Fyrsta persóna fleirtölu

Fyrsta persóna fleirtölu

Lykilorðið í upphafi stólræðu á fyrsta sunnudegi eftir kosningar er þó ekki nafn Hölllu Tómasdóttur og keppinauta hennar. Nei það er fyrsta orðið sem hér var nefnt: „Við“: Fyrsta persóna fleirtölu. Hún ólík fyrstu persónu eintölu – sem stundum tröllríður textum og frásögn. Þá ættu rauðu flöggin að fara á loft og grunsemdir að vakna um að egóið hafi vaxið meira en góðu hófi gegnir. Ég-ið drottnar þá yfir öllu og öllum.

Við höfum valið okkur nýjan forseta og baráttan hefur verið hörð. Við óskum Höllu Tómasdóttur til hamingju með sigurinn. Áhugavert verður að sjá hvernig hún mun móta þetta embætti. Hún á annan bakgrunn en síðustu forverar hennar sem koma úr ranni félags- og hugvísinda.


Við

 

Þegar mikið liggur undir er hátt reitt til höggs og sjálfur hef ég fundið til með þeim frambjóðendum sem hafa fengið yfir sig skæðadrífu af gagnrýni. En sennilega er þetta hluti af leiknum. Þessu má líkja við „vopnaleit“, þar sem þarf að setja farangurinn á færibandið, fjarlægja málmhluti og jafnvel leyfa ókunnugu fólki að stíga inn fyrir svið mannhelgi og þæginda. Allt sem kann að þykja grunsamlegt er sett á borðið og fólk þarf að standa fyrir svörum.

 

Forysta er jú ekkert gamanmál. Leiðtogar hafa meiri áhrif en aðrir og þurfa að hegða sér í samræmi við það. Áhrif fólks á umhverfi sitt eru ólík eftir því hver á í hlut. Fjörkálfar meðal fermingarbarna ýmis ráð til að ergja okkur fræðarana en það ónæði gleymist fljótt. Öðru máli gildir um yfirboðara. Fálæti fólks úr þeirri stöðu hvað þá andúð, getur setið á sálinni um áratugaskeið. Leiðtogar hafa jú margföld áhrif á umhverfi sitt en á við um þau sem ekki gegna slíku hlutverki.

 

Lykilorðið í upphafi stólræðu á fyrsta sunnudegi eftir kosningar er þó ekki nafn Hölllu Tómasdóttur og keppinauta hennar. Nei það er fyrsta orðið sem hér var nefnt: „Við“: Fyrsta persóna fleirtölu. Hún ólík fyrstu persónu eintölu – sem stundum tröllríður textum og frásögn. Þá ættu rauðu flöggin að fara á loft og grunsemdir að vakna um að egóið hafi vaxið meira en góðu hófi gegnir. Ég-ið drottnar þá yfir öllu og öllum.

 

Fyrsta persóna fleirtölu minnir okkur þvert á móti á að við stöndum ekki einn í ólgusjó tilverunnar heldur erum við hluti af hópi, samfélagi sem á sér sameiginleg markmið og gildi sem eiga helst að vera óhagganleg hvað sem á dynur.


Í þremur greinum

 

Og núna á fyrsta sunnudegi eftir þrenningarhátíð má einmitt nefna að kristna hugmyndin um þrenninguna, jafn framandleg og hún kann að virðast, tengist þessari hugsun. Við nefnum hana í signingunni – faðir, sonur og heilagur andi. „Eining sönn í þremur greinum“, orti Eysteinn í Lilju. Þarna mætir okkur sú hugsun að þótt Guð sé einn, birtist hann okkur í ólíkri mynd, hvort heldur það er á síðum ritningarinnar eða í lífi hinnar trúuðu manneskju.

 

Þar leynist sú afstaða að valdið sjálft, hið æðsta og mesta birtist ekki í einni persónu sem trónir yfir öllu heldur sé það í raun þrískipt. Sömu hugsun settu upplýsingarmenn fram á 18. öld þegar Montesquieu kynnti hugmyndina um þrískiptingu ríkisvaldsins. Talsmenn þrenningarinnar höfðu í fornöld tekist á við guðfræðinga sem vildu raða guðdómnum í einhvers konar stigveldi, nú eða höfnuðu því að Guð kristninnar hefði skapað þennan ófullkomna heim. Markmið manneskjunnar væri að þeirra mati það að yfirstíga hið jarðneska.

 

Hugmyndin um þrenningu Guðs hafnar slíkum himneskum valdapíramída og strax í upphafi trúarjátningarinnar lýsum við því yfir að Guð hafi skapað jörðina og hið efnislega. Þetta er í raun stór yfirlýsing um mikilvægi fyrstu persónu fleirtölu. „Við“ erum öll í þessu saman.


Allt sameiginlegt

 

Þessi örsaga sem hér var lesin úr Postulasögunni gefur innlit í frumkristna söfnuði sem byggja á þessari hugsun. Þarna hefur hið plássfreka „ég“ vikið fyrir sameiginlegum gildum.

 

Verðmætin sem þessir söfnuðir byggðu á voru frásagnir postulanna af Jesú og það andrúmsloft sem Biblían kallar heilagan anda. Þessu er lýst svo: „En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum.“

 

Þessi lýsing er lykiltexti í samhengi Biblíunnar. Allar götur hafa kristnir hugsuðir horft til upprunans sem einkennist af samheldni, gjafmildi og nægjusemi. Fyrirmyndina höfðu þeir í orðum Jesú Krists og vafalítið erindi spámanna sem kynslóð fram af kynslóð boðuðu jöfnuð og réttlæti í ríkinu.

 

Þetta er með öðrum orðum sú mikla breyting sem verður þegar fólk hugsar í fleirtölu fremur en eintölu, lætur sig varða hag systkina sinna. Þessi varð síðar mælikvarðinn sem fólk hafði til hliðsjónar þegar páfar og kóngafólk gerðust of upptekin af sjálfum sér, söfnuðu auði og völdum, hlúðu ekki að þeim sem stóðu að jaðrinum. Þá reis kristið fólk upp og mótmælti.

 

Við eigum meira að segja nafn yfir það. Við köllum það siðbót. Fyrir fáeinum árum börðumst við fyrir hag hinsegin fólks innan kirkjunnar og það leiddi af sér róttæka stefnubreytingu. Allt var það grundvallað á ritningunni og hugsjónum Krists. Sennilega er það nýjasta dæmið um slíka siðbót innan kirkjunnar.

 

 „Öll speki er frá Drottni“ segir í lexíunni. Sannleikur er með öðrum orðum hafinn yfir skoðanir og sjónarmið. Þetta var eitt af því sem greindi hið gyðinglega samfélag frá nágrönnum þess. Hvar ættu sannindin annars að liggja? Jú, hjá þeim sem fara með völdin. Kóngafólk rakti ættir sínar til guðanna og lét reisa sér styttur þar sem almenningi var ætlað að færa fórnir.

 

Greinarmunur á þegnum samfélaga eftir stéttum var samofinn í þær trúarhefðir. Í Biblíunni lesum við aftur á móti að Guð sé eina raunverulega yfirvaldið sem öllum, þar á meðal, konunginum væri ætlað að lúta.


Heitasti stóllinn

 

Já, forysta er hættuleg – í Biblíunni hásætið væri heitasti stóllinn í ríkinu. Bryti kóngur gegn boðum Guðs, ef honum yrði á að rjúfa þann sáttmála sem samfélagið byggði á, þá yrði refsingin hörð. Þessi vitund gengur sem rauður þráður í gegnum hina gyðingkristnu trúarhefð.

 

Þegar við sendum leiðtoga okkar í gegnum röntgentækin og drögum fram allt þar sem misjafnt gæti talist, stöndum við meðvitað eða ómeðvitað í þeirri hefð. Þar með er ekki sagt að sú gagnrýni sé sanngjörn. Það er á hinn bóginn mikilvægt fyrir þá manneskju sem þarf að ganga í gegnum það ferli að skilja hið stóra samhengi.

 

Ég held í því sambandi að rýnar okkar daga standi í stærra og eldra samhengi en þá kann að gruna. Í hinu gamla Ísrael gagnrýndu spámenn yfirvöld sem stuðluðu að misskiptingu og kærðu sig ekki um hag þeirra sem stóðu höllum fæti. Og þar var þessari sannfæringu miðlað: Að handan alls yfirvalds byggi æðra vald, sjálfur guðdómurinn sem allir konungar áttu að beygja sig undir.  

 

Leikreglurnar voru ekki lagðar upp eftir duttlungum þess sem réði hverju sinni. Nei þær voru skráðar í grjót og voru geymdar í hinu allra heilaga í Musterinu. Það var sjálft lögmálið sem varðaði samskipti fólks hvert við annað. Það skyldi tryggja grundvallarréttindi hverrar manneskju, einkum þeirra sem stóðu höllum fæti.

 

Þetta er ekki sjálfgefið. Á síðustu öld eftir að heimurinn hafði lýst yfir dauða Guðs varð fjandinn laus getum við sagt. Enginn æðri máttur setti valdi einræðisins skorður.


Við eða ég

 

Við sjáum vott af slíkri óheillaþróun á okkar tímum. Lýðsskrum kemur í stað lýðræðis. „Ég-in“ eða egóin verða æ háværari. Egóin bjóða upp á gagnslausar lausnir við flóknum vandamálum, veggir eru reistir, alið er á fjandskap á milli hópa. Egóin vantreysta stofnunum og þingum samfélagsins og leiða alla skynsamlega umræðu út á brautir hártogana og skætings. Allt tekur að snúast um um persónu leiðtogans, hollustan við hann skiptir meira máli en frammistaða eða hæfni fólks, svo ekki sé talað um hagsmuni þess.

 

Já og við erum nýbúin að velja okkur forseta. Það kann okkur að þykja sjálfgefið. Þeim sem hér stendur hefur á stundum ofboðið hversu hatrömm orðræðan hefur verið. En þetta er hluti leiksins og

nú rennur vonandi upp tími uppbyggingar og heilunar.

 

Það er gæfa tilheyra umhverfi þar sem „við“ fáum að kjósa. Hugsunin sem býr þar að baki nær langt aftur í tímann. Við kynnumst henni í sögunni sem hér var lesin. Þar var lýst samfélagi þar sem fólk deildi með sér verðmætum. Í því fólst sú yfirlýsing að öll erum við eitt og höfum hvert um sig mikilvægt hlutverk í því samfélagi sem við tilheyrum óháð stétt okkar og stöðu.