„Ég er sko ekki mjög munin ...“

„Ég er sko ekki mjög munin ...“

Lítil vinkona mín svaraði í símann, þegar ég hringdi til mömmu hennar um daginn. Mamman reyndist ekki heima, svo ég bað fyrir skilaboð til hennar. Það varð þögn á hinum enda línunnar. Eftir nokkra bið spurði ég hvort hún gæti ekki komið skilaboðum til mömmu sinnar. Trítlan svaraði að bragði; ,,Hmm, sko, ég veit það ekki, ég er sko ekki mjög munin”.

Lítil vinkona mín svaraði í símann, þegar ég hringdi til mömmu hennar um daginn. Mamman reyndist ekki heima, svo ég bað fyrir skilaboð til hennar. Það varð þögn á hinum enda línunnar. Eftir nokkra bið spurði ég hvort hún gæti ekki komið skilaboðum til mömmu sinnar. Trítlan svaraði að bragði; ,,Hmm, sko, ég veit það ekki, ég er sko ekki mjög munin”.

Ég hef velt þessu samtali okkar vinkvennanna fyrir mér og komist að því, að við erum öll dálítið gleymin. Við gleymum því sem við ætluðum að kaupa í búðinni, gleymum afmælum og fundum, gleymum að sækja fötin í hreinsunina eða að mæta í tímann hjá tannlækninum. Við erum sífellt að gleyma.

Mamma sagðist stundum ekki muna á milli herbergja og mér fannst sem stelpa þetta svo fáránlegt. Hvernig væri hægt að gleyma rétt herbergja á milli, það eru nú bara nokkur skref, er það ekki? En ég stend mig að þessu sama í dag. Stundum bara man ég ekki á milli herbergja og það koma fyrir þeir tímar sem ég verð logandi hrædd um að gleyma sjálfri mér einhvers staðar á endanum.

Hvað get ég gert til þess að gleyma ekki? Gleyma ekki skólatónleikum barnanna, gleyma ekki að greiða miðana í leikhúsinu og gleyma ekki að hringja í Ellu vinkonu á afmælisdaginn hennar? Hvað ef ég gleymi sjálfri mér eða þá Guði? Ég veit ekki hvort það á fyrir mér að liggja að gleyma lífi mínu, sjálfri mér eða skapara mínum.

Ég veit það eitt, að þó svo að ég gleymi, þá mun Guð ekki gleyma mér. Hann man mig alltaf og þess vegna legg ég minn þreytta huga, líf mitt og lán í hendur hans. Ég bið um að ég fái að muna og bið um að fá að gleyma ekki því sem ég þarf að gera frá degi til dags. Bæn þessi vekur með mér öryggi, frið og hvíld, vegna þess að ég veit að í faðmi elsku Guðs, get ég hvílt örugg, í fullri vissu um að hann man eftir mér og vakir yfir mér hvort sem ég man eða gleymi.