Móðir, systir og bræður

Móðir, systir og bræður

Morgunlestur þessa miðvikudags fjallar um fjölskyldubönd. Þar segir: „Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: Hér er móðir mín og bræður mínir! Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir.“ Fjölskyldan og hefðbundin fjölskyldubönd eru útvíkkuð svo að þau ná ekki aðeins yfir þá sem tengjast blóðböndum, heldur ná þau yfir alla sem eiga ákveðið samband við Guð. Því sambandi er lýst með orðalaginu að gjöra vilja Guðs.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
24. ágúst 2005

Nú koma móðir hans og bræður, standa úti og gera honum orð að koma. Mikill fjöldi sat í kringum hann, og var honum sagt: Móðir þín, bræður og systur eru hér úti og spyrja eftir þér. Hann svarar þeim: Hver er móðir mín og bræður? Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: Hér er móðir mín og bræður mínir! Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir. Mk 3.31-35

Kæri söfnuður,

morgunlestur þessa miðvikudags fjallar um fjölskyldubönd. Þar segir:

Og hann leit á þá, er kringum hann sátu, og segir: Hér er móðir mín og bræður mínir! Hver, sem gjörir vilja Guðs, sá er bróðir minn, systir og móðir.

Fjölskyldan og hefðbundin fjölskyldubönd eru útvíkkuð svo að þau ná ekki aðeins yfir þá sem tengjast blóðböndum, heldur ná þau yfir alla sem eiga ákveðið samband við Guð. Því sambandi er lýst með orðalaginu að gjöra vilja Guðs.

Það liggur þá kannski beint við að spyrja hvað átt sé við með þessu orðalagi? Á Jesús við að þau sem fylgja boðorðum Guðs út í ystu æsar geti talist til fjölskyldu hans? Á hann við að aðeins þau sem fylgja lögmálsinu algjörlega fái að tilheyra þessari fjölskyldu Guðs?

Nei, svo er ekki. Hlýðni við lögmál og boðorð er ekki forsenda þess að fá að koma til Guðs og tilheyra samfélagi fylgismanna hans, a.m.k. ekki að skilningi okkar lútherskra. Auðvitað eigum við að hlýða boðorðunum, en þau eru ekki forsenda þess að við megum tilheyra honum, vera hans.

Hvernig skiljum við þetta þá? Ein leið er að segja: Við fylgjum vilja Guðs í okkar garð er að við áttum okkur á þörfinni fyrir samfélag við hann, játum hana og snúum okkur til hans til að meðtaka elsku hans til okkar. Að við verðum Guðs börn.

Hér er móðir mín og bræður mínir!

Fyrr í textanum segir að Jesús hafi litið í kringum sig og mælt þessi orð til allra viðstadda, sem líklega voru býsna margir: “Hér er móðir mín og bræður mínir!” Hann segir þetta við allan hópinn, lærisveinana alla. Við vitum að það var blandaður hópur.

Úr þeim hópi, lærisveinahópi Jesú, spratt kirkjan, sem samfélag þeirra sem vilja fylgja honum. Við getum heimfært orð hans upp á hana. Hvað segir þetta okkur þá um kirkjuna? Jú, hún er fjölskylda. Stórfjölskylda barna Guðs. Sérhver sem tilheyrir henni – er orðinn hluti af þessari stórfjölskyldu.

Er þetta ekki undursamlegt? Að vita að við tilheyrum slíkri fjölskyldu. Og er þetta ekki holl áminning til okkar þegar kemur að því að sinna um náungann? Að nálgast hann sem systur, eða bróður eða móður í Kristi? Og er ekki gott að eiga bakland í slíkum systkinahópi og að geta verið bakland og stuðningur við aðra? Íhugum það í dag sem aðra daga og lifum í þeim veruleika.

Guð blessi börnin sín öll. Amen.