Innsýn inn í himininn

Innsýn inn í himininn

Við sem sækjum kirkju eigum áreiðanlega öll okkar eigin sögu af göngunni með Guði. Við höfum átt leið um haga og háfjöll trúarinnar. Kannski hefur okkar reynslu ekki borið að með jafn stórfenglegum hætti og hjá hirðum, lærisveinum og postulum nýjatestamentistímans. En hún er þarna og hún er sönn.

Hverjum sunnudegi ársins tilheyra ákveðnir ritningarlestrar samkvæmt fornri hefð. Við höfum í okkar kirkju tvær mismunandi textaraðir og skiptum í A og B með þremur lestrum í hvorri röð. Sama eða svipað viðfangsefni er þó jafnan fyrir báðar raðirnar þannig að hver sunnudagur kirkjuársins hefur sína yfirskrift eða þema. Ummyndun Krists er efni dagsins í dag, síðasta sunnudags eftir þrettánda. Guðspjallið er úr Mark 9.2-9:

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra og klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gert. Og Elía og Móse birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Þá tekur Pétur til máls og segir við Jesú: „Meistari, gott er að við erum hér. Gerum þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Hann vissi ekki hvað hann átti að segja enda urðu þeir mjög skelfdir. Þá kom ský og skyggði yfir þá og rödd kom úr skýinu: „Þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!“ Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bannaði Jesús þeim að segja nokkrum frá því er þeir höfðu séð fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

Sunnudagarnir eftir þrettánda fylgja eiginlega jólatímabili kirkjunnar sem eðlilegt framhald þrettándans, birtingarhátíðar Drottins. Við minnumst þess að Jesús Kristur gaf okkur líf sitt í fæðingu sinni og birtir þannig elsku Guðs í okkar garð. Ummyndunin sýnir á máttugan hátt hver hann er, Jesús Kristur, sem fæddist á jólum. Eins og dýrðin sem ljómaði á Betlehemsvöllum af himnum ofan, þannig er einnig atburðurinn á fjallinu, innsýn inn í himininn.

Og í dag er síðasti sunnudagurinn fyrir upphaf níuviknaföstu og síðan lönguföstunnar í framhaldi af henni þar sem við horfum fram til þess að Jesús gaf okkur líf sitt í dauða sínum. Í dag lýkur jólatímabilinu og minnir á gamla danska vísu: „Nu er det jul igen og nu er det jul igen og julen varer helt til påske. Nej, det er ikke sandt, nej, det er ikke sandt, for ind i mellem kommer faste“ – í einfaldri þýðingu: „Nú eru jól á ný og nú eru jól á ný og jólin vara fram að páskum. Nei, það er ekki satt, nei, það er ekki satt, því inn á milli kemur fastan“.

Dýrð Guðs í haga og á fjalli Við getum lesið þessar tvær frásögur saman, til dæmis á eftirfarandi hátt, minnug orða jólaguðspjallsins:

Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs... (Lúk 2.9-11)

Hirðar í haga – lærisveinar á fjalli. Venjulegar manneskjur á venjulegum stað í óvenjulegum aðstæðum. Engill Drottins – Móse og Elía. Boðberar Guðs inn í heiminn. Dýrð Drottins ljómaði – klæði hans urðu fannhvít og skínandi. Tilraun manneskjunnar til að lýsa trúarupplifun sinni. Þeir urðu mjög hræddir – enda urðu þeir mjög skelfdir. Fyrstu viðbrögð maneskjunnar við yfirþyrmandi nærveru Guðs. Engillinn sagði – rödd kom úr skýinu. Guð sendir skýr skilaboð og þau eru: Frelsarinn Kristur Drottinn fæddur – þessi er minn elskaði sonur, hlýðið á hann!

Og loks þetta: Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá...“ (Lúk 2.15) – Og jafnskjótt litu lærisveinarnir í kringum sig og sáu engan framar hjá sér nema Jesú einan. Trúarreynslan hefur þann tilgang að benda á Jesú, að augu trúarinnar megi sjá frelsarann.

Þannig má lesa þessar tvær frásögur saman, jólaguðspjallið og ummyndunarguðspjallið. Þær segja okkur báðar þann mikla sannleika trúarinnar að dýrð Guðs kom inn í þennan heim í Jesú Kristi, að hér snerti himinn jörð. Og fegurð þeirra liggur ekki síst í því að um leið og sagt er frá einstökum atburði sem trúin ein getur meðtekið er líka um sístæðan veruleika að ræða fyrir þau sem þiggja að ganga inn í haga og á fjall trúarreynslunnar, einnig á 21. öldinni.

Trúarreynslan Hér eru það þrjár manneskjur, vinir Jesú, sem eru í hringiðu atburðanna, Pétur, Jakob og Jóhannes. Við heyrum oftar um þessa lærisveina en aðra. Reynsla þeirra á fjallinu hefur meðfram öðru orðið til þess að þeir hafa síðar djúpstæð áhrif á mótun hinnar ungu kirkju. Hvers vegna Jesús tekur einmitt þá með sér upp á fjallið háa vitum við ekki. Hann vissi það og hafði sinn tilgang með því.

Kannski voru þeir sú manngerð sem auðvelt á með að meðtaka trúarlega reynslu. Svo virðist sem fólki sé það misgefið. Einhvers staðar las ég að fundist hefði „trúargen“, líffræðilegur eiginleiki sem gerir það að verkum að sumt fólk á auðveldara með að trúa á andlegan veruleika en annað fólk. Ekkert vil ég þó fullyrða um það, enda heimildin týnd.

Hitt er annað að margt getur orðið til þess að opna okkur leið til trúarsannfæringar. Uppeldið skiptir auðvitað máli, að við fáum að kynnast bænum og biblíusögum frá blautu barnsbeini, séum vanin á að sækja kirkju og teljum þannig sjálfsagt að gera ráð fyrir að veröldin sé meira en það sem er áþreifanlegt. Marga vitnisburði hef ég hins vegar heyrt frá fólki sem fyrst kynntist kristinni trú á unglings- eða fullorðinsárum og var þá reiðubúið að gefast ást Guðs af heilum huga.

Trúfesti Guðs Hvernig svo sem því er varið sýnir 2000 ára saga kristinnar trúar að eitthvað er þar á ferð sem snertir við fólki og gerir að verkum að lífið verður fyllra, dýpra, öðlast tilgang. Allar tilraunir til þess að afneita trúarþörf manneskjunnar hljóta að afsanna sjálfar sig þegar horft er á þá löngu samleið, sem á sér uppruna í miklu eldri sögu mannkyns og Guðs.

Einn slíkan vitnisburð er að finna í ritningarlestrinum sem hann Logi las hér áðan, úr Davíðssálmi 89:

Um náðarverk Drottins vil ég syngja að eilífu og kunngjöra trúfesti þína með munni mínum frá kyni til kyns. Því að ég segi: Náð þín er traust að eilífu, trúfesti þín grundvölluð á himni. Ég gerði sáttmála við minn útvalda, vann Davíð þjóni mínum eið: Ég mun festa ætt þína í sessi að eilífu og hásæti þitt reisi ég frá kyni til kyns. Himnarnir lofa dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína. Því að hver er í upphæðum jafn Drottni og hver af guðanna sonum er Drottni líkur? Guð er ógnvekjandi í hópi heilagra, meiri og óttalegri öllum sem eru umhverfis hann. Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín umlykur þig.

Tökum eftir því hvaða orð gengur hér í gegn: Trúfesti. Önnur orð sem lýsa tengslum Guðs og manneskju birta sama veruleika: Náðarverk, náð, traust, sáttmáli, festa, dásemdarverk... Allt er þetta tjáning á veruleika sem veitir öryggi og von inn í líf manneskjunnar.

Óttinn á braut En þarna er líka talað um að Guð sé ógnvekjandi, voldugur jafnvel óttalegur. Hvernig samræmist það trúfesti Guðs? Jú, Guð er manneskjunni æðri, meiri. Við skiljum Guð ekki til fulls. Og þegar dýrð Guðs birtist, eins og í frásögunni af Betlehemsvöllum og ummynduninni á fjallinu verða fyrstu viðbrögð þeirra sem sjá hræðsla, jafnvel skelfing. Þegar Móse hafði verið samvistum við Guð á fjalli boðorðanna í fjörutíu daga var hann svo gegnsýrður af dýrð Guðs að hann varð að setja skýlu fyrir andlit sitt til að fólkið yrði ekki hrætt þegar það sæi hann (sjá 2Mós 24.15-18 og 34.29-35).

Í síðari ritingarlestrinum heyrum við vitnað í þá frásögu en líka um allt önnur viðbrögð en hræðslu (2Kor 3.12-4.2):

Þar eð ég nú hef slíka von þá kem ég fram með mikilli djörfung. Ég geri ekki eins og Móse sem setti skýlu fyrir andlit sér til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á ljóma þess sem var að hverfa. En hugur þeirra varð sljór. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt því að Kristur einn lætur hana hverfa. Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra hvenær sem lesið er úr lögmáli Móse. En „þegar einhver snýr sér til Drottins er skýlan tekin burt“. Drottinn er andinn og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi. En við sjáum öll með óhjúpuðu andliti dýrð Guðs endurspeglast í Kristi og andi hans lætur okkur umbreytast eftir þeirri sömu mynd til enn meiri dýrðar. Guð hefur sýnt mér miskunn og falið mér þessa þjónustu. Þess vegna læt ég ekki hugfallast. Ég hafna allri skammarlegri launung, ég beiti ekki klækjum né falsa Guðs orð heldur birti ég sannleikann. Guð veit að ég skírskota til samvisku hvers manns um sjálfan mig.

Páll postuli segist geta komið fram með mikilli djörfung. Hann er óhræddur við að horfast í augu við dýrð Guðs sem endurspeglast í Kristi af því að hann hefur snúið sér til Drottins og þekkir frelsið í Kristi. „Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði“, segir hann nokkrum versum á undan pistli dagsins (2Kor 3.4). Í Kristi á óttinn aldrei síðasta orðið: „Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. Við elskum af því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði“ (1Jóh 4.17-19).

Að þiggja umbreytinguna Og þetta er sá boðskapur sem lærisveinarnir voru kallaðir til að flytja áfram og hljómar svo sterklega á jólum: Að Guð, sem er „ógnvekjandi í hópi heilagra, meiri og óttalegri öllum sem eru umhverfis hann“ (Sálm 89.8) kom í heiminn til að vekja von og trú og kærleika. „Sá Guð, er hæst á himni situr, er hér á jörð oss nær“ (sálmabók þjóðkirkjunnar nr. 78).

Það er þessi boðskapur sem Páll postuli flytur með mikilli djörfung. Trúarreynslan gerir honum og okkur kleift að horfa með „óhjúpuðu andliti“, það er óttalaust, á dýrð Guðs sem endurspeglast í Kristi og þiggja umbreytinguna sem andi hans frelsar okkur til. Við finnum okkur vissulega smá gagnvart dýrð Guðs og fullkomnum kærleika hans og spyrjum ef til vill: Hvernig getum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð? Svarið er að við getum það ekki í eigin mætti. Það er aðeins fyrir heilagan anda hans að við getum nálgast það „vaxtartakmark Krists fyllingar“ sem postulinn talar um á öðrum stað (Ef 4.13).

Markmiðið er að „allir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist fulla sannfæringu og innsýn og geti gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur“ (Kól 2.2). Þannig talar Páll postuli sem sjálfur hafði fengið að reyna dýrð Guðs, ekki þannig að hann fylltist skelfingu eins og hirðarnir í haganum og lærisveinarnir á fjallinu. Munurinn var sá að þegar Jesús birtist Páli á veginum til Damaskus var hann gengin inn í dýrðina. Hann var upprisinn. Frá upprisukrafti Jesú kom Páli djörfungin til að prédika. Frá ljósi Guðs sem skein inn í hjarta Páls lagði birtu af „þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists“ (2Kor 4.6) sem hann sjálfur hafði orðið vitni að.

Jesús bannaði lærisveinunum að segja frá sinni trúarreynslu fyrr enn hann væri risinn upp frá dauðum. Hún var of stórfengleg, of háleit í ljósi þess sem koma skyldi á þjáningarveginum. En einmitt á þrengingagöngunni sem leiddi til dauða Jesú á krossi, göngunni sem er framundan hjá okkur í innlifun trúarinnar á föstunni, var trúarreynslan á fjallinu sá grundvöllur, sá sáttmáli sem gat borið lærisveinana uppi þótt þeir gætu ekki skilið upplifun sína til fulls fyrr en eftir upprisuna.

Okkar saga Við sem sækjum kirkju eigum áreiðanlega öll okkar eigin sögu af göngunni með Guði. Við höfum átt leið um haga og háfjöll trúarinnar. Kannski hefur okkar reynslu ekki borið að með jafn stórfenglegum hætti og hjá hirðum, lærisveinum og postulum nýjatestamentistímans. En hún er þarna og hún er sönn. Það er trúarreynslan sem gefur okkur kraftinn til að lifa, löngunina til að segja öðrum frá, hinn staðfasta vilja til að líkjast Kristi meir og meir. Það er reynsla okkar af dýrð Guðs sem skín í hjarta okkar sem veitir birtu og yl inn í dagana og djúpt þakklæti fyrir að fá að vera snortin af himninum hér á jörð. Tökum mark á því. Þiggjum umbreytingarkraftinn sem fæst við það að sjá - að sjá Jesú einan.