Ljósastaur og leiðin til Betlehem

Ljósastaur og leiðin til Betlehem

Aðventan er lífspróf. Ef þú hefur ekki tíma á jólaföstu fyrir það, sem mestu máli skiptir, hefur þú aldrei tíma fyrir lífið. Leiðin til Betlehem heitir aðventa.

Týndur farsími og leitin Við hornið á safnaðarheimili kirkjunnar við Fornhagann gekk strákur eftir gangstéttinni. Hann var í keng og skimaði í kringum sig. Vinur hans kom að honum og spurði hissa hvað hann væri eiginlega að gera? “Ég týndi farsímanum mínum og er að leita að honum,” sagði strákur. “Týndirðu honum hérna einhvers staðar?” spurði vinurinn og var greinilega til í að hjálpa við leitina. En sá gemsalausi svaraði: “Nei, nei, ég týndi honum líklega þarna inn á túninu hjá kirkjunni. En það er svo dimmt þar, að það er ekki hægt að finna neitt. Það miklu betra að leita hér í birtunni hjá ljósastaurunum!” Þetta er flökkusaga og gerir grín að því þegar fólk leitar á röngum stöðum. Sagan er til í ótal útgáfum og er eiginlega um okkur öll. Hefurðu ekki einhvern tíma leitað og uppgötvað svo síðar, að leitarstaðurinn var rangur? Álfum og jólasveinum var stundum kennt um! Við gerum öll tilraunir í leit okkar að hamingju. Við gerum líka öll einhver mistök.  

Jólamyndin í Háskólabíói Háskólabíó byrjaði í fyrradag að sýna jólamyndina, sem heitir Leiðin til Betlehem. Prestum og guðfræðingum var boðið að koma á forsýningu í vikunni og m.a. fengu fermingarbörnin í Neskirkju sérstakt boð. Sum þeirra voru með hugann við annað en myndina og voru kannski eins og strákurinn við staurinn, að leita að einhverju öðru en var bíóerindi þeirra.  

Leiðin til Betlehem er mynd um hin fyrstu jól og undirbúning þeirra. Linsunni er beint að Maríu og Jósep. Við fylgjumst með hvernig unga fólkið í Nasaret varð skotið rétt eins og unglingar í Hagaskóla, hvernig María gerði unglingauppreisn og hve félagslegar og pólitískar aðstæður geta verið skelfilegar og hvernig fólk er teygt til hins ýtrasta við að reyna að finna lausn á rosalegum aðstæðum.  

Biblíumyndir í röðum Biblíumyndir geta heppnast en líka auðveldlega misheppnast. Sumar eru átakanlega væmnar og einfeldningslegar. Aðrar detta út fyrir rönd hins sómasamlega. Mel Gibson-myndin, sem sýnd var fyrir tveimur árum, gerði út á blóð og ofbeldi. Myndin var svo rosaleg að Biblíumyndir þaðan í frá eru annað hvort fyrir eða eftir “Melskurð!”  

Fæðingu Jesú hefur eiginlega ekki verið gerð góð skil í kvikmynd síðan 1914. Þessi nýja mynd er sérstæð, mistæk í sumu og eins og aðstandendur hafi ekki alveg ákveðið hvort þetta væri kvennasaga, þroskasaga, vegamynd (road movie) eða biblíumynd af helgimyndataginu. Myndin hefði batnað við lengri vinnslutíma og aukna temaskerpu. En hún heppnast, að mínu viti, hvað tvennt varðar – og það var ekki fyrirséð. Annars vegar er hún eins og löng runa af biblíumyndum, sem við fengum í sunnudagaskóla bernskunnar. Við þekkjum margt úr helgisögunum. Við lékum svona helgileiki og börnin okkar líka.   

Þroskasaga Maríu og Jóseps En hinn þátturinn er íblendið. Óvænti þáttur blöndunnar er baráttu- og þroska-saga Maríu og Jóseps, sem nálgast hvort annað og kynnast á leiðinni til Betlehem. Við fáum innsýn líðan þeirra, félagsstöðu, kjör, samdrátt fólks og úrvinnslu fjölskyldu og einstaklinga í hinum hrikalegu aðstæðum einkalífs og pólitík samtíðar.  

Leiðin til Betlehem er mynd um fjölskyldu og er eiginlega mynd fyrir fjölskyldur, sem maður ætti bara sjá á jólunum, varla fyrr. Hún fjallar um lífsgildi. Feður geta t.d. speglað sig í fjórum mismunandi föðurímyndum og hlutverkum, sem myndin sýnir. Mæður geta skoðað ýmis hlutverk. Unglingar og börn geta skilið leik, þroskasögur og átök krakkanna. Allir geta farið inná við, hugsað um afstöðu sína og eðli trúartengsla.  

Jólasagan, fæðingarsaga Jesú, svífur gjarnan á einhverju glimmerskýi innan í okkar. Í kvikmyndinni sjáum við, þrátt fyrir helgimyndarammana, venjulegt fólk, sem reynir að lifa lífinu og takast á við aðstæður. Svo komast þau ekki hjá því að glíma við stærstu málin sem eru trú, Guð, tengsl Guðs við heiminn og hvernig hið trúarlega snertir fólk. Þar er þroskaferlið. Þau urðu fyrir áföllum, reyndu að skilja, misskildu og komust síðan á leið að nýju og náðu alla leið til Betlehem. Undrið varð, barnið kom í heiminn, vitringarnir komu og saga Jesú hófst, saga Vesturlanda breyttist, menningin var ofin með nýju móti. Við erum hluti þess vefnaðar. Sagan varðar okkur og við þurfum að vitja hennar reglulega. Hún er forsenda þess að við erum hér í dag. Notum jól til að halda á vit jóla!  

Ljósrík andlit og helgileikur Það var hrífandi, að sjá fermingarbörnin áðan mynda ljóshring um allan söfnuðinn í kirkjunni. Kertaljósin lýstu upp andlit þeirra og þau eru sjálf ljós í heiminum. Við vonumst til að þau lýsi í lífinu, verði ljós fyrir aðra og leyfi ljósi sínu að skína. Og við böðum þau líka með vonum og bænum, að þau megi ganga ljóssins megin í lífinu. Helgileikurinn þeirra er um ljósið, þetta guðlega sem er í öllu, var við upphaf heims, er í sögu mannkyns, kemur í barninu, sem lagt var í jötu í þorpi í hæðunum suður af Jerúsalem.  

Þjófar meðal okkar – í okkur? Íslensku jólasveinarnir eru merkilegir, fullkomin andstæða hinna erlendu kláusa. Sveinarnir gáfu ekkert, heldur stálu því, sem fólk þurfti að nota til að lifa. Fólk fyrri tíðar var engir kjánar og trúði ekki blint á ævintýri um jólasveina. Sögurnar voru sagðar til að kenna ákveðinn vísdóm, að við þurfum að passa okkur. Þetta voru táknsögur, kennslusögur, sem minna á, að sótt væri að dýrum, atvinnuvegi og heimilum fólks. Fólk þyrfti að gæta sín og gæða sinna. Þegar sveinarnir voru búnir að koma og stela mat frá mönnum og dýrum, hrella fólk og gera óskunda kom svo síðasti jólasveinninn. Hlutverk hans var að stela ljósinu úr húsinu. Við getum túlkað það sem svo, að það hafi verið hinsta tilraun til að hindra jólakomuna, stela jólunum. Ljósið kemur með jólunum, ljóslaus jól eru mistök, engin jól. Myrk jól eru merkingarleysa.  

Táknmál jólasveinanna gömlu er í fullu gildi þegar reynt er að narra okkur til að kaupa, spenna um of. Jólasveinarnir hafa gengið aftur í græðgi og eru mun svakalegri en þeir gömlu. Verst er ef þeir búa innan í okkur og meina okkur að undirbúa okkur fyrir komu jólanna. Hvar erum við að leita að hamingjunni? Erum við á réttu róli?  

Aðventa og lífsgangan Aðventan byrjar núna. Framundan er gangan til Betlehem. Við erum eins og María og Jósep á þeirri leið. Hvað ætlar þú að gera úr þeirri ferð? Hvernig viltu nota tímann framundan? Samfélagið allt hefur tilhneigingu til að æsast og tryllast á þessum tíma. Margir fyllast aðventukvíða, verða stressaðir í atinu, tapa sambandi og ljósi. Við ættum þvert á móti að slaka verulega á, setja fólk í forgang en ekki hluti, elsku en ekki æsing. Við ættum að setjast niður í stað þess að hlaupa í verslunarmusterin, íhuga í stað þess að kvíða, tala við hvert annað í stað þess að hamast í þögninni.  

Aðventan er ekki tími fyrir stress heldur kyrru. Aðventan er tákntími um líf þitt. Ef þú hefur ekki tíma fyrir það sem mestu máli skiptir á aðventunni hefur þú aldrei tíma fyrir lífið. Aðventutíminn er tími fyrir endurnýjun, svo ljósið slokkni ekki heldur fái að lifa vel. Er eitthvað sem rænir þig jólastemmingu, eitthvað sem þrúgar þig, eitthvað sem sækir að þér, eitthvað sem megnar að skyggja á lífsljósið þitt? Reyndu ekki að leita að lífshamingjunni undir ljósastaurum heldur í Guðsljósi jólanna. “Eigum við ekki frekar að reyna að leita þar sem þú týndir gemsanum? Ég skal hjálpa þér” sagði vinurinn. Svo fóru þeir að leita og þegar voru á leiðinni í áttina að altarisglugganum heyrðu þeir skyndilega hringingu í grasinu rétt hjá þeim. Síminn fundinn. Þetta var eins og hvert annað kraftaverk. Það var mamma, sem sagði við sinn dreng: “Ég var að baka köku. Má ekki bjóða þér – jú, jú þú mátt alveg bjóða vini þínum. En það er betra að flýta sér svo kakan kólni ekki.” 

Hugleiðing í ljósamessu í Neskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu, 3. desember 2006