Gleðileg jól

Gleðileg jól

Prédikun flutt við aftansöng í sjónvarpi á aðfangadagskvöld 2018.
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
24. desember 2018
Flokkar

Prédikun flutt við aftansöng í sjónvarpi á aðfangadagskvöld 2018.

Við heyrðum jólaguðspjall Lúkasar lesið frá altarinu áðan. Heyrum nú jólaguðspjall Jóhannesar sem skrifað stendur í 1. kafla ritsins:

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.

Nú syngur kórinn jólasálm eftir Jórunni Viðar en í ár er liðin ein öld frá fæðingu hennar.

Gleðilega hátíð ljóss og friðar. Gleðileg jól. Hversu oft höfum við ekki heyrt þessa kveðju síðast liðna daga þegar við hittum kunningja og vini. Jólin flytja okkur fagnaðarboðskap sem hittir okkur misjafnlega fyrir eftir því hvar við erum stödd á lífsins vegi. Hjá mörgum er lífið á svipuðum stað og fyrir ári, hjá öðrum hafa orðið breytingar. Hjá einhverjum hafa breytingarnar orðið til léttis og gleði, hjá öðrum hafa þær skapað söknuð og/eða erfiðleika.

Jólaguðspjallið er lesið ár eftir ár en hittir okkur fyrir á mismunandi tímum í lífshlaupi okkar. Margar sögur Biblíunnar eru myndrænar á meðan aðrar frásögur eru það ekki. Frásögur guðspjallamannanna tveggja af fæðingu Jesú eru ólíkar. Lúkas segir frá atburðinum sjálfum, fæðingu barnsins hennar Maríu, Jóhannes segir frá því hvað sá atburður merkir og hvað Guð meinar með honum. Nauðsynlegt er að þekkja upphafskafla Biblíunnar til að skilja þessi orð. Í upphafi er orðið sem skapar heiminn. Allt byrjaði þannig að Guð kallaði ljós og líf inn í heiminn með orði sínu. Guð sagði og það varð.

Hvernig svo sem jólin sækja okkur heim þá eru þau tákn um það besta sem lífið gefur. Við sem höfum allt til alls biðjum þess að aðrir njóti þess sama og við. Við gleðjumst yfir fjölskyldusamverum, fallegum skreytingum og ljósum, heyrum fallega og gefandi jólatónlist, finnum lykt sem við tengjum jólunum. Við biðjum þess einnig að allir geti lifað við góðar aðstæður og í friðsömu umhverfi. Jólin laða fram það besta í fari manna. Við óskum hvert öðru gleðilegra jóla.

Um heim allan er fæðingu barnsins minnst og sunginn jólasálmurinn þekkti heims um ból, helg eru jól, eða hljóða nótt, heilaga nótt. Á aðventunni sótti ég tónleika. Þar voru sungin jólalög frá ýmsum löndum. Ég veitti ekki athygli fólkinu sem sat fyrir framan mig fyrr en í síðasta laginu en þá fór kórinn aftast í kirkjuna og gekk fram um leið og þau sungu Heims um ból. Þá snéri fólkið sér aftur til að sjá kórinn og úr andlitum þeirra skein gleði því þessir erlendu ferðamenn þekktu sálminn góða þó ekki hafi þau skilið textann. Heims um ból vekur með okkur góðar tilfinningar jafnvel þó hann sé sunginn á tungumáli sem við skiljum ekki.

Á dimmri nóttu bárust boð: “Yður er í dag frelsari fæddur.” Þessi boðskapur er ætlaður öllum mönnum en hver og einn ræður því hvort hann eða hún meðtekur boðin. Þegar við heyrum eða sjáum auglýsingar þá tökum við þær ekki til okkar nema við séum að leita eftir því sem auglýsingin býður. Þannig er það líka með boðskap sem við heyrum. Við hlustum eftir því sem okkur vantar eða viljum fræðast um, annars fer hann fram hjá okkur. Við erum móttækilegri fyrir boðskapnum ef við þráum að auðga líf okkar.

Þeir eru ólíkir jólaguðspjallstextarnir hjá Lúkasi og Jóhannesi. „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð” segir Jóhannes í guðspjalli sínu. Hver er merking jólanna spyr Jóhannes guðspjallamaður. Hvað er jólaguðspjall Lúkasar að flytja? Hvers vegna er það gleðiboðskapur að barnið fæddist. Svar guðspjallamannsins er: Orðið varð hold og blóð. Orðið varð maður. Guð talar í verki, lætur verkið tala. Orðið sem skapaði heiminn er fætt á jörð. Orðið sem byrjaði lífið með því að segja: Verði ljós. Ekki ljós sólar eða skin tungls, því að sól og tungl skapast síðar. Hvaða ljós skapaði hann þá fyrst? Er það ekki ljóst, að án sólar er ekkert ljós?

“Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn“ segir Jóhannes í guðspjalli sínum. Hann er að tala um ljós kærleikans. Það kemur fyrst, á undan sólinni. Það ljós, ljós kærleikans fellur á alla sköpun Guðs og er mikilvægast allri sköpuninni.

Þegar barn fæðist sér það hvorki né skynjar ljósið í veröldinni. En barninu skín ljós frá kærleika sinna nánustu. Það lifir í birtunni frá elskandi andlitum foreldra sinna og ástvina. Öll börn ættu að alast upp við góðar aðstæður og lifa í þessu ljósi. Þá lifir barnið við öryggi kærleikans sem það finnur og nýtur. Þetta er það besta sem barnið mætir. Því miður búa ekki öll börn við góðar aðstæður í heimi hér. Ytri aðstæður eru misjafnar en öll börn ættu að alast upp í ljósi kærleikans. Það uppeldi er ekki mælt á veraldlega vísu heldur ræður þar hjartalagið sem er ókeypis. Öll börn ættu að eiga greiðan aðgang að fagaðilum sem hjálpa foreldrunum að finna leiðir til lausnar ef eitthvað má betur fara eða þörf er á úrræðum sem auðvelda líf fjölskyldunnar. Tvö ár í lífi barns er langur tími. Það er allt of langur biðtími fyrir barn og foreldra þegar eitthvað bjátar á.

“Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur” segir Jesús. Ljós berst augum okkar, en ljós berst einnig frá augunum. Augu okkar ljómar þegar við horfum á eða hugsum um það sem við elskum.

Auglit Guðs er yfir jörðinni sem hann hefur skapað. Guð leit það sem hann hafði skapað og “sá að það var gott” segir í sköpunarsögunni. Í blessunarorðunum sem prestur lýsir í lok messu eða við aðrar kirkjulegar athafnir þá segir hann: “Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig”. Ljósið og birtan sem Guð gefur fylgi þér út í heiminn og lýsi þér hvert sem þú ferð.

“Þér er í dag frelsari fæddur” segir Lúkas í guðspjalli sínu þegar hann segir frá atburðinum sem átti eftir að breyta sögu mannkyns. Jóhannes talar á öðrum nótum um sama atburð. “Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.“ Með öðrum orðum segir guðspjallamaðurinn: Ásjóna Guðs, lýsandi kærleikur Guðs er orðinn maður.

Þetta er það sem gerðist nóttina sem hirðarnir sátu úti í haga og gættu hjarðar sinnar. Ljós skín í myrkrinu sem lýsir allt upp. Við eigum orð með sömu rót, upplýsing og auglýsing. Grunnmerking þeirra er sú að þegar tiltekin vitneskja er fengin þá lýsir hún veröldina upp.

“En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá” segir Lúkas í sínu guðspjalli þegar hann beinir sjónum að hirðunum sem fyrstir fengu að heyra tíðindin. Jóhannes segir okkur í sínu guðspjalli frá eiginleikum Guðs “Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu” “Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.”

Þannig er Guð, fullur náðar og sannleika. Frummerking orðsins sannleikur á grísku þýðir augnablikið þegar tjaldið er dregið frá því sem var hulið. Þegar ljós rennur upp fyrir mönnum. Það merkja jólin. Þegar sannleikurinn kemur í ljós. Þessi sannleikur hefur runnið upp fyrir fólki mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð og allt til okkar dags. Hann mótar lífsafstöðu sem er lýst upp af ljósi kærleikans. Sú lífsafstaða hefur mótað samfélag okkar og verður á þessum árstíma í aðdraganda jóla og um jól, lifandi og virk til blessunar fyrir þann sem þiggur og þann sem gefur. Því miður er það ekki svo að ljósið hafið náð að ryðja andstæðu sinni, myrkrinu, burt. Enn er myrkur í heimi hér sem birtist í ófriði, ofbeldi og margskonar sársauka, enda segir Jóhannes í guðspjalli sínu “Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.”

Á jólum erum við minnt á þá stærstu gjöf sem mannkyni hefur gefin verið. Ljós kærleikans sem lýsir upp tilveruna og líf hvers manns sem meðtaka vill. “Yður er í dag frelsari fæddur”. Barnið er ekki aðeins foreldranna heldur allra þeirra er kjósa að gera það að sínu og leyfa því að hafa áhrif á lífsafstöðu sína. Sú lífsafstaða byggist ekki eingöngu á því að fara eftir því sem barnið sagði og gerði í lífi sínu heldur ekki síður í því að við játum að barnið sé Guð með okkur og við séum hans í lífi og í dauða.

Á jólum komumst við sennilega næst því að gera heiminn fullkominn. Við lýsum upp, skreytum og hugsum fallega til hvers annars. Því miður er heimurinn ekki þannig alla daga. Það er margt vont til í heiminum en gleðiboðskapurinn er sá að þrátt fyrir það og vegna þess kemur Jesús í heiminn. Þennan heim sem Guð skapaði með orði sínu og leit yfir og sá að var harla góður. Sagan um sköpun heimsins og frásaga Jóhannesar guðspjallamanns kallast á. “Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum” segir einnig í guðspjallinu.

Því miður er það svo að við mannfólkið erum ekki alltaf tilbúin að taka við honum, barninu í jötunni sem hirðarnir fengu boðin um að fæddur er. En okkur stendur það til boða nú og alltaf. Við lítum á börnin okkar og elskum þau eins og þau eru og viljum að þeim líði vel og njóti lífsins. Það er sárt til þess að vita að mörg börn hér á landi eru haldin kvíða og vanlíðan. Guð lítur á okkur eins og foreldrar á börn sín. Guð elskar okkur og sér okkur í ljósinu sem kom í heiminn og í því hvernig við tökum á móti því ljósi. Fyrsta ljósið sem barnið lítur er kærleiksljósið frá foreldrunum og sínum nánustu. Orðin sem sögð eru við skírnarlaugina verka í lífi skírnarþegans. Héðan í frá eru mitt barn segir Jesús.

Guð kom til mannanna. Hann sá og lifði lífinu sem maður. Gladdist og hló, harmaði og grét, deildi kjörum með öðrum og fór ekki í manngreinarálit. Hann gaf fólki nýja von og nýja trú á sigur lífsins þrátt fyrir myrkur og böl.

Trump, Pútin, May eða Merkel eiga ekki síðasta orðið og draga ekki huga okkar til sinna heimshluta núna. Heldur er það bærinn Betlehem, brauðhúsið, sem er miðja alheimsins á jólum. Þessi litli bær á Vesturbakkanum sem þúsundir sækja heim ár hvert til að líta á fæðingarstað frelsarans. Jólin safna okkur saman þangað. Vald þeirra sem ráða og stjórna er ekki það mesta eða sterkasta heldur er hið minnsta og viðkvæmasta, lítið barn, sterkara en allt. Sá sigrar sem elskar mest. Hver hefur elskað meira en Guð, sem sendi son sinn Jesú Krist í heiminn til þess að enginn myndi deyja að eilífu?

Þess vegna óskum við hvert öðru gleðilegra jóla og þess vegna getum við átt gleðileg jól. Gleðileg jól, í Jesú nafni. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.