Biðjandi þjóð í vanda

Biðjandi þjóð í vanda

Er það satt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs? Þetta fjórpróf endurspeglar vilja Guðs, sem er hið góða, fagra og fullkomna. Það er fögur þjónustuhugsjón sem liggur hér að baki. Og þetta er kristin trú í verki.

Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð? Lík er hún börnum sem á torgum sitja og kallast á: Vér lékum fyrir yður á flautu og ekki vilduð þér dansa. Vér sungum yður sorgarljóð og ekki vilduð þér syrgja. Jóhannes kom, át hvorki né drakk, og menn segja: Hann hefur illan anda. Mannssonurinn kom, át og drakk, og menn segja: Hann er mathákur og vínsvelgur, vinur tollheimtumanna og bersyndugra! En spekin sannast af verkum sínum.“

Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gert flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki tekið sinnaskiptum. „Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gerst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gerðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú, Kapernaúm. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gerst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gerðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér.“ Matteus 11.16-24

Við skulum biðja:

Vertu, Guð faðir, faðir minn í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni.

Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Guðspjall dagsins fjallar um vonbrigði Jesú með þjóð sína. Hann segir að hún hagi sér eins og börn sem eru að leik. Hún sýni ekki mikil þroskamerki, heldur sé hún með yfirlýsingar á borð við þær að Jóhannes skírari hafi verið veikur á geði þar sem hann hafi ekki drukkið vín og jafnframt neitað sér um fæðu oft á tíðum. Jesús segir, að þjóðin hafi sýnt honum sjálfum sömu dómhörkuna. Hann mætti ekki gleðjast með glöðum og taka þátt í veislum, þá segði hún að hann væri mathákur, vínsvelgur og vinur stórsyndara.

Jesús heldur áfram í guðspjallinu og ávítar íbúa þriggja borga er stóðu við Galíleuvatnið, þar sem hann hafði framkvæmt mörg kraftaverk. Fólkið hafði ekki snúið sér til Guðs þrátt fyrir þessi dásemdarverk sem hann hafði gert. Í ljósi þess segist hann dæma borgirnar Kórasín og Betsaída vegna þess að fólkið hafi hvorki iðrast synda sinna né auðmýkt sig frammi fyrir Guði. Hann segir, að íbúum Kapernaum hafi hlotnast mikill heiður. Jesús er sár út í þetta fólk. Hann nefnir Sódómu í þessu sambandi og segir, að sú syndum spillta borg sé hátíð í samanburði við Kapernaum.

Þetta er hörð ræða, enda eru þetta eru dómsorð Jesú. Sonur Guðs er að dæma hegðun og líferni fólks sem lifði fyrir 2000 árum. Ef til vill finnst einhverjum að það sé svo langt um liðið að það sé best að gleyma þessum orðum. Þau séu menningarsögulega skilyrt og eigi því ekki við nú á dögum. En bíðum við. Hefur mannlegt eðli eitthvað breyst á þessum tíma? Er mannlífið fegurra í dag? Eru færri syndir drýgðar?

Ég leyfi mér að fullyrða, að þessi orð Jesú eigi fullt erindi við okkur, þrátt fyrir þessi tvö árþúsund sem skilja á milli okkar og þessara íbúa hinna þriggja borga.

Skyldi Jesús vera ánægður með íslenska þjóð um þessar mundir? Eða hefur hann orðið fyrir vonbrigðum með hana? Erum við eitthvað betri en íbúar Kórasín, Betsaída og Kapernaum? Höfum við iðrast synda okkar og auðmýkt okkur frammi fyrir Guði? Svari hver sig.

Hins vegar er það staðreynd, að þjóðin hefur trúað á Krist frá upphafi Íslandsbyggðar. Fyrstu sporin sem stigin voru hér á landi voru spor írskra einsetumanna. Þeir trúðu á Krist krossfestan og upprisinn. Það gerði einnig Auður djúpúðga Ketilsdóttir, landnámskonan í Hvammi í Dölum. Hún hafði sitt daglega bænahald í Krosshólum skammt frá bæ sínum. Hún var skírð og vel trúuð. Á Krosshólum lét hún reisa krossa að sögn Landnámubókar. Í Hvammi var fljótlega reist kirkja í kaþólskum sið. Hún var helguð Guði, Maríu guðsmóður, Jóhannesi skírara, Pétri og Jóhannesi postulum, Ólafi Noregskonungi, Þorláki biskupi og Maríu magdalenu. Auður djúpúðga er ættmóðir Sturlunga, og í Hvammi fæddist Snorri Sturluson.

Ég átti þess kost fyrir skömmu að vitja Krosshóla eða Krosshólaborgar, ásamt fleira fólki, þessa helga bænastaðar og njóta náttúrufegurðar Dalasýslu, en þar eru söguslóðir Laxdælu. Önnur þekkt kristin kona sem getið er um í þeirri ágætu bók er Guðrún Ósvífursdóttir. Hún var fædd og uppalin á Laugum í Sælingsdal. Hún var mikil trúkona og gerðst síðar á ævinni nunna, fyrst kvenna á Íslandi.

Þessar tvær konur eru dæmi um Íslendinga sem hafa fylgt Kristi og átt samfélag við hann. Kynslóðirnar hér á landi eru orðnar margar sem hafa gert hann að förunauti lífsins. Það er stórkostlegt að hugsa til þess, að nafn Krists hefur verið ákallað á þessari eyju í allan þennan tíma, í tólf hundruð ár. Í ljósi þess getum við sagt að landið sé sérstaklega merkt honum. Meira að segja nafn þess. Sumir fræðimenn halda því fram að nafn landsins, Ísland, hafi upphaflega merkt „land Guðs“ en ekki land íss og kulda. Mér finnst gott að hugsa til þess að merking Íslands gæti hugsanlega verið „Guðslandið,“ enda er það svo í raun og veru í vitund okkar Íslendinga. Landið okkar sem hefur notið verndar Guðs og blessunar í allan þennan tíma. Einstök náttúrufegurð þess og víðerni. Guð hefur gætt okkar vegna þess að þjóðin hefur fylgt honum. Heitar og innilegar bænir genginna kynslóða hafa stigið upp til Guðs í aldanna rás. Við njótum þess í lífi okkar. Blessun hefur hlotast af þessari trúariðkun. Foreldrar hafa beðið og biðja fyrir börnum sínum. Börnin biðja sömuleiðis fyrir foreldrum sínum. Fyrirbænin er svo mikilvæg. Við þurfum að mynda stóran bænahring á Íslandi, þannig að kristið fólk í þéttbýli og dreifbýli, með ströndinni og inn til dala myndi bænakeðju. Biðjandi þjóð í vanda. Við þurfum að hneigja höfuð okkar og biðja Guð um leiðsögn. Það gerðu fyrri kynslóðir.

Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að Drottins náð.

Svo orti sr. Hallgrímur forðum. Á hans tíma voru margs konar erfiðleikar til staðar eins og á okkar dögum. Þá sem nú var það bænin sem gaf styrk og blessun. Hana má ekki vanrækja. Hún er svo mikilvæg að hún hefur stundum verið nefnd “andardráttur trúarinnar. Sr. Hallgrímur segir: „þá líf og sál er lúð og þjáð.“ Þessi orð eiga við í dag, á krepputímum. Líf og sál þjóðarinnar er „lúð og þjáð.“ Og það er reynsla margra um þessar mundir. En bíðum við. Missum ekki móðinn! Við getum verið hughraust vegna þess að við eigum þennan dýrmæta lykil. Hann er í hendi okkar. Bænin er lykill að „Drottins náð.“ Þjóðin getur opnað með þessum lykli dyrnar að náð Drottins, sem er stórkostlegt. Við, ég og þú, höfum því lykilinn að þessum „dyrum.“ Og hvað gerist við það að opna þessar náðardyr? Birtan flæðir inn í líf okkar, blessun Guðs og kærleikur umlykur okkur.

Bænin er þetta tæki sem Guð gefur okkur. Við skulum vera dugleg að nota þetta einstaka tæki sem okkur er gefið og hafa samband við skapar okkar og lausnara og baða okkur þannig í upprisusól hans. Þetta er það besta sem við getum óskað okkur, að Ísland, að þjóðin verði böðuð í upprisusól Jesú Krists, að birtan hans lýsi yfir landið okkar góða og fagra. En það gerist aðeins með því móti að við séum samhuga í bæninni, að við fyllum kirkjur okkar og safnaðarsali og lofum Guð í helgidómi hans, eða eins og Páll postuli segir:

“En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú, til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.” (Róm. 15.5).

Það var þetta sem íbúar Kórasín, Betsaída og Kapernaum vanræktu. Þeir gleymdu Guði og voru uppteknir af tímanlegum og jarðneskum hlutum. Þetta gerðu þeir þrátt fyrir öll dásemdarverkin sem Kristur hafði gert meðal þeirra. Andsvar þeirra var hroki og stærilæti. Þeir létu óheiðarleikann og græðgina ráða ferðinni.

Það er auðvelt að falla í sömu gryfju og íbúar þessara borga. Við skulum forðast það. Það getum við líka gert með Guðs hjálp. Ef við leyfum honum að móta okkur, styðja okkur og styrkja. Það gerist með bæninni eins og fyrr sagði. Það gerist með trúarvakningu. Við þörfnumst vakningar á Íslandi! Þjóðin þarf að vakna til vitundar um mikilvægi lifandi trúarsamfélags. Mikill meirihluti þjóðarinnar er skírður og fermdur. Grunnurinn hefur verið lagður. Og það eru vissulega margir sem hafa eignast lifandi trúarsamfélag við Jesú Krist. En við þurfum fleiri einstaklinga í hópinn. Kristindómurinn er ekki bara eitthvert menningarlegt fyrirbæri, góð siðfræði, fallegur kærleiksboðskapur. Kristindómurinn er líf, en ekki bara bókstafur eða orð á blaði. Líf í samfélagi við Drottin Jesú Krist, sem er lifandi frelsari. Það er þetta samfélag sem er svo óendanlega dýrmætt. Börnin í sunnudagaskólanum skilja þetta vel og syngja um það:

Jesús er besti vinur barnanna. alltaf er hann hjá mér, aldrei fer hann frá mér, Jesús er besti vinur barnanna.

Þetta er kjarni máls. Við erum öll börn Guðs. Þess vegna á þessi barnasöngur við okkur öll. Aldur okkar skiptir ekki máli frammi fyrir Guði, heldur trúarafstaða okkar, einlægni og hjartalag. Höfum við tekið má móti gjöfinni góðu sem trúin er, eða ekki? Við þurfum að eignast einlægni barnsins í þessu sambandi, enda segir Jesús: „...hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma.“ (Markús 10.16).

Þegar við höfum tekið afstöðu með Kristi breytist mælikvarði okkar á rétt og rangt og gildismatið verður annað. Við hættum að eltast við fánýta hluti og horfum yfir lífið af nýjum sjónarhóli, eða eins og sr. Matthías kvað:

Ég elti skugga, fann þó sjaldan frið, uns fáráð öndin sættist Guð sinn við.

Þegar við sættumst við Guð líður okkur vel vegna þess að samband okkar er uppbyggilegt og nærandi. Innantómur hégómi skiptir ekki lengur máli, heldur aðrir hlutir sem hafa varanlegt innihald og merkingu. Dæmi um þannig hluti er fjórpróf Rótarýmanna sem hvílir á kristnum grunni. En það hljóðar svo:

Er það satt? Er það drengilegt? Eykur það velvild og vinarhug? Er það öllum til góðs?

Þetta fjórpróf endurspeglar vilja Guðs, sem er hið góða, fagra og fullkomna. Það er fögur þjónustuhugsjón sem liggur hér að baki. Og þetta er kristin trú í verki. Þessi þjónustuhugsjón á sér fyrirmynd í sögunni af Miskunnsama Samverjanum, sem er alþekkt, og hefur lengi mótað afstöðu kristins fólks til náungans. Heilög ritning minnir okkur á mikilvægi þess að framganga sem kristnar manneskjur í þessum heimi. Jakob postuli segir: „Verið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ (Jak.1.22). Hann bætir við og segir: „Eins er líka trúin dauð í sjálfri sér, vanti hana verkin.“ (Jak.2:17). Ef vel á að vera þá ætti kristin manneskja að finna innra með sér knýjandi þörf fyrir því að auðsýna náunga sínum kærleika og umyggju vegna samfélagsins við frelsarann. Það er ekki nóg að játa trúna, við þurfum einnig að láta verkin tala.

Við skulum biðja Guð að gefa okkur þessa lifandi trú sem leitar út á við. Slík trú er kröftug og sigrandi. Hún er eftirsóknarverð. Því fleiri sem eignast hana því betra fyrir land og lýð. Hún stuðlar að fegurra mannlífi sem einkennist af heiðarleika og umhyggju. Hún stuðlar að vellíðan og hamingju. Þess vegna skulum við snúa okkur til Krists, sem vakað hefur yfir þjóðinni alla tíð og forðast að falla í sömu gryfju og íbúar borganna þriggja sem Jesús ávítaði. Við skulum gera bæn sálmaskáldsins að okkar eigin og jafnframt að bæn um þjóðarvakningu, er það sagði:

Lát opnast harðlæst hús míns hjarta, Drottinn minn, svo hýsi´ ég hjartans fús þar helgan anda þinn. Lát friðmál frelsarans Þar föstum bústað ná og orð og anda hans mér ætíð búa hjá. Valdimar Briem (sálmur 190)