Guð elskar þig

Guð elskar þig

“Guð elskaði” segir í texta dagsins. –Ef kirkjan ætlar að vera trú hinum kærleiksríka Guði verður hún að vera tengd tilverunni og þjóna kærleikanum sem henni ber,- tengd heiminum og öllum sviðum og þáttum mannlegs lífs. Ekkert er henni óviðkomandi því Guð kærleikans er á vettvangi mitt á meðal okkar. Þannig er Guðsmyndin sem Kristur boðar, Guð er ekki fjarlægur heldur nálægur. Og elska Guðs birtist okkur á marga vegu. Í barnsskírninni vill Guð sýna okkur áþreifanlega að hann elskar okkur og lætur sér umhugað um okkur, löngu áður en við förum að hugsa um hann, löngu áður en við getum gert nokkuð fyrir hann. Hann elskar okkur að fyrra bragði. Hann stígur fyrsta skrefið, á fyrsta leikinn.

5. Mós. 18:15,18-19; 2. Pét. 1:16-21; Matt. 17:1-9. Við skulum biðja: Drottinn Guð. Við þökkum þér kærleika þinn og biðjum þess að við megum framganga í honum. Við þökkum þér kirkju þína og biðjum þess að við megum þjóna henni. Blessa Seltjarnarneskirkju og söfnuð hennar, í Jesú nafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Krist. Amen.

Til hamingju með 25 ára afmæli kirkjunnar ykkar kæri söfnuður. Kirkjunnar, sem kynnt er sem ykkar annað heimili. Seltjarnarneskirkja. Okkar annað heimili, blasir við þegar farið er inn á heimasíðuna. Þetta er setning sem tekið er eftir og setning sem segir allt um það hvernig forsvarsmenn þessa safnaðar hugsa um kirkjuna sína og starfið sem hér fer fram. Heimili á að vera öruggur staður. Staður þar sem okkur líður vel. Staður þar sem kyrrð ríkir. Staður þar sem fólk hittist og deilir kjörum. Staður þar sem kynslóðirnar mætast og læra hver af annarri. Heimili er líka griðastaður í baráttu lífsins. Þetta er góð nálgun á því hvernig kirkjan er og hvernig við viljum að hún sé. 40 ár eru frá stofnun sóknarinnar og tæp 33 ár frá því fyrsta skóflustungan var tekin að kirkjunni. 28 ár frá því aðstaðan á neðri hæðinni var vígð og 25 ár frá því kirkjan var vígð. Allt hefur þetta verið gert í áföngum og starfið byggst upp jafnt og þétt. Farsæld hefur ríkt yfir byggingu og starfi. Það er ekki sjálfgefið að svo sé og gerist ekki nema margir leggi hönd á plóg og séu einhuga um að láta hlutina ganga. Hafið öll þakkir fyrir ykkar góða starf og þann góða ásetning að gera kirkjuna að ykkar öðru heimili fyrir söfnuðinn allan.

Fyrir ári, í febrúar í fyrra, var ég stödd í Afríkuríkjunum Malawí og Keníu. Það var umhugsunarvert að sjá þar, í þeim hlýju löndum, þar sem fólk getur safnast saman undir tré til fundar, að þar skuli líka vera áhugi á að byggja kirkjuhús. Það er þeim mikilvægt að eiga sér samastað til að koma saman og lofa sinn Guð og fræðast um hann. Við mannfólkið viljum eiga samastað, heimili, hvort sem við búum í heitum eða köldum löndum. Og þar eins og hér viljum við að allt sé til reiðu þegar við komum saman til fundar við Guð. Jafnvel Jesús sjálfur hafði þörf fyrir að tala við Guð sinn. Hann fór afsíðis til að biðja. Um það vitna nokkrir textar í guðspjöllunum. Í guðspjalli dagsins er fjall eitt í miðpunkti þeirrar myndar sem dregin er upp. Jesús fór upp á hátt fjall með þremur lærisveinum sínum til að þeir gætu verið einir saman. Yfirskrift þessa guðspjallstexta er “ummyndunin á fjallinu” vegna þess að þegar þeir fjórir, Jesús og lærisveinarnir þrír, Pétur, Jakob og Jóhannes, voru komnir upp á fjallið gerðist eitthvað sem lærisveinarnir áttu ekki von á, eitthvað óútskýranlegt, því þar ummyndaðist Jesús fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi eins og segir í guðspjallinu. Og rödd heyrðist að ofan.

Á fjallinu er Jesús umlukinn tveimur mestu spámönnum þjóðar sinnar þeim Móse og Elía. Og röddin sem kemur af himnum staðfestir að jafnvel í þeim þjáningum sem hann á í vændum haldi Jesús áfram að vera hinn elskaði sonur Guðs. Þessi kafli um ummyndunina boðar dýrð Jesú á upprisudeginum og þá breytingu sem hver trúaður maður á í vændum. Jesús leið og dó á krossi eins og vitað er. Hann sjálfur vissi hvað í vændum var þegar hann fór upp á fjallið með lærisveinum sínum. Og eins og hann var hinn elskaði sonur Guðs, eins og röddin úr skýinu sagði, þá erum við elskuð börn Guðs alltaf. Hvort sem vel gengur eða illa, líka í hinum mestu þjáningum erum við elskuð börn Guðs. Við skyldum því ekki örvænta eða óttast um hag okkar þó í móti blási um tíma. Við megum ekki missa vonina, trúna eða fullvissuna um kærleika Guðs okkur til handa. Röddin, sem heyrðist þegar Jesús ummyndaðist á fjallinu, var sú hin sama og orðin þau sömu og þegar Jesús var skírður, krýndur til að vera þjónn okkar og frelsari. Krýndur til að vera í þjónandi forystu fyrir mannkyn allt.

Það hefur fylgt mannkyninu að þurfa að sjá til að trúa. Að þurfa sannanir til að geta trúað á æðri mátt. Fólk er misjafnlega opið fyrir trúnni. Þetta er þekkt. Pétur, sem hafði verið svo viss í sinni trú 6 dögum áður, varð hræddur þegar Jesús ummyndaðist fyrir augum hans. Pétur var eins og fólk er flest. Þrátt fyrir trú sína var hann veikur að trúa, eins og Hallgrímur Pétursson vitnar um í Passíusálmi: Víst er ég veikur að trúa, veistu það, Jesú, best, frá syndum seinn að snúa, svoddan mig angrar mest. Þó framast það ég megna þínum orðum ég vil treysta og gjarnan gegna. Gef þú mér náð þar til.

Um trúarreynslu sína vitnar Pétur í bréfi sínu og við heyrðum hér í dag: „Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans“.

Þó trúin sé þannig að hægt er að vera ein eða einn með sínum Guði þá hafa kristnir menn komið saman í Jesú nafni frá fyrstu tíð. Þess vegna eru byggðar kirkjur, þar sem komið er saman á stundum gleði og sorgar, til uppbyggingar og fræðslu. Það er ekki oft sem ég sit á kirkjubekk án sérstaks hlutverks í athöfninni, en það kemur þó fyrir.

Um daginn fór ég í kyrrðarstund í hádegi í kirkju einni í borginni. Mikið óskaplega var það uppbyggileg og nærandi stund þó ekki væri hún löng eða mikið sagt. Út fór ég kraftmeiri og sælli en þegar ég kom inn. Og þetta er ekkert einsdæmi. Oft hitti ég fólk sem segist vera á leiðinni í kirkjuna, en láti ekki af því verða. Bætir svo við að það skilji ekkert í sér að drífa sig ekki, því þegar það kemur þá er það svo gott og nærandi.

Við erum saman komin á fjallinu og hér hefur verið reist tjaldbúð. Fjallið, bænastaðurinn er altarið, sem er tákn um nærveru Guðs og tjaldbúðin er Seltjarnarneskirkja. Þegar Jesús ummyndaðist kom rödd úr skýri, sem sagði: Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann. Hið sama sagði Móse eins og fram kemur í lexíu dagsins: „Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða“. Lærisveinarnir sem heyrðu þessi orð áttu að hlýða á hinn elskaða son. Við eigum einnig að hlusta á það sem hann segir. Við eigum að láta orð hans festast okkur í minni, framkvæma samkvæmt þeim og læra af þeim. Því orðin gefa lífi okkar gildi sem við getum byggt á og farið eftir. “Guð elskaði” segir í texta dagsins. –Ef kirkjan ætlar að vera trú hinum kærleiksríka Guði verður hún að vera tengd tilverunni og þjóna kærleikanum sem henni ber,- tengd heiminum og öllum sviðum og þáttum mannlegs lífs. Ekkert er henni óviðkomandi því Guð kærleikans er á vettvangi mitt á meðal okkar. Þannig er Guðsmyndin sem Kristur boðar, Guð er ekki fjarlægur heldur nálægur. “Eigi stjörnum ofar, á ég þig að finna, meðal bræðra minna, mín þú leitar Guð, orti sr. Sigurbjörn Einarsson. Og elska Guðs birtist okkur á marga vegu. Í barnsskírninni vill Guð sýna okkur áþreifanlega að hann elskar okkur og lætur sér umhugað um okkur, löngu áður en við förum að hugsa um hann, löngu áður en við getum gert nokkuð fyrir hann. Hann elskar okkur að fyrra bragði. Hann stígur fyrsta skrefið, á fyrsta leikinn. Allt okkar líf er síðan svar við því, sem hann gerir fyrir okkur. Göngum því á hans vegum og með blessun hans út í lífið og þjónum með gleði.

Sigurbjörn Einarsson sagði í prédikun eftirfarandi sögu: Það var um vor fyrir löngu. Lítill drengur var að leik úti á túni snemma morguns. Faðir hans var skammt frá. Allt í einu braust sólin fram úr skýjum og jökullinn í fjarska leiftraði allur. Drengurinn var niðursokkinn í leik. Pabbi hans hafði rétt úr sér, studdist fram á verkfæri sitt, kallaði benti. Drengurinn blíndi á pabba sinn og þá sagði hann: Horfðu ekki á mig, líttu þangað, sem ég bendi.

Það sama vil ég segja hér í dag. Lítið þangað, sem kirkjan er. Hún er ekki sólin, ekki ljósið. En hún vísar upp fyrir sig, þangað sem Jesús er. Og þar er að finna kraftinn og kjarkinn, sem við öll þörfnumst í þessu lífi. Megi blessun Guðs hvíla yfir Seltjarnarneskirkju og söfnuði hennar hér eftir sem hingað til. Til hamingju með kirkjuna ykkar. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.