Hvað verður um mig?

Hvað verður um mig?

Við þurfum stöðugt og sífellt að taka ákvarðanir um leiðir. Hvað skal gera, hvert skal halda. Þegar við leitum leiða hlustum við og skoðum. Reynum að skilja, skilgreina, vega og meta. Þá verður til sú nærgöngula spurning: Hver er afstaða mín til lífsins og hvað finnst mér rétt eða rangt? Hvað hugnast mér?

Þjóðfélagsumræðan er á hástigi þessa dagana. Framundan eru kosningar til Alþingis. Yfirlýsingar af ýmsu tagi eru gefnar á skjá eða prenti, rökræða fer fram og fyrirheit um góðar lausnir á vandamálum þjóðarinnar eru gefin. Stundum er svona ástand kallað ‚kosningaslagur‘ af því að deilt er um leiðir og áætlanir. Þetta er aðferð lýðræðis um samráð og hjálpar fólkinu í landinu til að taka ákvörðun og velja leið. Leið góðra úrræða, bættra skilyrða, leið til betri afkomu og farsældar, leið öryggis og vellíðunar. Valið er mörgum erfitt og margar spurningar vakna upp. Undirliggjandi er þó ósk sérhvers manns um betri tíð og bættan hag. Kosning til þings er þjóðarval, en það er einstaklingurinn, sem ákveður, hver niðurstaðan verður. Það er eðli kosninga. Sé kosning réttlát og samkvæmt meginreglum um lýðræði, er hún þannig, að atkvæði einstaklingsins ræður úrslitum og niðurstöðu. Þess vegna er val og ákvörðun sérhvers manns mikilvæg. Einnig vandasöm.

Þetta er eins í lífinu almennt. Við þurfum stöðugt og sífellt að taka ákvarðanir um leiðir. Hvað skal gera, hvert skal halda. Þegar við leitum leiða hlustum við og skoðum. Reynum að skilja, skilgreina, vega og meta. Þá verður til sú nærgöngula spurning: Hver er afstaða mín til lífsins og hvað finnst mér rétt eða rangt? Hvað hugnast mér? Þjóðarákvörðun verður til, þegar einstaklingurinn fær að taka ákvörðun. Sú ákvörðun getur orðið meira en nærgöngul. Hún getur orðið aðþrengjandi, svo mjög, að liggur við köfnun.

Tíu ára drengur hlustaði á rökræður og hávær orðaskipti foreldra sinna, þar sem heimilislífið og framtíðin var til umræðu. Niðurstaðan varð sú að slíta samvistum. Þegar gengið var frá „praktískum málum“ eins og gjarnan er sagt, kom upp spurning og hún borin undir drenginn: Hvort viltu búa hjá pabba eða mömmu? Þótt drengurinn hafi undir niðri átt von á einhverri spurningu af þessu tagi, kom hún samt á óvart og krafan um svar varð óyfirstíganleg. Hvernig svarar maður slíkri spurningu? Er hægt að gera upp á milli foreldra sinna? Og þá er í þessum hugrenningum líka hægt að renna sér yfir á hina hliðina og spyrja: Er hægt að gera upp á milli barna sinna? Hvernig finnst leið fyrir þau, sem er hagstæð, eða hverjum á hún að vera hagstæð? Foreldrinu, barninu eða kannski einhverjum öðrum? Drengurinn fann svar í örvæntingu sinni, sem var mjög einfalt, en kom honum samt undan því að gera upp á milli foreldra sinna. Hann spurði á móti: „Hvoru megin verður sjónvarpið?“ Vegna skilnings og góðvilja foreldranna til að finna lausn, þá fannst lausn, en drengurinn þurfti ekki að gerast aðili að umræðu, þar sem hann var algjörlega vanmátta og um megn að taka þátt í. Honum fannst samt hann vera einn, þegar hann svaraði spurningunni. Einsemd mannsins birtist í ólíkum myndum.

En þannig er val um veg lífsins einmitt oft. Einsemd. Þegar upp er staðið, erum við ein í ákvörðun líðandi stundar. Þrátt fyrir allt er það þó líklega best, annars værum við ekki frjáls. Og af því að drengur í vanda var nefndur til sögunnar, má bæta því við, að hann varð frjáls í því að leggja vanmátt sinn og örvæntingu í hendur þeirra, sem höfðu yfir honum að segja, í þessu tilfelli foreldra sinna. Með því sýndi hann þeim í raun fullkomið trúartraust og trúartraustið varð til fyrir þá elsku, sem hann vissi í hjarta sér, að bjó í foreldrum hans, þrátt fyrir vandamál þeirra innbyrðis. Þau hins vegar hófu sig upp yfir reiði og særindi samskiptanna sín í millum og fundu veg fyrir drenginn sinn, sem miðaðist við hans heill og farsæld. Slíkur sigur gefur mikið svigrúm fyrir gleðina og þakklætið. Tómas lærisveinn færir svo fram aðalspurningu dagsins. Tilefnið er umfjöllun Jesú um framtíð lærisveinanna. Svo mjög var þetta efni viðamikið, að það varðaði ekki bara nútíð og framtíð, heldur sjálfa eilífðina. ‚Ég fer burt og bý yður stað‘ hafði Jesú sagt, - ekkert minna! (sbr. Jóh. 14:2-3). Eilífð og augnablik eiga sér samsvörun. Hvort tveggja fyrirbærið varðar mig og þig sem einstakling, og þar sem ég og þú erum aðeins á einum stað hverju sinni, skiptir öllu að næsta skref sé stigið í rétta átt. Aðeins eitt fótmál skilur að líf og dauða, eins og Davíð lærði í erfiðum samskiptum sínum við Sál konung (sbr. 1. Sam. 20:3) og sérhver fullreyndur maður hefur lært það. Þess vegna er ekki að undra að Tómasi, lærisveini, hafi verið mikið niðri fyrir, þegar hann spyr Jesú: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“ (Jóh. 14:5). Jesús svarar: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóh. 14:6). Í GT er að finna svipaða sýn þar sem segir:

Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er áreiðanlegt, skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.“ (2. Sam. 22:31). Jesús hefur þekkt þessa hugsun og hann gefur sjálfsmynd sinni, sem syni Guðs, nýja sýn með skarpara orðalagi. Orð hans er Guðs orð.

Í GT er orðið sannleikur tengt hugmyndinni um Guð fyrst og fremst. Sú afstaða að sannleikur og Guð sé nátengd hugtök, byggir á því að um sé að ræða áreiðanleika, traust, heilindi. Eins og segir: Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt sannleikur. (Ds. 119:142.) Sjálfur talar Jesús um sannleikann og sjálfan sig í sömu andrá, þegar hann segir: ‚í mér sjáið þið sannleikann og sannleikurinn mun gera yður frjálsa‘ (sbr. Jóh. 8:31-32). Orð Guðs og sannleikur eru eitt og það sama, eins og kemur fram í bæn Jesú, þegar hann biður fyrir lærisveinum sínum og felur þá Guði almáttugum á hendur, bæði í augnablikinu og eilífðinni. „Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.“ Samkvæmt þessu er Jesús orð Guðs og sannleikur. Það sem hann gerir og segir er sannleikur. Og þegar það er nefnt er ljóst að trúmál og stjórnmál eiga sér mörg býsna skyld viðfangsefni. Stjórnmál eru í eðli sínu leit að sannleika, leit að réttum svörum við erfiðum spurningum. Spurning Tómasar, um veginn og áframhaldið, gæti þess vegna verið svona: Hvað verður nú um mig ? Spurningin er allt í senn einkamál, samfélagsmál og eilífðarmál. Hvað verður um mig? spyr hinn aldni, þegar hreyfigeta og heilsa leyfa ekki lengur að búið sé heima. Já, eða þegar sparnaður og ellilífeyrir hafa horfið út í buskann í harðýðgi áður boðaðs viðskiptalífssannleika, sem ekki reyndist sannleikur, heldur blekking. Hvað verður um mig? spyr sá sem greinist með alvarlegan sjúkdóm, og það skortir bæði sjúkrarúm og nothæf tæki og tíma til að bregðast við. Er furða þótt ótti og óvissa auki á vanlíðan sjúklinga og vansæld starfsfólks. Hvað verður um mig? spyr nær helmingur þjóðarinnar, á besta aldri, sem botnar ekkert í því að heimili þeirra hefur hrunið eða riðar til falls, vegna lána sem hafa stökkbreyst til óskapnaðar, sem gerst hefur þrátt fyrir stöðugar greiðslur, framreiddar af skilvísi og eljusemi. Hvað verður um mig, þegar ég hef misst það sem var mér svo mikils virði, eignir, atvinnu, möguleikan til að bjarga mér, tengslin við samfélag, jafnvel vini. Hvað verður um mig? spyr sá sem býður sig fram til Alþingis og þarf að leita sannleikans og finna honum farveg í þjóðlífinu, vinna úr niðurbrotinu og finna leið til úrlausnar. Hvað verður um mig? segir lítið barn, sem finnur ekki stuðning í umhverfi sínu og hallar sér helst að misjöfnum sjónvarpsmyndum og tölvuleikjum. Það er gagnslaust að leita uppi sökudólga í þessu samhengi. Flestir eru sammála um það, hversu ástandið er sársaukafullt. Nú er verk að vinna. Sameiginlegt verkefni. Við skulum ekki missa vonina. Gefum gaum að Tómasi. Inn í þær aðstæður, sem hér var lýst, kemur spurning hans sér ákaflega vel. Sérstaklega af því að við henni fáum við svar. Það er Drottinn Jesús, sem gefur okkur það, af því að hann er er sá sem hann segist vera, vegurinn, sannleikurinn og lífið. Um það vitnar hann með lífi sínu, á fundum með fólkinu, í fræðslustundum sínum og í samtölum sínum við einstaklinga og hópa. Hans þjónusta við mannlífið á sér ríka samsvörun í því, sem sérhver sómakær stjórnmálamaður leitast við að gera. Vinna að heill einstaklinga og samfélags. Það er markmið, sem byggir á heilindum, réttlæti, jafnrétti og miskunnsemi. Gleymum því heldur ekki að í orði Jesú verður augnablikið, hin líðandi stund og eilífðin samhverf. Og nú er mikið verk framundan. Það er einmanaleg upplifun að vera í kjörklefa. Þar situr aðeins einn í senn og tekur ákvörðun. Vit og samviska hins atkvæðisbæra manns ræður. Kjörklefinn er einn af mikilvægustu burðarstólpum frjáls samfélags. Við teljumst ekki mörg á Íslandi, en við erum kraftmikil þjóð og þurfum að hjálpast að við framkvæmdir og þjónustu, sköpun og skipulag. Til þess að svo geti orðið, þurfum við að treysta hvert öðru, leiðbeina hvert öðru, hlusta á hvert annað, virða manngildi og skoðanir, velja leiðir. Drottinn segir: „veginn þangað sem ég fer þekkið þér“.

Grátandi fara menn og bera sáðkorn til sáningar, með gleðisöng koma þeir aftur og bera kornbindin heim.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Textar skv. B-röð Sl 126 2. kor 4.14-18 Jóh 14.1-11