Vonarauður

Vonarauður

Við eigum vonandi öll okkar draum um betri heim og viljum leggja okkar af mörkum að svo gerist, þar sem sanngirni, samstaða, lítillæti og hógværð eru verðug gildi að lifa eftir, svo aðeins fá að þeim góðum gildum séu nefnd sem hafa verið vanvirt á undanförnum árum.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
08. janúar 2009

Ég átti mér draum þegar ég var lítill að verða smiður, seinna langaði mig að verða arkitekt, en varð svo prestur. Ég veit ekki hvort það hefði breytt miklu fyrir mig hvort þessir draumar hefðu ræst. Í dag fæ ég nokkra útrás fyrir þessa drauma mína með því að setja málefni sem eru til umfjöllunar oft upp sem grafíska mynd. Þetta fer í taugarnir á samstarfskonu minni sem kýs að setja sitt mál fram í orðum en ekki með teikningum eins og hún orðar það, þegar ég tjái mig um mál sem mér finnst verða mun ljósari ef ég varpa upp einhverri skýringarmynd, þótt ekki sé nema fyrir sjálfan mig.

Myndin af ástandinu

Eitt sinn las ég um heimspeking sem fenginn var til að koma með tillögur til lausnar á vanda stórrar verksmiðju sem stóð til að loka. Reksturinn gekk erfiðlega og fátt annað virtist blasa við en lokun og uppsagnir sem yrði reiðarslag fyrir þennan litla bæ í Noregi þar sem þetta gerðist. Hugsuðurinn gaf sér smátíma til að meta stöðuna. Hann kallaði saman starfsfólkið og bað það að koma með tillögu um líkingu, mynd, eða hugtök sem unnt væri að vinna út frá. Sú líking gæti hjálpað til að skoða málið í öðru ljósi en fólkið var vant og gæti leitt til þess að endurreisa starfsemina í stað þess að leggja hana niður. Myndin sem fólkið stakk upp var af garði. Vinnustaðurinn væri sem garður og í góðum garði væri líf, litir, vöxtur, mismunandi plöntur, margt sem gleddi augað og fólk óskaði eftir að koma þangað, njóta umhverfisins og samfélagsins sem þar þrifist. Eftir þessari líkingu var síðan unnið og mótuð ný sýn til framtíðar. Margt sem áður hafði gleymst að huga vel að, eða hafði ekki verið gert, var nú hrint í framkvæmd sem liður í því að gera vinnustaðinn áhugaverðan og að starfsemin héldi áfram. Í stuttu máli breyttist staðan svo við þessa uppbyggilegu samvinnu starfsfólksins og hugsuðarins að verksmiðjunni var ekki lokað, heldur þvert á móti gekk hún í endurnýjun lífdaga og varð þessu litla samfélagi mikilvæg starfsstöð.

Ég hef velt því fyrir mér hvaða mynd mætti draga upp af því ástandi sem nú blasir við í okkar samfélagi, já og reyndar um alla heimsbyggðina, þar sem lögmál hins frjálsa markaðar sem var allsráðandi og að mestu óheftur er nú hruninn og þar sem ofurtrúin á takmarkalaust fjármagn reyndust falsvonir einar. Sennilega duga hvorki mörg orð né líkingar til að skilja og skýra hvað hefur gerst í okkar þjóðfélagi en samt hjálpaði það, tel ég, ef unnt væri að finna trúverðuga skýringarmynd af þessari óreiðu allri. Þær hugsjónir af eftirsóknarverðu lífi sem hafa verið dregnar upp fram að þessu hrundu líka, sem sögðu okkur að lífið sé neysla og eyðsla, að markaðsmál séu nánast lögmál náttúrunnar, eins og þung og mikil járnbrautarlest sem varð að fá að keyra stjórnlaus, að best sé að sleppa öllum mörkum og aðhaldi, að leyfa sem mest og takmarka sem minnst.

Guðspjöllin er uppfull af myndum og dæmisögum sem Jesús kastaði fram máli sínu til stuðnings eins og nútíminn mundi orða það. Mattheus orðar það svo á einum stað:

Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins og án dæmisagna talaði hann ekki til þess.

Það átti að rætast sem Guð lét spámanninn segja: Ég mun tala í dæmisögum og boða það sem hulið var frá sköpun heims. Matt. 13:34-35.

Að túlka tilveruna

Það er eitt af meginhlutverkum okkar sem prestar og boðberar mikilla gleðitíðinda að reyna að túlka tilveruna eins og hún blasir við okkur á hverri stundu. Ekki til að staldra þar við heldur til að leiða okkur áfram og svipta hulunni af því sem mestu skiptir, að opna augu okkar og eyru fyrir þeim veruleika sem trúin á Guð birtir. Gefa fólki nýja sýn á mannlífið, það er okkar helsta hlutverk sem prestar.

„Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?”, sagði Jesús vil blinda manninn. Og hann svaraði:

„Drottinn, að ég fái aftur sjón.“

Hvað biður fólk um núna? Eflaust viljum við fá einhverjar útskýringar á því hvernig þetta allt gerðist, fyrir og eftir góðærið svokallaða. Sjálfur er ég ekkert sérlega hrifinn af að leita skýringa eða orsaka yfirleitt, af því að það er svo erfitt að finna endapunktinn þegar farið er ofan í málin. Hvers vegna varð bankakreppan? Er það af því að við vorum svo óheppin, svo óvarkár, svo áhættusækin, svo illa að okkur um markaðslögmálin, svo fámenn að við gátum ekki fylgst með öllu, vantaði betri undirbúning, vandaðri framkvæmd, meira eftirlit? Margar slíkar skýringar hafa verið dregnar upp og engin þeirra er alröng og engin heldur fullnægjandi. Hvar lendum við að lokum með okkar leit að orsökunum? Er það ekki í ófullkomleika okkar, synd mannsins eða hvað? “Græðgi mannsins er undirrótin”, sagði erkibiskupinn af Kantaraborg, þegar eftir var spurt. “Fjármálaheiminn skortir siðferðisleg viðmið, þess vegna fór þetta svona”, sagði kaþólskur kardínáli í predikun um jólin. “Fjármálaheimurinn getur ekki svifið um í einhverju siðferðilegu tómarúmi”, bætti hann við til skýringar.

Hvað gerðist?

Hvað gerðist? Vorum við bara ekki að leika Guð allan tímann, eða kannski réttara sagt að það var ekki þörf fyrir þá óljósu tilgátu að til sé eitthvað æðra en við og okkar markaðsviðmið, af því að allt gekk svo vel? Fólk leitar ekki svo mjög nærveru Guðs þegar vel árar, en skelfing er hann fjarlægur Guð þegar illa gengur! Kannski eigum við einhvern þátt í því, prestar, að draga upp um of mynd af Guði við sjúkrabeð, af mætti trúarinnar andspænis veikindum og áföllum, Guði sem Guði sorgar og huggunar, en minna fer fyrir tali um návist Guðs í hina góða farsæla lífi, sem ber að þakka og lofa? Þurfum við kannski að undirbúa okkur betur fyrir næsta góðæristímabil, til að ræða um nærveru Guðs í heimi vellystinganna?

En það eru fleiri áherslur og túlkanir sem togast á í.

Kristnir skiptast oft í tvær fylkingar í afstöðunni til samfélagsmála, efnahagsmála, umhverfismála, uppeldismála. Annars vegar eru þeir sem leggja ofur áhersluna á að kirkjan sé fulltrúi hins andlega, boðberi hjálpræðisverksins, og því komi samfélagsmálin ekki kirkjunni beint við, þau nánast þvælist bara fyrir boðunarhlutverkinu. Svo eru aðrir sem halda því fram að hlutverk kirkjunnar sé að segja hvernig samfélagið eigi að vera og haga sér, hvaða lögmál og gildi eigi þar að vera á öllum sviðum og hlutverk boðunarinnar sé einkum að bæta heiminn og gera hann að betri dvalarstað.

Jesús tók vissulega afstöðu sem flokka má sem samfélagslagslega, með því að vera hjá hinum blindu, fátæku og sjúku og viðhorf hans til barna var augljóst. Og vissulega skiptir máli gott og göfugt siðferði í þjóðfélaginu, líka á fjármálasviðinu. En það er hætta á að of langt sé gengið í þessum efnum er prestar taka að predika hvernig skattar ættu að dreifast, hvernig heilbrigðiskerfið eigi að bregðast við vanda niðurskurðar, svo dæmi séu tekin af handahófi. Aðrir kristnir vinir okkar hafa aðra sýn og finna rök fyrir sinni afstöðu til þjóðfélagsmála og það er ekki einfalt að kveða upp úr um hvorir hafi rétt fyrir sér. Önnur hætta er sú að við verðum réttilega dæmd fyrir vankunnáttu á sviðum sem við þekkjum af raun lítið til, að við verðum fordómafull og kristin trúarviðhorf álitin yfirborðskennd. Presturinn komi fram sem alvitur dómari. Predikunarstóllinn er oft staðsettur hátt yfir söfnuðinum, og þótt fyrirmyndin kunni að vera sótt til ræðunnar á fjallinu, þá erum við ekki frelsari þessa heims, heldur þjónar hins algóða Guðs og störfum í auðmýkt og af lítillæti.

Vegurinn, sannleikurinn og lífið

Þó teljum við okkur hafa boðskap að flytja sem er einstæður og öllu öðru mikilvægara. Þegar við predikum að Jesús sé vegurinn, sannleikurinn og lífið, eins og hann segir sjálfur í Jóhannesarguðspjalli, erum við ekki að draga úr að svo sé, heldur þvert á móti. Í hans faðmi, nærveru og innstu tilveru er vissulega sannleikann að finna. Hið sanna líf er líf með Jesú. K.G. Hammar, fyrrverandi erkibiskup Sænsku kirkjunnar, ritaði eitt sinn bók er ber titilinn: Ég hef ekki sannleikann, en ég leita hans. Þar átti hann við að enda þótt Sannleikurinn með stórum staf sé okkur alveg ljós, þá er sumt okkur hulið og annað sem fellur ekki undir þá skilgreiningu sem hér er átt við. Sannleikurinn um fjölda gena mannsins er ekki að finna í heilagri ritningu eða játningarritum. Við vitum ekki í raun sannleikann um það hvernig best er að ala upp börn í öllum smáatriðum, en við höfum vissulega margt til málanna að leggja og þurfum ekki lengi að lesa guðspjöllin til að sjá þá miklu þýðingu sem börnin fá hjá Kristi sjálfum.

„Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér.

Kannski mætti nefna það sem eina skýringarmynd af ástandinu í þjóðfélagi okkar í dag, að við börn þessa heims höfum hegðað okkur sem fullorðin, sjálfstæð og sjálfbjarga og nú er þeim fullorðinsleik barnanna lokið. Þar fóru ótal hlutir úr böndunum og margir urðu sárir en áttu að verða sælir, bjartsýnin varð að hræðslu, gleðin hvarf sem dögg fyrir sólu að morgni eins októberdags og margir urðu arfareiðir og ekki að undra. Nánast öll okkar þjóð var dregin inn í þennan raunveruleikaþátt og það var erfitt að standa utan leiksviðsins.

Krossinn

Og fleiri tákn og myndir koma upp í hugann. Eitt sterkasta tákn okkar kristinna manna er auðvitað krossinn. Hann vitnar um margt. Tengsl Guðs og manns, hins lóðrétta og lárétta. Kannski mætti skýra misgjörðir okkar nú að það hafi skort á jafnvægi milli hins himneska veruleika og hins jarðneska sem hafi nánast slitið sig frá og talið sig geta staðið einn og óstuttur. Krossinn er vissulega líka eilíft tákn fyrir þjáninguna, dauðann, illskuna, breyskleika mannsins sem hvarvetna blasir við okkur, jafnt í heimi ofgnóttar sem og allsleysis. Hann er líka merki fyrirgefningarinnar, krossfestingar Krists sem lagði líf sitt í sölurnar svo við mættum sættast við Guð.

En krossinn er líka tákn fyrir það sem tók við að lokinni krossfestingunni. Björn Björnsson, hinn góði lærifaðir, minnti okkur á í guðfræðináminu að við værum oft röngu megin við krossinn. Upprisan, gleðin, sigurinn, sáttin við Guð er yfirstaðin, hið nýja líf í samfélagi við hinn upprisna er staðreynd, það er okkar gleðiboðskapur til manns og heims. Skilaboð okkar til samtíðarinnar er ekki hvað síst í anda þessarar trúarvissu, það er Guð sem ræður ferðalokum, ekki við. Leiðin í gegnum þjáningu og erfiði, er leið vonarinnar, umhyggjunnar, upprisunnar, það er leiðin til lausnar, af því að Guð hefur rutt hana fyrir okkur.

Heimspekingurinn valdi er að leita lausna við yfirvofandi þrengingum hins fámenna norska samfélags. Það gerði hann þegar tími áfallsins, reiðinnar og vonbrigðanna, óttans og óvissunnar, var runninn á enda. Við þurfum okkar tíma til að meðtaka þessu vondu tíðindi, en er sú stund ekki að renna upp núna hjá okkur innan tíðar að tímabært sé að huga að framtíðinni, þótt Bubbi telji svo ekki vera? Bubbi nýtir sér mátt tónlistarinnar til að tjá sárar tilfinningarnar sem bærast í brjósti margra þessa dagana. Það hjálpar honum sjálfum og gerum eflaust mörgum gagn. En við megum heldur ekki festast í gremju yfir ástandinu og leita logandi ljósi að sökudólgum. Það hjálpar ekki mikið hinum særða að velta sér upp úr orsökum sáranna, en umhyggja og stuðningur er honum dýrmætur. Seinna má efalítið leita einhverra skýringa á tildrögunum, draga einhverja fram til ábyrgðar til að auka traust og sátt, og læra af reynslunni.

Draumar

Ég átti mér draum sem ekki rættist. Við lifðum síðustu árin sem í draumheimi velsældar sem okkur var fært á silfurfati. Við horfðum á inn- og útstreymi fjármagnsins með mikilli forundran en botnuðum svo sem ekkert í hvaðan allur þessi auður kom og á hverju hann var grundvallaður. Nú höfum við verið vakin af þessum draumi og við blasir sú staðreynd að draumurinn var raunveruleiki. Við sitjum í rjúkandi rústunum, veisluföngin út um allt, vegsummerki eftir sukkið og svínaríið, skýjaborgirnar standa eftir auðar og einskis virði og gestgjafarnir flúnir eða í felum, skömmustulegir og tómhentir að mestu.

Við prestar erum daprir í bragði af því að við sem eigum að vaka yfir góðum gildum, boðberar þeirra lífsgæða sem eru ofar öllu, sem mölur og ryð fá ekki eytt, náðum ekki eyrum veislugestanna og hvað þá gestgjafanna. Vinur minn Heimir Steinsson, svaraði mér eitt sinn er ég stundi yfir því hve erfitt það væri oft að vera prestur. Það er kannski rétt hjá þér, sagði hann, en erfiðast er þó að vera maður.

Nú lifum við á erfiðum tímum sem reyna á okkur, sem prestar og sem manneskjur. Ekki er svo að allt sé hrunið og land okkar í rúst. Í samanburði við ótta, reiði, sára neyð og vonleysi barnanna á Gaza svæðinu, eru okkar “grátur, kveinstafir og harmatölur” (Jeremía 3:21) hjóm eitt. En við erum samt að upplifa eitthvað sem margir hafa aðeins heyrt hjá ömmu sinni og afa að hafi gerst hér fyrir alllöngu síðan.

Það eru engar skyndilausnir til við þessum vanda okkar og alls heimsins. Við höfum þær ekki og ekki heldur þeir sem stjórna landi og ríkjum. Obama mun heldur ekki leysa vanda heimsins, en við vonum vissulega að hann komi mörgu góðu til leiðar í krafti þess valdamikla embættis sem hann brátt gegnir. Sú hætta er á ferðum við aðstæður sem þessar að menn setji traust sitt á ofurhetjuna er komi til að bjarga okkur út úr þessu myrkri. En það er aðeins einn sem ber þann titil að vera ljós heimsins og hann er þegar kominn.

Það á ekki að koma okkur prestum á óvart að eitthvað brestur sem á var treyst, að barist er í heiminum, að hungruðum er ekki sinnt, að börn þjást, að stjórnvöld reynist ráðþrota, að bankarnir okkar hrundu. Við lifum í brotthættum heimi og hverja stund erum við minnt á fallvaltleika þessa undarlega og undursamlega lífs, þar sem í senn er að finna græðgina og afskipaleysið, en líka fegurðina og fórnfýsina.

Vonarauður

Við eigum vonandi öll okkar draum um betri heim og viljum leggja okkar af mörkum að svo gerist, þar sem sanngirni, samstaða, lítillæti og hógværð eru verðug gildi að lifa eftir, svo aðeins fá að þeim góðum gildum séu nefnd sem hafa verið vanvirt á undanförnum árum. Verum minnug þess að við erum ekki stjórnendur þessa heims, ekki höfundar þessa mikla verks sem mannlífið er.

Það er okkar boðskapur, í dag og alla daga, að með lotningu fyrir Guði skapara allra góðra gjafa, þiggjandi fyrirgefningu Krists, í bæn um handleiðslu og innblástur hins heilaga anda sem kallar okkur til góða verka, getum við og skulum við halda ótrauð áfram veginn góða er liggur til hins sanna lífs.

“Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda”. Rómverjabréfið 15:13

Fyrirlestur haldinn hjá prestum í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, fimmtudaginn 8. janúar 2009 á Grand Hóteli.