Ástin í raun

Ástin í raun

Í dag langar mig að tala við ykkur um vefnað. Kærleiksvefnað. Í lestrum þessa sunnudags – þess þrettánda eftir þrenningarhátíð – er nefnilega að finna rauðan þráð. Textarnir fjalla allir um kærleikann (eða ástina) með einum eða öðrum hætti. Það mætti segja að þeir fjölluðu um ástina í raun.

Þér hafið heyrt að sagt var: 'Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.' En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður, svo að þér reynist börn föður yður á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama? Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn. Matt 5.43-48

Biðjum saman:

Vertu Guð, faðir faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Kæri söfnuður, í dag langar mig að tala við ykkur um vefnað. Kærleiksvefnað. Í lestrum þessa sunnudags – þess þrettánda eftir þrenningarhátíð – er nefnilega að finna rauðan þráð. Textarnir fjalla allir um kærleikann (eða ástina) með einum eða öðrum hætti. Það mætti segja að þeir fjölluðu um ástina í raun.

Með því að spinna kærleiksþráðinn í hverjum lestri fyrir sig og leiða þá svo saman getum við ofið band sem endurspeglar ákveðna hugmynd um kærleikann – kristið, lútherskt, kirkjulegt kærleikshugtak. Það samanstendur semsagt af þremur þráðum: Einum úr gamla testamentinu, tveimur úr því nýja.

* * *

Í lexíu dagsins kallar Jesaja spámaður eindregið eftir ákveðinni afstöðu til náungans. Við erum kölluð til að:

leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Slíkur náungakærleikur - slík ást - er ekki bundinn við tilfinningarnar einar saman heldur hefur hann allt að því áþreifanlegar afleiðingar í lífi einstaklingsins. Það er næstum því hægt að bragða á þeim og þær verða svo sannarlega reyndar á eigin skinni.

* * *

Nálgunin er önnur í pistli dagsins, óði Páls postula til kærleikans:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Páll beinir athygli okkar að því sem er innra. Að afstöðunni til okkar sjálfra og til annarra.

* * *

Þriðja þráðinn í þessu kærleikshugtaki finnum við í guðspjallslestri dagsins. Guðspjall þessa dags er hluti af fjallræðunni hjá Matteusi. Jesús segir:

Þér hafið heyrt að sagt var: 'Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.' En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður …

Þegar rætt er um ástina eða kærleikann í Biblíunni þá er aldrei um að ræða bara tilfinningu. Henni fylgja alltaf aðgerðir og verk. Þessi ást mannanna á að vera e.k. eftirfylgd eða eftirmynd af ást Guðs. Áherslan er á verk sem beinast að velferð annars. Þetta á að ná til allra, ekki bara þeirra sem við erum bundin fjölskyldu- eða vináttuböndum. Einnig hinna sem okkur líkar ekki við. Kannski er það hið róttæka í textanum.

Hér er líka gerður skarpur greinarmunur milli þess sem er og þess sem á að vera. Núverandi ástand er sagt einkennast af borðorði sem er á þessa leið:

"Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn."

Við vitum ekki hvaðan þetta boðorð kemur, það er í öllu falli hvergi að finna í Biblíunni í þessari mynd - fremur má segja að hið gagnstæða finnist þar.

Í 3M 19.18 segir: Þú skalt elska náunga þinn Í 2M 23.4 er talað um að sá sem finni uxa eða asna óvinar síns eigi að skila honum. Í Ok 25.21 er talað um að séu óvinir hungraðir eigi að gefa þeim að eta, séu þeir þyrstir að gefa þeim að drekka.

En hvergi er að finna beint boðorð um að hata skuli óvin. Þetta hlýtur því að vera sótt eitthvað annað. Kannski var guðspjallamaðurinn að vísa til almenns sannleika - til þess viðhorfs sem var viðtekið í samfélaginu til óvina og andstæðinga; kannski hefur þetta beina skírskotun til þess þjóðfélagshóps sem hann tilheyrði sjálfur. Við vitum það semsagt ekki, en slíkri afstöðu er í öllu falli hafnað með skýrum hætti.

* * *

Óljós uppruni boðorðsins ætti þó ekki að valda okkur vandræðum. Allra síst textinn er heimfærður til okkar samtíma. Er það ekki svo að í okkar eigin samfélagi skortir lítið á óvinahatrið. Er ekki sífellt alið á tortryggni milli ólíkra hópa? Það eru annars vegar við - hins vegar þau.

Vinstri menn og hægri geta ekki náð saman, ríkir og fátækir, samkynhneigðir og gagnkynhneigðir, Bandaríkjamenn og Írakar, kristnir menn og múslimar, trúaðir og guðlausir, Íslendingar og nýbúar. Við og þau.

Það virðist stundum vera eins og við þurfum eða höfum alltaf einhverja óvini. Eins og samfélagið okkar gangi út á það að aðgreina frekar en sameina; ala á tortryggni og efa. Og ef við höfum enga óvini þá búum við þá til. Samkeppni er viðmiðið.

En textinn fordæmir alla slíka aðgreiningu. Öllum tilraunum til að skapa aðgreiningu milli manna þar sem engin er. Hvers vegna? Af því að við eigum að vera lík Guði föður okkar á himnum:

er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.

Það er engin aðgreining. Það má því kannski segja að Jesús sé raun ekki að setja niður siðaboð heldur sé hann að útdeila uppskrift að byltingu. Því hlýðni við þetta boð kallar ekki á smávægilega breytingu í lífinu heldur á gjörbreytingu. Stefnubreytingu. Hún kallar í raun á það að við hættum að segja við og þau og förum þess í stað að tala um okkur. Sameinum hópana í huga og í hjarta og freistum þess að tala og vinna og starfa eins og við séum öll börn Guðs. Því það erum við. Öll.

* * *

Þrír þræðir eru ofnir saman í lestrum dagsins: Páll segir til um hið innra viðhorf:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp ...

Jesaja segir til um það hvers konar verkum kærleikurinn eða ástin brýst út í. Þú skalt:

leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok

Og Jesús segir okkur að hverjum þessi verk skuli beinast og undirstrikar þar með hversu róttæk eða afgerandi þessi krafa er:

Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður …

Það er enginn undanskilinn – hvorki frá þessari kröfu Jesú Krists né til hennar (ef svo má að orði komast). Allir eiga að gangast undir hana og sinna þessum verkum og enginn er undanskilin frá áhrifasvæði þeirra.

Þannig er ástin í raun.

Og á þessum byrjum við hér og nú og reynum okkar besta. Þótt það kunni að vera að við náum ekki á leiðarenda fyrr en á efsta degi. Guð hjálpi okkur til þess.