Í hendi Guðs er hver ein tíð

Í hendi Guðs er hver ein tíð

Áramót eru því ekki síður hátíð þakkargjörðar en minningarstund um það sem var en er ekki lengur. Við þökkum Guði og góðu fólki fyrir lífið og allt það sem sem við höfum þegið til líkama og sálar, þökkum allt sem við eigum áfram og búum að þó við kveðjum það ár sem nú hefur fullnað sitt skeið.
fullname - andlitsmynd Jón Helgi Þórarinsson
31. desember 2012
Flokkar

Sem stormur hreki skörðótt ský, svo skunda burt vor ár. Og árin koma, ný og ný, með nýja gleði og tár. Því stopult, hverfult er það allt, sem oss er léð, svo tæpt og valt, jafnt hraust og veikt, og fé og fjör, það flýgur burt sem ör. (Sb 102)

Allt streymir. „Vér erum minnt á þennan þunga straum tímans, hvar sem vér erum annars stödd á veginum“ sagði Andrés Björnsson fyrrum útvarpsstjóri í einni af sínum eftirminnilegu áramótaræðum. „Furðulegur er tíminn. Ein mínúta, ein klukkustund, eitt ár - allt þetta er mælanlegt með mikilli nákvæmni - en þeim manni er þjáist, þeim sem einhverju kvíðir eða einhvers bíður, getur fundist eitt andartak eilífðartími. Hinum sem hlotnast gleði eða sæla, þeim sem starfar af kappi að hugþekku viðfangsefni, finnst tíminn fljúga hjá, svo löng stund verður eitt andartak. Þannig er tíminn óræður eftir afstöðu einstaklingsins til hans, en saga vor og allt vort líf er honum órjúfanlega tengt - firna torskilin eru lögmál hans og lítt rannsakanleg."

Því stopult, hverfult, er það allt Enn á ný stöndum við frammi fyrir áramótum, kveðjum það ár er eitt sinn var ungt, en hefur nú runnið sitt skeið til enda, og heilsum brátt nýju. Ætíð töluverð tímamót í hugum okkar, tími til að staldra við og líta yfir farinn veg, tími minninga, stund til að horfa fram á veginn, stund til að hugleiða eigin stöðu og stefnu sem og þjóðfélagsins alls. Hvers minnumst við helst þegar litið er til baka að þessu sinni? Eitt og annað kemur í hugann, sumt var gleðilegt, öðru var erfitt að mæta og vinna sig í gegnum. Þannig skoðum við atburðina einn af öðrum. Margar minningar eigum við sameiginlegar sem samfélag eða þjóð, en þó er það líka svo að ýmislegt sem breytti lífi eins vissi annar ekki af, jafnvel það sem hvað mestu skipti. Þannig röðum við minningarbrotum liðins tíma upp, og þau gnæfa mishátt eins og gefur að skilja. Mörg okkar sakna einhvers sem við höfðum og nutum en höfum ekki lengur. Vera kann að ástvinir hafi horfið á braut, kvatt þetta líf eða flutt annað, en það kann einnig að vera ótal margt annað sem við höfum misst eða hefur breyst, s.s. búseta, heilsa, starf, vinir eða veraldlegar eigur. Listinn getur verið langur. Áramót minna á þetta, og við biðjum Guð að helga allt sem að baki er, ekki síst sára og erfiða reynslu.

Þakkarhátíð En áramót minna að sjálfsögðu einnig á að við höfum fengið að lifa enn eitt árið, þar sem við höfum fengið margs að njóta sem hefur glatt og byggt upp. Áramót eru því ekki síður hátíð þakkargjörðar en minningarstund um það sem var en er ekki lengur. Við þökkum Guði og góðu fólki fyrir lífið og allt það sem sem við höfum þegið til líkama og sálar, þökkum allt sem við eigum áfram og búum að þó við kveðjum það ár sem nú hefur fullnað sitt skeið. Það væri verðugt að skrifa niður, a.m.k. í huganum, þakkarlista fyrir árið 2012. Ég býst við að hann yrði langur hjá okkur flestum, miklu lengri en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði. Það er nefnilega ótal margt að þakka, ekki aðeins í lok árs, heldur að kvöldi hvers einasta dags. Það safnast saman í stóran sjóð þegar allt er tekið saman. Þakka ber alla ástúð og umönnum sem við njótum, þakka þau öll sem reynast okkur vel, jafnvel á hverjum degi, þakka þau sem láta sér annt um okkur á heimilum okkar, og alls staðar þar sem við eigum góðar samverustundir með fólki. Við gleymum of oft að þakka hið hversdagslega, og teljum það sjálfsagt. En fátt er sjálfsagt í þessum forgengilega heimi eins og reynslan kennir okkur. Því skulum við þakka og varðveita með okkur hið góða, bjarta og jákvæða sem við njótum, hafa það uppivið, sem myndir á vegg, er við göngum inn í nýtt ár.

Það er verðugt áramótaheiti að reyna að muna eftir að þakka sem best við kunnum hið góða og gleðiríka sem við njótum, þakka Guði lífið, þakka ástvinum og samferðarfólki allt það sem þau eru okkur og gera fyrir okkur, og biðja þess að við mættum verða öðrum til gleði og gagns eftir því sem við getum og í okkar valdi stendur. Bros, hlýtt handtak, falleg orð eru gjafir sem við getum sennilega öll gefið, og eru gulli dýrmætari.

Í hendi Guðs Kæri söfnuður. Í birtu jólahátíðar kveðjum við gamla árið. Það er óumræðilega gott að geta lagt allt sem að baki er í hendur Guðs, sem flytur okkur þá gleðifregn í Jesú Kristi að hann er hér mitt meðal okkar, til að gefa okkur sínar eilífu gjafir, taka þátt í kjörum okkar, leiða okkur og líkna. Í birtu jólahátíðar, með þennan fagnaðarboðskap í huga og hjarta, göngum við mót nýju ári, vitandi að Guð þekkir okkur og umvefur með náð sinni og kærleika. Um það orti séra Matthías í nýárssálmi sínum, ‚Hvað boðar nýárs blessuð sól‘, sem við vorum að syngja. Von og trú er inntak þessa sálms, byggð á trausti skáldsins til forsjónar Drottins Guðs, sem hann fól líf sitt allt, jafnt í gleði sem erfiðleikum. Séra Matthías þekkti því miður allt of vel fallvaltleik þessa lífs, reyndi sjálfur oftar en einu sinni sáran ástvinamissi. Engu að síður orti hann þennan vonarríka og bjarta trúarsálm. Eða var það einmitt vegna erfiðrar reynslu og þess styrks sem hann fékk fyrir trú á Drottin Guð til að vinna sig í gegnum þrautir, sem hann gat ort með þessum hætti og sálmurinn ber vitni um? Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár.

Í hverfulum heimi, þar sem gengi er fallvalt, og það sem ‚oss er léð er svo tæpt og valt‘ er mikilvægt að hafa trygga fótfestu í lífinu, byggja á því sem reynist vel í gleði sem raun, sem bregst ekki þó á reyni. Ljóst má vera að það gerði séra Matthías – og með vitnisburði sínum hefur hann veitt ótal mörgum öðrum styrk og hjálp, von og birtu, í lífsbaráttunni.

Sem barn lærði Matthías að þekkja Drottin Guð og treysta honum, lærði að byggja líf sitt á því bjargi sem aldrei bregst þó stormar blási og vatn flæði. Orð Guðs líður aldrei undir lok, fyrirheiti hans bregðast eigi þó tímar líði og breytist. Drottinn Guð er hinn sami frá eilífð og til eilífðar. Í því trausti til Drottins Guðs felum við honum árið sem er að kveðja og heilsum nýju ári. Vor sól og dagur Herra hár, sé heilög ásján þín í ár. Ó, Drottinn, heyr vort hjartans mál, í hendi þér er líf og sál.