Ps 90.1b-4, 12; Gal 3.23-29; Lúk 2.21 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ártalið og lífið Það smám saman hvarf af skjánum ártalið sem við höfum sagt og ritað síðast liðna 365 daga og nýtt birtist. Fimm breyttist í sex um miðnættið og um leið var sálmurinn sunginn, Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka. Fortíð og framtíð mættust á andartakinu sem er nútíðin. Það sem var hefur áhrif á það sem verður en í augnablikinu, nútíðinni, felst tækifærið til að hafa áhrif. Áhrif á það sem verður, þrátt fyrir það sem var. Nú árið er liðið í aldanna skaut, og aldrei það kemur til baka. Þegar sálmurinn er sunginn fyllast margir trega. Hann minnir á að „allt er á fljúgandi ferð liðið hjá, það flestallt er horfið í gleymskunnar sjá“ og hann minnir á að „miskunnsemd Guðs má ei gleyma.“ Því þrátt fyrir allan kraft sem í manninum býr og alla getu hans til að bjarga sér og vera öðrum til yndis og aðstoðar þá getur hann ekki allt og veit ekki allt og þarf á öðrum að halda. Og svo endar sálmurinn á bæn „Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár“ Þó við áætlum um framtíðina þá ráðum við ekki öllu. Við verðum að lúta því sem lífið býður. Samt ráðum við býsna miklu um líf okkar og lífsstefnu. Það er því grátlegt að horfa upp á það sem til óheilla horfir af mannanna völdum. Ófriður og óréttlæti veður uppi víða sem veldur einstaklingum og þjóðum erfiðleikum og jafnvel kvölum. Vímuefni lama lífsþrótt og valda skaða einstaklingum og fjölskyldum. Börn búa mörg við erfið kjör. Af nógu er að taka þegar horft er til myrkari hliða mannlífsins og næg eru verkefnin sem þarf að kljást við. Sem betur fer eru fleiri hliðar mannlífsins sem eru gleðilegar, nærandi og gefandi. Þar er verkefnið að viðhalda því ástandi. Upp í hugann kemur hugsunin um lífið og hvernig því er lifað við mæri tveggja ára.
Áttundi dagurinn Í dag er guðspjallstextinn aðeins eitt vers. „Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús eins og engillinn nefndi hann áður en hann var getinn í móðurlífi."
Nafnið Jesús felur margt í sér. Engill flutti tíðindin um fæðingu hans. Engillinn sem flutti Maríu tíðindin um þungun hennar valdi nafnið hans. Nafnið hans merkir „Drottinn er frelsari“. Nafnið hans segir margt um örlög hans. Nafnið Jesús hefur haft meiri áhrif á fólk, menningu og samfélög en allt annað. Í hans nafni hafa flestir Íslendingar verið skírðir, helgaðir Guði. Í hans nafni höfum við Íslendingar komið saman í þúsund ár. Í hans nafni hafa bænir verið beðnar. Nafnið hans hefur verið ákallað á erfiðum stundum og á gleðistundum hefur verið þakkað í hans nafni. Á bak við nafnið hans er sá sem sagðist vera „ljós heimsins“, „vegurinn, sannleikurinn og lífið“, „góði hirðirinn“, „upprisan og lífið“, „brauð lífsins“, „vínviðurinn“. Hann sagðist líka vera með okkur alla daga allt til enda veraldar. Í lífi og í dauða gengur hann með okkur. Hann skýrði ekki þjáningu heimsins, en hann gekk í gegnum hana og sigraði. Það gerir hann einnig í lífi okkar. Hann gengur með okkur hinn óútskýrða veg þjáningarinnar. Hann vill varðveita lífið í öllum þess myndum og til þess þarf hann okkar hendur í þessum heimi.
Kolefnisbúskapurinn Kristin trú vinnur með lífinu og fyrir lífið. Það á við um lífið allt, alla sköpunina. Hlutverk Þjóðkirkjunnar er að boða trúna í orði og í verki og hefur hún markað sér stefnu í fjölmörgum málum er hlúa að lífinu. Í umhverfisstefnu Þjóðkirkjunnar segir meðal annars: „Lotning fyrir höfundi sköpunarverksins leiðir til ábyrgðar gagnvart því lífi og náttúru sem hann skapar. Frammi fyrir hinu sístæða sköpunarverki erum við hvött til að vera samverkamenn Guðs í að skapa betra líf og réttlátari heim.
Lifnaðarhættir mannkyns á síðustu öldum hafa valdið röskun á náttúru jarðar.“ Á loftlagsráðstefnunni í París nýverið var náð sögulegu samkomulagi um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2020. Með samkomulaginu á meðal annars að tryggja að hlýnun verði innan við 2°C og reynt verði að halda henni innan við 1,5°C. Hlýnandi veðurfar á jörðinni hefur víðtæk áhrif á vistkerfi jarðar og á náttúrufarslegar aðstæður á Íslandi. Þessar loftslagsbreytingar eru af mannavöldum og með sama áframhaldi verður óbyggilegt á mörgum stöðum, sem nú er búið á á plánetunni jörð.
Þjóðkirkjan vill leggja sitt af mörkum til þessa mikilvæga verkefnis. Ákveðið hefur verið að endurheimta votlendi í Skálholti og til skoðunar er að slíkt eigi sér stað á fleiri kirkjujörðum. Endurheimt votlendis er mikilvægt skref í átt að breytingu á kolefnisbúskapnum. Mýrar hafa að geyma óhemju magn af kolefni og allar breytingar í kolefnisbúskap þessara vistkerfa eru því mikilvægar á hnattræna vísu. Hingað til höfum við einblínt á mengun frá farartækjum og slæma umgengni um náttúruna sem er vel. Það hefur komið mörgum á óvart að endurheimt votlendis hefði svo mikil áhrif sem raun ber vitni í átt til byggilegri heims.
Í kjölfar umhverfisþings sem haldið var í Skálholti í nóvember var mennta- og menningarmálaráðherra afhent yfirlýsing viðstaddra þar sem þeir hvetja ráðherrann til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar og umhverfisvá. Fræðsla er nauðsynleg til að komandi kynslóðir hafi þekkingu til að umgangast sköpunarverkið af þeirri virðingu sem því ber.
Friðurinn Fyrir viku heyrðum við boðskapinn um fæðingu frelsarans, dýrð Guðs og frið á jörðu. Friður þýðir jafnvægi. Það ríkir ófriður á jörðinni af mannavöldum. Það geisar stríð, svo grimmt að fjöldi manns hefur yfirgefið landið sitt og leitað ásjár í Evrópu. Sýrlendingar eru þar fjölmennir, en margir hafa líka flúið lönd í Afríku. Annar ófriður af mannavöldum er ójafnvægið sem skapast hefur í vistkerfi jarðarinnar með aukinni mengun og hækkandi hitastigi af völdum gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsráðstefnan í París brást við þeim vanda af fagmennsku og samvinnu en einnig vilja til að vinna sköpunarverkinu gagn.
Okkur mönnum var ekki falin ábyrgð á sköpunarverkinu og við gerð að samverkamönnum skaparans sjálfs til að eyða og deyða heldur til að viðhalda og nýta. Okkur var falin ábyrgðin með nýtingarrétti en ekki eyðingarrétti. Friðurinn, jafnvægið verður að ríkja til að búandi sé áfram á jarðarkringlunni. Á þann frið erum við líka minnt í guðspjalli jólanna. Þeim friði fylgir velþóknun Guðs og hana skulum við ekki forsmá. Þeim friði fylgir óttaleysi og kraftur til að takast á við verkefni lífsins. Jesús Jesús þekkti vel mannlega bresti. Hann þekkti líka þær ógnir sem að okkur steðja. Á 1. ári fékk hann að kynnast grimmd heimsins og flúði undan henni í faðmi foreldra sinna til Egyptalands. Hann gerðist flóttamaður eins og hundruðir þúsunda þessa dagana. Hann þekkti skuggahliðar mannlífsins og tók fullan þátt í baráttunni milli góðs og ills. Og þrátt fyrir það að hann sigraði dauðann og hið illa gaf hann engin fyrirheit um að lífið ætti sér ekki skuggahliðar. Þrá okkar eftir friði er sterk, í lífi hvers og eins, milli manna og milli þjóða. Jesús gaf okkur frið, sérstakan frið, sem hann einn getur gefið. Hann nefndi þann frið, sinn frið. Hann sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég einsog heimurinn gefur.“ (Jh 14.27)
Með þennan frið að leiðarljósi og í krafti þessa friðar skulum við ganga til móts við nýtt ár staðráðin í að gera betur og þjóna lífinu eftir því sem það mætir okkur. Friðurinn sem Jesús gefur er ekki stundarfriður heldur sá friður sem leiðir til friðar mannsins við sjálfan sig og milli manna.
Nýtt ár Nýtt ár hefur hafið göngu sína. Í kirkjum landsins kemur söfnuðurinn saman í Jesú nafni til að leggja árið og framtíðina í hendur Guðs. Í trú á Guð og mannkynið höldum við áfram göngunni um lífsins veg. Fyllumst bjartsýni fyrir framtíðinni og biðjum þess að við gleymum ekki að vanda okkur í umgengni við náttúruna og hvert annað.
Sá sem hlaut nafnið Jesús 8 daga gamall er leiðtogi okkar og fyrirmynd. Mænum á hann, treystum honum, lesum um hann í Biblíunni, fetum í sporin hans, förum eftir orðum hans. Kirkjunni hans er spáð endalokum. Þeir spádómar hafa heyrst áður en ekki ræst. Mennirnir spá og spekúlera en orð Guðs vors varir að eilífu segir í helgri bók. Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár. Þannig orti Matthías Jochumsson í áramótasálmi.
Göngum óhrædd fram á veginn, þökkum fyrir allt það góða sem við búum við og biðjum um hjálp og styrk til bæta það sem ekki hefur staðist væntingar. Guð blessi land og þjóð og gefi farsæld og frið á nýju ári. Gleðilegt ár 2016 og þakkir fyrir það sem liðið er.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.