Nú byrjar allt!

Nú byrjar allt!

Í reynd er saga upprisinnar hvergi í Nýja testamentinu nema þá á mjög svo brotakenndan hátt. Henni er hvergi lýst sem atburði. Hún er hins vegar bara boðuð sem staðreynd. Kristur er upprisinn! […] Á krossinum sagði hinn þjáði: Það er fullkomnað! En í reynd var hann segja: Nú byrjar allt!
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
23. mars 2008
Flokkar

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Gleðilega góupáska! Góupáskar voru tvisvar á liðinni öld, árið 1913 og aftur 1940 en verða ekki aftur fyrr en árið 2160. Þá góupáska mun annað fólk vonandi upplifa meðan við gleðjumst, ef Guð lofar, í himni hans.

Páskarnir eru gengnir í garð og vorið á næsta leyti! Fuglarnir vita að vorið er að koma, þröstur og starri, æður og bliki, skarfur og hrafn, músarindill og mávur, búa sig undir lífsköllun sína. Vorgosar og krókusar rjúfa mold og gægjast nú óðum upp og gleðja okkur með litum sínum og himnesku brosi. Upprisið líf af gröf! Og meira að segja þangið í flæðarmálinu við Ægisíðuna blakar blöðum sínum, lyftir þeim mót ljósinu, opnar sig fyrir lífgefandi geislum sólar. Þangið glitrar, lífið allt glitrar af gleði! Lífið fagnar sigri Guðs yfir kulda og klaka, gröf og dauða, eyðingu og útrýmingu alls sem lífsanda dregur. Og jörð og loft, himinn og haf - og við! - opnum okkur, lyftum höndum eins og þangið blöðum sínum í flæðarmáli nýs dags og segjum:

-Kristur er upprisinn!

-Kristur er sannarlega upprisinn!

Við erum eitt með öllu lífi, hverju blómi, fugli, vatni, lofti. Líf í höndum hans, sem stýrir vorsins veldi.

Og í dag nærir hann okkur með orði sínu og sakramenti, minnir okkur á sigurinn og nærveru sína í hversdagslegum hlutum, brauði og víni, í daglegu fæði, daglegum störfum, í samskiptum okkar við samferðafólkið. Já, Guð er þar, hann er ekki hér. Og nú bregður okkur kannski eins og konunum við gröfina þegar engillinn sagði: „Hann er upprisinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann.“ (Mk 16.6) Hann er farinn. Og þannig er það með Krist, hinn upprisna, hann fer á undan okkur, er ávallt skrefi á undan, hinn upprisni á götum Reykjavíkur, í dimmum sundum og breiðum strætum, í kjallaraholum og á hanabjálkum, í glæsivillum og kotum, á sjúkrahúsum og meðferðarstofnunum, í kaupstöðum og þorpum, í hverjum dal, á hverjum hóli, eyju, landi, álfu. Hann er hvarvetna í náunga okkar. Þjónaðu náunga þínum, þannig fylgir þú mér, segir hinn upprisni. Ég er í samferðafólkinu, segir hann, í þeim sem nú finna til vegna þess að kaupmátturinn hefur hrunið, þeim sem hafa orðið undir og líka í þeim sem halda að þau hafi lausnina í auðæfum sínum. Öll þarfnast þau elsku og umhyggju. Og hann er líka í þeim sem hafa augu barnsins og sjá að stjórnarfarið og aldarhátturinn er nakinn eins og keisarinn í ævintýrinu. Já, allur heimurinn í heimsku sinni er berstrípaður, afhjúpaður í eltingaleik sínum eftir einskisverðum hlutum og með ónýtar lausnir á vanda sínum, lýðskrum, styrjaldir, kúgun og svik. Allt er það einskisnýtt og dugar engum í hinstu glímu við lífið og tilveruna. Gjaldmiðlar heimsins í víðasta skilningi eru allir fallnir og orðnir að engu andspænis hinstu rökum. „Hvenær sem kallið kemur, kaupir sig enginn frí.“ Von okkar er ekki í dauðum hlutum eða úreltum lausnum nakinna keisara og ráðgjafa þeirra. Hún er í allt öðru. Hún er í einum manni sem reis af gröf, manni sem sagði og segir enn: Ég lifi og þér munuð lifa!

Og engillinn segir okkur að hann sé farinn. Hann er ekki hér. Er hann kannski farinn af þessum heimi, endanlega búinn að gefast upp, risinn upp og burt af þessum volaða heimi? Nei, hann er hér, en samt er hann farinn á undan okkur, undanfarinn sem prófar skíðabrekkuna og kallar til baka að hún sé fær: Komið, fylgið mér! Og við höfum heyrt hróp undanfarans og slegist í för með honum, elt hann út úr dimmri gröf og út í ljósið. Hann er upprisinn!

Við erum líka upprisin! Upprisan snýst ekki bara um dauðann sem vitjar okkur í fyllingu tímans, hún er um okkur hér og nú. Skírnin skilgreinir hver þú ert. Hún segir: Þú ert upprisin/n! Skírnin hefur þegar kallað þig til eilífs lífs og þetta eilífa líf er hér og nú! Við vorum vígð eilífðinni í heilagri skírn. Páskarnir vísa ekki til hins liðna, þeir vísa fram á veginn. Páskarnir snúast ekki um dauðann, heldur lífið. Páskarnir benda ekki á Jesú, þeir benda á þig!

Upprisutrúin kemur víða við sögu. Hún býr í mörgum Íslendingum, til að mynda þeim sem tjáðu sig í fjölmiðlum, vondjörf andspænis niðursveiflu efnahagslífsins og sögðu, að lífið snerist í raun um annað en vísitölur og verðbréf. Páskafólkið er víða, þau sem trúa á hin dýpri gildi, upprisu mannsins úr hvaða gröf sem er, fólk túar, vonar og kærleika. Einhver sagði: Það sem lirfan álítur vera heimsendi, kallar skaparinn fiðrildi. Jesús orðaði þetta svona: „Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda . . . “ (Lk 20.38b) Og lífið snýst um það að vera lifandi, ekki lifandi dauður. Lífið snýst ekki um árin í lífi þínu heldur lífið í árum þínum, sagði Lincoln forseti. Og hér erum við á þessum páskadagsmorgni, morgni nýs lífs, nýrrar tilveru! Kristur er upprisinn!

Í reynd er saga upprisinnar hvergi í Nýja testamentinu nema þá á mjög svo brotakenndan hátt. Henni er hvergi lýst sem atburði. Hún er hins vegar bara boðuð sem staðreynd. Kristur er upprisinn! Í reynd boðar sjálf tilvist Nýja testamentisins upprisuna. Ef ekkert raunverulegt gerðist þennan undarlega og óræða morgunn, væri ekkert Nýja testamenti til, engin kirkja, engin kristin trú. Á krossinum sagði hinn þjáði: Það er fullkomnað! En í reynd var hann segja: Nú byrjar allt!

Já, nú byrjar allt. Við höfum tekið tilboði hins upprisna um að koma og heyra, um að njóta gjafa hans í orði og sakramenti. En þau eru mörg sem kjósa að fagna páskum við aðrar aðstæður, á skíðum, á sólarströnd, í fjallaferð, í sumarbústað. Er það ekki líka verðug leið til að fagna páskum? Jú, ég held það. Ætli það fari ekki annars eftir hugarfari hvers og eins? Hver manneskja sem finnur til þakklætis yfir lífinu og skynjar Guðs anda í brjósti sér á hlutdeild í upprisutrúnni. Kristin trú er ekki og má ekki vera eintómur boðskapur lögmáls, boð um reglufestu og kreddur, hún er ennfremur um lífið, um kærleikann, um gleðina, um að njóta lífsins og leika sér sem barn, barn með kærleiksríka ábyrgð á öðrum börnum. Þannig þjónum við Guði með því að vera frjáls. Kristin trú er tilboð um nýtt líf, upprisulíf en ekki þunglyndislegt boð um klafa og þunga byrði. „Mitt ok er ljúft og byrði mín létt“, sagði hann. Trúin er tilboð um að lifa í anda vonar, í bjartsýni og trú á sigur lífsins yfir öllum drunga og dauðans öflum. Hvað höfum við þá að óttast? Kreppu, gengisfall, rýrnandi kaupmátt, ástvinamissi, sjúkdóma, dauða? Nei, ekkert af þessu getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs í Kristi. Hann er með okkur í öllu lífi - og verður hjá okkur þegar við kveðjum þetta líf hvort sem það verður skyndilega eða hægt og bítandi. Guð er hér og hann verður þar. Við erum hér, en hvar ert þú? var spurt í umdeildri auglýsingu. Hvað okkur varðar, skiptir mestu að vita sig vera tengdan hinum upprisna, hvert sem sporin leiða okkur í lífinu. Þá erum við upprisin og verðum ætíð upprisu megin í lífinu - einnig í dauðanum.

Ég lýk svo þessari páskaprédikun minni með nokkrum orðum úr páskaræðu eftir Jóhannes Chrysostomus, Jóhannes gullinmunna, sem hann flutti á sinni tíð en hann var uppi á fjórðu og fimmtu öld (c.349-407):

Göngum inn til fagnaðar Drottins! Hin fyrstu og hin síðustu, takið við launum ykkar; rík og fátæk, gleðjist saman! Hin algáðu sem hin dáðlausu, fagnið deginum!

Þið sem hélduð föstuna sem og hin sem ekki gerðu það, fagnið því borðið svignar undan ríkulegum veitingum! Neytið á konunglega vísu því alikálfurinn er feitur!

Enginn fari héðan hungraður. Drekkið öll af kaleik trúarinnar. Njótið ríkdóms gæsku Hans! Enginn harmi fátæk sína, því að konungsríki alheimsins hefur verið opinberað. Enginn harmi það að hafa hrasað aftur og aftur; því að fyrirgefningin hefur risið upp af gröf. Enginn óttist dauðann, því að dauði frelsarans hefur látið okkur laus.

Kæri söfnuður! Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda. (Rm 15.13)

Þessi prédikun er einnig birt á annál Arnar Bárðar og þar er hægt að hlusta á hljóðupptöku af henni.