Alltaf í boltanum

Alltaf í boltanum

Það þarf sterk bein og járnaga til þess að halda sér að verki þessa dagana. Listamennirnir á leikvöngunum austur í Asíu fjær eru tíðir gestir á skjánum og það á þeim tímum dags sem menn ættu að vera að vinna í sínum verkefnum. Illa gengur að semja predikun eða undirbúa safnaðarstarf á sama tíma og fylgst er með kappleikjunum og verður hver að gera upp við sig hvort hann velur.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
14. júní 2002

Það þarf sterk bein og járnaga til þess að halda sér að verki þessa dagana. Listamennirnir á leikvöngunum austur í Asíu fjær eru tíðir gestir á skjánum og það á þeim tímum dags sem menn ættu að vera að vinna í sínum verkefnum. Illa gengur að semja predikun eða undirbúa safnaðarstarf á sama tíma og fylgst er með kappleikjunum og verður hver að gera upp við sig hvort hann velur. Látum þó vera að fella þann dóm í kjölfarið hvort standi hjarta hans nær - kirkjan eða knattspyrnan!

Fótboltinn er hnöttóttur

Þessi spurning er þó eitt viðfangið í fjögurra greina syrpu sem birtist þessa dagana í SvD undir yfirskriftinni, „Fótboltinn er hnöttóttur“. Þar er þessi vinsæla íþrótt skoðuð út frá tilvistarlegu sjónarhorni og í morgun var einmitt spurt hvort hún njóti trúarlegrar stöðu meðal fjöldans. Guðfræðingurinn Nichlas Vinsander er krafinn svara við þeirri spurningu en nýverið kom út ritgerð eftir hann við háskólann í Lundi sem fjallar um tengslin á milli íþrótta og trúarbragða.

NV segir nauðsynlegt áður en lengra sé haldið að skilgreina hugtakið "trú". Falli hugtakið undir það sem gefur tilverunni gildi, eigi það við það afl sem fái einstaklinginn til þess að stíga út fyrir sína huglægu mörk og taka á móti reynslu sem hafin er yfir hina hversdagslegu tilveru - já, þá er fótboltinn fyrir mörgum eins og hver önnur trúarbrögð. Hann gefur vissulega engin svör við því hvað gerist eftir að við höfum kvatt þennan heim en knattspyrnuáhugamenn sækja hins vegar margir tilgang í líf sitt, hér og nú, í þá íþrótt.

Sé litið á hinn breiða skara knattspyrnuáhangenda kemur á daginn að ótrúlega margir lifa fyrir lið sitt. Gengi liðsins hefur áhrif á líðan þeirra og lundarfar; þeir stunda margvíslegt, og oft mjög tímafrekt, „ritúal“ í tengslum við stuðning sinn; „pílagrímsferðir“ á alþjóðleg knattspyrnumót eru fastur liður hjá stuðningsmönnum. Þá sýna þeir liðinu óbilandi hollustu. Þegar illa gengur og aðrir finna sér nýtt lið til fylgdar heldur þessi hópur tryggð við sína menn. Kærleikann til liðsins má með réttu kalla „skilyrðislausan“. Loks er stemmningin á áhorfendabekkjunum líkust vakningarsamkomu, en með greininni er birt mynd af stuðningsmönnum sænska landsliðsins með dreyminn sælusvip á vör og hendurnar útréttar mót himni!

Íþróttir og átrúnaður

NV skoðar söguleg tengsl þessa tveggja, íþrótta og átrúnaðar. Ólympíuleikarnir höfðu t.a.m. í upphafi trúarlegan tilgang. Kirkjan beitti sér hins vegar gegn íþróttum, allt frá því hún var ráðandi á „Vesturlöndum“ á 4. öld. Í kjölfar siðbreytingarinnar varð andstaðan enn harðari enda litu kirkjunnar menn svo á að íþróttir lettu menn frá því að iðka trúna. Um aldamótin 1900 urðu hins vegar straumhvörf í þessum efnum er kirkjan játaði „ósigu“" sinn gegn íþróttum og eftir því sem vegur hennar hefur minnkað á þeirri öld hefur íþróttunum vaxið ásmegin. NV lýkur þessu sögulega yfirliti með því að fullyrða að þróun þessi hafi loks leitt til þess að íþróttirnar hafi fengið trúarlegan sess í nútímanum.

Hver er skýringin á því að fótboltinn hefur öðrum íþróttum fremur hlotið þennan (vafasama) heiður? Líklega sú að hann er alþjóðlegur, hann brýtur niður landamæri og skapar samfélag á víðum grundvelli, þar sem aldur, kyn, þjóðerni og stétt skipta litlu máli. Með nokkrum sanni, segir NV, má kalla hann tungumál kærleikans, hann sameinar fólk.

Jú, mikil ósköp. Út um allan heim glímir fólk við sama vandamálið - að geta sinnt störfum sínum og fjölskyldu á sama tíma og einblínt er á knöttinn á skjánum. Skyldi heimsbyggðin nokkurn tíma haft annan eins samnefnara sem þennan? Ef mig misminnir ekki lögðu skipuleggjendur Kristnihátíðar á Þingvöllum það á sig á sínum tíma að ganga frá því að hægt væri að horfa á úrslitaleik í EM sem fram fór á sama tíma og hátíðin var á enda! Þá væri að sama skapi ánægjulegt ef einhverjir tækju með sér bolta á prestastefnuna og menn gætu spilað í blíðunni á Egilsstöðum að fornum sið. Fótboltinn stendur á margan hátt undir því lofi sem hann fær og menn þurfa auðvitað ekki að brjóta 1. boðorðið þótt þeir njóti hans endrum og eins.

Hvað um það, í janúar heimsótti ég sr. Jón í Lundúnum og tókst okkur að fá miða á leik Chelsea og Norwich á Stanford Bridge. Við sátum hátt uppi í stúku á þessum glæsilega leikvangi og neðst hinum megin á áhorfendabekkjum var samankominn æstur hópur Norwich aðdáenda sem hafði fylgt liðinu norðan úr landi. Þetta var ekki bara litfagur hópur - klæddur gulu og grænu að hætti sinna manna - heldur einnig með eindæmum söngglaður og tónsterkur svo að undir tók þegar hann lét sem hæst. Við prestarnir veltum því fyrir okkur stundarkorn hversu gaman það væri nú ef maður hefði svona kirkjukór.