Hvíld í lófa Guðs

Hvíld í lófa Guðs

Við þurfum að efla samfélagið við hvert annað á því kosningaári sem í hönd fer. Okkur er gefinn lýðræðislegur réttur til að taka þátt í að móta samfélag okkar til framtíðar. Þannig getum við tekið þátt í að móta gróandi þjóðlíf sem frelsishetjur. Við höfum mótað leikreglur til að fara eftir. Og við kjósum okkur fulltrúa til þess að skapa þær og endurskoða eftir þörfum á Alþingi. Virðing fyrir Alþingi hefur farið þverrandi á síðustu árum m.a. vegna tengsla alþingismanna við gömlu bankana sem hrundu. Í hruninu vildi enginn axla ábyrgð. Fram að því hafði öllum fundist frelsið yndislegt og gerðu það sem þeir vildu eins og segir í dægurlaginu.
fullname - andlitsmynd Sighvatur Karlsson
31. desember 2012
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

,,Kona hringdi á ferðaskrifstofu og spurði sölumanninn: ,,Hvað tekur langan tíma að fljúga milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja? Svarið kom um hæl: Það tekur 20 mínútur. En með Herjólfi ?, spurði hún. Og sölumaðurinn sem var ekki með þetta alveg á hraðbergi, svaraði: ,,Augnablik!“ Núú, sagði þá konan, úr því að svo er þá ætla ég að taka Herjólf.“

Hlykkjótt vegferð

Tíminn hnígur hljóður fram um farveg sinn uns hann fellur í aldahylinn. Gamlársdagur er runninn upp og við lítum um öxl yfir farinn veg og hugleiðum gengin spor á árinu. Við gengum örugglega ekki beina braut í heiðríkju. Leið okkar var fremur mörkuð hlykkjum og lægðum, kannski dimmum dölum en leið okkar lá örugglega líka upp á hæðirnar þar sem heiðríkjan ríkti og sólfarsvindurinn lék við andlit okkar. Þegar litið er um öxl við áramót skiptir miklu að friður ríki í hugskotinu um það sem liðið er. Mér finnst skipta miklu máli að hafa heilbrigt viðhorf til þess sem liðið er. Sá tími var ugglaust markaður mörgum gleðistundum þar sem við nutum samfélags við ættingja og vini við ótal tilefni sem ástæða er til að minnast með þakklæti. Við finnum á eigin skinni hvað þessar samverustundir gáfu okkur mikla innistæðu sem ekki verða metnar til fjár. Þótt lífið sé skemmtilegt þá getur það líka verið erfitt. Almennt heilbrigði verður ekki metið til fjár. Þegar fólk greinist með alvarlegan sjúkdóm þá kann það fyrst að meta það sem það hafði, góða heilsu til líkama og sálar. Þá breytist gildismatið líka. Það sem áður skipti máli gerir það ekki lengur. Þess vegna skiptir miklu máli að nýta tíma okkar eins skynsamlega og við getum. Njótum sólarlagsins með ástvinum, lærum eitthvað nýtt, hjálpum einhverjum sem á erfitt. Reynum að gera hvern dag minnisstæðan. Því að fyrr en varir getum við ekki lengur notið samvista með þeim sem okkur þykir vænst um. Við fæðumst til að deyja en engin veit sína ævina fyrr en hún er öll. Að sönnu eru hjörtu okkar óróleg á stundum, þegar einhver sem okkur er kær missir heilsuna eða kveður þetta jarðneska líf. Það er eðlilegt að gráta á ljósanna hátíð þegar sorg er í hjartanu. Þá getum við hjálpað öðrum að syrgja og sýnt þeim að það er í lagi að vera sorgmæddur jafnvel á jólum. Það er mikilvægt að tjá einhverjum sem við treystum tilfinningar okkar, áhyggjur og þakkæti. Og segja þeim frá því sem okkur veitist erfitt. Það er betra en að byrgja allt inni og bera sorg sína í hljóði. Söknuður eftir ástvinum verður fylginautur syrgjenda ævilangt.

Hið ljúfsára

Þegar erfiðleikar steðja að og vanlíðan þjakar hug og sál, þá hellist einmanaleikinn yfir okkur eins og farg. Hugurinn verður á sífelldu flökti og festist ekki við neitt, einbeitingin hverfur og það verður erfitt að biðja til Guðs. Við kvíðum morgundeginum og verðum ráðalaus. Þá er gott til þess að hugsa að við erum ekki ein óstudd. Einn er sá sem alltaf vakir og verndar okkur. Hann segir við okkur hvert og eitt í guðspjalli þessa gamlársdags. ,,Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Við getum leitað til frelsarans í öllum erfiðleikum og sett allt okkar traust á hann. Hann er lifandi Guðs og stendur með okkur í blíðu og stríðu. Það er hægt að tala við hann um allt sem veldur okkur erfiðleikum. Boðskapur jólanna er huggunarríkur vegna þess að hann segir að Guð sjálfur hafi gerst maður í barninu í jötunni, manninum á krossinum, hinum upprisna Jesú Kristi sem er hjá okkur í anda sínum. Sjálfur kynntist hann erfiðleikum mannanna af eigin raun. Þess vegna finnur hann til samkenndar með mannanna börnum. Það er brýnt að sáttargjörð eigi sér stað við hjartarætur okkar um viðburði í lífi okkar, jafnvel þótt ljúfsárir séu. Við fáum því ekki breytt að hafa misst ástvin sem var okkur kær í lifanda lífi. Við fáum því heldur ekki breytt að hafa greinst með sjúkdóm á þessu ári eða orðið fyrir öðrum áföllum. En við getum notað þá erfiðu reynslu til að vaxa sem manneskjur

Desmond Tutu, biskup í Afríku, sagði einu sinni: ,,Eitt af því sem við höfum lært er að engar aðstæður geta nokkurn tíma kallast ómögulegar og ekkert vandamál til sem ekki er unnt að leysa.“

Það eru miklar kröfur gerðar til okkar um að hafa stjórn á öllu. Við erum hvött til að tryggja alla hluti og hafa allt öruggt og pottþétt. Hið heilaga æðruleysi er andstæða þessa. Æðruleysi er að voga að lifa í núinu. Að taka dag í senn, skref í senn. Götusóparinn Beppo sagði: ,,Oft sér maður langa götu framundan og hugsar með sér: Þetta er skelfilega langt. Ég verð aldrei búinn með þetta! En það má aldrei hugsa um alla götuna í einu, bara hugsa um næsta skref, næsta átak með sópnum. Og um leið uppgötvar maður að skref fyrir skref er maður kominn götuna á enda. Maður tók bara ekkert eftir því hvernig, og er einhvern veginn alveg óþreyttur.“

Eitt skref í einu

Guð hvetur okkur til að lifa í núinu, lifa æðrulaus eins og hver dagur sé okkar síðasti, í trausti til sín. Sigurbjörn Einarsson biskup talar um þetta í  fallegu versi:

Dag í senn eitt andartak í einu, eilíf náð þín faðir gefur mér Mun ég þurfa þá að kvíða neinu, þegar Guð minn fyrir öllu sér Hann sem miðlar mér af gæsku sinni minna daga skammt af sæld og þraut sér til þess að færa leið ég finni fyrir skrefið hvert á lífs míns braut. ( sb 712)

Hið þakkarverða

Þetta er fallegt vers sem minnir okkur á það að Guð gefur okkur góðar gjafir sem við megum ekki gleyma að þakka fyrir. Við skulum þakka honum fyrir skattana sem við borgum sem merkja að við höfum atvinnu. Við skulum þakka honum fyrir að fötin séu stundum eilítið þröng, það þýðir að við höfum nóg að borða. Við skulum þakka honum fyrir þvottinn sem hefur hlaðist upp, það merkir að við eigum föt til skiptanna. Við skulum þakka honum fyrir rafmagnsreikninginn sem merkir að við njótum ljóss og hita. Við skulum þakka honum fyrir gagnrýni og stjórnmálaþras. Nú kann einhver að klóra sér í kollinum og spyrja hvort það sé við hæfi. Jú, vegna þess að við búum við tjáningarfrelsi

Frelsi í þágu hins góða

Við viljum ekki búa við helsi heldur frelsi til orðs og æðis.  En frelsinu fylgir ábyrgð. ,,Frelsið er yndislegt, ég geri það sem ég vil“, er sungið í dægurlaginu. Það er hættulegt að gera það sem maður vill. Taumleysisfrelsi er  skaðlegt ef aðgát er ekki höfð í orði og verki.  Sá sem fær gjöf frelsisins, eins dýrmæt og hún er, fær ábyrgðina líka. Frelsi kristins manns felur í sér þá ábyrgð að þjóna náunganum í kærleika. Við þurfum að heyja frelsisbaráttu að þessu leyti í þágu hins góða.

Við þurfum að efla samfélagið við hvert annað að þessu leyti á því kosningaári sem í hönd fer. Okkur er gefinn lýðræðislegur réttur til að taka þátt í að móta samfélag okkar til framtíðar. Þannig getum við tekið þátt í að móta gróandi þjóðlíf sem frelsishetjur. Við höfum mótað leikreglur til að fara eftir. Og við kjósum okkur fulltrúa til þess að skapa þær og endurskoða eftir þörfum á Alþingi. Virðing fyrir Alþingi hefur farið þverrandi á síðustu árum m.a. vegna tengsla alþingismanna við gömlu bankana sem hrundu. Í hruninu vildi enginn axla ábyrgð. Fram að því hafði öllum fundist frelsið yndislegt og gerðu það sem þeir vildu eins og segir í dægurlaginu.

Nú hafa fallið dómar í héraðsdómi í svokölluðu Milestone máli þar sem óbeint er sagt að taumleysisfrelsið hafi verið í lagi upp að vissu marki. Er þetta í lagi?, spyr ég, að dómstólar skuli vera svona linir í þágu fjárplógsmanna þegar aðrir eru dæmdir í þriggja mánaða fangelsi fyrir að stela ostaköku hjá 10-11? Fljótum við enn sofandi að feigðarósi? Verður nýtt hrun innan nokkurra ára? Höfum við ekkert lært? Er nema von að hjörtu okkar séu óróleg við áramót?

,,Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“, segir Jesús. Ég tel að það sé full þörf á því við áramót að staldra við og þakka Guði fyrir þann frið sem hann gefur. Ekki er vanþörf á að eiga frið Guðs í hjartanu þegar við göngum inn í nýja árið.

Við viljum að réttlætið nái fram að ganga.Við viljum þjóna hvert öðru í þágu hins góða, fagra og fullkomna. Við viljum lifa í samfélagi þar sem þjónustan er í lagi á öllum sviðum, ekki síst heilbrigðisþjónustan. Við viljum lifa í samfélagi þar sem enginn þarf að búa við skort á lífsnauðsynjum en geti haft ofan í sig og á. Við viljum lifa í samfélagi þar sem við getum búið þar sem okkur langar til. Okkar lýðræðiskjörnu fulltrúar á þingi og í sveitastjórnum eiga að búa svo í haginn að næga atvinnu sé að fá á hverjum stað og að fólk geti búið þar sem það langar til.

Við Húsvíkingar höfum lært að það sé betra að taka einn dag í einu í atvinnumálum og vænta ekki of mikils í þeim málaflokki. Góðir hlutir gerast hægt. Við bindum engu að síður vonir við að þáttaskil verði í atvinnumálum okkar á nýju ári með nýrri ríkisstjórn.

Mér finnst mikilvægt að allir nýti rétt sinn til þess að kjósa vegna þess að við búum við tjáningarfrelsi. Við höfum frelsi til að kjósa nýtt fólk á þing. Við höfum frelsi til að kjósa fulltrúa til setu í sveitarstjórnum 2014. Við höfum það allt í hendi okkar. En þá verðum við líka að geta treyst þessu fólki fyrir þeim verkefnum sem bíða þeirra á alþingi og í sveitarstjórnum, gefið þeim andrými til að vinna sín verk þar í þágu samfélags og þjóðar.

 Hvílum í lófa Guðs

Í dag, á gamlársdegi, vill Guð gefa okkur sinn frið sem er æðri öllum skilningi. Við megum hvíla í lófa hans og safna kröftum í dag. ,,Verið ekki áhyggjufull. Yðar himneski faðir veit“, segir Jesús. Þessu getum við treyst. Og þess vegna getum við horft æðrulaus fram á veginn. Guð getur snúið öllu til góðs. Hann getur jafnvel snúið því versta til góðs og blessunar. Á það minnir krossinn á altarinu sem signdi okkur í heilagri skírn, ósjálfbjarga óvitana og signir enn, okkur með öll okkar ráð og ráðleysi, með okkar vit og vitleysur, okkur sem höldum að það taki augnablik að fara með Herjólfi til Vestmannaeyja.

Kirkjan heilsar nýju ári í nafni Drottins síns og frelsara, Jesú Krists, og leggur komandi tíma í hendur hins upprisna. Í Faðir vorinu biðjum við að nafn Jesú Krists megi helgast. Með þessum bænarorðum biðjum við að elska og sannleikur megi eflast okkar á meðal, þekking og speki. Við viljum sjá lýðræðiskjörna fulltrúa okkar eflast að þessu leyti til að réttlætið nái fram að ganga, til að mannréttindi verði virt, til að unnt verði að viðhalda gróandi þjóðlífi í landi náttmyrkranna. Guð gefi okkur tíma til að það verði unnt.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi er og verður um aldir alda. Amen.