Bænin má aldrei bresta þig

Bænin má aldrei bresta þig

Í varnarleysi okkar skynjum við sérstaklega nærveru Guðs sem er með okkur í elsku sinni og vakir yfir okkur alla tíð. Þegar við verjum tíma með Guði þá finnum við kærleika hans streyma til okkar. Hversdagslegustu hlutir fá nýjan ljóma. Við sjáum gjafir Guðs alls staðar og þiggjum þær með gleði úr höndum hans. Og þá langar okkur til að þakka honum fyrir allar góðar gjafir ,ekki síst á þessum bænadegi.

Fyrr en síðar eru þessir undarlegu tímar að baki hér á landi sem við höfum nú upplifað á eigin skinni síðan covid 19 veiran lét á sér kræla hér á landi eftir áramótin. Ferðatakmarkanir verða enn við lýði vegna þess að flug liggur að mestu leyti niðri í heiminum og mengun vegna umferðar á láði sem legi hefur snarminnkað. Það sást á gervihnattamyndum. Við íslendingar erum hvattir til að ferðast innanlands og sala á tjaldvögnum, fellihýsum og húsbílum hefur tekið mikinn kipp að undanförnu hérlendis.  Sala á tækjum og tólum til æfinga inn á heimilum tók mikinn kipp fyrir nokkrum vikum. Sumir keyptu mini sundlaug til að geta æft sundtökin heima í garðinum bundin við garðan.

Í fyrramálið kl. 06.45 getum við farið aftur í sundlaugarnar og tekið sundtökin sem aldrei fyrr. Og þeir sem stunda líkamsrækt í stöðvunum mörgu geta endurnýjað kynni sín við þær 25 maí en þá mega 200 manns koma saman með fjarlægðartakmörkin á hreinu.

Í dag eru í fyrsta skipti sungnar guðsþjónustur í kirkjum landsins eftir að samkomubanni var komið á. Við sleppum altarisgöngum enn um sinn. Á faraldurstímanum hér á landi sá ég skopmynd af presti sem stóð við altari sitt og kastaði oblátu til opinmynnts altarisgests sem hélt sig í tveggja til þriggja metra fjarlægð frá honum. Á Páskadag sá ég aðra skopmynd af Jesú sem var að koma út úr gröf sinni grímulaus. Á hann horfði maður sem hafði grímu fyrir vitum sér og hrópaði. ,,Þú skalt ekki voga þér að koma út úr gröf þinni grímulaus.“  Það er gott að geta séð skoplegu hliðarnar á tilverunni þrátt fyrir allt fargið sem hefur hvílt á okkur eins og mara undanfarna tvo mánuði.

Hinn 17 mars söng ég síðast guðsþjónustu í Árbæjarkirkju kl. 11.00. Kirkjugesti með kór og organista mátti telja á fingrum annarrar handar enda vissu allir hvað var í vændum. En þann dag um miðnætti skall á samkomubann sem varði þar til 5 maí að byrjað var að slaka á því.  Allan þennan tíma héldum vð í þessa von að unnt yrði að halda veirufjandanum nægilega mikið niðri til að unnt yrði að fara að slaka á banninu með varkárum skrefum.

Það er sagt að vísindin efli alla dáð. Þjóðskáldið Einar Ben tjáði sig um það í ljóði sínu. Úr fjarlægð fylgdumst við flest með okkar dáða drengjum og konum í framvarðasveitinni sem lögðu sig fram um að sinna fólki sem veiktist af veirunni íklætt varnarbúningi af ýmsu tagi frá höfði og niður fyrir tær. Þessi búningur virkaði en ég veit ekki til þess að nokkur heilbrigðisstarfsmaður hafi veikst af veirunni. Og við lögðum okkur fram um að hlýða Víði, Þórólfi og Ölmu landlækni sem eru fremst meðal jafningja í framvarðasveit þeirra sem berjast gegn þessari ósýnilegu veiru sem sett hefur heiminn á hliðina í efnahagslegu tilliti. Vel á þriðja hundrað þúsund hafa látist af völdum veirunnar í heiminum þar af 10 hér á landi. Við vottum aðstandendum þeirra samúð okkar. Þótt samkomubannið komi til með að vera rýmkað meira þá verðum við að halda áfram að gæta varkárni í samskiptum við hvert annað. Við eigum að halda tveggja metra reglunni út þetta ár. Við megum ekki heilsast né knúsa aðra en þá sem standa okkur allra næst á heimilinu. Ég hef nú leyft mér að knúsa konuna mína öðru hvoru. Það hefur enginn tekið eftir því nema auðvitað hún. Hún hefur oft minnt mig á það að þvo hendurnar vel og vandlega þegar ég hef komið heim að afloknum vinnudegi. Ég hef líka hlýtt henni eins og Víði.  Það er gott að eiga góða að sem bera hag okkar fyrir brjósti, ekki aðeins okkar nánustu heldur einnig heilbrigðisstarfsfólkið sem hefur staðið vaktina fyrir okkur í þessum faraldri og virðist hafa haft betur í viðureigninni eins og sakir standa.

Mér skilst að leyfa eigi sparksnillingum að sparka aftur í tuðrur á sparkvöllum landsins upp úr miðjum júní . Þá verður erfitt að hafa tveggja metra regluna í heiðri nema þá að leyfa andstæðingnum að fara sínu fram með tuðruna og skora í hvert sinn sem hann er með boltann.  Eitt er það sem hlýtur að breytast. Knattspyrnumenn hljóta að hætta að hrækja á grasvellina. Ég myndi ekki kæra mig um að spila fótbolta á grasvelli þar sem hrákar eru við hvert fótmál. Ef þessi faraldur hefur kennt mér eitthvað þá er það mikilvægi hreinlætis.

Í kirkjum landsins hefur verið beðið reglulega fyrir heilbrigðisstarfsfólkinu okkar á faraldurstímanum. Það er stundum sagt að bænin sé andardráttur sálarinnar.  Við öndum heilögum anda að okkur og þegar við öndum frá okkur þá berum við upp bænarefnin margvíslegu sem bærast innra með okkur. Hér er ég minntur á Jesú bænina svo kölluðu sem margir kannast við. Þegar hún er iðkuð þá eru eftirfarandi orð höfð yfir í huga og hjarta við innöndunina. ,,Drottinn, Jesús Kristur, sonur Guðs. Við útöndunina eru þessi orð höfð yfir: ,,miskunna þú mér syndugum manni.“

Þjóðkirkjan bauð upp á rafrænar samverustundir í faraldrinum þar sem margvíslegum helgistundum og sunnudagaskólanum var streymt til landsmanna. Sumar kirkjur buðu upp á stundir þar sem fólki var kennt að iðka svo kallaða kyrrðarbæn. Það fer vel á því að leita inn á við á þessum tíma þegar hægst hefur á hjólum efnahagslífsins og heimilanna í landinu. Margir hafa haft meiri tíma fyrir sjálfa sig og fjölskyldu sína, ekki síst þeir sem misst hafa vinnuna í faraldrinum. Það er ekkert grín að missa innkomuna eins og hendi sé veifað. Það kallar á kvíða fyrir framtíðinni að geta ekki séð sjálfum sér og fjölskyldu sinni farborða.  En þá er mikilvægt að reyna að hafa stjórn á því sem við getum haft stjórn á. Við getum t.d. hugað að líkamlegri og andlegri heilsu okkar með því að hreyfa okkur meira, fara í göngutúra og  iðka bænina, biðja fyrir fjölskyldu okkar og halda þannig í vonina um betri tíð og blóm í haga með sumrinu.

Spámaðurinn Jeremía minnir okkur á mikilvægi vonarinnar í lexíu dagsins. Hann minnir okkur líka á það að allt lífslán okkar sé í hendi Guðs. En hann segir: ,,Því að ég þekki þær fyrirætlanir sem ég hefi í hyggju með yður, - segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, - að veita yður vonarríka framtíð.“

Páll postuli minnir okkur á mikilvægi bænarinnar þegar hann í pistli dagsins segir:,,Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn.“

Þegar við biðjum þá erum við að leggja inn vonarríkt orð um að Guð blessi okkur og gefi okkur vonarríka framtíð.    Þegar við biðjum þá erum við ekki að hugsa eða tala út í cosmoið. Við reynum að einbeita okkur að því að tala við Guð. Mynd okkar af Guði er sennilega ólík. Í gamla testamentinu er víða haft á orði að Guð eigi heima á fjallinu. Fjallið Síon er nærtækast í því sambandi en þangað sótti Móse boðorðin 10 forðum. Fyrir mér er Guð ekki fjarlægur heldur nálægur mér í anda sínum.

Orð Guðs segir að Guð sé andi og að þeir sem tilbiðji hann eigi að tilbiðja hann í anda og sannleika.  Jesús knýr dyra á hjörtum okkar og snerillinn er í höndum okkar. Hann vill eiga persónulegt samfélag við okkur, tala við okkur og hlusta á okkur líka.

Mynd mín af Guði er þessi: Þegar ég bið þá tala ég við  persónulegan Guð í Jesú Kristi sem gekk um jarðneskar grundir og talaði svo eftir var tekið og læknaði fólk af ýmsum sjúkdómum til að vitna um nærveru Guðs ríkis mitt á meðal fólksins sem hann umgekkst. Og þegar ég tala við hann þá trúi ég því að hann muni bænheyra mig. Hann hvetur okkur lika til að biðja í guðspjalli dagsins og ég vil hlýða Jesú að þessu leyti, já að öllu leyti. Sjálfur átti Jesú bænalíf. Bænabókin hans voru Davíðssálmarnir sem hann vitnaði oft til á vegferð sinni í gegnum lífið. Þegar hann var á krossinum þá vitnaði hann í 22 davíðssálm þar sem ritað er: ,,Guð minn, guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“ (slm 22.1)

Ugglaust hafa margir fundið fyrir einmanaleika og kvíða í þessum faraldri vegna þess að þeim var gert að halda samskiptum við annað fólk í algjöru lágmarki og halda sig heima við. Heimilið hefur þannig reynst flestum, ef ekki öllum mikilvægur griðastaður í faraldrinum. En til að rjúfa einangrun eldri borgara og þeirra sem hafa haft undirliggjandi sjúkdóma þá hefur Rauði krossinn boðið upp á sálgæslu gegnum símann. Og þjóðkirkjan hefur einnig veitt þessa þjónustu í garð eldri borgara sem sótt hafa reglubundnar samverustundir hjá kirkjunum. Og þar hafa margar bænir verið beðnar í Jesú nafni.

Jesús segir í guðspjalli þessa bænadags í þjóðkirkjunni:. ,,Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn."

Jesús vissi hvað yfir sig myndi koma, að hann yrði handtekinn, hýddur og líflátinn á krossi sem var aftökuaðferð Rómverja á þessum tíma. Jesús sagði lærisveinunum að innan skamms myndu þeir ekki sjá hann lengur og aftur innan skamms munduð þér sjá hann.Hann myndi fara frá þeim en hjálparinn myndi koma til þeirra og sanna heiminum hvað væri synd, réttlæti og dómur. Hjálparinn er heilagur andi sem kom yfir postulana á Hvítasunnudag þegar kirkjan var stofnuð. Þá kynnti Guð sig sem heilagan anda og máttarverk hans voru mörg og stór á þeim degi. Þeirra stærst var þegar þúsundir frelsuðust til lifandi trúar á krossfestan og upprisinn frelsara Jesú Krist sem lofaði að vera þeim nálægur í anda sínum upp frá þeirri stundu.

Við höfum oftast gengið að okkar daglegu tilveru sem vísri. Við gerum áætlanir fyrir framtíðina, skipuleggjum tíma okkar og gerum ráð fyrir að allt sé undir okkar stjórn. Það er ekki fyrr en eitthvað verulega bjátar á að við við uppgötvum að svo er ekki. Sjúkdómar, slys, dauðsföll, áföll og þessi covid faraldur minna harkalega á þá staðreynd að við erum í raun mjög viðkvæm og varnarlaus. Við skynjum skyndilega að allt er í heiminum hverfult og fæst undir okkkur komið.

Í varnarleysi okkar skynjum við sérstaklega nærveru Guðs sem er með okkur í elsku sinni og vakir yfir okkur alla tíð. Þegar við verjum tíma með Guði þá finnum við kærleika hans streyma til okkar. Hversdagslegustu hlutir fá nýjan ljóma. Við sjáum gjafir Guðs alls staðar og þiggjum þær með gleði úr höndum hans. Og þá langar okkur til að þakka honum fyrir allar góðar gjafir ,ekki síst á þessum bænadegi.

Í bæninni er líka mikilvægt að þakka. Þegar við þökkum fyrir fólkið í kringum okkur þá virðum við það meira. Við minnum okkur á hve lánsöm við erum að eiga góða að. Við metum að verðleikum framlag þeirra sem gegna ábyrgðarstörfum í samfélaginu., allt frá verkafólki til heilbrigðisstarfsfólks og ráðamanna í sveit og borg. Við viljum lifa í friði og sátt og leggja okkar af mörkum til að svo verði. Með því að biðja fyrir yfirvöldum gerum við það. Við getum jafnvel þakkað fyrir það sem er erfitt í lífi okkar. Þá sjáum við erfiðleikana í öðru ljósi og minnum okkur á að Guð vill hjálpa okkur í gegnum þá. Með tímanum verða þakkirnar eðlilegur hluti lífs okkar og við uppgötvum sífellt meira sem við getum þakkað fyrir. Við sjáum tilveruna á nýjan hátt og tökum eftir öllu því góða sem Guð gefur okkur.

Við þurfum öll hvert á öðru að halda. Þegar allt er með kyrrum kjörum er gott að gleðjast með öðrum og þegar á móti blæs er mikilvægt að hafa stuðning. Í storminum er auðvelt að villast en Guð vakir yfir okkur. Við erum aldrei ein á ferð því Guð er með okkur hvert sem við förum. Amen

  Flutt í Kópavogskirkju.