Guði sé lof fyrir Darwin!

Guði sé lof fyrir Darwin!

Afhelgunin er þó langt í frá alger, miklu fremur mætti tala um sérhæfingu nútímasamfélagsins sem hefur skipað hinu trúarlega á bás eins og öllu öðru; hver sinnir sínu skilgreinda hlutverki, sem er ekki endilega slæmt. Trúarbrögðin hafa t.d. ekki lengur með höndum það hlutverk að útlista náttúrusögu heimsins, sem betur fer.
fullname - andlitsmynd Jón Ásgeir Sigurvinsson
26. júní 2008

Það er orðið viðtekið að tala um vestræn samfélög nútímans sem afhelguð eða „sekúlariseruð“ (sbr. lat. saecularis: veraldlegur, heiðinn). Sá skilningur er þá gjarnan lagður í orðið „afhelgað“ að trúarbrögð eða trú almennt hafi ekki lengur þá þýðingu fyrir fólk né það hlutverk í samfélaginu sem áður var raunin. Það má víst til sanns vegar færa enda samfélagsbreytingar á Vesturlöndum sl. 150 ár líklega meiri og afdrífaríkari en áður hefur þekkst í mannkynssögunni. En þýðir það að trúin sé fólki einskis virði og trúarbrögðin þjóni engu hlutverki lengur í vestrænu samfélagi? Því fer fjarri. Allir kirkjunnar þjónar vita það í gegnum störf sín og samfélag með íbúum þessa lands á gleði- og sorgarstundum hve mikils virði kristin trú er þeim, hve mikil uppspretta styrks og huggunar í róti daganna.

In the beginning

Samfélagið tekur stöðugum breytingum og hið sama á við um starf kirkjunnar. Orðið „kirkjusókn“ ætti ekki að vísa til fjölda kirkjugesta í messu einvörðungu. Undir kirkjusókn heyrir barna- og unglingastarf, fermingarfræðsla og starf með öldruðum og sjúkum. Þá er ótalin sú sálgæsla sem ekki verður gasprað um á torgum.

Vissulega er nútíminn „sekúlariseraður“ í þeim skilningi að eftirsókn eftir veraldlegum gæðum er það afl sem knýr mannfélagið áfram og ríkir yfir allri umfjöllun um málefni samfélagsins. Varla er nokkuð neins virði nema það vegi eitthvað á vogarskálum auðhyggjunnar (söng ekki Þursaflokkurinn: „Nútíminn er trunta með tóman grautarhaus, hjartað það er bilað því heilinn gengur laus“?). Afhelgunin er þó langt í frá alger, miklu fremur mætti tala um sérhæfingu nútímasamfélagsins sem hefur skipað hinu trúarlega á bás eins og öllu öðru; hver sinnir sínu skilgreinda hlutverki, sem er ekki endilega slæmt.

Trúarbrögðin hafa t.d. ekki lengur með höndum það hlutverk að útlista náttúrusögu heimsins, sem betur fer. Guði sé lof fyrir Darwin! Darwin lyfti t.d. því skelfilega oki af sköpunarsögum 1Mós, sögunni af Nóa og fleiri textum G.t. að þykjast vera náttúrufræði, nokkuð sem þær ætluðu ekki og vildu aldrei vera. Þær eru afurðir guðfræðilegrar og heimspekilegrar hugsunar og fjalla um tengsl Guðs, manns og náttúru og ekki síst manna á milli. Þórir Kr. Þórðarson bendir á þetta í hinu ágæta riti „Sköpunarsagan í fyrstu Mósebók. Ný viðhorf“ (1986, bls. 61) sem hann skrifaði „með þarfir grunnskólakennara í kristnum fræðum í huga“:

Sköpunarsagan er ekki náttúrufræði. […] Sköpunarsagan talar um guðlegt afl í náttúrunni, hún ræðir fyrst og síðast um Guð, um verk hans í lífi náttúrunnar og lífi manna og um tignun hans. Og boðskap hennar má raunar túlka þannig, að frá sjónarmiði trúarinnar sé ekki öll sagan sögð með skýringum náttúruvísinda á náttúrunni og alheiminum. Sköpunarsagan vill þar bæta við sögunni um Guð og um manninn sem þjón Guðs, sem gengur erinda hans. […] Hún kallar manninn til ábyrgðar, og hún býður honum til veislufagnaðar: að hvílast í verki Guðs sjálfs, hans sem er allt í öllu og hefur skipað öllu vel. Kall hennar er um að maðurinn verður í gjörðum sínum að lúta hinum æðstu lögmálum, því samræmið, hrynjandin í öllu sköpunarverkinu krefst þess.

Ljósmynd: heartlight