í þessum orðum.

Þegar hjarta tengist hjarta og brosið kemur óþvingað.

Kærleikur tær og hreinn og allt lýsist upp.

Það gerist til dæmis: þegar maður heyrir frásögnina hjá Lúkasi um fæðingu frelsara.

Þurfti heimurinn og þarf heimurinn frelsara?

Höfum við þetta ekki á valdi okkar, allt “undir kontról” með öllum heimsins tækjum og tólum?

Nei það gerum við ekki.

Þessi heimur þarf meiri kærleika, meiri von, meiri frið, meira traust.
_______________________

Kirkja Wilhjálms keisara í Berlín í Þýskalandi var sprengd upp að stærstum hluta í seinni heimstyrjöldinni.

Sá hluti kirkjunnar, sem ekki eyðilagðist stendur enn þá til að minna á þann hræðilega veruleika, sem átti sér stað í Þýskalandi og víðar í seinni heimsstyrjöldinni.

Nokkrum árum síðar var reist við hliðina á rústunum svokölluð “Bláa kirkja”.

Blátt gler kirkjunnar varpar sérstökum lit á allt í kirkjunni.

Þar inni er meðal annars: kolaskissa af Maríu mey, þar sem María umvefur Jesú í fanginu.

Á myndina er skrifað stórum stöfum:

“Ljós, líf og kærleikur”.
Við hlið myndarinnar er steinn með tilvitun úr 1. Jóhannesarbréfi 5:4:
“því að sérhvert barn Guðs sigrar heiminn og trú okkar er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn” 

Maríumyndin er kölluð:

“Madonnan frá Stalingrad” og er eftir Kurt Reuber, sem var guðfræðingur, prestur, myndlistamaður og læknir.

Reuber starfaði fyrir stríð, sem prestur í söfnuði á uppgangstíma nasista.

Hann deildi á þá og hugmyndafræði þeirra og aðferðir og var tekin í yfirheyrslur út af orðum sínum.

Í seinni heimstyrjöldinni starfaði Reuber, sem skurðlæknir í þýska hernum meðal annars í orustunni um Stalingrad (nú Volograd) í Rússlandi.

Það var ein sú mannskæðasta og um leið mikilvægasta orrusta í seinni heimsstyrjöldinni á milli Sovétríkjanna annars vegar og Þjóðverja og nokkurra bandamanna þeirra hins vegar.

Í nóvember árið 1942 voru Þjóðverjar umkringdir í borginni af Sovétmönnum og algjör ósigur framundan.

Hermennirnir höfðust við í kjöllurum og rústum í brunagaddi og frusu margir til dauða.

Í bréfi, sem Reuber skrifaði til fjölskyldu sinnar á þessum tíma sagðist hann hafa ákveðið að teikna mynd af móður og barni.

Með því vildi hann gefa fólki von í öllum stríðshörmungunum.

Reuber gerði sér grein fyrir að þrátt fyrir menntun sína þá gæti hann lítið gert til að lina þjáningar alls staðar í kringum sig.

En hann vissi efalaust að við getum ýmislegt gert hvert og eitt okkar með þeim náðargjöfum, sem okkur eru gefnar.

Reuber teiknaði myndina við mjög frumstæðar aðstæður, rýmið lítið, birtan sama sem engin, og myndin var teiknuð á bakhlið landakorts af Rússlandi.

Andlit móðurinnar, Maríu er friðsælt og snýr að barninu og hún heldur utan um andlit þess með höndunum.

Þegar maður horfir á myndinni, móður og barn hjúfra sig að hvort öðru eru útlínur þeirra hjartalaga en hjartað er tákn kærleikans.

Og svo orðin, sem rituð eru á myndina: ljós, líf og kærleikur, ramma hana inn og lýsa djúpri von á tímum myrkurs, dauða og haturs.

Reuber hengdi myndina upp á áberandi stað þannig að hún blasti við hermönnunum.

Á aðfangadagskvöld söfnuðust þýsku hermennirnir saman og þegar þeir óskuðu hvor öðrum gleðilegra jóla var sprengju varpað á íverustaði þeirra.

Reuber greip í læknatöskuna og fór á sprengjusvæðið til að hlúa að þeim slösuðu.

Staðurinn, þar sem myndin af Maríu og Jesú hékk varð að aðgerðastöð til að sinna hinum slösuðu.

Sorgin var yfirgengileg og það var aðfangadagskvöld.

9. janúar árið 1943 þegar ljóst var að undankomuleiða var varla auðið gaf Reuber slösuðum yfirmanni deildarinnar myndina en þá var verið að færa yfirmanninn af svæðinu til lækninga.

Reuber var tekinn til fanga og færður í fangabúðir í Sovétríkjunum.

Á aðventunni þetta sama ár skrifaði Reuber úr fangabúðunum konu sinni og móður bréf þar sem hann velti stöðunni fyrir sér.

Að það væri von eftir heimsstyrjöldina þegar nasistar yrðu sigraðir og Þýskland fengi tækfæri til að losna undan ánauð þeirra.

Reuber náði ekki að upplifa þann dag, hann lést í fangabúðunum 20. janúar árið 1944, rétt fyrir stríðslok.
6000 af þeim 95000 þúsund þýsku hermönnum, sem tóku þátt í stríðinu um Stanlíngrad snéru aftur heim.

Fjölskylda Reuber gaf síðan myndna til Wilhjálms keisara kirkjunnar í Berlín þegar reist var ný kirkja við gömlu kirkjuna.

En kirkjan var endurreist, sem tákn um von og endurmat.

Myndin hans Reubers var gerð við ömurlegar aðstæður í miðri heimsstyrjöld þegar ljósið, lífið og kærleikurinn virtust svo fjarri.

Madonnan frá Stalingrad minnir þann, sem hana sér á stríðshrylling en er um leið sterkt ákall um frið á tímum ógnar, lyga og valda ójafnvægis.

Myndin er líka staðfesting á trúarafstöðu manns, sem samþykkti köllun sína og lifði allt sitt líf við að þjóna samferðarfólki sínu hér á jörð.

Og orðin úr 1. Jóhannesarbréfi:

“því að sérhvert barn Guðs sigrar heiminn og trú okkar er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn” 

eru eins og brú sem getur leitt fólk úr ólíkum áttum til að endurmeta og endurskoða jafnvel á frekar friðsömum tíma að friður er eitthvað, sem verður alltaf að hlúa að og sinna og má aldrei gleymast.

Engillinn sagði við þá:

„Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: 

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.” 

Leyfum hjartanu að ráða, látum það rýma myrkri í burt.

Leyfum ljósinu, ljósinu eilífa og helga að lýsa og gleðja.

Megi jólin gefa þér og þínu yl og birtu, trú, líf og stöðugan kærleika.

“Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda“. Amen.