Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju

Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju

Stundum hefur verið látið í það skína að umræða um aðskilnað rikis og kirkju færi mest fram utan veggja kirkjunnar og að aðrir hefðu þar tekið frumkvæði sem kirkjunnar menn svokallaðir þyrftu að endurheimta.
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
10. október 2003

Stundum hefur verið látið í það skína að umræða um aðskilnað rikis og kirkju færi mest fram utan veggja kirkjunnar og að aðrir hefðu þar tekið frumkvæði sem kirkjunnar menn svokallaðir þyrftu að endurheimta.

Hér virðist nokkurs misskilnings gæta því ýmislegt hefur verið skrafað og skeggrætt á vettvangi Þjóðkirkjunnar um þetta mál sem skal rakið hér nánar. Í annan stað skal áréttað strax í upphafi að réttara sýnist mér vera að segja umræðuna snúast um samband ríkis og kirkju, frekar en aðskilnað, því hvernig sem mál þróast er það alveg ljóst að alltaf verður um að ræða einhhvers konar tengsl þar á milli, ef ekki annað þá í rammalöggjöf um trúfrelsi og starfssemi trúfélaga.

Segja má að ákveðin vatnaskil hafi orðið í umræðunni þegar biskup Íslands vék að þessu máli í upphafi Kirkjuþings 2002. Í ræðu sinni sagði hann m.a.:

“Hér vantar í raun ekki mikið upp á að ríki og kirkja séu aðskilin. Nefna má það skilnað að borði og sæng. Mér sýnist sem kirkjan þurfi meðvitað að búa sig undir að til lögskilnaðar komi. En meginspurningin er: Á hvaða forsendum? Stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna hefur verið áminning um kristnar rætur íslenskrar menningar og samfélags. Þjóðin má ekki gleyma þeim rótum jafnvel þótt breyting yrði enn á lögformlegri stöðu þjóðkirkjunnar.”

Með þessum orðum má segja að Þjóðkirkjan sjálf hafi tekið ákveðið frumkvæði í umræðunni enda vöktu þessi orð biskups mikla athygli í samfélaginu. Til að fylgja umræðunni áfram var boðið hingað til lands formanni nefndar norsku kirkjunnar um samband ríkis og kirkju Trond Bakkevik prófasti. Kom hann hingað í janúarmánuði s.l. og var haldið málþing í Grensáskirkju þar sem hann kynnti umræðuna í Noregi um “breytt samband ríkis og kirkju” eins og hann orðaði það. Bakkevik greindi frá því að nefndin hefði haft að leiðarljósi hvernig tryggja mætti að í engu væri hallað á hlut minni trúfélaga gagnvart norsku þjóðkirkjunni út frá jafnræðisreglunni.

Þá er ástæða til að vekja áthygli á góðri grein eftir Dr. Hjalti Hugason í 1. hefti Kirkjuritsins 2003, um samband ríkis og kirkju þar sem hann skoðar nokkur mismunandi módel þeirra samskipta og tengir umræðu um mannréttindi og stjórnarskrá. Ennfremur má benda á óbirta grein eftir Dr. Pétur Pétursson um sama mál. Karl Sigurbjörnsson biskup gerir síðan grein fyrir fróðlegri úttekt Kristelig dagblad í Danmörk á tengslum ríkis og kirkju í Evrópu í pistli hér á vefnum 25. september s.l.

Þess skal einnig getið að Dr. Pétur Pétursson og Gallup á Íslandi hafa í samvinnu við verkefnisstjóra á Biskupsstofu sótt um styrk frá Kristnihátíðarsjóði til að gera viðhorfskönnun á afstöðu Íslendinga til kirkju og kristni. Þar er m.a. gert ráð fyrir að kanna nánar viðhorf fólks til spurningarinnar um samband ríkis og kirkju og hvað átt er við með aðskilnaði.

Loks skal það nefnt að spurninguna um samband ríkis og kirkju bar á góma í stefnumótunarvinnu Þjóðkirkjunnar. Þó virtust þeir sem þátt tóku í stefnumótunarvinnunni ekki vera mjög uppteknir af þeirri spurningu hvernig sem má skilja það. Ein hugsanlega skýring getur verið sú að fólk telji fyrirkomulag á samskiptum ríkis og kirkju ekki skipta höfuðmáli þegar kristnin í landinu er annars vegar. Um það skal þó ekki fullyrt hér.

Það er ljóst að á ýmsum vettvangi innan kirkjunnar sjálfrar ræðir fólk um tengsl ríkis og kirkju. Það má ef til vill segja að samræðan sé enn sem komið er nokkuð tilviljanakennd og að ástæða geti verið til að hafa hana í skipulögðum farvegi. Á hinn bóginn er heldur ekki óeðlilegt að rætt sé og ritað með margvíslegum hætti í jafn breiðri og lýðræðislegri hreyfingu og íslenska Þjóðkirkjan er.