Gengið og Guð

Gengið og Guð

Páskaboðskaparinn er ekki bara um að lífið heldur áfram eftir dauðann, heldur að eyðilagt líf í þessum heimi verður endurreist og heilt að nýju. Páskar eru ekki um, að okkur verði bara hjálpað til að lifa eilíflega í framtíð, hinum megin við gjá og grjót, heldur að okkur verði líka hjálpað til að lifa vel nú - í þessu lífi.
fullname - andlitsmynd Sigurður Arnarson
23. mars 2008
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“ Mark 16.1-7

“Í þorpi einu birtist einu sinni maður og kvaðst vilja kaupa apa af þorpsbúum á 1000 krónur stykkið.

Þar sem mikið var um apa í nágrenni þorpsins, fóru þorpsbúar að veiða apana og selja manninum þá.

Maðurinn keypti mikið af öpum af þorpsbúum á 1000 krónur, en þegar framboðið fór að minnka, bauðst maðurinn til að borga 2000 krónur fyrir apann.

Aftur jókst framboðið um tíma, en síðan minnkaði það enn frekar og hætti síðan alveg þar sem erfiðara var fyrir þorpsbúa að finna fleiri apa til að selja.

Maðurinn tilkynnti þá að hann mundi borga 5000 krónur fyrir hvern apa sem hann fengi, en hann þyrfti að skreppa frá í smá tíma og aðstoðarmaður hans myndi sjá um kaupin á meðan.

Eftir að maðurinn var farinn, hóaði aðstoðarmaðurinn þorpsbúum saman og bauðst til að selja því apana, sem voru geymdir í búrum, á 3500 krónur stykkið.

Fólkið gæti svo þegar maðurinn kæmi aftur selt honum apana á 5000 krónur.

Þorpsbúar söfnuðu því saman öllu sínu sparifé og keyptu apana af aðstoðarmanninum.

Síðan hefur ekkert spurst til mannsins eða aðstoðarmannsins.”

Boðskapur þessar sögu á að vera:

“Núna veistu ýmislegt um hvernig hlutabréfamarkaðurinn virkar!”

* * *

Þessi saga birtist í Brúnni, fréttabréfi Íslendingafélagsins í Luxemborg, síðastliðinn miðvikudag.

Kaldhæðin en endurspeglar þó að einhverju leyti þær fréttir og umræður sem hafa verið að undanförnu um stöðuna á hlutabréfamörkuðum víða um heim.

Gengi íslensku krónunnar gangvart evrunni og breska pundinu hefur lækkað mikið síðustu daga og verið eitt aðalumræðuefni íslenskra fjölmiðla. Sumir græða og aðrir tapa.

Útflytjendur á Íslandi segja gengið loksins eftir langan tíma rétt skráð. Innflytjendur hækka verð á vörum og eldsneytisverð hefur náð sögulegu hámarki.

Þau sem fá greitt í erlendum gjaldmiðlum fagna, en ekki þau sem fá greitt í íslenskum krónum og starfa erlendis.

Stórfyrirtækin halda að sér höndum og hlutabréf hafa lækkað víða. Er kreppa að koma eða komin?

Forstjórar stærstu banka Bretlands báðu nýlega um fund með bankastjóra Englandsbanka daginn eftir að hlutabréf ýmissa breskra banka lækkuðu umtalsvert meðal annars vegna orðróms á markaði um stöðu þeirra.

Einn banki varð illa úti úr orðróminum og nú er hafin rannsókn á því hvort verðbréfamiðlarar hafi staðið þar að baki.

* * *

Öllu er þó merkilegri fréttin af göngu tveggja kvenna á páskadagasmorgni fyrir margt löngu.

Þær María Magdalena og önnur María voru á leið að gröf Jesú Krists, til að smyrja líkama hann, hinstu smurningu.

Hann hafði verið krossfestur tveimur dögum áður fyrir það sem hann sagði, kenndi og gerði.

Fordæmdur, hrakinn, hæddur.

Efalaust hafa spor þessara kvenna verið erfið og þær vissu að það væri þungur steinn fyrir gröf Jesú, hver myndi velta honum frá fyrir þær?

En þegar þær komu að gröfinni var búið að ýta steininum frá og þær heyra: sagt;

“Hann er ekki hér, hann er upprisinn”. Þessu áttu þær ekki von á því þær bjuggust við líki en fengu í stað þess boðskap lífsins. Það hafði orðið gengishrun hjá öllum þeim sem vildu losna við Jesú. Jesús Kristur sigraði dauðann á krossi, sístæður boðskapur um líf sem sigrar dauðann.

* * *

Hvernig er líf okkar, lífsgangan? Hvar sem hún er, hvort sem það er á hlutabréfamarkaðinum, í atvinnunni eða við uppeldi afkomenda okkar, getur allt breyst á örskotsstund. Öllu kippt undan, hlutabréfin lækka, gengið lækkar, einhver svíkur, þú ert allt í einu atvinnulaus eða einhver nákominn þér greindur með ólæknandi sjúkdóm. Allt breytt. Allt á fallandi fæti, niður á við. Hyldjúpið framundan.

* * *

Einmitt þar er Guð, segir kristin trú. Guð varð maður, var tekinn höndum, dæmur og líflátinn á krossi. Guð þekkir þjáninguna af eigin raun, stendur við hlið þér, þegar þú ert að falla og víkur ekki frá þér. Maríurnar koma að tómri gröf og sagt er við þær: “Leitið þið hins lifandi á meðal hinna dauðu?”

* * *

Þegar áföllin skella á, leitar sálin inn í “launhelgar trjánna” eins og Snorri Hjartarson kemst að orði í ljóði sínu “Launhelgar trjánna”. Engilinn spyr: “Leitar þú hins lifandi á meðal hinna dauðu?” Í þessari spurningu er margt, er lífið, daglega amstrið, vinnan, striðið, leit meðal þess sem ekki lífir? “Lífið lifir en dauðinn dó.” Þetta er einmitt boðskapur páskanna. Guð er ekki meðal þeirra sem eru látin, heldur er hann lífið sjálft. Hann kallar fólk fram í ljósið á ný.

* * *

Hverjar eru áhyggjur þínar? Hverjar eru lífsstoðir þínar? Hvar ber þig niður? Viltu fara með Maríunum að gröfinni á páskadag til að verða vitni að því að lífið lifir og að við megum lifa?

* * *

Fjölskylda fékk nýverið þær frábæru fréttir að mein sem hafði ógnað lífi eins í fjölskyldunni hefði verið staðbundið og þannig hefði verið komist fyrir það með velheppnaðri skurðaðgerð.

Allir glöddust og einn vinurinn sagði eitthvað á þá leið að það væri gott að vera minntur á það við og við hvað lífið gengur út á og hversu miklu máli það skiptir.

Á viðkomandi þá við að það sé gott að muna eftir lífinu og mikilvægi þess, við og við þegar einhver vinur eða fjölskyldumeðlimur á í vandræðum?

* * *

Guð almáttugur minnir okkur ekki bara á mikilvægi lífsins á páskunum eða við og við, heldur alla daga lífsins.

Á hverjum degi vöknum við og hefjum nýjan dag og verðum þannig vitni að sífelldri sköpun og framrás lífsins.

Erum við föst í áhyggjum hversdagsins eða tökum við þátt í páskum hversdagsins?

Þar er vonin vegna þess að boðskapurinn um hina tómu gröf er að Jesús er ekki í gröfinni því að aldrei er allt búið og Guð er ætíð nærri. Eyðilagt líf í þessum heimi verður endurreist og heilt að nýju. Okkur verður ekki bara hjálpað í hinu komandi heimi heldur hér og nú, í þessu lífi.

Þetta gerist ekki bara endrum og eins, heldur alla daga og allar stundir og þar er Guð.

* * *

Hvað viltu með lífið þitt? Viltu lifa því í lífsgrjótinu eða viltu lífa lífinu í ljósinu sem varð á páskadagsmorgninum? Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Amen.