Gömlu gildin og vírusvarnir

Gömlu gildin og vírusvarnir

Þó nokkuð margir hafa spurt mig á liðnum misserum hvort við Íslendingar séum að tapa áttum í siðferðisefnum. Vitnað er til spillingarmála sem upp hafa komið, valdahroka, taumlauss skemmtanalífs í miðborginni og víðar um helgar og virka daga, ókurteisi og virðingarleysi í einkalífi sem og opinberu. Hvað er orðið um hin gömlu gildi? spyr fólk.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
13. október 2003

Þó nokkuð margir hafa spurt mig á liðnum misserum hvort við Íslendingar séum að tapa áttum í siðferðisefnum. Vitnað er til spillingarmála sem upp hafa komið, valdahroka, taumlauss skemmtanalífs í miðborginni og víðar um helgar og virka daga, ókurteisi og virðingarleysi í einkalífi sem og opinberu. Hvað er orðið um hin gömlu gildi? spyr fólk.

Auglýst eftir syndinni

Í Fréttablaðinu 27. ágúst s.l. skrifaði Gunnar Smári Egilsson grein og mátti skilja orð hans þannig að auglýst væri eftir syndinni. Hann sagði að um hana talaði enginn lengur nema einstaka prédikari í sérstrúarsöfnuðum landsins. Þjóðkirkjan væri búin að afskrifa syndirnar, allar með tölu. Nú veit ég ekki hversu oft Gunnar Smári sækir kirkju en ég kannast nú ekki við þennan afskriftareikning sem hann vísar til. Sjálfur tala ég gjarnan um syndina og þá einkum sem brotalömina í lífi mannsins. Okkur mönnunum hættir til þess að hreykja okkur hærra en Guð.

Geigun

Orðið synd á frummáli Nýja testamentisins, grísku, er hamartía, sem merkir að missa marks. Orðið er t.d. notað um það þegar menn leggja ör á bogastreng og hitta ekki skortmarkið. Syndin skv. þessum skilningi á þá við um þá geigun sem fyrirfinnst í lífi allra manna, brotalömina sem veldur því að okkur tekst ekki að lifa sem heilar manneskjur. Hins vegar er rétt að geta þess að til er maður sem lifað hefur heilu lífi og þess vegna er vert að gefa lífi hans gaum. Þessi maður var Jesús Kristur. En hann er ekki aðeins liðin manneskja heldur er hann, var og kemur eins og það er orðað í Opinberunarbók Jóhannesar.

Fullkomin forskrift

Gildi Krists og forskrift fyrir mannlegum samskiptum er enn í fullu gildi. Öllum heimsins háskólum í tvö þúsund ára streði sínu og rannsóknum hefur ekki tekist að betrumbæta háleitan boðskap Krists um einn stafkrók. Engum hefur hugkvæmst að ganga lengra, hærra eða dýpra en Kristur gerði í túlkun sinni á kærleika og miskunn, réttlæti og friði. Er þráðurinn að rakna í sundur?

Gildin hans voru kennd kynslóð fram af kynslóð hér á landi allt fram á okkar daga. En hvað svo? Erum við hætt að taka mark á þessum boðskap? Hvað er orðið um hin gömlu gildi? Erum við hætt að óttast Guð? Lifum við eins og enginn máttur okkur æðri sé til, enginn dómari yfir lífi okkar, enginn afleiðing breytninnar, ekkert rangt eða rétt, heldur einungis það sem okkur finnst hverju sinni?

Æðri máttur

Höfuðsynd mannsins er sú að hafna Guði og setja sjálfan sig í dómarasæti, gera sjálfan sig að Guði. Þannig fór fyrir hinum fyrstu mönnum og þar með kom geigunin inní tilveruna skv. túlkun helstu trúarbragða heims, gyðingdóms, kristindóms og islam. Og er það ekki athyglivert að fólki, sem hefur misst fótana á lífsgöngunni af einhverjum orsökum, er ráðlagt af ýmsum hjálparsamstökum að byrja á því að viðurkenna vanmátt sinn og að hafa trú á æðra mætti. Með því hefst fyrsta skrefið til bata. Guðs ótti felst í því að virða Guð, að vita sig undir valdi hans og dómi.

Vírusvarnir

Margir halda að þeir geti verið vel kristnir án þess að sækja kirkju. En er það svo? Erum við eilífðarvél sem aldrei þarfnast eldsneytis? Líkaminn deyr fái hann ekki næringu. Gildir ekki það sama um andann? Getum við leiðrétt okkur sjálf? Þurfum við ekki að ganga á fund þess máttar sem skóp okkur til að stilla kompásinn? Geigunin sem áður var drepið á veldur því að við förum sífellt út af hinum rétta vegi. Með því að sækja kirkju leiðréttum við kúrsinn og finnum réttu leiðina aftur. Lífsforritið okkar er með þeim ósköpum að það verður stöðugt fyrir árásum vírusa eða orma (eigum við að segja höggorma eins og í syndafallssögunni!) og því þarf að fara reglulega í kirkju til að „endurræsa tölvuna“, hreinsa vírusinn í burtu.

Að vera með í sigurliðinu

Margir lifa eins og Guð sé ekki til og vanrækja þar með hina meðfæddu þörf fyrir að trúa. Kristur hefur stofnsett kirkju sína til þess að næra innsta kjarna manneskjunnar, andann.

Syndin er ekki horfin úr tilverunni. Hún er sprelllifandi sem fyrr, en eina lækningin við henni er að umgangast þann sem sigraði syndina og dauðann. Göngum til liðs við hann og þá hittum við í mark og líf okkar verður heilt fyrir hans tilstilli.