Lífið á tímabeltinu

Lífið á tímabeltinu

Og svo er glíman sjálf ögrandi og stælir skjögrandi kné. Höfuðverkefni okkar er að fást við listina að lifa, lífsleikni í víðum skilningi, að læra að lifa í trú á Guð og læra að deyja í trú á hann . . .

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvað gerir Biblíuna svo lífseiga sem raun ber vitni? Hvers vegna lifa textar hennar og eru kynslóðunum ótæmandi uppspretta um aldir og árþúsund? Hvernig getur skrifaður texti, á bókrollu og laus handritsblöð og loks á bók, lifað svo lengi, lifað af allar byltingar, allar tækniframfarir, útvarp, sjónvarp, farsíma og netvæðingu? Biblían lifir vegna þess að hún talar okkar máli, hún er málsvari fólks, lýsir örlögum þess í glímunni við lífið, í glímunni við sjálft sig og síðast en ekki síst í glímunni við Guð og hinstu rök tilverunnar. Biblian er um okkur – um mig og þig.

Textar dagsins tala eru allir sprottnir upp úr tilvistarkreppu, glímu, angist og neyð, sorg og harmi, óttanum við dauðann og reynslu af dauðanum sjálfum ef hægt er að reyna hann nema þá sem syrgjandi. Enginn upplifir eigin dauða, sagði einhver, heldur aðeins dauða annarra. Ætli það séu ekki orð að sönnu því að hinn dauði hverfur með reynslu sína en eftir sitja þau sem syrgja og hafa allt aðra reynslu en hin horfna manneskja.

Lexía dagsins er úr Davíðssálmum. Sálmarnir eru safn 150 sálma sem kenndir eru við Davíð konung. Í þeim er nánast öll mannleg reynsla sem hugsast getur, allt frá æðstu gleði til dýpstu sorgar. Í sálminum sem við heyrðum brot af, fyrr í messunni, Sálmi 130, talar maður sem reynt hefur mikið. Hann hrópar úr djúpi angistar, djúpt sokkinn í einhverja erfiða reynslu sem við vitum ekki nákvæmlega hver er enda hefði það líklega eyðilagt sálminn eða í það minnsta sett honum miklar túlkunarhömlur ef við vissum öll smáatriði reynslu skáldsins. Já, ég kalla hann skáld. Biblían er skáldskapur, skáldskapur sem segir sannleikann. Hún er rituð af ritfærum mönnum og því er hún verk skálda, rithöfunda. Orðið skáldskapur vísar ekki aðeins til ævintýra og uppspuna heldur einnig tjáningar á reynslu og upplifun höfundar sem gefur lesandanum nýtt sjónarhorn á lífið, sjónarhorn höfundar sem færir lesandanum „sannleikann“ um lífið.

Nýlega var haldi hér á landi bókmenntahátíð. Bækur og leikhús eru spegill samtíðarinnar og kallast á við speki fyrri alda, hjálpa okkur við að skilja lífð og tilveruna, tengja saman liðna tíð og samtíð, um leið og horft er til framtíðar.

Í sálminum talar maður í angist. Hann hrópar til Guðs og í angistinni og bænaákallinu brýst svarið í gegn um brim og boðaföll og nær inn til dýpstu fylgsna hjartans. Sálin skynjar í angist sinni og bæn að Guð er miskunnsamur, hann fyrirgefur misgjörðir og læknar öll mein. Vissan um þetta er undirstaða vonarinnar. Vonin heldur honum á floti og gefur honum kraft til að lifa.

Þau eru mörg sem hrópa úr djúpi daglegra hörmunga og neyðar. Úti um allan heim, um allt þjóðfélagið, er fólk sem finnur til, finnur sig í vonlitlum eða jafnvel vonlausum aðstæðum, sér enga lausn, er jafnvel rúið trú og von, orðið týnt í stormviðrum tíðarandans, sem engu eirir og allt blæs upp og feykir því út í hafsauga eins og gróðurmoldinni blessaðri og smáblómunum sem berjast við hretviðrin á köldum eyðisöndum hálendisins.

Fólk glímir við eigin sjúkdóma og böl, eða stendur með börnum sínum eða eldri ástvinum í erfiðum aðstæðum sjúkdóma. Svo er það eitrið allt sem flæðir inn í landið og er beinlínis til þess ætlað að sökkva fólki í djúpið, í dauðans djúpar sprungur, þar sem eldurinn er heitur og sýður ólgandi hraun. Þar er fólk sem hrópar úr djúpi og vítislogum.

Lítið vissi Davíð Stefánsson líklega um svonefndar eitur- eða „spíttskútur“ þegar hann orti þetta erindi sem mér þykir mega nota til að varpa ljósi á nýlegar fréttir af eiturlyfjasmygli:

Þau sigla svörtu skipin og sól í öldur hnígur og yfir bláum bylgjum hinn bleiki engill flýgur. En þegar birtu bregður þá breytir allt um svip. Þau sigla feig um dauðans djúp, hin draugalegu skip.

Þessi heimur er fallinn, heimur syndar. Við lifum í heimi tímans sem er rammaður inn af eilífðinni í bak og fyrir. Við lifum á tímabelti syndar og böls, þjáningar og tilvistarglímu. En á sama tíma er lífið yndislegt. Og svo er glíman sjálf ögrandi og stælir skjögrandi kné. Höfuðverkefni okkar er að fást við listina að lifa, lífsleikni í víðum skilningi, að læra að lifa í trú á Guð og læra að deyja í trú á hann. Þetta er skírnarverkefni okkar allra, verkefni foreldra og barns, verkefni okkar á hverri tíð, alla ævina, meðan við lífsandann drögum.

Páll postuli á í tilvistarglímu í pistli dagsins. Hann finnur sig fastan í heimi tímans, á tímabeltinu, hann finnur sig í það minnsta knúinn til að vera hér áfram. Hann langar að fara og vera með Kristi í himni hans en hann hefur verk að vinna. Svo sterk er trú hans á eilífðina að hann hlakkar beinlínis til að deyja. Á svipaða strengi slær skáldið Einar Benediktsson í sálmi sínum er hann yrkir á sinn euphoríska, gleðiþrungna hátt:

„Hvað bindur vorn hug við heimsins glaum, sem himnaarf skulum taka.“

Hið eina sem bindur er skyldan við lífið, skyldan við Guð og náungann og okkur sjálf.

Úr djúpinu ákalla ég þig Drottinn. Á tímabeltinu, í heimi böls og þjáningar, heimi anna og yndis, er verk að vinna. Upprisutrú páskanna er undirstaða vonarinnar. Í Davíðssálminum sem ortur var löngu fyrir daga Krists – sálmarnir voru reyndar bænabók hans – birtist upprisutrú, trúin á að Guð muni bjarga. Postulinn prédikaði upprisutrú inn á tímabeltið. Upprisutrúin er hrein og klár í orðum hans í pistli dagsins. Þar er enginn efi um hinstu rök og örlög. Allt er í hendi Guðs.

Og allt byggir það á orðum Krists í guðspjalli dagsins er hann mælir orð í sorgarhúsi Mörtu og Maríu sem misst hafa bróður sinn. Þær eiga trú á upprisuna á efsta degi. En upprisan er nær. Hennar sér stað í heimi tímans, á tímabeltinu sjálfu. Upprisan er þar líka, ekki í fyllingu sinni, en hún er þar samt sem fyrirheit og reynsla í sigrum lífsins. Hún er í Kristi sem sagði: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“

Trúum við þessu? Þorum við að treysta hinum upprisna og lifa í upprisutrú, hér í heimi tímans, á tímabeltinu og á efsta degi? Reynsla trúaðra sem birtist á síðum Biblíunnar og hvarvetna í sögu kirkjunnar er sú að engin djúp séu til sem Guð ekki nær til. Sama hvað hendir okkur, sama hvar við lendum, ef við eigum trú, þá er Guð þar hjá okkur. Guð eilífðarinnar er hjá okkur í heimi tímans.

Og í fyllingu tímans, þegar tíminn hverfur og tímabeltið er að baki tekur eilífðin við, eilífðin sem nú rammar inn hina tímanlegu tilveru.

Þetta hefur kirkjan boðað um aldir og þetta skynjaði skáldið Einar Benediktsson, sem bæði trúði á upprisu sinnar eigin þjóðar fyrir aflið í fossum og hugviti hennar sjálfrar og líka á upprisuna í fyllingu tímans á mörkum tímans og eilífðarinnar. Hann lýkur sínum stórbrotna sálmi á þessum orðum:

Af eilífðar ljósi bjarma ber, sem brautina þungu greiðir. Vort líf, sem svo stutt og stopult er, Það stefnir á æðri leiðir. Og upphiminn fegri’ en auga sér mót öllum oss faðminn breiðir. (Sb 418)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir alda. Amen.

- -

Textar dagsins:

Lexían; Sl 130

Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn, Drottinn, heyr þú raust mína, lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína! Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist? En hjá þér er fyrirgefning, svo að menn óttist þig.

Ég vona á Drottin, sál mín vonar, og hans orðs bíð ég. Meir en vökumenn morgun, vökumenn morgun, þreyr sál mín Drottin. Ó Ísrael, bíð þú Drottins, því að hjá Drottni er miskunn, og hjá honum er gnægð lausnar. Hann mun leysa Ísrael frá öllum misgjörðum hans.

Pistillinn: Fil. 1. 20-26

Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa.

Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra. En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni. Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú.

Guðspjallið: Jóh. 11. 19-27

Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.

Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.

Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.

Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?

Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.