Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér. En Drottinn svaraði henni: Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu, en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið. Lk 10.38-42
Er ekki viðeigandi eftir að hafa lesið guðspjallið um þær Mörtu og Maríu að minna ykkur kæru kirkjugestir á að kveikja á farsímanum aftur þegar messan er búin? Í alvöru – um leið og athöfnin er búin á eftir er eins gott að við gleymum því ekki að kveikja á þessu litla tæki sem er orðin slík nauðsyn að maður furðar sig á því hvernig mannkyninu reiddi af frá öndverðu fram til allra síðustu ára án þess að vera sítengt með þessum hætti. Má nú teljast lán ef ekki heyrist í einum og einum mitt í athöfnum sem þessum nú eða á fundum. Erill og árangur Slíkt þykir gjarnan til marks um það að við höfum fundið lífi okkar góðan farveg, allt sé eins og það á að vera í tilverunni: nóg að gera, allt á fullu – engin stund ónýtt eða óskipuð. Því fleiri verkefni sem eru í dagatalinu okkar, þeim mun betri þykjumst við í því sem við fáumst við hverju sinni, hvaða nafni sem það nú nefnist. Hver kannast ekki við að líta yfir þéttskrifaða dagskrána þar sem nánast þarf að hlaupa frá einum fundi til annars – og finna raunverulega fyrir þeirri tilfinningu að skipta máli og vera maður með mönnum. Eða þá að rífa ótætis símann upp úr vasanum á hálftíma fresti og taka við áríðandi símtölum. Hvað veitir betri vitnisburð um mikilvægi okkar og framlag? Skyldi nokkurn undra þótt farsíminn sé kominn í samhengi biblíusagnanna í auglýsingunni makalausu og látið í veðri vaka að sagan hefði verið með öðrum hætti ef friðþjófar þessir hefðu verð í hvers manns kyrtli á dögum Jesú. Heyr á endemi! Öndverðu boðskapur Já, það er viðeigandi að hugleiða þær hvunndagsvenjur sem fá sjaldnast tóm í huga okkar frekar að þær séu meðteknar án mikillar ihugunar. Og það eftir að hafa hlýtt á lesturinn af þeim Mörtu og Maríu. Hvað segir sá texti okkur? Hver eru skilaboðin? Er hann ekki í hróplegri mótsögn við helstu boðorð samtímans um að sá sinni verkefnum sínum best sem hefur þau flest á sinni könnu? Einhverjir kannast sjálfsagt við söguna af prestinum sem var á leið til kirkju og gekk framhjá fallegum skrúðgarði á leið sinni. Þar var garðyrkjumaður að störfum og um leið og klerkur kastaði á hann kveðju, hafði hann það á orði að sannarlega væri garðurinn fallegur í höndum hans og skaparans. „Ja, séra minn,“ sagði garðyrkjumaðurinn, „þú hefðir nú átt að sjá hann þegar skaparinn einn sá um hann.“ Þarna svaraði iðjusamur maðurinn vel fyrir þá skoðun sem Marta heldur á lofti í dæmisögu Krists: að við þurfum sannarlega að leggja okkar af mörkum til þess að allt fari nú ekki úr böndunum og í órækt. Og Kristur svarar því til að María sem sat hjá honum, hlustaði og ræddi, hefði valið góða hlutskiptið. Hún sem ekki var á þönum út um allt í tiltekt og þess háttar. Hvað er að velja góða hlutskiptið? getum við spurt. Hvað á hann við með þessum orðum? Góða hlutskiptið Það að velja góða hlutskiptið held ég að sé það að skynja sjálfan tilgang lífsins. Það er ekkert minna. Í hugum þeirra sem trúaðir eru og eiga sér sönn lífsgildi er lífið eins og ferðalag að ákveðnu marki. Og ef raunin er sú að lífið sé ferðalag þá skiptir það afskaplega miklu máli, eins og gefur að skilja, að gæta þess að stefnan sé rétt. Hér er því sannarlega ekki hvatt til þess að við þekjum stundarskrá okkar svo að þar sjáist vart í auðan blett. Heldur er þvert á móti hvatt til þess að við setjumst niður, staðnæmumst á veginum og horfum í kringum okkur til þess að athuga hvort við séum enn á réttri leið. En þetta er langsóttara en margan grunar. Hvernig er það annars með okkur sem alltof oft endum í hlutverki Mörtu í sögunni? Hversu oft lendum við í vandræðum með það hvorn tveggja valkosta við eigum að velja? Þótt lífið á tímum Krists hafi í flestu tilliti verið erfiðara en það er á okkar dögum getum við þó líklega slegið því föstu að á þessu sviði séum við nútímamenn ekki öfundsverðir. Kröfurnar sem að okkur beinast verða alltaf meiri og meiri og gildir einu þótt sífellt komi ný tæki og tól sem geri okkur baráttuna og strögglið auðveldara. Sífellt þurfum við að velja á milli ólíkra hlutverka í lífinu. Fjölskyldan, vinirnir, vinnan, skrokkurinn að ógleymdri nýjustu kröfu samtímans: að afla sér meiri og meiri menntunar, sækja námskeið fara í framhaldsnám og þar fram eftir götunum. Þetta er slítandi allt saman og freistingin er stór að sökkva sér inn í heim erlis og áreitis – gleyma sér í verkefnum líðandi stundar hvort heldur þau eru aðkallandi eða óþörf, hvort sem þau skipta miklu máli eða litlu. Þaggað niður í samviskunni Þegar svo er háttað er alltaf hætt við því að fólk villist af leið og missi áttirnar í lífinu. Við þurfum ekki að horfa lengi í kringum okkur til þess að skynja hversu hætt er við því að fólk berist á rangar brautir. Einmitt vegna þess að í öllum hávaðanum og erlinum er ekkert tóm til þess að hlusta á samviskuna í okkur. Það vill uppskera án þess að til hafi verið sáð og án þess að hlúð hafi verið að jarðveginum. Við látum stjórnast af áliti annarra og kennum jafnvel öðrum um okkar eigin ógæfu. Hetjurnar og fyrirmyndirnar eru oftar en ekki þeir sem mestu ráða, eiga mest og berast mest á í fjölmiðlum. Og þegar allt er komið í óefni er reynt að redda málunum á sem skemmstum tíma. Undralyf eiga að koma okkur aftur á beinu brautina, námskeið af ýmsum toga eiga að redda málunum og með smá ferðalögum og tækjakaupum má öðlast hamingjuna á nýjan leik. Hver kannast ekki við þessa lýsingu? Þetta er lýsing á tilveru sem er þjökuð af annríki. Ekki nauðsynlega vegna þess að verkefnin eru öll svo brýn eða að lífið liggi við því að ekki sé stöðugt hlaupið eftir hverju kalli – nei, erillinn og hávaðinn eru oftar en ekki tæki sem við notum til þess að forðast það að sitja og hlusta á samviskuna sem vill tala til okkar. „Það heyrist svo hátt í þér að heyri ekki hvað þú ert að segja“ sagði mætur maður eitt sinn við stressaðan viðmælanda sinn. Og þannig er það líka með okkur sjálf. Alltof oft erum við á harðahlaupum undan þeim skilaboðum sem beinast að okkur og vilja lýsa okkur leiðina að hinu rétta marki. Kom María meiru í verk? Þannig voru þær systur, Marta og María, fulltrúar ólíkra viðhorfa. Í raun þarf alls ekki að vera að þær hafi verið misdulegar eða komið mismiklu í verk. Í raun gæti allt eins verið að María sem sat og hlustaði hafi skilað af sér jafnmörgum vinnustundum og Marta sem var stöðugt á þönum. Vinnustundirnar hennar hafa hins vegar vafalítið verið markvissari ef orð Krists eru skilin rétt. Hún valdi góða hlutann. Hún valdi það að staðnæmast eins og endrum og leggja eyrun við þeim dýrmæta boðskap sem Kristur hafði að miðla. Þeir sem velja góða hlutann hugsa vandlega um stefnuna sem þeir taka í lífinu. Þeir leggja eyrun við samviskunni sem talar við þá en kæfa ekki rödd hennar með ærandi hávaða. Þeir hugsa um það hverju þeir miðla til umhverfis síns: Hvað má af þeim læra? Hvað koma þeir til með að skilja eftir sig? Hverju hafa þeir raunverulega breytt og fært til betri vegar? María valdi góða hlutann sagði Kristur. Hún valdi það að leggja eyrun við orðum hans og taka við þeim næringarríka boðskap sem hann miðlaði. Hún átti sér leiðarljós sem lýsti henni vegina – það sem við köllum gjarnan ljós lífsins. Og sá sem á það í hjarta sínu hann gengur aldrei í myrkri.