Tómhyggja og tilgangur

Tómhyggja og tilgangur

Slíkar spurningar voru hluti af ævistarfi Páls Skúlasonar heimspekings, en hann er einn þeirra sem kvaddi okkur á þessu ári. Í nýútkominni bók sem geymir ritgerðir hans og hugleiðingar við ævilok tekst hann á við þessar andstæður tómhyggju og tilgangs.

Það er nú meira flandrið á okkur alltaf hreint, þó við veitum því sjaldnast eftirtekt. Það er helst á tímamótum sem þessum, að við leiðum hugann að þeirri staðreynd að við erum aldrei kyrr. Nei, þetta er ekki heimsósómaræða um asasótt nútímans, bara blákaldar staðreyndir um heiminn sem við erum hluti af.

Geimfarar

Ekki aðeins æðum við um sólina og klárum einn hring á einu ári. Og ekki aðeins snúumst við í kringum miðju jarðar, á því sem við köllum því villandi nafni, sólarhring. Þetta er bara brot af hreyfingu plánetunar okkar sem á sér stað óháð öllum okkar þönkum og hvunndagsraunum frá degi til dags. Við fylgjum sólinni okkar á ferð hennar um miðju vetrarbrautarinnar á 240 km. hraða á sekúndu. Sjálf er vetrarbrautin enn á ógnarferð um víðáttur himingeimsins, borin áfram af þeim kröftum sem losnuðu úr læðingi við miklahvell. Ekki er hlaupið að því að ákvarða hraðann á henni, með öllum sínum furðum og undrum, en hann hleypur á tugum þúsunda kílómetra á sekúndu hverri.

Það gefur því auga leið, að á þessum fáu andartökum sem ég hef talað erum við á allt öðrum stað en við vorum þegar ég hóf mál mitt. Við erum öll geimfarar!

Séð úr mikilli fjarlægð er jörðin eins og rykkorn í víðáttunum miklu. Þetta er auðvitað önnur mynd en blasti við forfeðrum okkar sem vissu ekki betur en að þeir væru í einhverjum skilningi miðja alheimsins. Fyrir daga endurreisnar, vísindabyltingar, upplýsingar og allra þeirra uppgötvana á síðustu tímum, var meira samræmi í öllu, meiri glóra og skipan sem byrjaði einhvers staðar í sálu einstaklingsins og opnaðist svo eftir hverju himinhvolfinu á fætur öðru eftir því sem ofar dró. Smám saman færðumst við fjær miðjunni, skiptum æ minna máli í tíma og rúmi og það sem meira er, eftir því sem þekking okkar hefur vaxið, þeim mun fleiri verða spurningarnar. Nú erum okkur betur ljós óvissan, vanþekkingin, þær endalausu áskoranir sem bíða mannshugans um ókomna tíð.

Það er magnað að leiða hugann að því að virtir fræðimenn á okkar dögum halda því fram af fullri alvöru að mögulega sé okkar alheimur aðeins einn af ótalmörgum. Já, sú var tíðin að menn töldu að mannkyn myndi fyrr en síðar öðlast alla þekkingu á leyndardómum heims og lífs en vart á sú skoðun mikinn hljómgrunn á okkar dögum. Engu að síður reynum við að fanga veruleikann í eitthvert merkingarbært samhengi. Tölum um sólarhring þótt sólin ferðist allt annan hring. Íslenska orðið ,,hugtak” lýsir því svo vel þar sem hugurinn fangar óreiðuna og býr henni eitthvert skiljanlegt samhengi.

Tilgangur í glundroða

Áramót hafa frá fornu fari verið tíminn þar sem maðurinn hefur unnið með þessar andstæður reglu og glundroða. Vel má vera að hávaðinn og þrumugnýrinn á himnum eigi rætur að rekja til slíkra siða en fátt sameinar þetta tvennt jafn vel eins og flugeldaskothríðin sem lýsir upp himininn. Hún er í senn, óður til óreiðunnar með hávaða og látum en á sama tíma eins og sigurtákn um það hvernig maðurinn hefur beislað sjáldan eldinn, þessa frumskepnu. Hversu tilkomumikið er að horfa á hann birtast í öllum þessum formum og reglu á næturhimninum og hugleiða á sama tíma mátt okkar og megin?

Er ekki þessi viðleitni okkar að skapa reglu og skipan, þar sem við æðum um í ógnvekjandi víðáttum himingeimsins, með sama hætti tilraun til að miðla þeim boðskap til okkar sjálfra að við sjálf skiptum máli? Að heimurinn sem blasir við sjónum okkar og býr í huga okkar sé á einhvern hátt þrunginn merkingu þótt veruleikinn virðist svo firrtur öllu því sem kann að heita tilgangur og markmið?

Slíkar spurningar voru hluti af ævistarfi Páls Skúlasonar heimspekings, en hann er einn þeirra sem kvaddi okkur á þessu ári. Í nýútkominni bók sem geymir ritgerðir hans og hugleiðingar við ævilok tekst hann á við þessar andstæður tómhyggju og tilgangs. Hafa hlutirnir nokkra merkingu í sjálfum sér? hefur lífið nokkurn tilgang? Er það ekki blekking að ætla að við getum svarað þeim spurningum játandi, þegar það blasir við okkur hversu smá við erum og virðumst áhrifalaus í hinu stóra samhengi? Páll svarar því til að sú sé vissulega raunin upp að ákveðnu marki - en þá sé það hlutverk okkar sjálfra að gefa lífinu merkingu. Ábyrgðin sé í rauninni okkar sjálfra og án okkar væri merkingin ,,umkomulaus” eins og hann kemst að orði.

Líf okkar, er samkvæmt þessu, þeim mun mikilvægara eftir því sem geimurinn virðist dekkri og kaldari. Ef við öxlum ekki þessa ábyrgð er merkingin horfinn og tilgangurinn glataður. Hann byggir á því að þroskast, rækta lífið, hlúa að vináttunni, sinna þeim sem undirokaður er, gæta réttlætis. Ef heimurinn er slík óreiða, hversu stór er þá okkar ábyrgð að kalla fram skipan og ærlega reglu?

Ég ætla ekki að gera Páli upp kristnar lífsskoðanir. Hann talar um Guð og finnur honum stað í hinu óskiljanlega tómarúmi sem mannshugurinn getur ekki gert sér nokkra mynd af, en er engu að síður sá vettvangur þar sem öll sköpun verður. Páll segir í því framhaldi að þetta sé ekki Guð kristninnar sem sé persónugerður. En sú persóna sem Biblían boðar að birti okkur kærleika Guðs, Jesús Kristur, er þó aðeins ein hlið á Guðdómnum. Biblían er skýr með það að innsta eðli Guðs er okkur með öllu hulið og enginn getur sett sig inn í óravíddir þess leyndardóms. Lúther gagnrýndi miðaldakirkjuna einmitt fyrir að búa til sigurverk af heiminum þar sem öllu var haganlega fyrirkomið og talaði um að veruleikinn yrði aldrei opinberaður okkur í sínu sanna eðli. Tilveran birtist okkur aðeins svo sem í skuggsjá, eins og postulinn, nafni heimspekingins sagði. Sú uppgötvun held ég að hafi fylgt hverjum sigri vísindanna þar sem þau hafa rýnt í ráðgátur heimsins. Þau skilja okkur blessunarlega eftir með fleiri hugarbrot og enn stærri og flóknari mynd af þessu stóra samhengi sem við erum hluti af.

Sjóndeildarhringurinn

Já, nú er gamlárskvöld og jörðin okkar heldur áfram ferðalagi sínu um óravíddir heimsins. Og sjálf höfum við gert næfurþunna skel hennar að okkar bústað. Þar hlotnast okkur að taka þátt í brotabroti af þessu langa ferðalagi. Við leitum merkingar og tilgangs. Ef við höfum ekkert slíkt erum við eins og áttaviltir ferðalangar. Við spyrjum stórt og hugsum stórt þótt sjálf séum við smá og lifum stutt.

Mitt í þeirri leit okkar birtist okkur boðskapur Biblíunnar sem talar til fólks sem rýnir út í sortann og reynir að fá botn í tilveruna. Þar umvefur okkur það afl sem Páll ræddi hvað eftir annað í leit sinni að fótfestu. Það er kærleikurinn. ,,Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?” svona spyr postulinn í pistli gamlársdags. Já, við gætum öll verið eins og sláturfé, en Guð opnar okkur faðminn og endurtekur erindið á hverri síðu ritningarinnar, að við lifum ekki til einskis, við vinnum fyllsta sigur í krafti þess sem elskaði okkur. Í Harmljóðunum segir að náð Guðs sé ný á hverjum degi og trúfesti hans sé sá klettur sem við getum byggt líf okkar á. Loks er það guðspjallið þar sem talað er um ávexti fíkjutrésins sem ekki komu fram, ár eftir ár leitaði eigandi þess ávaxtar en ákvað að bíða eitt ár enn.

Það er síður en svo bundið við heimspekinga að leita svara við stórum spurningum. Slíkt er lífsverkefni hverrar manneskju. Í kirkjunni mætum við fólki sem er með slíkar spurningar á vörunum. Við hlustum á þeirra svör, þeirra vangaveltur og gefum hverri rödd sinn hljóm. Slíkt er eðli þjóðkirkju og hér í Neskirkju erum við sérstaklega upptekin af því að vera vettvangur fyrir slíkt samtal. Okkar framlag til þess er hið tilgangsríka og merkingarbæra líf sem bíður þess sem hlustar á rödd Guðs sem talar frá síðum Biblíunnar og talar í gegnum samvisku okkar og hjarta. Þótt flandrið á okkur sé hreint með ólíkindum, erum við sjálf, í miðju þess sjóndeildarhrings sem er umhverfis okkur, hvert og eitt. Og þaðan sprettur allt okkar starf og sá ávöxtur sem við skilum af okkur á lífsins leið.

Megi komandi ár verða okkur ríkt að innihaldi og blessun.