Aðventa

Aðventa

Í því samhengi, jólanna og páskanna, fá hugtökin sáttargjörð, fyrirgefning og friður dýpt sína. Þetta eru hugtök sem kristin trú okkar vill hjálpa okkur að lifa og aðventan minnir okkur á. Að lifa í fúsleika til að gera heilt, leita leiða til að byggja brýr og sameina fólk og lifa í friði, það eru verkefni kristins manns.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það er oftast gott að koma í kirkju. Hér er gjarnan annar taktur en utan þessara veggja. Umgjörð helgihaldsins er söngur og gleði, innihaldið hlýja og kærleikur.

Kirkjan vill miðla þessu, kirkjan vill vera þetta samfélag fólks, þar sem allir skipta máli, eru mikilvægir og dýrmætir.

Grundvöllurinn þar er Kristur, sem kemur, sem við væntum.

Hirðirinn

Jesús Kristur er hirðirinn góði sem spámaðurinn Jesaja vænti. Löngu fyrir fæðingu Jesú var búið að spá fyrir um komu Guðs í heiminn.

Myndin er falleg sem dregin er upp í lexíunni af hirðinum sem heldur hjörð sinni til haga og tekur unglömbin sér í faðm og ber þau í fangi sínu og leiðir mæðurnar.

Þetta er falleg mynd, guðsmynd.

Hver er okkar guðsmynd? Hvaða mynd höfum við í okkar huga af Guði? Hvaða guðsmynd átt þú?

Hver er Guð í þínum huga? Sá sem tortímir eða sá sem skapar, sá sem hatar eða sá sem elskar, sá sem grætir eða sá sem huggar. Sérð þú handaverk Drottins hér í heimi? Kannski þar sem allt hið góða er, fagra og sanna.

Um daginn fékk ég tækifæri til að fara einn túr á togara. Í góðum hópi félaga og kunnáttumanna tók það mig rúman sólarhring að sjóast, ég stóð mína plikt.

Fyrsta sólarhringinn hugsaði ég skjálfandi sjóveikur, ælandi, guðsmyndin, hvar er Guð?

Þetta mun bjargast, ég var ekki einn, ég fann það. Skipstjórinn var öruggur og valinn maður í hverju rúmi. En til viðbótar við það var einhvert grundvallartraust til staðar, Guð var með mér eins og öllum mönnum sem vilja þiggja návist hans. Það er dýrmætt að finna slíkt bærast í huga og hjarta. Slík er reynsla margra sem upplifað hafa ógnir og háska og einnig okkar margra sem kvatt höfum ástvini hinstu kveðju.

Grundvallartraustið styrkist með reynslunni, árunum og maður lærir það kannski fyrst við hlýtt móðurbrjóst og í góðu föðurhúsi, slík reynsla yfirfærist síðan yfir á hina góðu krafta í tilverunni, hið góða sem við köllum Guð.

Á hvað leggjum við okkar traust?

Á hvað leggjum við traust, hvað vonum við? Pétur postuli talar um það í texta sínum að nú skuli fólk hlusta á orð spámannanna í helgiritunum, því þeim sé treystandi.

Spámaðurinn teiknaði upp þessa hlýju mynd af Guði sem er eins og hirðir sem hugsar um hjörð sína. Pétur talar um að þessir spádómar séu frá Guði komnir til að morgunstjarnan megi ljóma í hjörtum þeirra sem heyra og þiggja boðskapinn um frið.

Þessi orð eru eilíf og textinn fallegur í pistlinum. Birta, gleði, friður.

Köllun Jóhannesar, köllun þín

Textarnir sem lesnir eru á sunnudögum í kirkjum landsins tengjast gjarnan innbyrgðis. Eftirvæntingin sameinar þessa texta. Aðventan eftir Kristi.

Köllun Jóhannesar skírara er guðspjallatexti dagsins. Hann var kallaður af Guði til að undirbúa komu Krists í heiminn, því Kristur kemur.

Enn gætir áhrifa af orðum hans, þar sem hann svarar og segir fólki að gefa með sér, deila kjörum, ef einhver á tvo kirtla að gefa annan.

Er það ekki einmitt hugarfar okkar á aðventu, í aðdraganda jóla, og kannski á öllum tímum að gefa með okkur.

Drottinn kallaði Jóhannes til þessara verka, hann vill einnig kalla þig og mig til að útbreiða þetta hugarfar með lífi okkar.

Ekki vantar verkefnin í heiminum. Misskipting gæðanna, veikindi hverskonar, ofbeldi, deilur, stríð og náttúruhamfarir.

Inn í þessar aðstæður allar ómar boðskapurinn um frið og vináttu, kærleika, og við tökum hann til okkar og viljum hvarvetna stuðla að góðu, reynast vel, gera það sem í okkar valdi stendur til að gera heiminn að góðum og betri stað.

Gjöfin stóra

,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Gjöf jólanna fær fyllingu sína á páskadegi er Jesús Kristur hið litla jólabarn rís upp frá dauðum og með því sigrar allt hið illa, gefur von sem hvergi annarsstaðar er að finna.

Í því samhengi, jólanna og páskanna, fá hugtökin sáttargjörð, fyrirgefning og friður dýpt sína.

Þetta eru hugtök sem kristin trú okkar vill hjálpa okkur að lifa og aðventan minnir okkur á.

Að lifa í fúsleika til að gera heilt, leita leiða til að byggja brýr og sameina fólk og lifa í friði, það eru verkefni kristins manns.

Vinátta, kærleikur, friður.

Vinátta, kærleikur og friður.

Það var einmitt friður sem englarnir sungu um og við rifjum upp á helgum jólum.

En orð Jóhannesar skírara fjölluðu ekki aðeins um hið fallega og glitrandi heldur skiptir það verulegu máli hvaða afstöðu við tökum.

Hann talar einnig um hismið og kjarnann, alvarleiki málsins er augljós, hvorum hópnum viljum við tilheyra?

Aðventan er tími slíkra þanka. Aðventan er tími naflaskoðunar, undirbúnings. Tími til að endurraða í hillunum hið innra, hvernig viljum við forgangsraða í lífinu, hvað ætlar Guð með líf okkar hvers og eins?

Aðventan er tími til að setja kúrsinn og stefnuna, líkt og sjómaðurinn þarf stöðugt að gera, rétta stefnuna svo skip, áhöfn og afli komist heil í höfn.

Verkefnið Hvað getum við lagt af mörkum? Hvar finnum við kröftum okkar best varið?

Hugarfarið, jákvæðnin, hjálpsemin. Trúin, bænin, kærleikur til Guðs og manns.

Kirkjan er vettvangur til að rækta og vökva allt þetta góða í lífi okkar hvers og eins.

Hvernig getum við miðlað hinum góða anda út fyrir veggi kirkjunnar?

Um það snýst köllun hins kristna manns. Að orðið og andinn fái vængi og farveg í okkar lífi til að umbreyta vonleysi í von, harmi í huggun, dauða í líf.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.