Fyrstu kennimennirnir

Fyrstu kennimennirnir

Konurnar sem fóru með allan sinn farangur upp að gröfinni sneru þaðan aftur sem hinir fyrstu kennimenn.
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

Velkomin í kirkjuna kæru gestir. Það eru komnir páskar og þeir eru óvenjusnemma á ferðinni. Stundum erum við minnt rækilega á það að við lifum ekki aðeins samkvæmt einu tímatali. Sumir hátíðsdagarnir spyrja ekki að því hvaða dagur er á almanaksárinu. Svo er um páskana. Þá ber upp á fyrsta sunnudegi eftir fullt tungl að loknum jafndægrum að vori samkvæmt gömlum sið. Já, nú er dagurinn lengri en nóttin og birtan umleikur okkur stærri hluta sólarhringsins en myrkrið. Það er að sönnu verðugur tími til að halda upprisuhátíðina.

Hlutverk kirkjunnar

Og nú eru þeir svona ótrúlega snemma á árinu. Verða víst ekki næst svo snemma árs fyrr en á 7. áratug 22. aldar. Þá verðum við að öllum líkindum komin í faðm skapara okkar og lausnara. Apríl ekki enn runninn upp og við sitjum hér prúðbúin í algleymi upprisuhátíðarinnar. Við eigum jú annan mælikvarða sem stýrir lífi okkar ekki síður en hinn hefðbundni – og það er kirkjuárið. Kirkjuárið hefst á fyrsta sunnudegi í aðventu og svo flakka hátíðsdagar þess til og frá á hinu hefðbunda ári.

Já, gerum við okkur grein fyrir því að kirkjuár er ráðandi hluti í lífi okkar? Ekki aðeins kirkjan sjálf – heldur árið sem við hana er kennt. Og á þessum degi er stór dagur fyrir kirkjuna vegna þess að hlutverk kirkjunnar er að boða fagnaðarerindið um hinn krossfesta og upprisna Jesú Krist. Því er gjarnan haldið fram að hvítasunnudagurinn marki upphaf kirkjunnar en hvað með páskana? Er það svo fjarri að líta svo á að á hinum fyrstu páskum hafi starf kirkjunnar raunverulega hafist? Að minnsta kosti fer ekki á milli mála að fyrstu prestarnir tóku til starfa hinn fyrsta páskadag. Um það lesum við í guðspjallinu sjálfu.

Þær létu hjartað ráða

Eða hvað? Er það ekki hlutverk presta að kunngjöra upprisuna? Ef svo er þá er enginn vafi á því að í guðspjallinu sem hér var lesið greinir frá fyrstu einstaklingunum úr þeirri stétt og það harla óvenjulegum fulltrúum þeirra – allt fram til síðustu áratuga. Þetta eru jú konur. Konurnar ganga upp að gröfinni í þeim einlæga tilgangi að búa um líkama vinar síns og meistara áður en andstæðingar hans næðu til hans. Vart er hægt að hugsa sér önnur eins umskipti í einni frásögn. Þær búa sig til brottfarar í myrkrinu, því þær vildu vera komnar að gröfinni við sólarupprás. Já, leiðin liggur að bústað hinna dauðu, grafreitnum sjálfum.

Og í huga þeirra bærðust víst óþægilegar kenndir: Við lesum um það í textanum hvernig þær sáu fyrir sér þungan steininn sem varnaði þeim leiðina að líkama Krists. Við skynjum óttann í brjósti þeirra um afdrif hans. Við finnum fyrir því hvernig vonbrigðin, söknuðurinn og sorgin læsa sig um hjörtu þeirra – en á móti þessu öllu stafar kenndin sterka sem getur yfirgnæft allt annað sem letur og hamlar: kærleikurinn sjálfur. Já, jafnvel grjótið sjálft sem var fyrir grafarmunnanum – hver átti að velta því frá? Skynsemin hefði sjálfsagt sagt þeim að ferðalag þetta væri með öllu óþarft því þeim tækist ekki að ryðja þessari hindrun úr veginum. En samt halda þær áfram. „Hlustaðu á skynsemina!“, segjum við stundum – þær létu hjartað ráða.

Gula litrófið

Þangað skín birtan inn í myrkrið og vonleysið. Það er einmitt birtan sem setur svip sinn á páskahátíðina. Nú þegar ég setti inn tilkynningu um þessa messu á heimasíðuna velti ég því fyrir mér hvernig mynd ég ætti að hafa við hlið textans. Ég sló upp enska orðinu „easter“ á leitarvélinni og fékk allskonar myndir af eggjum, hérum og öðrum glansmyndum. Ekkert af þessu þótti mér eiga við um tilkynninguna fyrir þessa messu okkar hér. Að endingu varð fyrir valinu mynd af fleti með öllum þeim tilbrigðum sem guli liturinn hefur. Þar þótti mér páskunum rétt lýst. Því gulur er litur sólarinnar, hann er litur birtunnar sem verður æ meira áberandi á himninu og nú er jú komið fram yfir jafndægur að vori. Gulur er líka litur upprisunnar og í þeirri björtu og einlægu naumhyggju setjum við boðskapinn á blað um sigurhátíð í Keflavíkurkirkju.

Trúin, vonin og kærleikurinn varð öllu því yfirsterkari sem hefði getað latt þær frá ferðinni, myrkri, ótta, vonbrigðum, sorg og jafnvel skynseminni sjálfri. Enda fóru þær samt. Það var líka eins og hver hindrunin væri yfirstigin er þær voru komnar á leiðarenda. Fyrstu geislar sólarinnar ruddu burt myrkrinu. Gula litrófið tók völdin. Steininum hafði verið velt frá gröfinni. Og er þær gengu inn fyrir grafarmunnan fengu þær þessi skilaboð: „Skelfist eigi“, sömu skilaboðin og hirðarnir á Bethlehemsvöllum höfðu fengið. Myrkrið, hindrunin, óttin – allt þetta horfið í einni andrá.

Fyrstu kennimennirnir

Er þær gengu heim aftur voru þær nýjar manneskjur. Þær voru vígðar með orði fagnaðarerindisins. Þær fengu það hlutverk að segja bræðrunum frá því sem allt starf kirkjunnar byggir á: Kristur er upprisinn. Þetta er þungamiðjan sjálf, eins og Páll postuli segir: „En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar. Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist,... En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar“

Já, kæru kirkjugestir, konurnar sem fóru með allan sinn farangur upp að gröfinni sneru þaðan aftur sem hinir fyrstu kennimenn. Því þær fengu það verkefni að segja lærisveinunum frá upprisu Krists. Svona verkar nú trúin óspillt og hrein. Þrátt fyrir alla fordóma þá sem mannleg samfélög hafa hlaðið ofan á hana í gegnum aldirnar og árþúsundin þá blasir boðskapur Guðs við okkur ómengaður. Hver sá sem heldur af stað með kærleiksboðskapinn hreina í farteskinu er að sönnu kennimaður Krists. Þetta er sigur trúarinnar og trúin hefur þessi ótrúlegu áhrif.

Fyrstu söfnuðirnir Fyrstu söfnuðir kristinna manna höfðu líka þessa sérstöðu sem greindi þá frá svo mörgum öðrum trúarhópum sem störfuðu og iðkuðu trú sína í þessum fjölmörgu menningarheimum sem þar þrifust í mannhafinu. Þar voru allir boðnir velkomnir. Söfnuðirnir sem byggðu starf sitt á hinu gula litrófi upprisunnar áttu þessa sérstöðu umfram flesta aðra hópa. Þeir tóku við öllum sem þangað vildu leita. Það vakti sérstaka athygli þeirra í hversu miklum metum konurnar í hópnum voru. Þær hýstu samkomurnar í mörgum tilvikum eins og við lesum um í Postulasögunni. Slíkt hefði þótt með ólíkindum í öðrum trúarhópum sem mengaðir voru af tignarröðun samfélagsins.

Samkomur kristinna manna einkenndust af þessu eins og segir í þeirri bók: „Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. Daglega komu þeir saman með einum huga í helgidóminum, þeir brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim, er frelsast létu.“

Í söfnuðum þessm sjáum við kærleiksboðskapinn í hnotskurn. Og samfélagið í kringum þá veitti því athygli hvernig þeir störfuðu. Þetta var kirkjan sjálf. Svo liðu aldirnar og oft mátti kirkjan beygja sig undir vald hefða og formfestu sem sótt var út fyrir ramma heilagrar ritningar. En það er hluterk okkar að starfa í þeim ómengaða anda sem byggir á ritningunni einni. Hið gula litróf upprisunnar á að starfa ómengað í kirkjunni þar sem allir finna sinn stað og allir skynja það í hjarta sínu að þeir eiga sjálfir hlutdeild í sigri lífsins. Amen.