Af munkum og víkingum

Af munkum og víkingum

Til verða nýjar goðsögur sem hafa þann tilgang að hylja siðrofið eða beina athyglinni frá því. Við þessar aðstæður verða ný goðmögn til sem spretta eins og fullskapaðir guðir út úr höfði kapítalismans. Nýjar hetjur koma fram á sjónarsviðið sem menn trúa að muni skapa fullkomið samfélag.
fullname - andlitsmynd Pétur Pétursson
29. desember 2009

Með hugtakinu útrásarvíkingur er átt við þá ungu kynslóð íslenskra fjármálamanna sem voru í forsvari fyrir bönkum og öðrum útrásarfyrirtæknum á þenslutímanum fram að hruninu. Það liggur í merkingu orðanna að víkingarnir eru eins fjarri hugsjón munklífis og hugsast getur. Fyrir þúsund árum fóru þeir í ránsferðir á skipum sínum til annarra landa, hnepptu suma í þrældóm en myrtu aðra, lögðu klaustur í rúst, rændu helgigripum, brenndu helgar bækur og unnu önnur helgispjöll. Hvernig er hægt að gera munk að fyrirmynd nútíma útrásarvíkinga? Jú það er hægt ef vilji er fyrir hendi og ef menn sjá ávinning af því.

Í september 2007 var sýning opnuð í anddyri Þjóðarbókhlöðu Landsbókasafns – Háskólabókasafns um ævi rithöfundarins og jesúítamunksins Jóns Sveinssonar, Nonna, í tilefni af því að ein og hálf öld var liðin frá fæðingu hans. Ég átti erindi í safnið til að skila bókum, en staldraði við þegar ég sá stórar myndir af barnabókahöfundinum ástsæla. Ég var eins og fjöldamargir aðrir heillaður af Nonnabókunum sem ég eignaðist og las sem drengur, enda fæddur og uppalinn á Akureyri. Þar er Nonnahúsið og vettvangur ævintýra þeirra Nonna og Manna, yngri bróður hans, sem lýst er svo skemmtilega í bókunum sem enn prýða bókahillur mínar.

Það vakti líka áhuga minn að gamli kennarinn minn í stjórnmálafræði, forseti lýðveldisins, Ólafur Ragnar Grímsson, var að halda hátíðarerindið í andyri safnsins og ég kannaðist við ýmsa þar, m.a. Björgúlf Guðmundsson athafnamann og formann stjórnar Landsbankans. Hann var upp-á-búinn og áhugasamur og fylgdist vel með öllu og tók greinilega eftir því hverjir komu og fóru og það var eins og hann ætlaðist til þess að allir sem áttu erindi inn í afgreiðslu safnsins heilsuðu sér, eða a.m.k. tækju eftir honum. Ég skildi strax að hann hafði kostað sýninguna og veitingarnar sem boðið var upp á að erindi forsetans loknu.

Ég var undrandi yfir því að sjá þessa valdamiklu menn, sem tveimur áratugum áður höfðu barist á banaspjótum í Hafskipsmálinu, gefa sér góðan tíma til að opna þessa sýningu með viðhöfn og spjalla síðan saman í mesta bróðerni. Hvaða sameiginlega hagsmuni áttu þeir? Hvað gerði það að verkum að þessum mönnum var svo annt um minningu öreigans látlausa, jesúítamunksins Jóns Sveinssonar? Hann fékk ekki krónu af andvirði sölu bóka sinna. Það gekk allt til kirkjunnar sem fóstraði hann og menntaði, en sjálfur hafði hann ekkert vit á fjármálum. Hann var langskólagenginn guðfræðingur, barnakennari og einn mest lesni barnabókahöfundur síns tíma. Bækur hans voru gefnar út í milljónum eintaka á um 40 tungumálum – og þannig varð hann ein allra besta landkynning fyrir Ísland sem sögur fara af. Undrun mín jókst eftir því sem á ræðu forsetans leið. Jú, þarna var Nonna lýst sem dæmigerðum útrásarvíkingi. Ungur og fátækur hafði hann tekið sig upp og forframast í útlöndum en til þess þurfti hugrekki, frumkvæði og dirfsku. Hann var einn þeirra Íslendinga sem tóku sig upp úr fásinninu og fátæktinni heima, gerðu garðinn frægan í útlöndum og sýndu það og sönnuðu hvað byggi í íslensku þjóðareðli, í einstaklingum sem sköruðu fram úr og lögðu heiminn að fótum sér. Eiga, eða áttu, þeir Jón Ásgeir Jóhannesson og Björgólfur Thor Björgólfsson, sonur Björgólfs Guðmundssonar, eitthvað sameiginlegt með Nonna og Manna? Voru áhugamálin svipuð, starfsvettvangurinn, skapgerðin, hugsjónirnar, viðhorfin til náungans, þjóðfélagshugsunin og víkingslundin? Það sem forsetinn taldi þessa einstaklinga eiga sameiginlegt var fyrst og fremst það að þeir bjuggu yfir áræðni, frumkvæði og snilligáfu til þess að skera sig úr fjöldanum. Þeir voru stolt þjóðarinnar og holdgerðu bestu dyggðir og eiginleika sem íslensk þjóð hefur varðveitt frá upphafi.

Ég hélt að Landsbankinn eða Björgúlfur Guðmundsson hefðu styrkt þessa sýningu í Þjóðarbókhlöðunni, en það var ekki. Hún var algerlega að frumkvæði og á vegum Zontaklúbbsins á Akureyri sem hefur það að markmiði að halda minningu Nonna í heiðri. Hins vegar kostaði Björgúlfur Guðmundsson úrrás þessarar sýningar sem fór víða um heim og styrkurinn frá honum gerði það kleyft að setja hana upp í Japan.

Hvað fáum við í staðinn?. Þannig spurðu íslensku fjármálamennirnir þegar þeim var treyst til þess að styrkja íslenska menningu. Landsbankinn ætlaði sér að fá mikið í staðinn fyrir þennan stuðning við sýninguna. Aðgangur að lánum í Evrópu var orðinn mjög takmarkaður á þessum tíma.

Skilaboðin til japanskra sparifjáreigienda voru augljós og þau má sjá á einni myndinni sem fór með sýningunni til Japan.

Nonni

„Eins og Nonna var umhugað um ykkur þá erum við einnig að hugsa um ykkar hag og viljum varðveita peningana ykkur.“ Þetta segir íkonamyndin af Nonna sem sett var upp á sýningunni í Japan. Þar var vænlegur markaður að opnast og þangað stefndi hugur íslenskra útrásarvíkinga. Búið var að stofna bankaútibú í Japan.

Siðrof og goðsögur

Þar sem hagræðingu og skipulag skortir gera goðsagnir sig gildandi og þær geta haft mikil áhrif á fólk, jafnvel þá sem telja sig upplýsta og skynsama og lausa við trú og hindurvitni. Opnun sýningarinnar um Nonna er dæmi um þetta. Þegar ég hugsa um þennan atburð eftir á sé ég að hér hefur verið um að ræða félagslegt drama. Sviðið er þjóðfélagið og dramað er samsett af þeim félagslegu grunnþáttum sem félagsfræðingurinn Talcott Parsons gengur út frá í greiningu sinni á samfélögum. Sérstakar stofnanir samfélagsins sjá um grunnþætti í starfsemi þjóðfélagsins. Þessir þættir eru: markmiðssetning, aðlögun að umhverfinu, samhæfing hinna ýmsu stofnana og sviða að markmiðinu og réttlæting skiptingar gæðanna. Þegar virkni þessara grunnþátta raskast skapast aðstæður þar sem siðrof veldur því að skaðlegar sjálfhverfar hvatir taka að leika lausum hala þar sem þær lúta hvorki taumhaldi persónulegs siðgæðis né félagslegu taumhaldi.

Til verða nýjar goðsögur sem hafa þann tilgang að hylja siðrofið eða beina athyglinni frá því. Við þessar aðstæður verða ný goðmögn til sem spretta eins og fullskapaðir guðir út úr höfði kapítalismans. Nýjar hetjur koma fram á sjónarsviðið sem menn trúa að muni skapa fullkomið samfélag. Ungir, frjálsir og sjálfstæðir fjármálamenn sem hefjast til mikilla valda og áhrifa í krafti auðs eru gerðir að fyrirmynd – eins konar frelsishetjum sem þjóðin stendur í þakkarskuld við. Þeir eru stolt þjóðarinnar og helgileikurinn – dansinn í kringum gullkálfinn – gengur út á að sannfæra fólk um að þeir holdgeri bestu þjóðareinkennin, þá hæfileika sem gert hafa það mögulegt fyrir íslenska þjóð að lifa af í þessu landi allt frá því að víkingar settust hér að. Búin var til goðsögn um hetjur sem gerðu litla og fátæka þjóð að einni ríkustu og virtustu þjóð heimsins. Víkingar sem bættu sér upp fátækt og fásinni með því að fara í ránsferðir til útlanda eru gerðir að dýrlingum. Munurinn á gömlu víkingunum og þeim sem núverið hafa herjað er að þeir fyrrnefndu komu heima með ránsfeng sinn, en ekki þeir síðarnefndu.

Það skiptir máli hvaða sögur við segjum hvert öðru, hvenær og í hvaða samhengi. Í sjálfsmynd okkar felst lykillinn að skilningi okkar á samfélaginu og þeim öflum sem þar eru að verki. Hetjurnar okkar eru uppistaðan í sjálfsmynd okkar og kjarninn í þeirri ímynd sem við búum til fyrir aðra. Samfélagið er bæði fyrir utan og innra með okkur. Helgileikurinn við opnun Nonnasýningarinnar í Þjóðarbókhlöðunni 8. september 2007 sýnir hvernig hægt er að tengja þetta tvennt saman með því að búa til falska hugmyndafræði.