“Hver maður er hálfopnar dyr”

“Hver maður er hálfopnar dyr”

Við sjáum hins vegar á hinum tilvitnuðu orðum í Albert Einstein, að kristnum mönnum er síður en svo alls varnað, og hvernig ætti það líka að vera, þegar við höfum boðskap Krists til að byggja á!?

Textar: Lexía: Rut 2.8-12 , Pistill: Fil 2.12-18, Guðspjall: Matt 21.28-32:Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ Þeir svara: „Sá fyrri.“ Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen!

Það er áhugaverður og viðburðaríkur tími að baki. Kór prestakallsins er nýkominn úr söngferð til Póllands, til þeirrar merku borgar Kraká, þar sem sungið var á tónlistarhátíðinni Krakow Music Festival 2013 ásamt 10 öðrum kórum, sem komu víðsvegar að úr Evrópu. Óhætt er að segja, að þessi ferð hafi verið kórnum til mikils sóma og það var mér sönn ánægja að fá að syngja með honum við þetta tækifæri og langar mig hér í dag til að þakka þeim sem stóðu að öllum undirbúningi og skipulagningu. Held ég að ekki verði á neinn hallað þó ég í þessu sambandi nefni sérstaklega nöfn þeirra Zsuzsönnu Budai, kórstjóra, og Guðmundar Ólafssonar í Lambhaga, en ferð af þessu tagi ætti aldrei að geta verið neitt annað en lyftistöng fyrir kórinn og eflandi á allan hátt fyrir hans góða starf.

Áþreifanleg trú Það var líka á margan hátt upplýsandi og fræðandi að koma til Póllands, og svo ég tali fyrir mitt leyti - og kannski þeirra sem fóru með mér í ferð til bæjarins Oświęcim sem við þekkjum betur sem Auschwitz og er í um 60 km fjarlægð frá Kraká – þá fann maður sig sem aldrei fyrr í miklu návígi við þá hörmulegu atburði sem tengjast seinni heimsstyjöldina, en engin þjóð varð fyrir eins mikilli hlutfallslegri blóðtöku í þeirri styrjöld eins og Pólverjar en þeir misstu hátt í 6 milljónir manna sem þýðir að um 16-17% allrar þjóðarinnar fórst í stríðinu. Að sama skapi þarf það svo kannski ekki að koma svo mjög óvart, að Pólverjar eru afar trúuð þjóð, en það er alla jafna þannig, að þau sem finna sig í miklu návígi við dauðann taka trú sína alvarlega. Í Kraká var trúin líka allt að því áþreifanleg; mikið um fallegar kirkjur sem sumar voru eins og listaverk í sjálfu sér, prestar og nunnur voru áberandi í mannlífinu og inni í kirkjunum var að finna venjulegt fólk við bænaiðkun, íhugun og skriftir, allt fyrir opnum tjöldum; venjulegt fólk að búa sig undir vinnuna í víngarðinum, eins og guðspjall dagsins talar um. Áherslan í guðspjallinu því er hins vegar ekki á varajátningar og fyrirætlanir, eða hvað það er sem við segjumst ætla að gera, heldur er greinilegt af öllu sem þar er sagt, að það sem mestu máli skiptir er hvað á endanum er gert og aðhafst. Segir ekki líka einhvers staðar að vegurinn til heljar sé varðaður góðum áformum? Í guðspjallinu segir frá tveimur sonum, sem faðirinn biður um að vinna í víngarðinum. Annar þeirra segist ekki ætla að vinna, en fer svo samt til vinnu sinnar, en hinn segist ætla að fara en lætur svo ekki sjá sig. Spurningin er síðan: Hvor þeirra lét að vilja föðurins? Og við eigum ekki í neinum vandræðum með að botna þá gátu því svarið liggur í augum uppi. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hins vegar þessi: Hvernig farnast okkur sjálfum við að starfa í víngarði föðurins? Og einnig má spyrja, hvernig kristnum mönnum hafi almennt gengið í gegnum árin og aldirnar að vinna í víngarðinum. Hvernig brugðust t.d. hin kristnu við í þýskalandi Nazismans þar sem ranglæti og ofbeldi, yfirgang og kúgun var að finna í margvíslegum myndum? Var því ranglæti andmælt? Var reynt að berjast gegn því?

Atburðir sem enginn talar um Manni einum, sem upplifði hörmungar stríðsáranna í Þýskalandi á eigin skinni, sagðist svo frá: “Ég áleit sjálfan mig alltaf kristin. Við heyrðum sögur af gyðingum og því sem var að gerast með þá en við reyndum að bægja þessum sögusögnum frá okkur, því hvað gátum við eiginlega gert? Rétt aftan við litlu kirkjuna okkar voru járnbrautarteinar og á hverju sunnudagsmorgni, á meðan við vorum við messugjörð, heyrðum við lestirnar koma með flautublístri sínu og hjólaskrölti. Og þegar þær fóru framhjá kirkjunni gátum við heyrt hrópin og köllin innan úr vögnunum sem fluttu gyðinga eins og gripahjörð til slátrunar. Viku eftir viku heyrðum við hjól lestanna nálgast og flautublístrið færast nær og nær, og þegar við námum þessi hljóð ásamt ópunum í fólkinu setti að okkur ugg og ótta því við vissum að það var verið að flytja það í útrýmingarbúðirnar. Og þessi hróp skáru okkur að innan. Viðbrögð okkar voru hins vegar á þá leið, að þegar við heyrðum í lestunum tókum við til við að syngja sálma og því meir sem þær nálguðust því hærra sungum við svo við þyrftum ekki að hlusta á angistarópin. Þegar svo lestirnar fóru framhjá sungum við af öllum lífs og sálar kröftum. Síðan hafa árin liðið en enginn talar um þetta,” sagði þessi kristni Þjóðverji, sem var sestur að í Bandaríkjunum þegar hann sagði þessa sögu sína. “Ég get hins vegar ennþá heyrt lestirnar koma þegar ég sef,” sagði hann, “og ég bið Guð að fyrirgefa mér – já fyrirgefa okkur öllum, sem köllum okkur kristin en aðhöfðumst ekki neitt til þess að stöðva þetta ranglæti.

Orðið og þögnin Það er athyglisvert að hlusta á samvisku þessa kristna þjóðverja segja frá reynslu sinni og sektarkennd. Við skulum hins vegar varast að dæma hann eða þau of hart, sem lifðu þessar ótrúlega skelfilegu aðstæður, sem seinni heimsstyrjöldin var því það er illgjörlegt að setja sig spor fólksins sem bjó við þessar aðstæður, sem okkur í dag finnast svo einkennilegar og eru okkur um svo margt framandi. Það voru heldur ekki allir sem stóðu þegjandi hjá og létu sem ekkert væri. Það voru nefnilega einhverjir til að andmæla; einhverjir sem horft var til og hlustað var á, en sem áttu þá á hættu að þurfa að gjalda ríkulega fyrir og það og það jafnvel með lífi sínu eins og sumir gerðu. Og hverjir skyldu það hafa verið? Eðlisfræðingnum Albert Einstein sagðist svo frá árum sínum í Þýskalandi nazismans fyrir stríð í viðtali við tímaritið Time í Bandaríkjunum árið 1940: “Þar sem ég hafði miklar mætur á frelsi mannsins þá horfði ég vonaraugum til háskólanna um að þeir myndu ná að vernda það þegar bylting nasistanna átti sér stað, því ég vissi að háskólarnir höfðu alltaf stært sig af því að vera sannleikans og frelsisins megin í lífinu. En því miður ákváðu háskólarnir að kaupa sér frið með þögninni. Þá horfði ég í eftirvæntingu til ritstjóra dagblaðanna, sem í leiftrandi forystugreinum höfðu oftar en ekki stært sig af fylgispekt sinni við sannleika og frelsi. En rétt eins og háskólarnir þó kusu þeir innan fárra vikna þögnina. Ég snéri mér þá til rithöfunda og annarra þeirra, sem höfðu gefið sig út fyrir að vera gáfumenn þjóðarinnar og þar með færir um að leiðsegja henni. Á meðal þeirra hafði frelsið jafnan verið í hávegum haft í orðræðu þeirra um samfélagið og samtíðina. Þeir reyndust hins vegar þegar til átti að taka hinir mestu drumbar. Þegar á reyndi var það einungis kirkjan sem stóð í vegi fyrir Hitler og baráttu hans gegn sannleika og frelsi. Áður hafði ég aldrei haft neinn sérstakan áhuga á kirkjunni, en á þessari stundu get ég ekki sagt annað en að ég dáist að kirkjunni og ber í brjósti ríka væntumþykju til hennar því það var hún ein sem bjó að hugrekki og staðfestu til að tala máli sannleika og frelsis. Ég verð að viðurkenna, að það sem ég eitt sinn fyrirleit á núna alla aðdáun mína.” (Frjálslega endursagt úr When a Nation Forgets God: 7 Lessons We Must Learn From Nazi Germany eftir Erwin W. Lutzer)

Hugleysið hættir að hlaupa Mahatma Gandhi hinn indverski á eitt sinn að hafa sagt að hann hefði vel getað hugsað sér að verða kristinn þangað til hann hitti kristinn mann, sem minnir okkur á, að þó vilji Guðs birtist okkur í Jesú Kristi þá kemur hann ekki alltaf fram í okkur sem höfum ákveðið að gera hann að leiðtoga lífsins. Við sjáum hins vegar á hinum tilvitnuðu orðum í Albert Einstein, að kristnum mönnum er síður en svo alls varnað, og hvernig ætti það líka að vera, þegar við höfum boðskap Krists til að byggja á!? Hugleysið hættir að hlaupa. Kvíðinn hættir að hlaupa. Gammurinn hættir að fljúga.

Áköf birtan streymir fram, jafnvel draugarnir fá sér sopa. Svona farast sænska skáldinu Tómasi Tranströmer orð í einu ljóða sinna en hann fékk Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2011. Um Tranströmer og ljóð hans hefur verið sagt að þau einkennist af dulúð sem færi þeim trúarlegt yfirbragð, og reyndar er það svo, að talað hefur verið um hann sem kristið ljóðskáld. Ljóðið sem ég vitnaði hér til heitir “Ófullgerður himinn” og kannski er titillinn til að minna okkur á, að þegar himinninn er ófullgerður þá þarf duglega verkamenn til að fullgera hann og þá mega ekki hugleysi eða kvíði standa í veginum heldur þarf að taka til óspilltra málanna þannig að birtan streymi fram. Og meira að segja draugarnir fá sér sopa, eins og segir í ljóðinu, en “draugarnir” geta sem best verið þau sem finna trúnni á himinninn alltaf allt til foráttu og sjá hana sem einskis nýta, en þegar trúin sýnir sitt rétta andlit, þá standast draugarnir ekki einu sinni mátið og vilja baða sig í ljósinu. Niðurlag ljóðsins geymir svo þessi orð:

Hver maður er hálfopnar dyr sem liggja að herbergi fyrir alla.

Óendanleg jörð undir okkur.

Vatnið ljómar milli trjánna.

Tjörninn er gluggi að jörðinni.

Hér getur tjörnin, sem hægast staðið fyrir skírnarfontinn og vatnið í honum, en skírnin er í rauninni eins og gluggi að jörðinni, sem fær okkur til að sjá allt með nýjum hætti; bæði það sem raunverulega er, en einnig hverjir möguleikar okkar eru og hvernig lífið gæti verið. Og “hver maður er hálfopnar dyr,” segir skáldið, og er ekki mikill sannleikur einmitt í þeim orðum? Hér er hvorki skellt í lás né opnað upp á gátt af hálfu skáldsins heldur er það undirstrikað að það er maðurinn sjálfur sem felur í sér alla möguleika; vill hann eða vill hann ekki; gerir hann eða gerir hann ekki? “Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá,” segir á góðum stað. Enn og aftur erum við stödd í víngarðinum og enn og aftur erum við spurð þessarar samviskuspurningar: Hvað viltu gera? Ætlarðu að vinna í víngarðinum eða ekki? Ætlarðu að skella í lás þannig að möguleikarnir verða engir eða viltu opna upp á gátt þannig að hugleysið og kvíðinn hætti að hlaupa um í brjóstinu og ljósið fái streymt fram? Og svarið verður ekki veitt með vörunum einum saman heldur með því hvernig við högum lífi okkar. Kristur hefur gefið allt – hví skyldum við ekki vilja þiggja allt af honum?

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen!