Jesús Kristur, þýðandinn góði

Jesús Kristur, þýðandinn góði

fullname - andlitsmynd María Guðrún Ljungberg
17. júní 2014
Flokkar

Þjóðhátíðardagur 17. júní 2014

Lýðveldi Íslands á afmæli í dag, og það er ekki hvað a afmæli sem er heldur sjötugsafmæli! Og í dag eru líka 203 ár liðin frá því að Jón Sigurðson fæddist hér á Hrafnseyri, en hans líf og starf er samofið frelsis og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á 19. öldinni. Jón Sigurðsson er ein af þeim manneskjum sem hefur staðið vörð um fjársjóði Íslendinga og borið hag okkar fyrir brjósti. Fyrir það getum við verið þakklát. Hans áhersla var á það sem sameinar okkur sem manneskjur, eins og hin íslenska menning og tunga, landsins einstaka náttúrufegurð og harðgerður andi. Og sífellt bætast fleiri í hóp þeirra sem vilja með stolti kalla sig Íslendinga, og megi Guð gefa að við getum tekið vel á móti hverju og einu þeirra og gleðjast yfir síaukinni fjölbreytni íslensk mannlífs. Að við megum leitast við að tengjast jákvæðum kærleiksböndum við umhverfi okkar og samfélag eins og Kristur boðar.

Hvernig byrjum við? Í upphafi var orðið. Orð eru leið til að tengjast, en viljinn til að miðla skynjun raunveruleikans afmarkast af orðaforða okkar. Við getum endalaust fundið upp ný orð, fyrir nýjar tengingar, eins nýyrðið minnispinni, þeas usb lykill. Og öll skilið þið hvað ég meina þó orðið sé nýtt. Tungumálið er okkur miðill til að tengjast hvort öðru, miðla hugmyndum, tilfinningum, trú og von. Vandamál vakna þegar við viljum að aðrir skilji, sérstaklega þegar við viljum þýða þessar hugmyndir yfir á annað tungumál. Þá er oft talað um að grunn merkingin geti týnst í þýðingarferlinu. Þetta hefur þýðendum verið hausverkur um aldaraðir og ein af ástæðum þess að Biblían var seint þýdd yfir á önnur tungumál. Tungumál eru sjaldnast lík og hafa hvert um sig heilan heim að geyma. Íslensk tunga er hluti af okkur, persónuleg eign hvers og eins sem enginn getur frá manni tekið. Flest okkar búa við ríkulegan orðaforða, fjársjóðskistu fallegra sagna og lýsingarorða sem skrýða öll okkar samskipti. Að baki orðanna er stærra samhengi, þau bera með sér menningalegan farangur sem byggjast á hinu sögulega, pólitíska og menningalega landslagi sem þau urðu til í, í daglegu lífi Íslendinga gegnum aldirnar. Þessa fjársjóðskistu aðstoðaði Jón Sigurðsson við að varðveita. Orðsifjagreining færir okkur nær því að skilja heildarandrúmsloft tungumáls, og þaðan gert okkur jafnvel kleift að ímynda okkur stærra samhengi að baki orðaforðans. Þýðendur standa frammi fyrir erfiðum verkefnum, ekki bara að tengja saman hugmyndir og tilfinningar, heldur ólíkan menningafarangur hvers tungumáls fyrir sig.

Ég kynntist einu sinni þýðanda, sem var svo vel að sér að hann hafði vald og þekkingu á öllum tungumálum jarðar, með ótakmarkað minni, tímalaus. Ég á þennan þýðanda að, get leitað til hans í bæn bæði nótt og dag, þýðanda sem tengir saman allar þjóðir óháð kyni, kynþætti, aldri eða stöðu. Þessi þýðandi er sífellt að tengja saman fólk og brúa brýr, er hann býður okkur að hafa kærleikan fyrst og fremst að leiðarljósi. En orð eins og kærleiki, líkt og réttlæti hafa verið notuð svo oft, að við þurfum hjálp Jesú Krists, þýðandans góða, að skilja raunverulegu merkinguna að baki orðanna, þýða þau fyrir okkur en það er eitthvað sem orðabók eða þýðingarforrit getur ekki miðlað eitt og sér.

Biblían, lestrar dagsins hjálpa okkur við þetta er þau fjalla um kærleikan, tala um hvernig Guð mun sameina hjörtu okkar og fylla þau af ótta við sig. En hvernig tengist kærleikur ótta? Hugtakið að lifa í ótta Drottins kemur a.m.k. 300 sinnum fyrir í Biblíunni og því vert að skoða. Hvernig mynduð þið skilgreina ótta við Guð? Mikla virðingu kannski? Í textanum stendur skrifað: Ég mun blása ótta mínum þeim í brjóst. En á sama tíma segir í 1Jóh 4:18, "Fullkomin ást hrekur burt allan ótta."

Þarna er orðið ótti ef til vill ekki það sama og við ætlum okkur. Og þið haldið ef til vill að hugmyndin “guðsótti” sé eitthvað sem eigi bara heima í Gamla testamentinu einu og sér, en Nýja testamentið fjallar vissulega um guðsóttan líka. Jesús segir í Matteusi 10:28, “Óttist ekki þá sem vilja drepa líkama ykkar, þeir geta ekki snert sál ykkar. Óttist aðeins Guð, sem getur tortímt bæði sálum og líkömum í helju.” Það er nú aldeilis erfitt að kyngja svona texta. Þetta varla hótun? Og hvernig rímar þessi texti við orð Jesú fjórum köflum síðar: “Verið óhræddir?” Páll segir síðar í 2Kor 7:1, “við vinnum að fullkominni heild, því við óttumst Guð.” Hér er ekki verið að nota orðið ótta í hefðbundinni merkingu, heldur verið að lýsa náttúrulegum viðbrögðum manneskjunnar gagnvart almætti Guðs. Því miður missum við stundum sjónar af kærleikanum vegna ótta, og sum teljum að hættur sem við sjáum í kringum okkur, í fréttunum, í samfélaginu, séu mesta ógnin sem mannkynið stendur frammi fyrir, og verkefni Guðs sé þá að eyða þessum hættum sem birtast okkur. En Biblían segir annað: hætturnar sem við sjáum kringum okkur eru smávægilegar í samanburði við mátt og góðmennsku Guðs, hann er algóður, almáttugur og óendanlegur. Að standa frammi fyrir Guði í allri sinni dýrð, hjálpar okkur að skynja hlutföll vandamála í samræmi við óendanleika Drottins. Frammi fyrir Guði, að anda að sér nærveru hans og kærleika, hrekur burt allan ótta, en á sama tíma fyllir hjartað óttablandinni aðdáun yfir víðfermi hans. Ef við ætlum okkur að hætturnar séu mesta ógnin, gefum við þeim og óttanum óverskuldað vald, því allar heimsins ógnir eru tímabundnar. Þegar við einblínum á áhyggjur og ótta, stækka þær og hættan eykst að við förum að smætta Guð. Með því að standa frammi fyrir almætti Drottins bjargar hann okkur frá ranghugmyndum um okkur sjálf og umhverfið. Kristur gefur þannig frelsi. Sjálfstæði. Þannig er ótti við Drottinn upphaf viskunnar.

Textar dagsins fjalla um mikilvægi kærleika, guðsótta og einhuga samfélags. Jón Sigurðsson yrði örugglega stoltur ef hann gæti séð samfélag okkar í dag, sem hefur staðið af sér ýmsar þrengingar. Líkt og Íslendingar fyrr á tíðum sem glímdu við ótta, stöndum við saman, sameinumst á kirkjubekkjum frammi fyrir algóðum, almáttugum Guði og leggjum allt í hans öruggu, stóru hendur. Við erum líka komin hér saman í dag til að virða minningu Jóns Sigurðssonar og minnast baráttu þjóðar fyrir sjálfstæði, og á sama tíma íhuga allt það sem tengir okkur saman sem Íslendinga. Og ef tengingarnar reynast okkur vand með farnar getum við alltaf leitað til þýðandans góða, og treyst á að hann hjálpi við að tengja saman orð, hjörtu, fólk og lönd. Elskulega samfélag, Guð blessi okkur þennan þjóðhátíðardag.