Jesús í fókus á föstu

Jesús í fókus á föstu

Kvikmyndir eru um margt ágengari en önnur túlkunarform og sitt sýnist hverjum þegar kemur að túlkun á frásögum guðspjallanna. Kannski er ekki tilviljun að oft þykir fólki „að bókin hafi verið betri“ þegar metið er hve vel hafi tekist til við að færa frásögur guðspjallanna upp á hvíta tjaldið.

Á föstunni er fókusinn gjarnan stilltur á píslarfrásögur guðspjallanna og innihald þeirra skoðað út frá ýmsum sjónarhornum. Nú er þessari hefð fylgt á nýstárlegan hátt og boðið upp á Jesúbíó í Neskirkju kl. 15 á sunnudögum. Þar eru sýndar kvikmyndir sem fjalla um líf og starf Jesú Krists. Nokkrar þessara mynda taka sérstaklega fyrir píslarsöguna og túlkun hennar inn í okkar samtíma. Á undan sýningu eru fluttar stuttar hugleiðingar af guðfræðingi og kvikmyndafræðingi og síðan gefst tækifæri til að ræða um myndina að sýningu lokinni.

Kvikmyndir eru um margt ágengari en önnur túlkunarform og sitt sýnist hverjum þegar kemur að túlkun á frásögum guðspjallanna. Kannski er ekki tilviljun að oft þykir fólki „að bókin hafi verið betri“ þegar metið er hve vel hafi tekist til við að færa frásögur guðspjallanna upp á hvíta tjaldið. Engu að síður bera þessar kvikmyndir vitni um þann kjark og áræði sem þarf til að fást við texta ritningarinnar. Þær þarf að skoða sem tilraunir við að túlka textana inn í nýjar aðstæður, en nýir tímar hljóta að kalla eftir slíkri tilraunastarfssemi við að koma þessum fornu textum áleiðis til nýrrar kynslóðar. Hugtakið hefð (traditio) merkir einmitt að flytja eitthvað áfram, í þessu samhengi að flytja trúararfinn áfram frá einni kynslóð til annarar, sem er það vandasama hlutverk sem kristinni kirkju hefur verið falið.

Ágengni túlkunarforms kvikmyndanna felst m.a í því að þar sjáum við mann af holdi og blóði „leika“ son Guðs. Það knýr fram spurninguna: Hvernig fer það saman? Fólkið sem sá Jesú og hlustaði á hann forðum daga spurði þessarar sömu spurningar. Er þetta í raun mögulegt? Er hægt að vera maður af holdi og blóði og líka sonur Guðs? Þetta er kjarninn í boðskapnum um holdtekjuna, um það þegar Guð tók á sig hold og gerðist maður. Kenningarsmiðir fornkirkjunnar glímdu við spurningar um eðli Krists og hugmyndina um holdtekju Guðs og enduðu svo með því að segja að hann hefði verið „sannur Guð og sannur maður“ í einni persónu, hvorki meira né minna. Þetta er einmitt kjarni þess boðskapar sem kristin kirkjan hefur leitast við að flytja áfram frá kynslóð til kynslóðar.

Um aldir hafa listirnar lagt sitt á vogarskálina við að koma boðskapnum um Jesú Krist áleiðis. Kvikmyndirnar sem gerðar hafa verið um líf og starf Jesú Krists eru mikilsvert framlag listanna til þessa verkefnis á okkar tímum. Þær eru heiðarlegar tilraunir til túlkunar á fornum boðskap, sem kristin kirkjan telur að eigi engu að síður erindi til okkar samtíma. Það má því líta á Jesú-myndirnar sem eins konar tæki og tól sem standa okkur til boða í glímunni við hina sístæðu spurningu Krists: „En þér, hvern segið þér mig vera?“ (Mk 8.29)

Jesú-bíó á föstu er verkefni sem styrkt er af Kristnihátíðarsjóði og er samstarfsverkefni Deus ex cinema, Guðfræðistofnunar og Neskirkju.