Að sleppa takinu með elsku og trausti

Að sleppa takinu með elsku og trausti

Monica og David eru fyrst og síðast eins og ég og þú. David segir sjálfur að hann sé bara stundum með Downs, sem mér fannst afar heillandi sýn. Þau eru bæði fullorðin, ung hjón og ættu að eiga framtíðina fyrir sér sem sjálfstæðir einstaklingar.

Úr kvikmyndinni Monica and David

Í augum móður minnar verð ég alltaf litla stúlkan hennar, hversu gömul sem ég verð, þá verð ég ætíð barnið hennar mömmu minnar því hún elskar mig eins og ég er.

Mér datt þetta í hug þegar ég sá kvikmyndina um Monicu og David í gærkvöldi á RÚV. Kvikmyndin er einstaklega falleg heimildarmynd um tvo einstaklinga með Downs-heilkenni sem ákveða að giftast. Hún er um leið mjög raunsönn mynd um þann heim sem fólk með þroskahömlun lifir í. Heim sem á að vera sá sami og okkar hinna en er samt sem áður á stundum eins og samsíða þeim heimi sem við, sem ekki teljumst vera með þroskahömlun, lifum í.

Monica og David eru eins og hvert annað ástfangið par. Þau elska hvort annað og vilja ganga saman lífsins veg. Búa saman og stofna fjölskyldu. Þau eru manneskjur eins og ég og þú með langanir, drauma og þrár. Það er yndislegt að fylgjast með undirbúningi hjónavígslunnar þar sem þau æfa sig heima hjá Monicu með foreldrunum. Það er gengið inn ímyndað kirkjugólf, farið með heitin og hringar settir upp. Allt gert til þess að vera vel undir stóra daginn búin. Eins er gaman að fylgjast með brúðkaupsveislunni, tárum mæðranna og stoltum fósturföður Monicu sem leiðir hana inn kirkjugólfið til Davids sem stendur glerfínn og bíður brúðar sinnar Sem sagt ósköp venjuleg ástfangin pör á brúðkaupsdegi sínum.

Eftir brúðkaupið tekur samt annar heimur við en hjá venjulegum nýgiftum pörum. Brúðkaupsferðin er farin í fylgd foreldra Monicu. Ungu hjónin hefja síðan búskap líka undir verndarvæng foreldra Monicu. Þau eru í litlum hlutastörfum á vernduðum vinnustað en fá ekki tækifæri til að vinna á almennum vinnumarkaði. David vill vinna í stórmarkaði en móðir hans og tengdamóðir fá hann ofan af því vegna þess að móðir Davids getur ekki hugsað sér að ,,drengurinn” sinn, sem reyndar er kominn á fertugsaldur, verði fyrir aðkasti frá krökkum sem koma inn að versla. Móðir Davids segir reyndar að fólk með Downs- heilkenni séu og verði alltaf eins og börn. Þess vegna verði þau aldrei fullorðin. Ég er ekki í minnsta vafa um að hún elskar David og vill honum allt hið besta en hann er og verður alltaf litli strákurinn hennar í fyllstu merkingu þess orðs. Hjá mörgum ungum hjónum eru barneignir hluti af framtíðarsýn þeirra en þó svo að þrá þeirra Monicu og Davids standi til þess að eignast barn, þá munu foreldrar þeirra aldrei taka það í mál. Börn eiga ekki börn.

Ungu hjónin sýna mikinn dugnað og vilja til að lifa sjálfstæðu lífi. Það er staðreynd að þau þurfa stuðning og hann fá þau aðallega frá foreldrum Monicu. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort stuðningurinn sé ekki of mikill og heftandi fyrir ungu hjónin. Það vantar ekki ást og umhyggju foreldranna en elskan getur kæft traust og að við lærum að sleppa. David greinist með sykursýki og fósturfaðir Monicu aðstoðar hann við að mæla blóðsykur og sprauta sig fjórum sinnum á dag. Einn daginn ákveður David að gera þetta sjálfur og það er merkilegt að fylgjast með foreldrum Monicu á meðan David vinnur þessi verk, fumlaust og af öryggi með dyggri aðstoð ungrar konu sinnar. Í þessu kristallaðist vel vanmat foreldranna á getu ungu hjónanna. Ég man þegar ég flutti að heiman og saknaði þess að geta ekki gengið að matnum vísum, fötunum mínum hreinum og ,,ræsinu” hans afa míns, sem vakti mig samviskusamlega nánast alla mína skólagöngu svo ég yrði ekki of sein í skólann. Ég man þegar ég gekk í hjónaband og sá fyrir mér börnin sem mig langaði að eignast, starfið sem mig langaði að sinna og það sjálfstæða líf sem beið mín. Ég man þegar ég hélt á fyrsta barninu mínu í fanginu og fannst ég hamingjusömust allra mannvera í þessum heimi. Ég man líka þá skelfingu sem læddist að mér um leið. Gæti ég þetta? Yrði ég góð mamma? Gæti ég búið því gott heimili, sjálfri mér og manni mínum? Já, auðvitað var ég hrædd við allt þetta nýja í lífi mínu. Hrædd við hvað framtíðin bæri í skauti sér en um leið var þetta allt saman nýtt, framandi og spennandi. Ég var orðin fullorðin og tími til kominn að standa á eigin fótum. Þessar breytingar urðu síður en svo auðveldari fyrir móður mína en mig, sem nú varð að læra að sleppa takinu, hætta uppeldinu og treysta mér fyrir lífi mínu.

Monica og David eru fyrst og síðast eins og ég og þú. David segir sjálfur að hann sé bara stundum með Downs, sem mér fannst afar heillandi sýn. Þau eru bæði fullorðin, ung hjón og ættu að eiga framtíðina fyrir sér sem sjálfstæðir einstaklingar. Hins vegar læðist að mér sá grunur að á meðan við lítum á fólk með þroskahömlun eins og börn, þá fái þau aldrei nógu góð tækifæri til að spreyta sig í lífinu. Þá fái þau aldrei tækifæri til að reka sig á og læra af mistökunum.

Ég var og verð alltaf stelpan hennar mömmu. Ég er barnið hennar en hún kemur ekki fram við mig eins og barn heldur eins og fullorðna, sjálfstæða konu. Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til þess að lifa sjálfstæðu lífi og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Ég fékk tækifæri til þess að læra af mistökum mínum, sigrast á mótlæti og finna styrkleika mína. Monica og David endurspegla vel þá baráttu sem felst í því að fá að lifa sjálfstæðu lífi. Þessi barátta er því miður í samhljómi við baráttu allt of margra para með þroskahömlun hvort sem þau búa hér á landi eða annar staðar í heiminum. Megi þessi kvikmynd um Monicu og David vekja okkur til áræðis, svo að í elskunni lærum við að treysta, lærum að sleppa og gefum öllum mannverum sitt ákveðna rými í einum og sama heiminum.