“Vilt´vera túnfífill?”

“Vilt´vera túnfífill?”

Trú og efinn birtist í sinni tærustu mynd í vanmætti hugans. Í því sem við getum ekki af mannlegum skilningi fengið til að ganga upp af eigin mætti.

Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn. Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: "Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um." Jesús segir við hana: "Bróðir þinn mun upp rísa." Marta segir: "Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi." Jesús mælti: "Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. 26Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?" Hún segir við hann: "Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn." 

Jóh. 11. 19 - 27

 Við lifum á tímum þar sem trúin blómstrar gul og björt eins og túnfífill sem fáir vilja vita af en komast ekki hjá að hafa fyrir augum einhverjum til gleði og öðrum til ama.  “Hver vill vera túnfífill á víðáttu engi lífsins?”  sagði hún skáldlega enda skáld og kennari.  “Trúlega engin sem hefur val um annað” svaraði sessunautur minn í Austurbæjarskólanum forðum daga og uppskar hlátur okkar hinna og við hvert í kapp við annað fundum okkur blóm til að vera á engi lífsins, en ekki túnfífill sem við kölluðum fífla og engin vildi vera fífl ef við mögulega kæmust hjá því.  

“Hvað er svona slæmt við það að vera fífl” spurði kennarinn og leit yfir “blómin” sín eins og hún jafnan kallaði okkur nemendur sína.  Okkur vafðist tunga um höfuð svo mjög áttum við erfitt með að svara þessari spurningu.  Við ákváðum að láta gott heita “afþvíbara.”  Hún brosti við okkur túnfíflunum þótt við héldum að við værum eitthvað annað, brosi sem iljaði af kærleika og þess sem lét sig varða. 

Það er stundum gott og dýrmætt og líka hollt þegar horft er um öxl á fölnaða daga hnýtur maður um minningar sem ég sagði frá hér áðan.  Minningar sem vart er hægt að leggja trúnað á en eiga sér stað og sitt líf óháð öllu og öllum veruleika dagsins í dag.  Dagarnir sem ég er að rekast á við í dag eru það heimtufrekir; segi ekki afbrýðsamir, að vart nokkuð annað kemst að en raunveran.   Hún er ekkert alltaf val um að vera sólbjartur túnfíll áhyggjuleysis á endalausum engjum lífsins.   Hef velt því fyrir mér hvort það sé aldurinn eða óttinn við að opna hug minn og opinbera það sem ekki sést trúna og efan, það sem ekki fær skilist það sem ekki fæst sagt sem barnsleg einlægni. 

Ég veit það ekki því að ég hef ekki gefið mér tíma og tóm til að “lesa” í svörð þess sem kann að geyma svarið.  Kannski er það líka að ég hef ekki kjark til að bera að leita eftir því. Velt því fyrir mér hvort eg þurfi að finna svar?  Nútíminn er þannig að við þurfum að eiga svar að hafa skoðun í stað þess að játa fyrir sjálfum sér og hvíla hugan að ég þarf ekki að leita af svari, það er þarna einhverstaðar og ef það-svarið- kærir sig um veit það hvar mig er að finna.   

Eða kannski vantar smá slettu af Mörtu í mig og okkur svo mörg.  Mörtu sem situr ekki heima og bíður eftir svari heldur framkvæmir og sækir það sem sækja þarf til að fá svör.    Sum okkar eru eins og María sem situr heima og aðrir hafa hvoru tveggja – Mörtu og Maríu í sér.  Marta hvatvís og beinskeitt, lætur sig ekki varða hvað aðrir kunna að segja um hennar háttarlag.  Það sem augnablikið blæs henni í brjóst segir hún eða framkvæmir.  “Herra ef þú hefðir verið hér…” sagði Marta og við vitum framhaldið. 

______ Það er þetta – “við vitum framhaldið” sem er svolítið hættulegur félagi nútímans.   Ég veit svarið, ekki vegna þess að það hafði fyrir því að sækja mig heim heldur vissi ég það fyrir  - áður en nokkuð var til orðið.   Við vitum framhaldið - gerir okkur værukær, látum okkur fátt um finnast vegna þess að við teljum okkur vita betur, við vitum framhaldið.   Við getum talað um óæskilegan kunningja eða vin.  Sá eða sú sem veit eða telur sig vita, leitar ekki eftir svari við ýmsu því sem við mætum á degi hverjum vegna þess að við erum svo upplýst.    Við lifum á tímum þegar fréttirnar gerast getum við lesið um þær eða horft á þær í beinni.    Við erum upplýst en gleymum því að við sjáum og heyrum það sem aðrir vilja að við sjáum og heyrum og ekkert umfram það.  Við þurfum eftir sem áður að hafa Mörtu í okkur til að leita umfram það sem okkur er sagt.

______

Bakland guðspjallsins  á þessum degi - er trú og ekki síst efi.    Trú og efinn birtist í sinni tærustu mynd í vanmætti hugans.  Í því sem við getum ekki af mannlegum skilningi fengið til að ganga upp af eigin mætti.  Mitt í þeim veruleika tökumst við á við raunveruleikann eins og hann birtist okkur.   Sem veldur því að við náum ekki að halda utan um tilveruna eins og við vildum helst.  

Það fær mig til að leggja hug að verkum þeim sem prýða anddyri kirkjunnar eða það sem listamaðurinn segir um þau – andrúmið, eða eins og listamaðurinn Georg Guðni segir sjálfur.  “Loftið og rýmið sem er á milli okkar og óendanleikans – kannski er þetta eins og eilífðin, eins og rými hugsunarinnar, eða hið huglæga rými.” segir hann.  Það er sem að huglæga rýmið fái ekki pláss í huga í dag vegna þess að við teljum okkur ekki hafa tima til að leggja hugan að því.   Eða við höldum að svo eigi að vera til þess að ekki er hægt að segja um okkur að við séum óraunsæ.   Við fáum glýju í augu af þeirri vitneskju sem við teljum okkur hafa á öllu sem snýr að okkur og sjáum ekki allt hitt sem stendur okkur nærri og mögulega gæti veitt okkur nýja sýn á veruleika okkar vegna þess að við teljum okkur vita betur í dag heldur en í gær. 

Þörf manneskjunnar til að trúa til að fá að efast til að leita eftir því sem er æðra er þörf sprottinn af óræðum huga mennskunar, það verður aldrei frá henni tekið hvorki með illu né góðu. 

_____

Í guðsspjalli dagsins í dag er brugðið ljósi á þessa eigind manneskjunnar.  Ekki skellibjörtu ljósi heldur mildu ljósi trúar.  Ljós trúarinnar er ekki blikkandi neonljós augnabliksins.  Það er milt og auðmjúkt sem bregður birtu á svo margt það sem við teljum okkur vita en höfum í reynd ekki hugmynd um hvert framhaldið er.   Það kann að valda okkur kvíða og það kann að valda okkur ótta.   Í kvíða og angist og ótta skeiðar Marta til móts við það sem í hennar huga er ómuflýjanlegur raunveruleiki ástvinarmissis.  Í þeirri angist í þeim ótta mætir hún framtíðinni sem líkamast hafði í Jesú Kristi sem mælir þau orð:  “Ég er upprisan og lífið.  Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi.”   Trúarjátning Mörtu sem fylgir á eftir “Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.” er játning okkar á hverjum degi, en ekki skal hafa hátt um hana -játninguna - vegna þess að hún passar illa eða alls ekki inn í daglegt rými nútímans, inn í hugsunarhátt samtímans sem er sjálfhverf eins og barn sem veit ekki að veröldin er stærri og víðáttumeiri en gatan heima.  Heimurinn er óendanlegur og framtíðin á sér ekki hvíldarstað.  Þess vegna er hún alltaf skrefinu á undan okkur og við vitum ekki framhaldið ekkert fremur en Marta og systir hennar María sem syrgðu látin bróður sinn.

_____

Eitt er það sem margur telur sig vita betur í dag á tímum upplýsinga er það að trúin og trúabrögð eigi að gera burtræk úr mannlegu samfélagi.   Þau er til óþurftar, eru aflvaki alls hins versta í heiminum.  Það eigi að rífa það upp með rótum með hinum “túnfíflunum.” Manneskjunni muni vegna betur ef trúin væri ekki að bregða fæti fyrir upplýsta nútíma manneskjuna sem veit framhaldið sem veit betur en bábiljur fortíðar sem eiga heima í besta falli á safni þar sem nútímamanneskjan getur horft á býsnast yfir fávisku forfeðra og mæðra.  Þessar raddir láta hátt þessa dagana og una sér ekki hvíldar.   Jarðvegur sá sem þessar raddir spretta upp af er jarðvegur - frjór jarðvegur öfga trúar og trúleysis.   Það er vel hægt að taka undir það að trúin og trúarbrögð hafi oftar en ekki verið aflvaki styrjalda og illra verka manna.  Það er líka hægt að benda á að sagan geymir tilraunir til þess að leggja niður trúarbrögð sem ætíð hafa mistekist.   Það er sótt að og við vitum vart í hvorn fótin skal stíga er við er við erum spurð  “Trúir þú þessu?” við spurð eins og Marta eftir að Jesú  hafa sagt að hann væri upprisan og lífið.  Marta vék sér ekki undan því að að svara.   Raddir nútímans gerast háværari að leiða þessa spurningu hjá sér.  Jafnvel hæðast að henni og því sem liggur til grundvallar spurningunni því við teljum okkur vita betur. _____

Hugsun eða andrúm trúarinnar á sér ekkert rými sem heldur utan um hana og hindrar á hvaða vegu sem er.   Þess vegna á trúin sér förunaut sem er efin.  Trúin og efin verða ekki bundin í klafa mannlegs hyggjuvits, því hún er stærri en það og hún er víðáttumeiri á engi lífsins björt sem gulir túnfíflar sem leyfa sér að efast um að nokkur vilji vera það sem þeir eru ef aðeins að við komust hjá því eins og sessunautur minn sagði forðum daga í skólastofunni.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.  Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.  Amen